Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 427. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 593  —  427. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)


1. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að meta til gangverðs fjármálagerninga ef þeirra hefur verið aflað í þeim tilgangi að selja aftur eða til að hagnast á skammtímaverðbreytingum. Jafnframt er heimilt að meta til gangverðs skuldbindingar sem tengjast afleiðusamningum eða loforði um afhendingu fjármálagerninga sem enn eru ekki í eigu viðkomandi félags. Einnig má meta eignir og skuldbindingar sem þeim tengjast á gangverði þegar þessar eignir og skuldbindingar uppfylla kröfur um áhættuvörn í skilningi alþjóðlegra reikningsskilareglna og skulu slíkar eignir og skuldbindingar metnar til gangverðs eins og krafist er í þeim reikningsskilum.
    Ákvæði þetta nær þó ekki til:
     1.      útlána og viðskiptakrafna viðkomandi félags sem ekki er fyrirhugað að versla með,
     2.      fjármálagerninga, annarra en afleiðusamninga, sem ætlunin er að eiga fram að gjalddaga,
     3.      eignarhluta í dótturfélögum,
     4.      eignarhluta í hlutdeildarfélögum,
     5.      eignarhluta í samrekstrarfélögum, sbr. 3. mgr. 35. gr.,
     6.      eigin eignarhluta, skilyrts viðbótarverðs við sameiningu fyrirtækja, sem og annarra fjármálagerninga sem tengjast eigin fé viðkomandi félags,
     7.      allra annarra fjármálagerninga sem ekki er viðeigandi að færa á gangvirði samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum.
    Til fjármálagerninga teljast hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, þ.m.t. afleiður þar sem uppgjörsákvæði byggjast á breytingum á undirliggjandi þáttum á tilteknu tímabili, svo sem vöxtum, gengi gjaldmiðla, verðbréfaverði eða verðbréfavísitölu, eða þær tengjast breytingu á verði tiltekinna vörutegunda, enn fremur framseljanleg skilríki á eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum, svo sem hlutabréf.

2. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi.

    a. (29. gr. A.)
    Mat á fjármálagerningum og skuldbindingum til gangverðs skv. 29. gr. skal vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilareglur. Einungis er heimilt að beita slíku mati ef það byggist á áreiðanlegum upplýsingum um gangverð.
    Gangverð skal ákvarðað með tilliti til:
     1.      markaðsverðs þeirra fjármálagerninga sem eru á virkum markaði,
     2.      markaðsverðs undirliggjandi þátta í viðkomandi fjármálagerningi ef viðkomandi fjármálagerningur er ekki skráður á markaði,
     3.      virðis sem reiknað er út með almennum viðurkenndum virðislíkönum eða virðisaðferðum fyrir þær eignir sem ekki eru á markaði; slík virðislíkön og virðisaðferðir skulu gefa góða mynd af markaðsverði.
    Ef ekki er hægt að meta þessar eignir eða skuldbindingu til gangverðs samkvæmt framangreindum aðferðum skal matið byggjast á kostnaðarverði skv. 22. gr.

    b. (29. gr. B.)
    Á rekstrarreikning skal færa þær breytingar á virði fjármálagerninga og skuldbindinga sem metnar eru í samræmi við 29. gr. A, þrátt fyrir ákvæði a-liðar 3. tölul. 20. gr., sbr. þó 2. mgr. Þar með eru taldar breytingar á virði afleiðusamninga og annarra fjármálagerninga sem aflað hefur verið í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum.
    Slík breyting skal þó færð beint á gangvirðissjóð sem færður er með eigin fé þegar:
     1.      í reikningsskilum afleiðusamnings er byggt á að um sé að ræða áhættuvörn í skilningi alþjóðlegra reikningsskilareglna, að því marki sem þau leyfa að verðbreyting sé ekki tekin með í rekstrarreikningi, eða;
     2.      um er að ræða verðbreytingar á virði fjármálagerninga sem aflað er í þeim tilgangi að selja aftur, eða;
     3.      verðbreytingar tengjast gengismun sem verður á peningalegum liðum sem eru hluti af nettófjárfestingu félagsins í starfsemi erlendis.
    Leysa skal gangvirðissjóð upp til jafns við framkomnar breytingar á viðkomandi eign eða skuldbindingu þegar hún er seld eða innleyst eða forsendur fyrir verðbreytingunni eru ekki fyrir hendi.

