Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:48:13 (9538)

2004-07-21 14:48:13# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Sum mál eru auðvitað brýnni en önnur. Ég hygg að það þyrfti að skoða það fljótlega með hvaða hætti menn ætla t.d. að skipa málum Ríkisútvarpsins, af því að það er töluvert brýnt. Ég tel t.d. ákaflega brýnt að frelsa það undan því oki sem á því hvílir núna, sem ég kalla pólitískt ok.

Ég nefndi sérstaklega tvær hugmyndir. Ég sagði að þær þyrftu ekki langan aðdraganda fyrirtækjanna vegna.

Hins vegar verð ég að hryggja hv. þm. enn meira með því að segja honum að ég tel engar sérstakar nauðir uppi á fjölmiðlamarkaði í dag sem reki til þess að menn hlaupi í þetta verk. Það virtist mér og vera niðurstaðan í fjölmiðlaskýrslu fjölmiðlanefndar hæstv. menntmrh. Fjölbreytni ríkir á markaðnum. Gróska ríkir og mikil samkeppni. Við þær aðstæður vitum við að fjölmiðlunin er góð. Samkeppnin, eins og svo oft áður, hæstv. forseti, er það sem skiptir sköpum.