Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:07:34 (2680)

2003-12-04 18:07:34# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að ekki er gert ráð fyrir nokkurri seinkun á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, þ.e. á suðurhlutanum. (Gripið fram í.) Nei. Hins vegar gerði ég grein fyrir því að hægt er að halda fullum fetum áfram við þessi verk, bæði tvöföldun Reykjanesbrautar, frá Fífuhvammsvegi að Kaplakrika, og sömuleiðis framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegarins upp í Mosfellsbæ. Það er hægt að setja þau verk af stað og vinna fullum fetum samkvæmt þeim áætlunum sem hafa verið uppi. En vegna þess að undirbúningur hefur tafist --- undirbúningur hefur tafist vegna þess að þarna hafa verið mjög flókin skipulags- og hönnunarviðfangsefni --- þá verður ekki hægt að setja þetta af stað fyrr en seint á árinu eða sem sagt eftir áramót. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi eru þeir fjármunir sem ég gerði grein fyrir að væru í verkin fullnægjandi til þess að halda áætlun.