3. gr.

    Á eftir 37. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (37. gr. A.)
    Veita skal eftirfarandi upplýsingar þegar fjármálagerningar eru metnir til gangverðs skv. 29. gr. A:
     1.      helstu forsendur sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangverð er ákvarðað skv. 3. tölul. 2. mgr. 29. gr. A,
     2.      breytingar á virði fyrir hvern flokk fjármálagerninga hvort sem breytingin hefur verið færð á rekstrarreikning eða á gangvirðissjóð,
     3.      umfang og eðli hvers flokks afleiðusamninga, þ.m.t. mikilvægi skilmála og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika framtíðarfjárstreymis, og
     4.      hreyfingar á gangvirðissjóði á árinu.

    b. (37. gr. B.)
    Veita skal eftirfarandi upplýsingar um þá fjármálagerninga, sbr. 29. gr., sem félag hefur ekki metið í ársreikningi sínum til gangverðs:
     1.      gangverð fyrir hvern flokk afleiddra fjármálagerninga ef hægt er að ákvarða það með einhverri þeirra aðferða sem fram kemur í 29. gr. A, og
     2.      umfang og eðli gerninganna.
    Þegar um er að ræða áhættufjármuni sem eru fjármálagerningar í skilningi 3. mgr. 29. gr. og niðurfærsla í samræmi við 24. gr. hefur ekki farið fram skal upplýsa um bókfært verð og gangverð einstakra eigna eða flokka eigna. Rökstyðja skal forsendur þess álits að um skammvinna verðlækkun sé að ræða.
    Fyrir fjárfestingar í dóttur- og hlutdeildarfélögum, sbr. 35. gr., skal jafnframt upplýst um gangverð einstakra eignarhluta eða eignaflokka.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 52. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í skýrslunni skal gera grein fyrir meginmarkmiðum og stefnu við áhættustýringu, enda geti breytingar á virði fjármálagerninga haft veruleg áhrif á rekstur og fjárhagsstöðu. Upplýsa skal sérstaklega með hvaða hætti mat á einstökum liðum í reikningsskilum, svo sem afleiðusamningum, byggist á slíkri markmiðssetningu í áhættustýringu og þeim áhættuþáttum sem máli geta skipt við mat á eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu. Gera skal grein fyrir markaðsáhættu, þ.e. vaxta-, gjaldeyris- og hlutabréfaáhættu, sem og útlánaáhættu og lausafjáráhættu í rekstri félagsins.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. og 2. tölul. 2. gr.“ í 2. mgr. 89. gr. laganna, sbr. 44. gr. laga nr. 56/2003, kemur: 1. og 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. A.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004 og skulu gilda um ársreikninga og samstæðureikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst frá og með þeim tíma.
    Með lögum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/ 65/EB um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga með takmarkaða ábyrgð, sem og banka og annarra fjármálastofnana.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um haustið 2000 var hafist handa á vegum fjármálaráðuneytisins að endurskoða lög nr. 144/1994, um ársreikninga, með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á vettvangi ESB. Frumvarp það sem hér er lagt fram er þriðja frumvarpið um endurbætur á ársreikningslögunum vegna breytinga innan ESB.
    Fyrsta frumvarpið um þessa endurskoðun, sem varð að lögum nr. 25/2002, heimilaði félögum sem uppfylltu tiltekin skilyrði að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Með öðru frumvarpi sem var lagt fram á síðasta löggjafarþingi og varð að lögum nr. 56/2003 var VI. kafli laganna um samstæðureikningsskil endursaminn og aðrar aðkallandi breytingar á lögunum gerðar.
