Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 2  —  2. mál.




Þjóðhagsáætlun



fyrir árið 2004.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



Inngangur.
    Í þessari þjóðhagsáætlun er fjallað um helstu atriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og þau voru sett fram í stefnuyfirlýsingu hennar.
    Efnahagsstefna næstu ára mun að miklu leyti mótast af áhrifum stóriðjuframkvæmda. Miklu skiptir að stjórn peningamála og ríkisfjármála taki mið af þeim og komið verði í veg fyrir að þeim efnahagslega stöðugleika sem náðst hefur verði raskað. Gert er ráð fyrir að umtalsverður afgangur verði á ríkissjóði meðan á framkvæmdunum stendur og verði svigrúmið notað til að lækka skatta og skuldir ríkissjóðs. Að sama skapi má ætla að nokkuð dragi úr hagvexti við lok framkvæmdatímans en þá er gert ráð fyrir að ríkið auki framkvæmdir sínar. Skattalækkanir og öflugri útflutningsgreinar ættu einnig að örva hagvöxt og stuðla þannig að bættum lífskjörum þjóðarinnar.
    Stjórn ríkisfjármála gegnir veigamiklu hlutverki í þeirri hagstjórn sem fram undan er. Ríkisstjórnin hefur mótað skýr markmið fyrir efnahagsstefnu næstu fjögurra ára og eru þau helstu eftirfarandi:
     *      Hátekjuskattur verður lækkaður í 4% árið 2004, aftur lækkaður um 2% árið 2005 og afnuminn árið 2006.
     *      Stefnt er að því að afgangur á ríkissjóði verði ekki undir 1 3/ 4% af landsframleiðslu á árinu 2005 og 1% árið 2006.
     *      Leitast verður við að útgjöld til samneyslu aukist ekki umfram 2% að raungildi á ári á árunum 2005–2007.
     *      Að auki er gert ráð fyrir að dregið verði úr framkvæmdum ríkisins um 3 milljarða króna árið 2005 og um 2 milljarða árið 2006. Ríkið frestar framkvæmdum á þeim árum sem áhrif stóriðjuframkvæmdanna eru sem mest. Á móti kemur að framkvæmdir ríkisins verða aftur auknar um 3 milljarða árið 2007 og 2 milljarða árið 2008, þegar búast má við að gæti samdráttar í hagkerfinu að öðrum kosti.
     *      Stefnt er að því að launakostnaður ríkisins hækki ekki umfram önnur laun til að koma í veg fyrir launaskrið og þenslu.
     *      Varið verður allt að 3 milljörðum króna á árunum 2005–2007 til tiltekinna verkefna í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að því fé verði meðal annars varið til að aðstoða barnafjölskyldur.
     *      Allt að 20 milljörðum króna verður varið til skattalækkana á árunum 2005–2007.
    Breytingar á skattkerfinu og aðrar aðgerðir sem boðaðar eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar taka mið af fyrrgreindum markmiðum og stöðu efnahagsmála.
    Þjóðhagsáætlunin fjallar um nánari útfærslu á efnahagsstefnunni, markmið hennar og þær leiðir sem farnar verða.

Stöðugleiki og hagvöxtur.
    Grunntónn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er sá að jafnvægi og stöðugleiki í efnahagslífinu sé forsenda vaxtar þess og viðgangs. Stöðugleiki á vinnumarkaði, í rekstrarumhverfi fyrirtækja, við stjórn ríkisfjármála og peningamála er forsenda þess að hægt sé að bæta varanlega lífskjör þjóðarinnar.

Hagvöxtur.
    Árin 1995–2001 var hagvöxtur mikill á Íslandi, að meðaltali rúm 4% á ári. Í kjölfar þessa mikla vaxtar dró nokkuð úr efnahagsstarfseminni og er hagvöxtur talinn hafa verið neikvæður um 0,5 % árið 2002. Útlit er fyrir að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði 2,5% og samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki verulega við sér á næstu fjórum árum og nái hámarki árið 2005 þegar ætla má að harm verði 5,5%. Munar þar mestu um áhrif stóriðjuframkvæmda.

