Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1030  —  509. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti, Garðar Ingvarsson frá markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, Jón Sveinsson hrl., Guðmund Bjarnason frá Fjarðabyggð, Þorvald Jóhannsson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Sigfús Jónsson frá Nýsi hf., Helga Jensson frá Umhverfisstofnun, Gunnar Guðna Tómasson frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., Gunnar Jónsson hrl., Axel Val Birgisson frá Hönnun og Friðrik Sophusson, Agnar Olsen, Bjarna Bjarnason og Stefán Pétursson frá Landsvirkjun.
    Leitað var álits efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um þá þætti frumvarpsins er lúta að skatta- og efnahagsmálum og vísast um það efni til álits 2. minni hluta nefndarinnar, Ögmundar Jónassonar, sem birt er sem fylgiskjal með áliti meiri hluta iðnaðarnefndar. Þá var leitað til umhverfisnefndar varðandi umhverfisþætti málsins og vísast um það efni til álits 2. minni hluta umhverfisnefndar, Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem birt er sem fylgiskjal með áliti meiri hluta iðnaðarnefndar . Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Fjarðabyggð, fjármálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Byggðarannsóknastofnun Íslands, Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen hf., Byggðastofnun, Landvernd og Alcan á Íslandi hf.
    Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra heimilað að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf. og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi og til að framleiða allt að 322.000 tonn af áli árlega í verksmiðju við Reyðarfjörð.
    Annar minni hluti iðnaðarnefndar er andvígur áformum um byggingu álvers við Reyðarfjörð. Á grundvelli stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telur 2. minni hluti að stuðla eigi að annars konar uppbyggingu atvinnulífsins í landinu með aukna fjölbreytni og nýtingu umhverfisvænnar tækni að leiðarljósi. Koma verður í veg fyrir óhæfilega gróðasöfnun í skjóli einokunar- eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir við sjávarsíðuna og í sveitum landsins þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti.
    Forsenda þess að hægt sé að ganga til samninga um byggingu álvers við Reyðarfjörð er bygging Kárahnjúkavirkjunar sem mun leiða af sér gríðarleg óafturkræf náttúruspjöll á landsvæðinu norðan Vatnajökuls og í Fljótsdal. Hugsanlegur efnahagslegur ávinningur réttlætir ekki þau hrikalegu náttúruspjöll sem auk þess mundu eyðileggja möguleikana á nýtingu þessa landsvæðis undir þjóðgarð á heimsmælikvarða. Undirbúningsvinnu varðandi nýtingu vatnsafls og jarðvarma er ekki enn lokið og er að mati 2. minni hluta forkastanlegt að fara út í svo gríðarlegar framkvæmdir án þess að heildarstefna til langs tíma hafi verið mótuð.
    Mengun er umtalsverð frá verksmiðju af því tagi sem ætlunin er að leyfa samkvæmt frumvarpi þessu og mun hún hafa umtalsverð áhrif á gæði lofts, lands og sjávar í umhverfi verksmiðjunnar. 2. minni hluti gagnrýnir að ekki skyldi krafist nýs umhverfismats á verksmiðjunni þar sem augljóst er að hér er að mörgu leyti um að ræða aðra framkvæmd en metin var þegar Norsk Hydro var inni í dæminu. Um þetta efni vísast til greinar eftir Berg Sigurðsson umhverfisefnafræðing sem birt er sem fylgiskjal með álitinu.
    Þá er til þess að líta að gangi áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu stóriðju í landinu eftir mun það leiða til þess að um 80% af rafmagnsframleiðslu landsins verða notuð í þessa einu atvinnugrein. Í ljósi þess að samningar um rafmagnssölu eru bundnir við heimsmarkaðsverð á áli er hér um gríðarlega áhættu að ræða fyrir Landsvirkjun, og má lítið út af bera til þess að heimilin í landinu og hinn almenni iðnaður landsmanna hljóti skaða af í hækkuðu orkuverði. Án stórvirkjana- og stóriðjuframkvæmda gæti Landsvirkjun orðið skuldlítið fyrirtæki á næstu 15 árum sem gæti skapað fyrirtækinu möguleika á að stórlækka orkuverð til heimilanna og til iðnaðar í landinu. Þar með yrðu efldir möguleikar til atvinnuuppbyggingar og sóknar á grunni hugsunar um fjölbreytileika í atvinnulífinu.
    Annar minni hluti telur að rökstuðningur meiri hlutans fyrir því að hér sé um stórkostlega byggðaaðgerð að ræða sé mjög tvíbentur. Stórframkvæmd af því tagi sem hér er áformuð leiðir af sér styrkingu á gengi íslensku krónunnar og tímabundna vaxtahækkun til þess að sporna við þenslu í efnahagskerfinu. Slíkt ástand leiðir til ruðningsáhrifa annars staðar í landinu með stórkostlegum erfiðleikum, sérstaklega í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Þær væntingar sem nú þegar eru bundnar við verkefnið hafa orðið til þess að styrkja gengi krónunnar og áhrifanna er þegar farið að gæta. Þetta mun í fyrstu koma harðast niður á smærri sjávarútvegsfyrirtækjum sem sum hver munu ekki standast það efnahagslega umhverfi sem er að skapast. Ruðningsáhrifin munu þannig leiða til fækkunar fyrirtækja og starfa, sérstaklega á landsbyggðinni.
    Annar minni hluti bendir einnig á að væntingar varðandi áhrif framkvæmdanna á Mið- Austurlandi til lengri tíma litið eru að öllum líkindum stórlega ofmetnar. Í áliti meiri hlutans kemur fram að um 500 störf muni skapast fyrir austan auk afleiddra starfa. Sigfús Jónsson hjá Nýsi lýsti því yfir á fundi iðnaðarnefndar að vænta mætti þess að aðeins væri hægt að manna um 200 störf með heimamönnum, aðra starfsmenn þyrfti að sækja til annarra staða á landinu. Aðkomnir starfsmenn munu ekki endilega setjast að á Austurlandi eins og reynslan sýnir annars staðar.
    Með vísan til framangreinds leggur 2. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:

