Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 91  —  91. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Björgvin G. Sigurðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson, Jóhann Ársælsson.


1. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Styrkur sem greiddur er í formi fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélagi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið þessa frumvarps er að felldur verði niður skattur á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Rétt til fjárhagsaðstoðar eiga þeir einstaklingar og fjölskyldur sem hafa ónógar tekjur sér og sínum til lífsviðurværis.
     Tilgangur fjárhagsaðstoðar er samkvæmt leiðbeiningarreglum sem félagsmálaráðuneytið hefur gefið út að koma í veg fyrir að einstaklingar eða fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki framfleytt sér og sínum. Litið er á fjárhagsaðstoð sem stuðning á meðan einstaklingar eða fjölskyldur vinna sig út úr ákveðnum erfiðleikum, þ.e. sem hreina neyðaraðstoð. Í reglunum kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar möguleika á annarri aðstoð en fjárhagsaðstoð og henni aðeins beitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsmálanefnda sveitarfélaga, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar. Jafnframt kemur fram að við ákvörðun um fjárhagsaðstoð skuli lágmarksfjárþörf viðkomandi lögð til grundvallar. Lágmarksfjárþörf skal að öðru jöfnu metin svo að hún sé mismunur á því sem telst framfærslukostnaður miðað við fjölskyldustærð annars vegar og ráðstöfunarfé fjölskyldunnar hins vegar. Með framfærslukostnaði er átt við þann lágmarkskostnað sem ætlað er að einstaklingur eða fjölskylda geti komist af með.
    Óeðlilegt er að skattleggja þessa fjárhagsaðstoð enda er hún aðeins veitt þeim sem ekki eiga fyrir brýnustu nauðþurftum. Ekki er óalgengt að þeir sem leita sér fjárhagsaðstoðar þurfi aftur að leita aðstoðar gagngert til að geta greitt skatta af fjárhagsaðstoðinni sem þeir fengu árið áður. Það sýnir kannski best fáránleika málsins.
    Rökin fyrir afnámi skattlagningarinnar eru því augljós. Um er að ræða neyðaraðstoð sem ætluð er til skamms tíma og þar af leiðandi um lágar upphæðir að ræða, enda hugsaðar til þess að fólk geti dregið fram lífið í stuttan tíma meðan verið er að komast yfir erfiðleika. Af sjálfu leiðir að afar óeðlilegt er að taka skatt af slíkum bótum. Skattlagning fjárhagsaðstoðar hefur líka leitt til þeirrar tilhneigingar að halda bótunum sem næst skattleysismörkum til að reyna að forðast skattlagningu þeirra. Skattleysismörkin hafa á undanförnum árum ekki fylgt almennum verðlagshækkunum og vísitölu sem aftur hefur því leitt til þess að fjárhagsaðstoðin hefur lítið hækkað. Staðgreiðsluskyldan gerir það líka að verkum að skattur er dreginn af fjárhagsaðstoðinni og síðan er gert upp með öðrum tekjum í lok árs. Hins vegar hefur fjöldi fólks svo lágar tekjur að ekki kemur til skattgreiðslu af fjárhagsaðstoðinni. Annars staðar á Norðurlöndum hefur ekki verið tekinn skattur af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í Danmörku var þó fyrir þremur til fjórum árum tekin upp skattlagning á fjárhagsaðstoðinni um leið og viðmið aðstoðarinnar var samræmt um allt landið. Þar eru fjárhæðir aðstoðar á hinn bóginn líka miklu hærri en hér á landi.
    Þegar skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar voru til afgreiðslu á 126. löggjafarþingi, sem að meginhluta til fólu í sér verulega skattalækkun á fyrirtæki, fluttu þingmenn Samfylkingarinnar breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að fella niður skatta af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Sú breytingartillaga náði ekki fram að ganga. Samfylkingin telur fráleitt að skattleggja fjárhagsaðstoð fátæks fólks sem ekki á fyrir allra brýnustu nauðþurftum. Þetta eru ekki háar fjárhæðir fyrir ríkissjóð, en skipta öllu fyrir þá sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Samkvæmt lauslegu mati Þjóðhagsstofnunar á árinu 2001 kostar það 120–135 millj. kr. að hætta að skattleggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Gera má ráð fyrir nokkuð hærri fjárhæð nú þar sem fjárhagsaðstoðin hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2000 fóru tæplega 600 millj. kr. í fjárhagsaðstoð í Reykjavík, en áætlað er að fjárhagsaðstoðin verði um 1.200 millj. kr. á yfirstandandi ári. Þannig hefur fjárhagsaðstoðin aukist um helming á stuttum tíma.