Hagvöxtur á Íslandi og erlendis.
    Gangi hagvaxtarspáin eftir mun hagvöxtur hér á landi verða mun meiri en í Evrópu og Ameríku samkvæmt spám OECD, eins og sjá má í eftirfarandi töflu.

Hagvaxtarspá OECD og þjóðhagsspá (raunvöxtur landsframleiðslu í %).

2002 2003 2004
Ísland -0,5 2,5 4
Evrópusambandið 0,9 1,9 2,7
Bandaríkin 2,3 2,6 3,6
Meðaltal OECD 1,5 2,2 3,0

    Þegar litið er til þess að búist er við miklum hagvexti á næstu fjórum árum er ljóst að flest bendir til að hagvöxtur hér á landi verði mun meiri en í Evrópu og Ameríku.

Stjórn ríkisfjármála.
    Áætlun um stjórn ríkisfjármála dregur dám af sérstökum horfum í efnahagslífinu vegna stóriðjuframkvæmda. Fyrir liggur að þessi miklu umsvif munu reyna nokkuð á þanþol hagkerfisins, sérstaklega á árunum 2005 og 2006. Því er mikilvægt að stjórn ríkisfjármála haldist í hendur við peningastjórnina.
    Áætlað er að heildartekjur og heildarútgjöld ríkissjóðs verði eins og sjá má á eftirfarandi mynd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sjá má er gert ráð fyrir töluverðum afgangi af rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum og verður hann mestur árið 2005 þegar búast má við að tekjuafkoman nemi 1,7% af vergri landsframleiðslu. Við lok stóriðjuframkvæmdanna er hins vegar gert ráð fyrir halla sem gæti numið um 0,7% af landsframleiðslu það árið. Þessi halli er m.a. til þess að vega upp á móti hugsanlegum samdrætti á aðlögunarskeiði þjóðarbúsins við lok umsaminna stóriðjuframkvæmda.
    Þessar spár verða að teljast mjög varkárar þar sem ekki er gert ráð fyrir stækkun Norðuráls. Verði ráðist í slíka framkvæmd á allra næstu árum er trúlegt að komist verði hjá því að reka ríkissjóð með halla á árinu 2007. Eins er rétt að taka fram að í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir neinum tekjum af sölu ríkiseigna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þá er gert ráð fyrir því í þjóðhagsspá að hreinar skuldir ríkissjóðs muni lækka sem hlutfall af landsframleiðslu á árunum 2004 til 2006 en aukast aftur lítillega árið 2007.
    Sú aukning er ekki óeðlileg í ljósi þess að þá er gert ráð fyrir að stóriðjuframkvæmdum sé lokið. Hér er vert að hafa í huga að verði ráðist í stækkun Norðuráls munu skuldirnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu halda áfram að lækka. Til samanburðar má nefna að skuldir ríkissjóðs voru 51% af landsframleiðslu í lok árs 1995.
    Þá verður ráðist í ýmsar framkvæmdir á vegum hins opinbera sem slegið var á frest auk þess sem skattalækkanir á tímabilinu munu leiða til þess að minna dragi úr hagvexti en ella.

Skattamál.
    Í efnahagsstefnu sinni leggur ríkisstjórnin megináherslu á að skattar verði lækkaðir á kjörtímabilinu. Skattalækkanir munu örva hagvöxt og tryggja að ávinningur góðs efnahagsástands og hagstjórnar falli almenningi í skaut.
    Hátekjuskattur verður lækkaður í 4% á næsta ári og lækkar í 2% árið 2005 og fellur svo niður árið 2006. Áætlanir gera ráð fyrir að fyrstu skref hvað varðar aðrar skattalækkanir verði tekin árið 2005 og í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að á kjörtímabilinu verði tekjuskattur lækkaður um allt að 4% og eignarskattur afnuminn. Að auki verður hugað að breytingum á álagningu virðisaukaskatts á næstu fjórum árum.
    Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig gert er ráð fyrir að hlutfall skatttekna af landsframleiðslu þróist á árabilinu 2004 til 2007.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af myndinni má glöggt sjá hve mjög dregur út skattheimtu á næstu fjórum árum.
    Áætluð tekjuaukning ríkisins á næstu árum veitir svigrúm til skattalækkana. Minni álögur á landsmenn munu örva hagvöxt á næstu árum. Þær skila sér í meiri ráðstöfunartekjum heimilanna og draga úr letjandi áhrifum skattheimtu á vinnuframlag. Slíkt gagnast ekki síst þeim sem reyna eftir mætti að auka tekjur sínar tímabundið, t.a.m. til að eignast eigið húsnæði eða ráðast í aðrar fjárfestingar. Slíkir hópar hafa oft og tíðum þurft að borga háa jaðarskatta þrátt fyrir að einungis sé um að ræða tímabundna aukningu í vinnu og tekjum. Rétt er að vekja athygli á því að vegna aukinna umsvifa í þjóðarbúskapnum verður tekjulækkun ríkisins vegna lækkunar skatthlutfalla talsvert minni en ella væri.