    Í ljósi þess að bygging Kárahnjúkavirkjunar, sem er forsenda samninga um byggingu álvers við Reyðarfjörð, mun leiða af sér gríðarleg óafturkræf náttúruspjöll og að mengun af álverinu yrði umtalsverð, og í ljósi áhættunnar fyrir Landsvirkjun og þar með landsmenn, ruðningsáhrifa af framkvæmdunum og of mikilla væntinga til þeirra, leggur 2. minni hluti til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 25. febr. 2003.



Árni Steinar Jóhannsson.





Fylgiskjal.

Bergur Sigurðsson,
umhverfisefnafræðingur:


ALCOA – Stórir strompar og 6.000 tonn af brennisteinssýru.


    Miklar umræður hafa farið fram um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Austurlandi. Íslendingum er landið kært og deilur hafa verið uppi um hvort Kárahnjúkavirkun sé réttlætanleg. Bæði hefur verið deilt um efnahagslegan ávinning og umhverfislegan fórnarkostnað. Svo umdeild eru virkjunaráformin að það er engu líkara en menn hafi gleymt því að einnig stendur til að byggja eitt af stærri álverum í Evrópu með tilheyrandi mengun.
    Flestir halda eflaust að umhverfisyfirvöld reyni að tryggja það að fyrirtæki haldi mengun sinni í lágmarki. Því miður er það ekki algilt. Hollustuvernd ríkisins lagði til að Hydro fengi hærri losunarheimild en greint var frá í mati á umhverfisáhrifum. Menn geta spurt sig hvort slíkt samræmist markmiði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sem er „að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi“. Einnig má velta því fyrir sér hvort einu af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum, „að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar“, verði náð þegar leyfisveitendur taka ekki mið af því sem fram kemur í matsskýrslum.

Forsagan.
    Í fyrstu stóð til að Norsk Hydro mundi byggja 420.000 tonna álver í tveim áföngum. Þegar umhverfismat Hydro var langt á veg komið ákváðu menn að bæta við rafskautaverksmiðju. Rafskautaverksmiðjan kom frekar seint inn í myndina og var umfjöllun um hana í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum ábótavant. Eins og fram kom á bls. 111 í úrskurði Skipulagsstofnunar:
    „Skipulagsstofnun telur hins vegar að umfjöllun um rafskautaverksmiðju og áhrif hennar í matsskýrslu Reyðaráls hf. hefði mátt vera ítarlegri …“
    Þrátt fyrir hæpna umfjöllun Reyðaráls um rafskautaverksmiðju var fallist á byggingu hennar. En það varð þó til þess að úrskurðurinn var skilyrtur þannig:
    „Ekki verði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst.“
    Þess má geta að rafskautaverksmiðja Hydro hefði verið sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Rafskautaverksmiðjan hefði valdið mun meiri loftmengun en sjálft álverið eða eins og sagði á bls. 111 í úrskurði Skipulagsstofnunar:
    „Athugun Skipulagsstofnunar hefur leitt í ljós að starfsemi rafskautaverksmiðju muni valda allt að fjórum sinnum meiri útblæstri brennisteinsdíoxíðs og tæplega 100 sinnum meiri útblæstri PAH-efna en starfsemi álvers ein og sér.“
    Þegar fram kom að Alcoa mundi ekki byggja rafskautaverksmiðju glöddust margir enda fyrirsjáanlegt að verulega mundi draga úr loftmengun. En þegar starfsleyfistillögur Hollustuverndar ríkisins fyrir álver Alcoa lágu fyrir gátu hinir sömu hætt að gleðjast. Menn, sem höfðu gert sér vonir um að með minna álveri og án rafskautaverksmiðju mundu loftgæði batna til muna, höfðu rangt fyrir sér.