    Þær tillögur sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi byggjast á félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/65/EB frá 27. september 2001 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga með takmarkaða ábyrgð eigenda, sem og banka og annarra fjármálastofnana. Tilskipun þessi var felld inn í EES-samninginn samkvæmt samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002. Tilskipunin kallar á breytingar á lögum nr. 144/ 1994, um ársreikninga, og ber breytingunum að ná til reikningsskila félaga vegna reikningsárs sem hefst 1. janúar 2004 eða síðar á því ári.
    Á undanförnum árum hefur framkvæmdastjórn ESB unnið að endurskoðun á fjórðu tilskipun sem fjallar um ársreikninga félaga með takmarkaða ábyrgð og sjöundu tilskipun sem fjallar um samstæðureikningsskil sömu félaga í samráði við samstarfsnefnd sem starfar skv. 52. gr. 4. tilskipunar. Allar aðildarþjóðirnar að EES-samningnum, þ.m.t. Ísland, eiga fulltrúa í þessari nefnd. Í þessum tilskipunum leggur ESB línurnar um það hvernig samanburðarhæf reikningsskil félaga í aðildarríkjum ESB eigi að líta út.
    Endurskoðunarvinnu á þessum tilskipunum hjá framkvæmdastjórn ESB er lokið, annars vegar með því að bæði Evrópuþingið og ráð Evrópusambandsins hafa samþykkt breytingar á tilskipunum með fyrrnefndri tilskipun nr. 2001/65/EB frá 27. september 2001, sem þetta frumvarp byggist á, og hins vegar með samþykkt tilskipunar nr. 2003/51/EB frá 18. júní 2003 sem fjallar um nútímavæðingu (e. modernisation) á tilteknum ákvæðum fjórðu og sjöundu tilskipananna. Verið er að fjalla um síðarnefndu tilskipunina í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Fyrrnefnda tilskipunin sem þetta frumvarp byggist á lýtur að því að vikið er frá þeirri kröfu 32. gr. fjórðu tilskipunar nr. 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð (félög með takmarkaða ábyrgð) að liðir ársreiknings séu metnir á grundvelli meginreglunnar um innkaupsverð eða kostnaðarverð. Undanþágu frá þessari reglu er þó að finna í 33. gr. tilskipunarinnar er heimilar endurmat eigna með tilliti til áhrifa verðbólgu á þá liði sem sýndir eru í ársreikningi og verðbólgureikningsskil á Íslandi byggðust á meðan þau voru við lýði. Samkvæmt tilskipuninni er þess krafist að aðildarríkin taki upp kerfi gangverðsreikningsskila (e. fair value accounting) fyrir tiltekna fjármálagerninga til að fjármálaupplýsingar innan bandalagsins séu samanburðarhæfar. Aðildarríkin skulu heimila öllum félögum eða flokkum félaga sem starfa samkvæmt fyrrnefndum tilskipunum að taka upp þetta kerfi, bæði fyrir ársreikninga og samstæðureikninga, svo og samstæðureikninga eingöngu.
    Með þessari tilskipun nr. 2001/65/EB hefur Evrópusambandið unnið að samræmingu milli fjórðu og sjöundu tilskipunar um reikningsskil hefðbundinna fjármálaskjala eins og hlutabréfa og skuldabréfa og þróun í setningu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, einkum innan alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee IASC), og á notkun margs konar afleiddra fjármálagerninga, svo sem framvirkra samninga, valréttar- og skiptasamninga. Til að koma á slíku samræmi milli alþjóðlegra viðurkenndra reikningsskilastaðla og tilskipana ESB um reikningsskil hefur verið talið nauðsynlegt að breyta þessum tilskipunum til að leyfa notkun alþjóðlegra reikningsskilastaðla í tengslum við greiningu og mat á fjármálagerningum. Þessi