Verðlagsþróun.
    Þróun efnahagsmála síðustu missirin ber vott um að vel hefur tekist að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá árlega hlutfallsbreytingu verðlags á mælikvarða neysluverðsvísitölu frá árinu 1995 ásamt spá fyrir yfirstandandi og næstu fjögur ár.
    Samkvæmt áætlunum verður verðbólgan í samræmi við markmið Seðlabankans og stöðugleikanum ekki stefnt í voða.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Samspil peninga- og fjármálastjórnar.
    Helstu hagræn stjórntæki hins opinbera eru á sviði peningamála og ríkisfjármála. Samkvæmt lögum er stjórn peningamála í höndum Seðlabanka Íslands. Meginmarkmið Seðlabankans lögum samkvæmt er að stuðla að stöðugu verðlagi. Í samræmi við þetta markmið og ákvæði laga hefur Seðlabankinn tölusett þetta markmið svo að verðbólgan sé í námunda við 2,5% á ári.
    Seðlabankanum ber jafnframt lagaskylda til þess að haga stjórn peningamála þannig að hún stuðli að framgangi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, enda brjóti hún ekki í bága við verðbólgumarkmiðið. Styrk stjórn peningamála sem stuðlar að stöðugu verðlagi er ein forsenda þess að skapa skilyrði fyrir heilbrigðan vöxt og viðgang efnahagslífsins. Slík peningamálastjórn er hins vegar ekki efnahagslegt markmið í sjálfu sér.
    Samræmd stjórn peningarnála og opinberra fjármála er nauðsynleg til að sem best takist til í efnahagslífinu. Þegar fyrirboðar eru um samdrátt í hagkerfinu, eða jafnvel samdráttur hafinn, er að jafnaði hyggilegt að slaka á aðhaldi í peningastjórn og auka eftirspurn af hálfu hins opinbera, t.d. með því að lækka skatta og/eða flýta ákveðnum hagkvæmum framkvæmdum. Þegar fyrir liggur að spenna sé að myndast í hagkerfinu er að jafnaði vænlegast að fara gagnstæða leið og beita aðhaldssamari peningastjórn og draga úr eftirspurn hins opinbera í því skyni að koma í veg fyrir ofþenslu og meðfylgjandi verðbólgu og óstöðugleika. Í hagstjórn af þessu tagi er afar mikilvægt að taka tillit til tímatafa í annars vegar mælingum á stöðu þjóðarbúsins og hins vegar í áhrifum hinna ýmsu hagstjórnartækja.
    Veruleg verðbólga hefur, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið, neikvæð áhrif á ýmsa innviði hagkerfisins. Hún brenglar t.a.m. verðhlutföll og eykur óvissu og kemur þannig niður á hagvexti og lífskjörum. Uppi eru kenningar um það að vel útfærð peningastefna hafi ekki áhrif á hagvöxt til lengri tíma litið. Hlutverk hennar sé fremur að jafna sveiflur í kringum það sem kalla mætti langtímaleitni þjóðarframleiðslunnar. Á hinn bóginn bendir flest til þess að illa útfærð peningastjórn geti haft áhrif á vöxt og viðgang hagkerfisins til lengri tíma litið.
    Um það má einnig deila hversu langt sé skynsamlegt að ganga í því að beita fjármálum hins opinbera sem hagstjórnartæki til að jafna hagsveiflur. Mjög stór hluti opinberra útgjalda felst í að veita borgurunum mikilvæga þjónustu. Óráðlegt virðist að þessi þjónusta rísi og hnígi með hagsveiflunni. Frá þessu sjónarhorni er í rauninni miklu auðveldara og sársaukaminna að mæta skammtímasveiflum með ráðstöfunum í peningamálum. Á hinn bóginn er það svo að ýmsir liðir í opinberum fjármálum, bæði tekna- og gjaldamegin, hafa tilhneigingu til að fylgja hagsveiflunni. Fyllsta ástæða er að freista þess að beita þessum liðum til að vinna gegn fremur en með hagsveiflunni.

