2004-05-05 13:46:57# 130. lþ. 110.91 fundur 539#B ábendingar umboðsmanns Alþingis um skipun í embætti dómara við Hæstarétt# (aths. um störf þingsins), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það er óhjákvæmilegt annað en að hæstv. utanrrh. og tilvonandi forsrh. tjái sig um málið. Ég hef með málefnalegum hætti bent á að í áliti umboðsmanns kemur skýrt fram að einn tiltekinn ráðherra hefur farið á svig við tvenn lög. Það liggur fyrir í öðrum úrskurði að hann hefur gert það líka gagnvart þriðju lögunum.

Hvað segir hæstv. utanrrh. um það? Ætlar hann að þruma eins og örninn í sæti sínu og segja ekki neitt?

Ég spurði líka, frú forseti, í framhaldi af áliti umboðsmanns hvort við löggjafinn ætluðum ekki að taka alvarlega á þeim eindregnu ábendingum sem þar koma fram um að við Alþingi tökum til endurskoðunar þann hátt sem lög hafa á skipan í embætti hæstaréttardómara. Ég spurði svo hæstv. utanrrh. heyrði hvort ekki væri rétt að við tækjum þetta það alvarlega að í sumar yrði sett niður nefnd þingmanna allra flokka sem reyndi að komast að samstöðu um það með hvaða hætti ætti að breyta þessu. Það hefur komið fram hjá einum hæstv. ráðherra að málið gefi tilefni til þess að skoða breytingar. Hvað segir hæstv. utanrrh. og tilvonandi forsrh.? Hefur hann enga skoðun á málinu? Aftur og aftur hafa komið upp alvarlegar deilur í tengslum við Hæstarétt, t.d. í tengslum við öryrkjamálið þegar Hæstiréttur setti sig í erfitt ljós sem ekki varð til þess að skapa frið í kringum hann. Síðan hafa gengið fram heldur stórkarlalegar yfirlýsingar af hálfu hæstv. forsrh. þar sem beinlínis var settur þrýstingur á Hæstarétt út af tilteknum málum. Ekki hefur það orðið til þess að skapa frið og samstöðu.

Frú forseti. Við þurfum að beita okkur fyrir því að það skapist umhverfi sem Hæstiréttur getur starfað í í tiltölulegum friði og þess vegna þurfum við að verða við tilmælum umboðsmanns og reyna að skapa lagaramma sem gerir það mögulegt. Hvað segir hæstv. utanrrh. við því?