Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 70. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 221  —  70. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun.

     1.      Hvað þýðir það ákvæði sem vitnað er til í svari ráðherra á þskj. 1001 á 128. löggjafarþingi um starfslokasamning sem gerður var við annan forstjóra Byggðastofnunar, þ.e.: „Í starfslokasamningnum eru einnig ákvæði um ákveðna tilfærslu á lífeyrisréttindum. Um var að ræða að 40% af útreiknuðum eftirlaunaréttindum eftir 65 ára aldur færu í viðurkenndan séreignalífeyrissjóð“?
    Við ráðningu forstjórans fyrrverandi á árinu 1985 var gert sérstakt samkomulag um lífeyrisréttindi. Samkvæmt því samkomulagi skyldu gilda sömu reglur um lífeyrisréttindi forstjórans fyrrverandi og um lífeyrisréttindi bankastjóra Landsbanka Íslands. Þágildandi reglur um eftirlaun bankastjóra Landsbanka Íslands o.fl. voru fylgiskjal með samningnum. Í 2. gr. þeirra reglna sagði: „Til þess að fá full eftirlaun þarf að liggja fyrir fimmtán ára starf í Landsbankanum sem bankastjóri, enda hafi bankastjóri náð þeim starfstíma áður en hann varð 70 ára að aldri. Eftirlaunaréttur ávinnst þannig, að eftir eins árs starf sem bankastjóri nemur rétturinn 20% af þeim föstu mánaðarlaunum, sem bankaráð skal ákveða. Síðan ávinnast 5% eftirlauna af launum fyrir hvert ár, sem bætist við í starfi, þar til náð er eftirlaunum, sem nema 90% af mánaðarlaunum, eftir 15 ára starf.“
    Greiðslur iðgjalda voru inntar af hendi í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað mun lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins því greiða forstjóranum fyrrverandi lífeyri sem nemur réttindum hans samkvæmt almennum útreikningum á réttindum í B-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samkvæmt framangreindu samkomulagi átti forstjórinn fyrrverandi að auki rétt á að fá lífeyri greiddan frá Byggðastofnun, þannig að heildargreiðslur til hans frá Byggðastofnun og lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins yrðu 90% af launum hans.
    Þar sem forstjórinn fyrrverandi hafði verið í starfi í 15 ár er starfslokasamningurinn var gerður átti hann rétt á 90% launum eftir 65 ára aldur, samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi. Samkvæmt starfslokasamningnum voru 40% af þeim réttindum, miðað við 31. desember 2001, greidd í viðurkennda séreignalífeyrissjóði að vali forstjórans fyrrverandi gegn 40% lækkun lífeyrisréttinda hans. Talnakönnun hf. var fengin til þess að reikna út verðmæti lífeyrisréttindanna.
    Starfslokasamningurinn mælir því fyrir um að hluti af lífeyrisgreiðslum Byggðastofnunar til forstjórans fyrrverandi yrði greiddar í séreignarsjóði. Einungis var því um að ræða að stofnunin innti greiðsluskyldu sína af hendi fyrr en ráð var fyrir gert í ráðningasamningi. Þegar forstjórinn fyrrverandi hefur töku lífeyris standa því einungis eftir 60% af þeim lífeyrisréttindum sem mælt var fyrir um í ráðningasamningi hans.

     2.      Hversu háar greiðslur er hér um að ræða?

    Samkvæmt framansögðu voru 40% áunninna lífeyrisréttinda, 36.946.309 kr., greiddar í séreignarlífeyrissjóði að vali forstjórans fyrrverandi.
     3.      Hverjar eru forsendurnar fyrir útreikningi á þessum greiðslum og hver voru verðmæti samningsbundinna eftirlauna forstjórans?
    Byggðastofnun fékk Talnakönnun hf. til að reikna út lífeyrisréttindi forstjórans fyrrverandi. Tryggingafræðilegar forsendur útreikningsins voru að mestu þær sömu og notaðar voru við tryggingafræðilega úttekt á B-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, svo sem 2% vextir umfram launahækkanir og lífslíkur byggðar á reynslu áranna 1991 til 1995 á Íslandi. Samkvæmt því var miðað við að forstjórinn fyrrverandi næði rúmlega 79 ára aldri. Vikið var frá forsendum lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins annars vegar með því að miðað var við raunverulega hjúskaparstöðu forstjórans fyrrverandi en ekki hjúskaparlíkur eins og hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hins vegar að taka ellilífeyris hæfist við 65 ára aldur í samræmi við eftirlaunasamninginn. Hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er miðað við það að þeir sem eru í starfi í lok úttektarárs hefji töku ellilífeyris 68 ára gamlir.
    Verðmæti eftirlaunanna í heild námu 92.365.773 kr., samkvæmt útreikningum Talnakönnunar hf., miðað við 31. desember 2001 og voru 40% af þeirri fjárhæð greidd í séreignarlífeyrissjóði, eins og að framan er getið.

     4.      Voru þær greiddar út í peningum og hvenær eru þær til ráðstöfunar fyrir forstjórann fyrrverandi?

    Fyrrgreindar 36.946.309 kr. voru hinn 18. janúar 2002 greiddar í viðurkennda séreignarlífeyrissjóði er forstjórinn fyrrverandi valdi og koma til útborgunar samkvæmt reglum viðkomandi sjóða.

     5.      Í hvaða lífeyrissjóði er viðkomandi?

    Forstjórinn fyrrverandi var í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er hann starfaði hjá Byggðastofnun.

     6.      Samkvæmt hvaða lögum eru slíkar tilfærslur heimilar?

    Tilfærsla þessi byggist á samningi á milli Byggðastofnunar og forstjórans fyrrverandi. Með samningnum var Byggðastofnun losuð undan hluta af ábyrgð sinni á lífeyrisskuldbindingum gagnvart forstjóranum fyrrverandi gegn því að greiða tiltekna fjárhæð í séreignarlífeyrissjóð. Bent er á í því sambandi að óháður tryggingastærðfræðingur var fenginn til þess að reikna út lífeyrisrétt forstjórans fyrrverandi við gerð samningsins.
    Starfslokasamningurinn fjallar ekki um réttindi forstjórans fyrrverandi gagnvart lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins heldur lýtur hann einungis að þeim lífeyrisgreiðslum sem Byggðastofnun hefði tekið að sér að greiða samkvæmt ráðningasamningnum frá 1985.

     7.      Eru fordæmi fyrir slíkum tilfærslum á lífeyrisréttindum og hver eru þau?

    Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins fengu bankastarfsmenn að taka út 40% af áunnum lífeyrisréttindum og flytja í séreignarlífeyrissjóð við breytingu á lífeyrissjóði bankamanna (hlutfallsdeild í stigadeild) hinn 1. janúar 1998.

     8.      Hver var kostnaður ríkissjóðs við þetta ákvæði í starfslokasamningnum?

    Lífeyrisútreikningar Talnakönnunar hf. byggðust á þeirri forsendu að forstjórinn fyrrverandi næði ríflega 79 ára aldri. Gangi þær forsendur eftir er enginn kostnaður við þetta ákvæði samningsins.

     9.      Hver var kostnaður ríkissjóðs af starfslokasamningnum í heild og á hvaða fjárlagalið er gert ráð fyrir þeim kostnaði?
    Theodór Bjarnason var skipaður forstjóri Byggðastofnunar frá 1. janúar 2001. Samkvæmt starfslokasamningi við forstjórann fyrrverandi skyldi hann starfa hjá stofnuninni á árinu 2001, m.a. að flutningi og yfirfærslu stofnunarinnar frá Reykjavík til Sauðárkróks. Vegna þessara starfa hélt forstjórinn fyrrverandi fullum launum og öðrum réttindum til ársloka 2001. Heildarlaunagreiðslur til forstjórans fyrrverandi vegna þessara starfa námu 9,7 millj. kr. sem greiddar voru af fjárlagalið Byggðastofnunar, 11-411-110. Að öðru leyti vísast til svars við 8. lið fyrirspurnarinnar.

     10.      Hver er heildarkostnaður ríkissjóðs við þá starfslokasamninga sem gerðir hafa verið við forstjóra Byggðastofnunar og getið er um í svari ráðherra á þskj. 1001 á 128. löggjafarþingi?

    Heildargreiðslur til síðari forstjórans námu 19,6 millj. kr. Rétt er að taka fram að hann var skipaður til fimm ára í ársbyrjun 2001 og voru því þrjú og hálft ár eftir af skipunartíma hans er starfslokasamningur var gerður. Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að laun hans skerðist um sem nemur sex mánaðarlaunum finni iðnaðarráðherra starf hér á landi eða erlendis fyrir forstjórann fyrrverandi sem hann samþykkir að taka, fyrir 31. desember 2003. Varðandi fyrri forstjórann vísast til svars við 9. lið fyrirspurnarinnar.

     11.      Má gera ráð fyrir frekari útgjöldum ríkissjóðs vegna þessara starfslokasamninga?

    Nei.

     12.      Var ákvörðun um þessa starfslokasamninga tekin af stjórn Byggðastofnunar, í samráði við hana eða var hún alfarið á ábyrgð ráðherra?
    Fyrri forstjórinn var ráðinn til Byggðastofnunar á árinu 1985 á grundvelli laga nr. 64/1985, um Byggðastofnun. Samkvæmt þeim lögum var forstjóri ráðinn af stjórn stofnunarinnar. Stjórnin sá því um gerð starfslokasamnings við hann. Síðari forstjórinn var hins vegar skipaður af ráðherra í samræmi við 5. gr. núgildandi laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999. Því bar ráðherra ábyrgð á gerð starfslokasamnings við hann.