Gengisþróun.
    Gengi íslensku krónunnar hefur að sönnu sveiflast nokkuð og hefur gengið endurspeglað jafnt ástand efnahagslífsins sem væntingar um framtíðina. Meðfylgjandi mynd sýnir þróun viðskiptajafnaðar (súlur) og ársmeðaltal gengisvísitölu (lína) fyrir tímabilið 1995 til 2002.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kostir þess að láta gengið ákvarðast á markaði eru margir. Á myndinni hér að ofan sést vel hvernig sú ákvörðun að láta gengi krónunnar fljóta árið 2001 leiddi til þess að viðskiptahalli, sem ýmsum virtist nánast óyfirstíganlegt vandamál, hvarf á örskömmum tíma. Það er mikilvægt í jafnopnu og sveiflukenndu hagkerfi og því íslenska að hafa yfir að ráða eigin gjaldmiðli sem tekur mið af efnahagsaðstæðum hér á landi. Ef litið er til næstu ára er ljóst að hagvöxtur verður mikill. Á sama tíma er fátt sem bendir til að hagkerfin í löndunum í kringum okkur muni taka jafnsnögglega við sér. Þetta getur að öðru jöfnu leitt til viðskiptahalla hér á landi. Við slíkar aðstæður er dýrmætt að hafa eigin gjaldmiðil, peninga- og vaxtastefnu sem hæfir efnahagslegum aðstæðum á hverjum tíma.

Velferðarmál.
    Á undanförnum árum hafa lífskjör þjóðarinnar batnað umtalsvert. Allir þjóðfélagshópar hafa notið góðærisins og þeir sem lægst hafa launin hafa fengið hlutfallslega mesta kaupmáttaraukningu. Til að styrkja hag heimilanna enn frekar mun ríkisstjórnin leggja áherslu á að lækka skatta á kjörtímabilinu. Sú aðgerð kemur öllum launþegum til góða.

Heimilin og kaupmáttur.
    Hagstjórn undanfarinna ára hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur vaxið meira en dæmi eru um síðustu áratugi. Hóflegar kauphækkanir og lítil verðbólga eru forsenda stöðugleika, en hann er grundvöllur þess að kaupmáttur vaxi enn frekar. Samkvæmt áætlunum mun kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann vaxa jafnt og þétt á næstu árum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Það er athyglisvert að bera saman þróun kaupmáttar hér á landi og í löndum OECD. Kaupmáttur launa á almennum markaði jókst um 33% frá 1994 til 2003 á Íslandi en um 13% að meðaltali í öðrum löndum OECD.

Barnabætur.
    Stuðningur við barnafjölskyldur verður aukinn verulega á árunum 2005 til 2007. Þessari aukningu verður m.a. varið til að hækka barnabætur og frítekjumark, auk þess sem enn frekar verður dregið úr tekjutengingum.

Vinnumarkaður.
    Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi dragist saman í kjölfar aukinna umsvifa í hagkerfinu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gera má ráð fyrir að einhver spenna verði á vinnumarkaði á næsta ári og því þar næsta en síðan dragi úr henni þegar líður að lokum framkvæmdanna á Austurlandi. Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 6,1% og á evru-svæðinu 8,9%.

