Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 263. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 462  —  263. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um breytingar á skattbyrði árin 1995–2000.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver var heildarskattbyrði af sköttum til ríkisins á hverju áranna 1995–2000? Með skattbyrði er hér átt við skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Óskað er eftir að notaðar verði sömu skilgreiningar og OECD notar í skýrslum sínum (Revenue Statistics).
     2.      Hver var heildarskattbyrði að meðaltali í ríkjum OECD á sömu árum?

     3.      Hver var skattbyrði af tekjusköttum einstaklinga (almennum tekjuskatti, útsvari, sérstökum tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti) á sömu árum, þ.e. tekjur ríkis og sveitarfélaga af tekjusköttum á einstaklinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu?
     4.      Hver var skattbyrði af tekjusköttum lögaðila á sömu árum, þ.e. tekjur ríkisins af tekjusköttum lögaðila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu?
     5.      Hver var skattbyrði af tekjusköttum einstaklinga annars vegar og lögaðila hins vegar að meðaltali í ríkjum OECD á sömu árum?


    Samanburður milli landa.
    Samanburður milli landa er ekki einhlítur. Jafnvel þótt stuðst sé við almennt viðurkenndar skilgreiningar alþjóðastofnana eins og OECD er nauðsynlegt að hafa í huga ýmis atriði sem geta tengst mismunandi atvinnuuppbyggingu og þjóðfélagsþáttum í viðkomandi löndum. Það þarf að taka slíkum samanburði með vissum fyrirvörum.
    Þetta gildir meðal annars um skattalegan samanburð þar sem skattkerfi landa geta verið mjög ólík að uppbyggingu og samsetningu. Sem dæmi má nefna að neysluskattar vega mun þyngra í skatttekjum hér á landi en víða annars staðar. Skattlagning á tekjur og laun, jafnt tekjuskattar sem tryggingagjöld sem lögð eru á laun og greiðast í flestum löndum nema Íslandi bæði af launafólki og atvinnurekendum, er hins vegar lægri hér á landi. Loks er rétt að hafa í huga að samanburður sem miðast við hlutfall af landsframleiðslu er þeim annmörkum háður að hann tekur ekki tillit til mismunandi efnahagsástands viðkomandi ríkja, þ.e. að eitt ríki kunni að vera á toppi hagsveiflunnar og annað í botni á samanburðarárinu. Þess vegna er eðlilegra að gera slíkan samanburð með því að horfa til fleiri ára í senn.
    Hér á eftir er í hverju tilviki fyrir sig vakin athygli á þeim atriðum sem sérstök ástæða er til að hafa í huga við alþjóðlegan samanburð. Jafnframt er til hægðarauka fjallað um fleiri en einn lið fyrirspurnarinnar í einu þegar það á við. Helsta heimild þessara talna er skýrsla OECD: Revenue Statistics sem út kom í október 2002. Annarra heimilda er getið sérstaklega.

    Heildarskatttekjur.
    Hið opinbera er hér skilgreint sem ríki og sveitarfélög. Skipting skatttekna milli þessara tveggja aðila er þannig að um þrír fjórðu hlutar skatttekna hins opinbera renna til ríkisins, en afgangurinn til sveitarfélaga. Síðustu árin hefur hlutur ríkisins nokkuð minnkað sem fyrst og fremst má rekja til tilfærslu verkefna og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga. Í eftirfarandi töflum sést hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu; annars vegar fyrir hið opinbera og hins vegar fyrir ríkið eingöngu. Tölur fyrir árið 2001 eru endanlegar hvað ríkið varðar. Hlutfallstölur geta þó breyst við endurskoðun Hagstofu á þjóðhagsreikningatölum, þ.m.t. á landsframleiðslu.

Heildarskatttekjur hins opinbera á Íslandi, % af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 Bráðab.
31,5 32,7 32,6 34,4 36,9 37,3 34,8

Heildarskatttekjur íslenska ríkisins, % af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 Bráðab.
25,3 26,5 25,2 26,8 28,8 29,4 27,4
Heimild: Ríkisreikningur. Hagstofa Íslands.

Heildarskatttekjur hins opinbera í ríkjum OECD,


% af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000
36,1 36,5 36,7 36,8 37,1 37,4
    
     Tekjuskattar.
    Tekjuskattar til ríkisins eru skilgreindir sem almennur og sérstakur tekjuskattur auk þess sem fjármagnstekjuskattur bætist við, að hluta árið 1997 en að fullu árið 1998. Áður en til greiðslu tekjuskatta til ríkisins kemur eru persónuafsláttur og aðrir afsláttarliðir dregnir frá útreiknuðum skatti. Þetta veldur því að hlutfall tekjuskatta af tekjum einstaklinga sem greitt er í ríkissjóð er miklu lægra en skatthlutfallið eitt og sér gefur til kynna. Öðru máli gegnir um útsvar þar sem sveitarfélög fá það að fullu greitt, óháð því hvort viðkomandi einstaklingur er undir skattleysismörkum eða ekki, þ.e. hvort sem hann greiðir útsvar eða ekki, þar sem ríkið greiðir sveitarfélögunum mismuninn.
    Við samanburð tekjuskatta milli landa þarf að hafa eftirfarandi í huga: Tekjuskattar einstaklinga gefa ekki rétta mynd af skattlagningu launa einstaklinga. Nauðsynlegt er að horfa jafnframt til annarra launatengdra gjalda, einkum tryggingagjalda sem víða erlendis ganga til greiðslu elli- og örorkubóta, greiðslu úr lífeyrissjóðum o.fl. Hér á landi greiðir launafólk almennt ekki tryggingagjöld af þessu tagi, utan iðgjalda til eigin lífeyrissjóða. Hlutur tryggingagjalda sem launafólk greiðir nemur að meðaltali 3% af landsframleiðslu í OECD- ríkjunum árið 2000. Til samanburðar má nefna að iðgjöld launafólks eru á sama tíma áætluð um 2% af landsframleiðslu hér á landi.

Tekjuskattar og útsvar einstaklinga hér á landi, % af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 Bráðab.
9,8 10,4 10,5 12,1 12,9 12,8 12,8
    

Tekjuskattar einstaklinga í ríkjum OECD, % af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000
10,0 10,1 10,1 10,1 10,1 10,0
    
    Varðandi samanburð á tekjuskatti fyrirtækja hér á landi og í öðrum OECD-ríkjum er rétt að nefna eftirfarandi atriði, sbr. umfjöllun í skýrslu OECD um íslensk efnahagsmál, útg. í maí 2001: Þar er í fyrsta lagi nefnt til sögunnar að afkoma fyrirtækja á Íslandi hafi í gegnum tíðina verið lakari en í OECD-ríkjunum. Síðustu árin megi m.a. rekja þetta til hárra raunvaxta o.fl. Í öðru lagi er tiltekið að allt fram á síðustu ár hafi veigamikill hluti atvinnulífsins verið í ríkisrekstri og hafi þar af leiðandi ekki greitt hefðbundna tekjuskatta heldur arð til ríkisins. Í þriðja lagi er bent á að einstaklingsrekstur vegi hlutfallslega þungt hér á landi en hann gengur inn í almenna tekjuskattlagningu einstaklinga, ekki fyrirtækja.

Tekjuskattar lögaðila hér á landi, % af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 Bráðab.
1,0 0,9 0,9 1,2 1,5 1,2 1,2

Tekjuskattar lögaðila í ríkjum OECD,


% af vergri landsframleiðslu.


1995 1996 1997 1998 1999 2000
2,9 3,0 3,2 3,3 3,3 3,6