Sundabraut

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:17:52 (2477)

2003-12-03 18:17:52# 130. lþ. 41.10 fundur 174. mál: #A Sundabraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að gefa mér tækifæri til að svara þessari fyrirspurn. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda eru margir áhugasamir um að bæta úr hvað varðar samgöngur á þeirri leið sem Sundabrautin á að taka til. En það er alveg ljóst að við erum fyrst og fremst að tala um fyrsta áfanga, þ.e. kaflann yfir Kleppsvík. Þegar fólk talar um Sundabrautina, þá horfa mjög margir til þess að Sundabrautin hljóti að liggja frá nánast af Kjalarnesinu og yfir alla voga og víkur, allt til þess svæðis sem við erum að tala um sem fyrsta áfanga.

En svar mitt við fsp. hv. þm. er að vinnuhópur Vegagerðarinnar og borgarverkfræðings í Reykjavík er að ljúka gerð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrsta hluta Sundabrautar, þ.e. kaflans yfir Kleppsvíkina. Í skýrslunni er gerð grein fyrir tveimur meginleiðum yfir Kleppsvík, svokallaða innri leið við Kleppsmýrarveg og ytri leið sem tengist Sæbraut við Holtaveg. Á innri leiðinni er gert ráð fyrir einni útfærslu, að Sundabraut verði lögð á fyllingu stærstan hluta leiðarinnar en þó yrðu brýr næst landi, bæði að norðan og sunnan. Á ytri leiðinni er gert ráð fyrir þremur mismunandi útfærslum, þ.e. brú í 50 metra hæð yfir sjávarmáli, botngöngum og jarðgöngum.

Vegagerðin hefur lýst sig fylgjandi innri leiðinni fyrst og fremst vegna þess að hún er mun ódýrari en allar ytri útfærslurnar og skilar meiri arðsemi. Reykjavíkurborg hefur hins vegar ekki til þessa verið reiðubúin til að taka formlega afstöðu með tiltekinni leið. Það hefur verið venja að leggja fyrir Skipulagsstofnun einn valkost sem vilja framkvæmdaraðila og jafnframt hafi verið gerð grein fyrir öðrum kostum þegar matsskýrslur vegna ákveðinna framkvæmda hafa verið lagðar inn til stofnunarinnar til afgreiðslu í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Þetta þekkir hv. fyrirspyrjandi afskaplega vel eftir að hafa starfað í umhvrn.

Svo sem að framan getur hefur Reykjavíkurborg ekki mótað afstöðu sína varðandi legu Sundabrautar. Æskilegt væri að sú afstaða lægi fyrir áður en matsskýrslunni er skilað. Verkhönnun og mat á umhverfisáhrifum gæti tekið tvö til þrjú ár eftir að leið og útfærsla hefur verið valin. Þannig að allt er þetta spurning um nokkuð langan tíma. Þarna er um afskaplega vandasamt og umfangsmikið verk að ræða hvað varðar hönnun og alla skipulagsþætti og undirbúning.

Samkvæmt samgönguáætlun 2003--2014 eru áætlaðar til framkvæmdarinnar 500 milljónir á árunum 2003--2006 og síðan eru 800 milljónir á næsta tímabili og 2,5 milljarðar á síðasta tímabili samgönguáætlunarinnar. Eins og sést af þessu og í ljósi þess að við erum að tala um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar sem fólk leggur mikla áherslu á en kostar heilmikla fjármuni þá segir það okkur að margt verkið er að vinna á sviði samgöngumála og þau eru ærið kostnaðarsöm.

Hér hafa síðustu dagana verið lagðar fram m.a. tillögur og hugmyndir um jarðgöng og fleiri áform um úrbætur í samgöngumálum þjóðarinnar, þannig að ekki vantar áhuga hv. þingmanna fyrir því að bæta samgöngukerfið, enda er það fullkomlega eðlilegt, því það að bæta samgöngukerfið er með allra hagkvæmustu fjárfestingum sem við förum í.