Almannatryggingar og heilbrigðismál.
    Samkvæmt áætlun í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir að útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála aukist um 2,4% að meðaltali á ári sé litið til næstu fjögurra ára.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sjá má er gert ráð fyrir að á næstu fjórum árum verði haldið áfram að auka stuðning við þá sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs og þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála aukist um 2,8% að meðaltali næstu fjögur árin.
    Framlög til heilbrigðismála hafa verið stóraukin á síðustu árum. Sé litið til samanburðar við önnur lönd sést að útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu eru meiri hér á landi en alls staðar annars staðar á Norðurlöndum, að Noregi undanskildum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að allir landsmenn hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Til að nýta sem best það fé sem varið er til heilbrigðismála er mikilvægt að kanna hvaða leiðir eru færar við breytt rekstrarform og gerð þjónustusamninga. Ekki verður farið út í slíkar aðgerðir nema tryggt sé að ekki verði dregið úr möguleikum allra landsmanna til að fá notið heilbrigðisþjónustu.

Mennta-, fræðslu- og menningarmál.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ríkisstjórnin mun halda áfram að efla stuðning við menntun og rannsóknir í landinu. Á meðfylgjandi mynd sést hve miklu er áætlað að verja til fræðslumála samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2004 og spá fyrir árin 2005 til 2007 en gert er ráð fyrir að útgjöld til fræðslumála vaxi um 1% á ári næstu fjögur árin.

    Á undanförnum árum hafa framlög til menntamála verið aukin til mikilla muna. Í nýútkominni skýrslu OECD um menntamál kemur fram að Ísland er í hópi með Kanada, Danmörku og Svíþjóð þar sem varið er meira en 6,2% af landsframleiðslu til menntastofnana. Einungis Bandaríkin og Kórea leggja hlutfallslega meira fé til skóla, um 7%. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi hér á landi, en það var 5,1% árið 1995. Í skýrslu OECD kemur einnig fram að Íslendingar, ásamt Nýsjálendingum og Svíum, leggja þjóða mest fram í námslán.
    Aukna áherslu á menntamál má glöggt sjá þegar litið er til þess hvert hlutfall þessa málaflokks er í útgjöldum hins opinbera. Á árunum 1980 til 1989 var hlutfallið 12,6% og samkvæmt bráðabirgðatölum er áætlað að það hafi verið 14,49% árið 2001 og 14,55% árið 2002.
    Segja má að bylting hafi orðið í framboði menntunar á háskólastigi og nú eru skólar á háskólastigi níu talsins. Nýjum skólum fylgja nýjar áherslur og fjölbreytileiki í námsframboði og rannsóknum. Menntakerfið er því betur í stakk búið en áður til að mæta kröfum margbreytilegs atvinnulífs þjóðarinnar og eins geta nú fleiri fundið sér nám við hæfi.
    Nýskipan stuðnings ríkisins við rannsóknir, með stofnun Vísinda- og tækniráðs, hefur skerpt áherslur og mun vafalítið verða rannsóknum og þróun í landinu til góðs. Megináherslur ráðsins verða að auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða, endurskipuleggja umgjörð og verkefni opinberra rannsóknastofnana og að efla háskóla sem rannsóknastofnanir.
    Sé litið til heildarútgjalda hins opinbera og einkaaðila til rannsókna og þróunar síðustu árin sést að þau hafa aukist ár frá ári, úr 0,98% af þjóðarframleiðslu árið 1990 í 3,06% árið 2002. Þetta endurspeglar aukin framlög hins opinbera til rannsóknar og þróunar, en ekki síður það sem mikilvægast er, mikinn uppgang tækni og þekkingar í fyrirtækjum og hagkerfinu í heild. Hvað þetta snertir hefur orðið mikil breyting á íslensku hagkerfi á tiltölulega skömmum tíma.