    Á undanförnum árum hafa margir barist fyrir afnámi skattlagningar húsaleigubóta. Á síðasta ári tókst loks, m.a. fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar, að ná fram því markmiði sem var veruleg kjarabót fyrir þá lægst launuðu. Rökin fyrir því að afnema skatt á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eru ekki síðri. Þeir sem fyrst og fremst njóta fjárhagsaðstoðar eru þeir sem allra minnst bera úr býtum í hópi einstæðra foreldra, einstaklinga, lífeyrisþega og barnmargra fjölskyldna. Mjög mismunandi er hversu lengi fólk hefur þörf fyrir fjárhagsaðstoð. Algengast er að um nokkra mánuði sé að ræða en um 135–205 manns eða 5–10% af heildinni hafa á undanförnum þremur árum fengið fjárhagsaðstoð í ár eða lengur.
    Á málþingi sem haldið var ekki fyrir löngu um fjárhagsaðstoð í velferðarsamfélagi fjallaði Kristinn Karlsson um þróun fjárhagsaðstoðar og norrænan samanburð. Þar kom fram að á árinu 2000 voru útgjöld til fjárhagsaðstoðar 769 millj. kr. eða tæplega þrisvar sinnum meiri en á árinu 1985. Þeir sem nutu fjárhagsaðstoðar voru 4.300. Athyglisvert er líka að auk þess sem fjöldinn er hlutfallslega langmestur í Reykjavík eru greiðslur til heimila þar líka hærri en í öðrum sveitarfélögum. Einnig kom fram að á Norðurlöndum hefur upphæð fjárhagsaðstoðar verið lægst á Íslandi. Viðtakendur fjárhagsaðstoðar á Íslandi í hlutfalli af íbúum 18 ára og eldri á árinu 1999 voru 2,5%, milli 4,3–5,5% í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en langflestir í Finnlandi eða 9% af íbúafjölda, 18 ára og eldri.
    Á árinu 2000 var meðalstyrkur á ári um 223 þús. kr. Tæplega 2.400 fengu fjárhagsaðstoð, en í þeim hópi voru atvinnulausir fjölmennastir eða rúmlega þriðjungur. Öryrkjar voru næst fjölmennasti hópurinn eða rúmlega 20%. Sjúklingar voru um 10% þeirra sem þáðu fjárhagsaðstoð á árinu 2000. Á árinu 2001 þáðu 2.615 manns fjárhagsaðstoð og greiddu um 414 af þeim skatt.
    Sveitarfélögin í landinu eru 105 og mikið vantar upp á að reglur um fjárhagsaðstoð séu samræmdar milli sveitarfélaga. Víða um land hafa sveitarfélög sameinast um félagsmálanefndir og eru reglurnar því mun færri en sveitarfélögin. Reykjavíkurborg hefur nokkra sérstöðu varðandi fjárhagsaðstoðina. Þar er t.d. ekki tekin með fjárþörf vegna barna en á móti eru meðlög, mæðralaun og barnabætur ekki reiknuð til tekna við útreikning fjárhagsaðstoðar. Sum sveitarfélög telja allar greiðslur með börnum til tekna, nema umönnunarbætur, og reikna síðan framfærslu þeirra með í fjárþörfina. Þessar aðferðir koma misvel út miðað við aðstæður fjölskyldna og geta fjölskyldur sem búa við sambærilegar fjárhags- og félagslegar aðstæður fengið mismunandi aðstoð eftir sveitarfélögunum.
    Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir mikilli skattatilfærslu frá stórfyrirtækjum og fjármagni yfir á laun og vinnuafl. Tímabært er orðið að lækka skatta á einstaklinga með lágar og meðaltekjur. Með þessari tillögu er stigið fyrsta skrefið til að lækka skatta á heimilin í landinu og byrjað á þeim sem eru allra verst settir. Þetta er afar brýnt réttlætismál sem kostar hið opinbera lítið en skiptir sköpum þegar í hlut eiga þeir sem minnst hafa milli handanna.