Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:33:30 (2351)

2003-12-02 14:33:30# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ákaflega leitt ef það er svo að taugar mínar séu eitthvað að angra hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég verð að reyna að umgangast hann af meiri nærfærni í framtíðinni og e.t.v. á flókaskóm til þess að styggja hann ekki.

Herra forseti. Hv. þm. heldur því fram að þetta frv. feli ekki í sér sérstakan skatt á launafólk. Getum við þá, virðulegi forseti, hugsanlega náð saman, ég og hv. þm., ef við notum ekki orðið skattur en segjum í staðinn álögur? Því það er ekki hægt að mæla gegn því, ef þetta frv. verður samþykkt, að það muni leiða til þess að það séu allt að 580 millj. kr. sem launamenn fá minna í sinn hlut. Getum við þá ekki orðið sammála um að þetta séu álögur sem nema þessu? Að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu er þetta ekkert annað. Þetta rýrir hlut launamanna sem þessu nemur.

Ég fullyrti ekki, virðulegi forseti, að starfsmenn sveitarfélaga greiddu minna í viðbótarlífeyrissparnað en aðrir. Ég sagði að margt benti til þess og ég fór með tvenns konar rök.

Að því er varðar ummæli mín frá því fyrir kosningarnar 1999, þá er það hárrétt að ég sagði að viðskiptahallinn væri tifandi tímasprengja sem væri líkleg til þess að sprengja gengið í loft upp. Ég ætla að biðja hv. þm. að koma og lýsa því fyrir okkur hvað gerðist með gengið.