Efnahagsumhverfið.
Einkavæðing.
    Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin staðið fyrir umfangsmeiri einkavæðingu en dæmi eru um í íslenskri hagsögu. Hið opinbera hefur dregið sig út úr rekstri fjármálafyrirtækja, auk þess sem ýmis önnur fyrirtæki hafa verið seld. Markmið einkavæðingar eru fjölmörg, ekki síst að auka samkeppni og skilvirkni í efnahagslífinu.
    Sé litið til síðasta kjörtímabils voru tekjur af sölu hlutabréfa í eigu ríkissjóðs rúmir 52 milljarðar króna. Tekjum af sölunni var að mestu ráðstafað í að greiða niður erlendar skuldir og til verkefna á sviði samgöngu- og fjarskiptamála.
    Þrátt fyrir að mjög mikilvæg skref hafi nú þegar verið stigin í einkavæðingu ríkisfyrirtækja þá er hið opinbera enn umfangsmikið á fjarskiptamarkaði. Fyrir liggur sú ákvörðun að selja eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands.

Aukin samkeppni.
    Virk samkeppni er ein meginforsenda þess að ávinningur efnahagsstarfseminnar skili sér til almennings. Smæð íslenska hagkerfisins gerir ríkar kröfur til stjórnvalda um að búa svo um hnúta að regluverk markaðarins sé sanngjarnt, bæði fyrir neytendur og fyrirtæki. Árið 1993 voru samþykkt á Alþingi lög um samkeppnismál og árið 2000 voru gerðar breytingar á þeim lögum sem miðuðu að því að styrkja stöðu samkeppnisyfirvalda. Starfsemi Samkeppnisstofnunar hefur verið efld jafnt og þétt á undanförnum árum og er mikilvægt að stofnunin fái gegnt hlutverki sínu af festu en um leið sé þess gætt að starfsemi hennar verði ekki óþarflega íþyngjandi.