Minna álver – sambærileg skerðing loftgæða.
    Í samanburðarskýrslu Alcoa, þar sem álver þeirra var borið saman við álver Hydro, var í raun lítið fjallað um mengunarvarnir. Rauði þráðurinn í umfjöllun um loftmengun var á þessa leið: Við lofum að menga ekki meira en búið var að samþykkja að Hydro mætti menga. Á grundvelli þessa loforðs ákvað Skipulagsstofnun að ekki þyrfti að fara fram sérstakt mat á umhverfisáhrifum fyrir álverið. Skipulagsstofnun var búin að úrskurða að álver Hydro mundi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þar með getur Alcoa samkvæmt loforði sínu ekki heldur valdið umtalsverðum umhverfisáhrifum.
    Vonbrigðin felast í því að samkvæmt starfsleyfistillögum Hollustuverndar ríkisins mun fjórðungi minna álver og fráfall rafskautaverksmiðju ekki hafa í för með sér verulega bætt loftgæði, eins og ætla mætti. Komið verður í veg fyrir slíkan munað með minni hreinsun á útblæstri. Útlit er fyrir að Alcoa muni blása út 4 sinnum meira af SO 2 en ráðgert var að Hydro mundi gera. Til þess að þau tæplega 6 þúsund tonn af brennisteinssýru (3.900 tonn af SO 2) sem Alcoa mun færa Austfirðingum skerði loftgæði ekki meira en góðu hófi gegnir er áætlað að reisa tvo 78 metra háa skorsteina. Í Noregi og Svíþjóð er álverum ekki heimilað að nota „Alcoa lausnir“ þar sem ár þeirra og vötn eru viðkvæm fyrir súru regni. Þar þurfa menn að nota vothreinsibúnað til þess að tryggja góð loftgæði og koma í veg fyrir súrt regn. Hér á landi virðast stórir strompar fullnægja kröfum umhverfisyfirvalda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Á myndinni sést að samkvæmt tillögu Hollustuverndar ríkisins átti starfsleyfi fyrir Hydro að heimila 17% meiri losun á SO 2 en gefið var upp í matsskýrslu. Leyfileg losun á SO 2 fyrir álver Alcoa verður fjórum sinnum meiri en leyfileg losun frá Hydro-álverinu átti að vera. Þessari aukningu verður mætt með 78 metra háum strompum.
    Í tillögu Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir Hydro álverið var lagt til að fyrirtækinu yrði heimilt að losa 966 tonn af SO 2. Í matsskýrslu var talað um losun á 828 tonnum. Hvorki voru færð rök fyrir þessum liðlegheitum stofnunarinnar í tillögunni né heldur í greinargerð sem henni fylgdi. Þar sem álver Alcoa fór ekki í mat á umhverfisáhrifum eru upplýsingar um tæknilega getu þess til mengunarvarna ekki jafnaðgengilegar almenningi og æskilegt væri. Af þessum sökum verður því ekki svarað hér hvort Alcoa þurfi að gera sitt besta til þess að fara ekki yfir sett losunarmörk eða hvort þeim hafi verið veitt sambærilegt svigrúm og lagt var til fyrir Hydro álverið á sínum tíma.

Ekkert er svo með öllu illt …
    Það er ekki svo að yfirtaka Alcoa boði bara slæmar fréttir. Rétt er að benda á að þar sem Alcoa mun ekki byggja rafskautaverksmiðju losna Reyðfirðingar við u.þ.b. 2 tonn af PAH- efnum (tjöruefni) sem Hydro hugðist blása út í loftið. Ársframleiðsla Alcoa-álversins verður um fjórðungi minni en framleiðsla áður fyrirhugaðs álvers og dregur úr útblæstri koldíoxíðs sem því nemur. Þá mun Alcoa ekki urða kerbrot við álverið heldur flytja þau til endurvinnslu erlendis. Þennan möguleika ættu hin álverin í landinu að kanna í stað þess að urða úrgang sinn í flæðigryfjum eins og gert hefur verið til þessa.
    Á heimasíðu sinni telur Alcoa sér til tekna að án vothreinsibúnaðar verði engin fráveita til sjávar. Um hvort þetta sé jákvætt eða neikvætt má þó deila. Brennisteinssýra getur ekki mengað sjóinn frekar en súrefni getur mengað andrúmsloftið. Því væri mun skárri kostur að veita 6.000 tonnum af brennisteinssýru í sjóinn en að blása henni út í loftið. Ætla má að með uppsetningu vothreinsivirkis mundu tæplega 20 kg af PAH-efnum fara til sjávar með hreinsivatninu. Afar ólíklegt er að slíkt mundi valda umtalsverðri mengun enda stóð til að Hydro mundi veita 25 kg af PAH-i í sjóinn. Slíkt var ekki talið hafa í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“, sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar.