Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1001  —  542. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hafa verið gerðir starfslokasamningar við fyrrverandi forstjóra Byggðastofnunar? Ef svo er, hvað fólst í þeim samningum, sundurliðað í fjárhæðir og önnur hlunnindi?

    Gerður var starfslokasamningur við forstjóra Byggðastofnunar í júní 2002. Forstjórinn var skipaður til fimm ára frá ársbyrjun 2001 til loka árs 2005. Vegna sérstakra ástæðna var talið óhjákvæmilegt að semja um starfslok. Var það gert með undirritun samnings 13. júní 2002 þegar 3,5 ár voru eftir af skipunartíma forstjórans. Forstjórinn heldur fullum launum, samkvæmt ákvörðun kjaranefndar, til 30. júní 2004 eða í tvö ár frá því að starfsskyldum hans lauk hjá Byggðastofnun. Um var að ræða þáverandi heildarlaun metin til 650.000 kr. á mánuði. Einnig fékk forstjórinn greiddar 1.000.000 kr. til að bæta honum hluta af þeim kostnaði og röskun sem hann hafði af því að hafa flust búferlum frá Danmörku til Íslands til að taka við starfi forstjóra Byggðastofnunar ásamt því að lögmannskostnaður hans vegna starfslokanna var greiddur. Afnot af ferðatölvu og farsíma í eigu stofnunarinnar fékk forstjórinn til loka júní 2004 þó þannig að hann ber allan kostnað af notkun frá lausnardegi. Bifreið, sem stofnunin hafði lagt honum til, hafði hann svo til afnota frá lausnardegi til loka ágúst 2002 eða í um tvo mánuði.
    Einnig var gerður starfslokasamningur við annan forstjóra Byggðastofnunar í september 2000. Samningurinn fól í sér að viðkomandi héldi fullum launum og hlunnindum í eitt ár frá því að hann lét af störfum í árslok 2000. Launin námu um 590.000 kr. á mánuði en auk þess var 13. mánuðurinn greiddur. Þá hafði hann afnot af bifreið til loka árs 2001. Á móti kom að fyrrverandi forstjóri starfaði að ýmsum verkefnum fyrir Byggðastofnun, m.a. vegna flutnings og yfirfærslu starfsemi Byggðastofnunar frá Reykjavík til Sauðárkróks. Í starfslokasamningnum eru einnig ákvæði um ákveðna tilfærslu á lífeyrisréttindum. Um var að ræða að 40% af útreiknuðum eftirlaunaréttindum eftir 65 ára aldur færu í viðurkenndan séreignalífeyrissjóð. Á móti lækkuðu samningsbundin eftirlaun um 40% frá 65 ára aldri.