Útlit í alþjóðaefnahagsmálum.
    Mikillar óvissu gætir um horfur í alþjóðaefnahagsmálum. Ef litið er til Bandaríkjanna og Evrópu er ljóst að erfiðlega hefur gengið að koma þessum hagkerfum aftur á skrið eftir niðursveiflu á verðbréfamörkuðum árið 2000. Hagvísar eru nokkuð misvísandi og flestir orðnir langeygir eftir uppsveiflu. Ýmsar væntingavísitölur hafa gefið í skyn að uppsveiflunnar sé skammt að bíða, eða að hún sé jafnvel þegar hafin. Gildir það jafnt um bandaríska hagkerfið sem stóru hagkerfin í Evrópu, aðallega Þýskaland.
    Hagstjórn í helstu hagkerfum heimsins hefur einkum miðað að því að lækka vexti og búa þannig í haginn fyrir vöxt í efnahagslífinu. Einnig hefur víða verið reynt að koma við skattalækkunum til að örva enn frekar efnahagsstarfsemina. En þrátt fyrir slíkar efnahagsaðgerðir eru enn margháttuð vandamál sem stjórnvöld í helstu hagkerfum heimsins þurfa að glíma við. Samanburður á þeim vanda sem til að mynda snýr að Bandaríkjunum annars vegar og Evrópu hins vegar sýnir að vandamálin eru ólík.
    Í Bandaríkjunum hafa komið fram ýmis merki um að nýtt hagvaxtarskeið sé að hefjast. En þrátt fyrir það hafa efnahagssérfræðingar bent á nokkur hættumerki. Viðskiptahalli Bandaríkjanna hefur vaxið hröðum skrefum á síðustu árum og er nú svo komið að hann nemur rúmum 5% af vergri landsframleiðslu þessa stærsta hagkerfis heims. Hallinn hefur að stórum hluta verið fjármagnaður með sölu ríkisverðbréfa og hafa kaupendurnir aðallega verið seðlabankar í Asíu. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um hvort hér sé um vandamál að ræða er athyglisvert að Bandaríkin voru stærsti lánveitandi heimsins á árunum kringum 1980 en eru nú stærsti skuldarinn. Bandaríkjadalur hefur að sönnu lækkað nokkuð gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum en lækkunin hefur ekki verið nægjanleg til að auka útflutning frá Bandaríkjunum og slá á viðskiptahallann.
    Ein ástæða þess að niðursveiflan á verðbréfamörkuðum í Bandaríkjunum leiddi ekki til enn meiri samdráttar í hagvexti en raun bar vitni var að heimilin juku neyslu sína og unnu þannig upp samdrátt í fjárfestingu fyrirtækja. Vaxtalækkanir sem ætlað er að blása nýju lífi í hagvöxtinn hafa einnig leitt til þess að heimilin hafa aukið skuldir sínar til að fjármagna aukna neyslu. Á sama tíma hefur hið opinbera aukið útgjöld sín, t.d til varnarmála, en einnig til annarra málaflokka svo sem heilbrigðismála. Nú stefnir fjárlagahalli Bandaríkjanna í að verða 4% af landsframleiðslu árið 2003. Þrátt fyrir aukna neyslu heimilanna og aukin útgjöld hins opinbera virðist þó enn vera nokkur framleiðsluslaki í hagkerfinu eftir miklar fjárfestingar fyrirtækja á síðasta áratug 20. aldar.
    Lítill hagvöxtur og jafnvel stöðnun hefur einkennt stærstu hagkerfi Evrópu síðustu missirin. Líkt og í Bandaríkjunum varð niðursveifla á verðbréfamörkuðum árið 2000 og mjög dró úr hagvexti í flestum löndum álfunnar. Á evru-svæðinu hefur Evrópski seðlabankinn brugðist við með því að lækka stýrivexti sína en stendur frammi fyrir því vandamáli að efnahagsástandið er ólíkt í hinum ýmsu löndum á svæðinu. Þar af leiðir að ólíkt vaxtastig hentar hinum ýmsum löndum. Margir telja að vaxtastigið sé enn of hátt fyrir stærstu hagkerfin; Þýskaland, Frakkland og Ítalíu. Að auki eiga þessi ríki í erfiðleikum með að halda sáttmála um stöðugleika á evru-svæðinu því að útlit er fyrir að ríkissjóðshalli í þeim öllum verði meira en 3 % af landsframleiðslu.
    Vandamál þau sem stærstu hagkerfi álfunnar eiga við að glíma eru að stórum hluta önnur en í Bandaríkjunum. Brýnt er að taka á ýmsum kerfisbundnum vandamálum og má þar nefna ósveigjanlega vinnumarkaði og þunglamaleg og óhagkvæm velferðarkerfi. Að auki er aldurssamsetning stærstu þjóðanna að breytast þannig að æ stærri hluti íbúanna fer á ellilaun og hlutfallslega færri verða eftir á vinnumarkaði. Lífeyrissjóðakerfi landanna eru ekki fær um að mæta þessari þróun.
    Ýmis lönd í Asíu hafa búið við mikinn hagvöxt á síðustu missirum. Kínverska hagkerfið vex áfram hröðum skrefum og mikill afgangur er á vöruskiptum við önnur lönd. Japanska efnahagslífið hefur átt í miklum erfiðleikum, hagvöxtur verið lítill og borið hefur á verðhjöðnun. Stjórnvöld ýmissa Asíuríkja hafa verið ásökuð um að halda niðri gengi gjaldmiðla sinna til að örva útflutning á kostnað framleiðslu í öðrum iðnríkjum, sérstaklega Bandaríkjunum. Asíuríkin, og þá sérstaklega Kína, hafa þó reynst treg til að breyta fyrirkomulagi gengismála, t.d. með því að láta gengi gjaldmiðlanna fljóta.
    Erfitt er að alhæfa nokkuð um efnahagslíf heimsins, sérstaklega þar sem hagvöxtur á sumum svæðum hefur verið lítill en mikill á öðrum. Þrátt fyrir fyrrgreind vandamál sem steðja að ýmsum stórum hagkerfum er engu að síður álit flestra sérfræðinga að fram undan sé nýtt vaxtarskeið og þá einkum í Bandaríkjunum og nokkru síðar í Evrópu. Lágt vaxtastig kemur sér yfirleitt vel fyrir íslenskt hagkerfi þar sem vaxtabyrði erlendra lána minnkar. Á hinn bóginn leiðir lítill hagvöxtur og jafnvel stöðnun í helstu viðskiptalöndum okkar til minni eftirspurnar eftir útflutningsvörum okkar.