Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:57:00 (5597)

2004-03-23 13:57:00# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Bjarni Benediktsson:

Hæstv. forseti. Hinir hörmulegu atburðir í Madríd 11. mars sl. voru grimmdarverk miskunnarlausra hryðjuverkamanna. Þó að enn eigi eftir að skýrast hverjir stóðu að baki þessum árásum er ljóst að þarna voru að verki hryðjuverkasamtök en sameiginlegt einkenni þeirra er að þau svífast einskis til að vekja athygli á málstað sínum og eira engu í aðgerðum sínum. Hryðjuverkasamtök eru þannig einn höfuðóvinur lýðræðisins. Þau hafa ítrekað ráðist beint að kjarna lýðræðisskipulagsins. Í Madríd réðust hryðjuverkamenn á saklaust fólk í frjálsu landi, almenna borgara, og drápu og særðu hundruð. Undir engum kringumstæðum má láta atburðina í Madríd verða til þess að draga úr baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkum, þvert á móti er ljóst að ríki þurfa í auknum mæli að efla og treysta samstarf um hryðjuverkavarnir. Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hafa þegar hafið viðræður í þessum tilgangi. Við Íslendingar þurfum að standa undir þeim kröfum sem þátttaka okkar í samfélagi þjóðanna leggur okkur á herðar. Það er jafnframt mikilvægt að við öxlum ábyrgð á eigin öryggi eftir því sem aðstæður leyfa með því að byggja upp hér á landi sérfræðiþekkingu í gegnum alþjóðlegt samstarf. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um eflingu sérsveitanna og þau dæmi sem hæstv. utanrrh. hefur nú nefnt um aðgerðir á Keflavíkurflugvelli eru dæmi um rökrétt viðbrögð í breyttu umhverfi.

Þeir sem segja kosningaúrslitin í Madríd vera sigur lýðræðisins eru á villigötum. Ríkisstjórnarflokki Joses Marias Aznars var þrátt fyrir eindreginn stuðning sinn við Íraksstríðið og þó nokkur mótmæli spáð sigri í kosningunum. Hins vegar tókst hryðjuverkamönnum með aðgerðum sínum að setja kosningabaráttuna í slíkt uppnám að það verður ekki fram hjá því horft að margt bendir til að stærsti sigurvegarinn í kosningunum á Spáni hafi verið hryðjuverkamenn. Þetta er dapurleg staðreynd (Gripið fram í.) en sýnir að við höfum hér ljóslifandi dæmi þess hversu mikil ógn stafar af hryðjuverkasamtökum í lýðræðisríkjum. Þau áhrif sem árásirnar í Madríd hafa haft geta virkað sem olía á eld þeirra, hreinlega sem hvatning til að grípa til sams konar aðgerða á öðrum stöðum í öðrum löndum.