Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 235. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1275  —  235. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um útselda hjúkrunarþjónustu.

     1.      Hver er ástæða þess að heilbrigðisstofnanir á föstum fjárlögum kaupa útselda hjúkrunarþjónustu?
     2.      Hvaða heilbrigðisstofnanir kaupa eða hafa keypt útselda hjúkrunarþjónustu og af hverjum hefur sú þjónusta verið keypt, sundurgreint eftir stofnunum og sviðum eða deildum?
     3.      Hver var kostnaður hvers sviðs eða deildar við aðkeypta hjúkrunarþjónustu á síðasta ári, sundurgreint eftir útseldum tímum hvers mánaðar?
     4.      Hvernig er staðið að kaupum á útseldri hjúkrunarþjónustu og hvernig kemur þjónustan út rekstrarlega og faglega í samanburði við þjónustu fastráðinna hjúkrunarfræðinga?
     5.      Hefur verið kannað hvort þetta fyrirkomulag hafi haft áhrif á nýráðningar eða starfshlutfall þeirra hjúkrunarfræðinga sem fyrir eru í starfi?
     6.      Hve margir hjúkrunarfræðingar eru á samningi við Tryggingastofnun ríkisins og á hvaða sviðum vinna þeir?
     7.      Er áformað að fjölga sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingum
                  a.      á heilbrigðisstofnunum,
                  b.      utan heilbrigðisstofnana?


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið leitaði svara við framangreindum spurningum þingmannsins og sendi þær viðkomandi stofnunum auk þess að leita upplýsinga hjá fyrirtækjum sem selja hjúkrunarþjónustu. Tafsamt var að ná saman þessum upplýsingum og þegar svör bárust kom í ljós misræmi milli upplýsinga sem heilbrigðisstofnanirnar og fyrirtækin veittu. Einnig reyndust stofnanirnar ýmist taka fyrirspurninni svo að óskað væri upplýsinga um kostnað vegna útseldrar þjónustu á árinu 2002 eða árinu 2001. Innan tímaramma fyrirspurnarinnar reyndist ekki unnt að senda út bréf á ný til að afla nákvæmari upplýsinga. Af framangreindum ástæðum er ekki unnt að veita sundurliðaðar upplýsingar um kostnaðarskiptingu eins og óskað var eftir. Þær upplýsingar um kostnað sem hér koma fram veita þó ákveðna vísbendingu um umfang þessarar þjónustu.

Útseld hjúkrunarþjónusta.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust ráðuneytinu hafa eftirtaldar heilbrigðisstofnanir á föstum fjárlögum keypt útselda hjúkrunarþjónustu:
    Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Droplaugarstaðir – hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Reykjavík.
    Sunnuhlíð – hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi.
    Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi.
    St. Franciskusspítali í Stykkishólmi.
    Heilsugæslustöðvarnar í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði hafa með sér samkomulag um sameiginlega kvöldþjónustu í heimahjúkrun.
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Þau fyrirtæki sem framantaldar stofnanir hafa keypt af hjúkrunarþjónustu eru Alhjúkrun ehf., Liðsinni ehf., Hjúkrun og heilsa ehf. og Lampinn ehf.
    Helstu ástæður sem forsvarsmenn framangreindra stofnana tilgreina fyrir kaupum á útseldri þjónustu eru þessar:
    Í fyrsta lagi skortur á hjúkrunarfræðingum. Ýmist getur verið um að ræða viðvarandi skort á hjúkrunarfræðingum og mönnunarvanda vegna þess eða tímabundinn skort á hjúkrunarfræðingum vegna fría eða veikinda.
    Í öðru lagi tímabundið aukið álag á deildum. Tímabundið álag getur stafað af lengri fjarvistum starfsfólks eða verið vegna ófyrirséðra álagstoppa. Með kaupum á útseldri þjónustu er unnt að brúa tímabil þegar álag er óvenjumikið í stað þess að manna deildir ávallt miðað við hámarksálag.
    Í þriðja lagi sérstök verkefni. Hér má nefna þegar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fól Landspítala – háskólasjúkrahúsi að taka að sér tímabundinn rekstur hjúkrunardeildar fyrir aldraða meðan beðið var eftir opnun Sóltúnsheimilisins í Reykjavík. Sjúkrahúsið samdi þá við tvo hjúkrunarfræðinga um rekstur tuttugu og tveggja rúma hjúkrunardeildar undir merkjum Lampans ehf. Einnig má hér nefna samkomulag heilsugæslustöðvanna í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði um sameiginlega kvöldþjónustu í heimahjúkrun og vegna hjúkrunarþjónustu í Eirarhúsum.

Kostnaður við aðkeypta hjúkrunarþjónustu.
Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, dags. 20. 11. 2002, hafði sjúkrahúsið þá greitt á árinu 27 millj. kr. vegna aðkeyptrar þjónustu á eftirtöldum sviðum: geðsviði, öldrunarsviði og lyflækningasviði.
    Samkvæmt upplýsingum Landspítala – háskólasjúkrahúss þurfa sviðsstjórar sem kjósa að fara þessa leið í rekstri, þ.e. að kaupa útselda hjúkrunarþjónustu, að gera það með formlegum hætti. Fyrir þarf að liggja greining á mannaflaþörf, faglegri stöðu og styrkleika/veikleika, áætlanir um á hvaða forsendum utanaðkomandi mannafli kemur inn og enn fremur mat á kostnaði við að fara þessa leið. Samningar um kaup á hjúkrunarþjónustu frá utanaðkomandi aðila eru alltaf gerðir í samvinnu við viðkomandi deildarstjóra.
     Faglegar hliðar: Samkvæmt upplýsingum Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa kaup á hjúkrunarþjónustu reynst faglega vel, yfirleitt sé um að ræða hjúkrunarfræðinga með mikla reynslu sem geti unnið sjálfstætt og séu fljótir að komast inn í störf á viðkomandi deild. Sá ókostur er þó nefndur að þar sem unnið er í teymisvinnu sé mikilvægt að hjúkrunarfræðingar séu vel að sér um málefni hvers sjúklings, t.d. þegar kemur að fjölskyldufundum. Þessu séu takmörk sett þegar um aðkeypta hjúkrunarþjónustu er að ræða.
     Rekstrarlegar hliðar: Samkvæmt upplýsingum Landspítala – háskólasjúkrahúss er jafnan reynt að manna vaktir með starfsfólki sjúkrahússins frekar en aðkeyptri þjónustu, enda sé það ódýrara í krónum talið. Þessi möguleiki skipti þó miklu máli til að hægt sé að halda álagi á starfsfólk innan hóflegra marka en mikið álag getur leitt til aukinna veikinda starfsfólks. Í mörgum tilvikum þyrfti deildarstjóri að standa vaktina þegar aðra kosti þryti og þá er aðkeypt þjónusta hjúkrunarfræðinga hagkvæmari.

Droplaugarstaðir.
    Droplaugarstaðir hafa keypt hjúkrunarþjónustu vegna tímabundins skorts á hjúkrunarfræðingum og einnig vegna fría eða veikinda. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni í desember 2002 var greiddur kostnaður á árinu vegna aðkeyptrar hjúkrunarþjónustu rúmar 170.000 krónur.
    Í svari Droplaugarstaða kemur fram að aðkeypt þjónusta sé dýrari en fastráðning hjúkrunarfræðinga en með þessu móti megi viðhalda þjónustu þegar skortur sé á hjúkrunarfræðingum. Þá sé hagkvæmara að kaupa þessa þjónustu frekar en að hafa of mikið álag á hjúkrunarfræðinga stofnunarinnar. Einnig sé dýrt ef vinnunni er þannig háttað að frítökuréttur komi til.

Sunnuhlíð.
    Í svari frá Sunnuhlíð kemur fram að kaupa hafi þurft hjúkrunarþjónustu til að unnt væri að manna allar vaktir með hjúkrunarfræðingum. Ekki þurfti aðkeypta hjúkrunarþjónustu árið 2001 en árið 2002 (jan.–nóv.) nam kostnaður vegna þessa rúmum 500.000 kr. Fram kemur að samið hafi verið um kaup á þessari þjónustu fyrir ákveðnar vaktir á tilteknum tímabilum. Um rekstrarlega útkomu segir að dýrara sé að kaupa þessa þjónustu en að vera með fastráðna hjúkrunarfræðinga. Þá segir að fagleg vinna aðkeyptra hjúkrunarfræðinga sé ekki síðri en þeirra fastráðnu. Aftur á móti hafi þeir ekki sömu forsendur að byggja á í starfi og fastráðnir hjúkrunarfræðingar.

Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi.
    Fyrri hluta ársins 2002 tókst ekki að fullmanna stöðugildi hjúkrunarfræðinga á handlækninga- og lyflækningadeild og var af þeim sökum keypt hjúkrunarþjónusta fyrir tæpar 370.000 kr.

St. Franciskusspítali í Stykkishólmi.
    Vegna tímabundins skorts á hjúkrunarfræðingum var keypt hjúkrunarþjónusta árið 2001 til að brúa ákveðið tímabil þar sem hjúkrunarfræðing vantaði til starfa. Hjúkrunarfræðingur á vegum fyrirtækisins sem þjónustan var keypt af var fyrrverandi starfsmaður sjúkrahússins og þekkti því vel til aðstæðna.

Heilsugæslustöðvarnar í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
    Samkomulag er milli heilsugæslustöðvanna í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði um sameiginlega kvöldþjónustu í heimahjúkrun. Heilsugæslustöðin Sólvangi greiðir laun fyrir þessa þjónustu og endurkrefur heilsugæsluna fyrir hlut Kópavogs. Kostnaður vegna þess í ellefu mánuði árið 2002 (jan.–nóv.) nam 2.542.000 kr. Einnig greiðir heilsugæslan fyrir kaup á hjúkrunarþjónustu frá Eir til að sinna Eirarhúsum samkvæmt samkomulagi þar um. Kostnaður vegna þess í ellefu mánuði árið 2002 (jan.–nóv.) nam 3.620.000 kr.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja keypti ekki útselda hjúkrunarþjónustu fyrr en í nóvember 2002 vegna uppsagna heilsugæslulækna stöðvarinnar. Þá var keypt þjónusta hjúkrunarfyrirtækis og sinntu hjúkrunarfræðingar fyrirtækisins símsvörun og bráðaþjónustu á heilsugæslusviði virka daga, vegna skorts á læknum.

Áhrif á nýráðningar eða starfshlutfall.
    Ráðuneytið hefur ekki kannað sérstaklega hvort kaup á útseldri hjúkrunarþjónustu hafi haft áhrif á nýráðningar eða starfshlutfall þeirra hjúkrunarfræðinga sem fyrir eru í starfi. Af svörum stofnana að dæma er yfirleitt ekki talið að kaup á útseldri þjónustu hafi haft áhrif á nýráðningar eða starfshlutfall hjúkrunarfræðinga sem fyrir eru. Umfangsmestu kaup á útseldri hjúkrunarþjónustu eru við Landspítala – háskólasjúkrahús. Í svari sjúkrahússins kemur fram að fjöldi heimilaðra stöðugilda hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra við Landspítala – háskólasjúkrahús sé um 940 og áætlað að um 870 þeirra séu setin. Meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga hefur verið um 80% og segir í svarinu að ekki sé merkjanlegt að kaup á hjúkrunarþjónustu hafi haft þar áhrif. Helst megi greina þau áhrif að fækkað hafi keyptum vinnustundum hjúkrunarfræðinga í tímavinnu (þ.e. af lífeyrisþegum, lausráðnum hjúkrunarfræðingum eða hjúkrunarfræðingum með tímavinnusamning).

Hjúkrunarfræðingar á samningi við Tryggingastofnun ríkisins.
    Leitað var upplýsinga hjá Tryggingastofnun ríkisins um hjúkrunarfræðinga á samningi við stofnunina. Samkvæmt samningi stofnunarinnar við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (gildistími til 30. apríl 1998 – 31. des. 2002) um hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa voru í desember sl. starfandi 44 hjúkrunarfræðingar í 25 starfsleyfum. Starfsleyfi fara eftir sérsviðum hjúkrunar og greinast þannig:

Sérsvið      Fjöldi
1. Hjúkrun deyjandi sjúklinga 14,5
2. Geðhjúkrun 2,0
3. Barnahjúkrun 4,0
4. Hjúkrun aldraðra 2,0
5. Hjúkrun stómíusjúklinga 0,5
6. Óháð starfsgrein 2,0
Starfsleyfi samtals     25,0

Sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar.
    Engin áform eru um það af hálfu ráðuneytisins að fjölga sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingum.