Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 268. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 301  —  268. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um formlegt samstarfs ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta kanna möguleika þess að efna til formlegs samstarfs ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum.

Greinargerð.


    Ýmis þjónusta innan velferðarkerfisins, í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum, dreifist milli ríkis, sveitarfélaga og ýmissa félagasamtaka og einstaklinga. Fyrir vikið má telja að „grá“ svæði myndist hvað varðar einstaka þætti þjónustunnar með þeim afleiðingum að gæði hennar verða ekki sem skyldi. Þá má ætla að fjármunir nýtist verr en ella fyrir vikið.
    Markmið þingsályktunartillögunnar er að kanna hvort ekki geti verið skilvirkara að efna til formlegs samstarfs ríkis, sveitarfélaga og einstakra rekstraraðila á umræddu sviði, t.d. með alhliða samstarfssamningi.
    Einstaklingur, sem nýtur þjónustu velferðarkerfisins, fellur undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti með suma þætti, félagsmálaráðuneyti með aðra þætti, sveitarstjórnir með enn aðra þætti og nýtur þjónustu sjálfseignarstofnana, sveitarfélaga og jafnvel áhugasamra einstaklinga. Margir aðilar koma þannig að þjónustu velferðarkerfisins. Að mörgu leyti er það flókið og að sumu leyti óskilvirkt. Trú flutningsmanna er sú að með formlegu og alhliða samstarfi þessara aðila megi bæta þjónustuna og nýta fjármuni betur, ekki síst til einföldunar fyrir skjólstæðingana. Segja má að hér sé um að ræða útvíkkaða aðferð við tilraunasveitarfélög á sviði heilbrigðismála eða þjónustu við fatlaða.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að kannaðir verði kostir og áhugi á slíku alhliða samstarfi og þeim þá hrint í framkvæmd reynist áhugi til staðar þannig að einn rekstraraðili taki að sér að sinna þjónustunni með fjármagni og samstarfi við aðra sem málið snertir.
    Í fylgiskjali má sjá teikningu Gríms Atlasonar, starfsmanns Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, þar sem dregin eru upp tengsl einstakra aðila er snerta þjónustu við fíkniefnaneytendur og geðfatlaða. Sambærilegur uppdráttur gæti átt við velferðarkerfið í heild sinni.


Fylgiskjal.

Grímur Atlason,
Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.