Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 843  —  433. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um rétt þolenda kynferðisbrota.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða möguleika hafa þolendur kynferðisbrota til endurupptöku máls þegar fyrir liggur dómur Hæstaréttar um að rannsókn máls í héraði sé áfátt og dómurinn hefur sýknað meintan brotamann á þeirri forsendu?
    Eiga slíkir þolendur kost á því að fá fram nálgunarbann ef þeir sæta enn ýmiss konar áreitni hins meinta brotamanns?


    Í XXII. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er fjallað um endurupptöku dæmdra mála, hvort sem er um héraðsdóm eða hæstaréttardóm að ræða, og þar eru talin upp skilyrði endurupptöku. Þeir sem krafist geta endurupptöku eru annars vegar dómfelldi og hins vegar ríkissaksóknari.
    Ákvæði 184. gr. laganna tilgreina eftirfarandi skilyrði þess að taka skuli upp mál á ný að kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, þ.e.:
     a.      ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hafi skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk,
     b.      ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hafi verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn.
    Ákvæði 185. gr. laganna tilgreina eftirfarandi skilyrði þess að ríkissaksóknari geti krafist endurupptöku máls:
     a.      ef ákærði hefur síðan dómur gekk játað að hafa framið það brot sem hann var borinn eða önnur gögn hafa komið fram sem benda ótvírætt til sektar hans,
     b.      ef ætla má að falsgögn eða athæfi það sem lýst er í b-lið 184. gr. hafi valdið dómsniðurstöðu að nokkru leyti eða öllu.
    Þá er ríkissaksóknara rétt að óska eftir endurupptöku máls til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur að svo standi á sem í 2. mgr. 184. gr. laganna segir.
    Nefna má aðra endurupptökuheimild í 126. gr. laga nr. 19/1991, þegar ákærði getur krafist endurupptöku máls sem dæmt er að honum fjarstöddum þegar svokallað útivistarfyrirkall hefur verið gefið út. Slík endurupptökuheimild á þó ekki við varðandi fyrirspurn þessa.
    Eins og áður greinir eru skilyrði um endurupptöku máls, hvort sem um héraðsdóm eða hæstaréttardóm er að ræða, talin upp í XXII. kafla laga um meðferð opinberra mála. Það eru því ekki aðrir en þar greinir, sem geta krafist endurupptöku máls og eingöngu í þeim tilvikum sem þar getur. Brotaþoli, hvort sem um er að ræða brotaþola kynferðisbrots eða annarra brota, getur ekki krafist endurupptöku, enda er brotaþoli ekki aðili máls.
    Spurt er um endurupptöku mála þegar fyrir liggur dómur Hæstaréttar um sýknu á grundvelli þess að rannsókn máls í héraði sé áfátt. Ekki kemur fram hvað átt sé við með rannsókn máls í héraði. Verður að telja að átt sé við lögreglurannsókn, þar sem eiginleg rannsókn mála fyrir héraðsdómstólum fer ekki fram. Þar fer þó fram skýrslutaka fyrir dómi af ákærða og vitnum málsins í samræmi við regluna um beina og milliliðalausa málsmeðferð fyrir dómi. Þetta er tekið fram þar sem orðasambandið í héraði er almennt notað um meðferð mála fyrir héraðsdómstólum.
    Rétt þykir að vekja athygli á reglum um frávísun máls og ómerkingu dóms. Í 156. gr. laga nr. 19/1991 segir að Hæstiréttur geti kveðið upp dóm um frávísun máls frá Hæstarétti vegna galla á málatilbúnaði þar fyrir dómi án þess að málflutningur fari þar fram. Einnig geti Hæstiréttur ómerkt héraðsdóm ef verulegir gallar hafa verið á meðferð máls í héraði og vísað máli frá héraðsdómi ef undirbúningi undir málshöfðun hefur verið áfátt í meginatriðum. Einnig segir í 156. gr. laganna að ef málatilbúnaði er áfátt, án þess þó að nauðsynlegt þyki að vísa máli frá eða ómerkja héraðsdóm, geti Hæstiréttur lagt fyrir aðila að afla gagna um tiltekin atriði eða grípa til annarra aðgerða til að ráða bót þar á. Verður að telja, án þess að tölulegar upplýsingar liggi fyrir, að yfirleitt sé þessum úrræðum beitt, fremur en að Hæstiréttur sýkni ákærða eingöngu á grundvelli þess að rannsókn máls hafi verið áfátt.
    Um nálgunarbann gilda ákvæði XIII. kafla A í lögum um meðferð opinberra mála. Með nálgunarbanni er átt við að lagt er bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann. Skilyrði nálgunarbanns skv. 110. gr. a. laganna eru að rökstudd ástæða sé til að ætla að sá sem krafa um nálgunarbann beinist gegn muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á. Í lögunum kemur enn fremur fram að það er lögreglan sem gerir kröfu fyrir dómi um nálgunarbann. Aðrir geta ekki krafist nálgunarbanns, hvorki brotaþolar né aðrir. Þeir sem telja sig verða fyrir þess konar brotum að nálgunarbann geti átt við, eða ónæði eða áreitni, geta farið fram á það við lögreglu að krafist verði nálgunarbanns. Á það við um þolendur kynferðisbrota sem annarra brota. Það er þó lögreglan sem að lokinni rannsókn tekur ákvörðun um hvort við slíkri beiðni verði orðið eða ekki. Strangar kröfur eru gerðar til nálgunarbanns og lögreglan þarf eins og áður greinir, að rökstyðja fyrir dómi að „rökstudd ástæða“ sé til að ætla að sá sem krafa um nálgunarbann beinist gegn „muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á“.
    Spurt er hvort hægt sé að fá nálgunarbann ef þolendur kynferðisbrota sæta enn ýmis konar áreitni hins meinta brotamanns. Ekki kemur fram í fyrirspurninni hvers konar áreitni sé átt við sem enn standi yfir. Ef um kynferðislega áreitni er að ræða og ákært hafi verið fyrir slíkt brot en ákærði sýknaður, er slíkt brot, sem talið er standa enn yfir, yfirleitt rannsakað sem kynferðisbrot. Meta yrði í hverju tilviki hvort málsatvik eru þannig að rannsókn fari fram og einnig yrði að meta í hverju tilviki hvort rétt sé að krefjast nálgunarbanns.