Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 426. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 736  —  426. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti og Svein Magnússon frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 58/2002 frá 31. maí 2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.
    Tilskipun nr. 2000/34/EB breytir tilskipun nr. 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma en breytingin felst aðallega í því að læknar í starfsnámi, þeir sem starfa við flutninga á vegum ásamt þeim sem vinna á sjó og í flugi munu falla undir gildissvið vinnutímatilskipunarinnar en þó er gert ráð fyrir ákveðnum undanþágureglum fyrir þessa hópa. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en frestur til að gera nauðsynlegar breytingar á lögum er til 1. ágúst 2003 en til 1. ágúst 2004 að því er varðar lækna í starfsnámi. Á fundi nefndarinnar kom m.a. fram hjá fulltrúa félagsmálaráðuneytis að á málefnasviði ráðuneytisins þyrfti að breyta lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og að reiknað væri með að frumvarp þess efnis yrði lagt fram eftir áramót. Þá kom fram að á málefnasviði samgönguráðuneytis hefði frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum um vinnutíma sjómanna þegar verið lagt fram (þskj. 451, 390. mál).
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. des. 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.