heimild gerir evrópskum félögum kleift að gera reikningsskil í samræmi við þróun á alþjóðavettvangi. Reikningsskil samkvæmt þessari tilskipun byggist á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum IAS nr. 32 og 39 sem fjalla um mat og greiningu á fjármálagerningum. Þó bregður svo við að þessir staðlar eru ekki meðal þeirra reikningsskilastaðla sem verða innleiddir þegar reglugerð nr. 2002/1606/EB gengur í gildi 1. janúar 2005 þar sem ekki hefur náðst samstaða um tiltekna þætti þeirra innan ESB. Þeir eru í endurskoðun hjá arftaka alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar, þ.e. hjá alþjóðlega reikningsskilaráðinu, og er reiknað með endurútgáfu þeirra á árinu 2004. Engu síður verður litið til þeirra aðferða og reglna sem staðlarnir mæla með við framkvæmd á þessari tilskipun.
    Seinni tilskipunin nr. 2003/51/EC, 18. júní 2003, lýtur að því að aðlaga tilskipanirnar að öðru leyti efnislega alþjóðlegum reikningsskilastöðlum þannig að aðildarríkin geti heimilað félögum að fylgja ákvæðum þeirra við samningu ársreikninga sinna og samstæðureikninga. Áður hafði Evrópuþingið og ráðið samþykkt 19. júlí 2002 reglugerð nr. 1606/2002/EB sem kveður á um skyldu allra skráðra félaga í kauphöllum á EES-svæðinu til að semja samstæðureikninga sína samkvæmt reikningsskilastöðlum alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar og síðar arftaka þess, alþjóðlega reikningsskilaráðsins. Hafinn er undirbúningur að samningu frumvarpa um hvort tveggja, þ.e. um breytingu á lögum um ársreikninga í samræmi við tilskipun 2003/51/EC vegna félaga sem ekki verða skyld til að semja ársreikninga sína samkvæmt reglugerð nr. 1606/2002/EB og um lögleiðingu þeirrar reglugerðar sem skyldar skráð félög til að semja samstæðureikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Verða frumvörp þess efnis lögð fyrir Alþingi á árinu 2004.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2001/51/EB ber að heimila félögum eða flokkum félaga sem falla undir ákvæði laga um ársreikninga að taka upp kerfi gangverðsreikningsskila (e. fair value accounting). Enn fremur er heimilt að leggja slíka skyldu á félög eða flokk félaga. Í frumvarpinu er lagt til að þetta verði heimildarákvæði en við það að innleiða fyrrnefnda reglugerð nr. 1606/2002/EB í lög á næsta ári verður skráðum félögum í kauphöll skylt að fara eftir gagnverðsreikningsskilum við mat á fjármálagerningum, a.m.k. í samstæðureikningsskilum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er lagt til að heimilað verði en ekki skylt að meta til gangverðs tiltekna fjármálagerninga samkvæmt nánari skilgreiningum. Þeir sem nýta þessa heimild laganna til að meta fjármálagerninga sína á gangverði verða að hlíta reglum um gangverðsreikningsskil sem settar eru fram í þessu frumvarpi og þeim alþjóðlegu reikningsskilareglum sem tilskipun ESB á þessu sviði byggist á. Hugtökin gangverð og gangverðsreikningsskil eru hér notuð í frumvarpi þessu fyrir ensku orðin „fair value“ og „fair value accounting“. Gangverð er hér notað sem yfirhugtak um metið söluverðmæti fjármálagerninga og skuldbindinga. Þegar virkur markaður er fyrir hendi fer saman markaðsverð (e. market value) og gangverð, en markaðsverð er skilgreint sem það verð sem fram hefur komið á virkum opinberum markaði á tilgreindum tíma. Gangverð er aftur á móti víðtækara hugtak sem einnig er notað yfir mat eigna sem er grundvallað á markaðsvirði undirliggjandi þátta í fjármálagerningi eða á annan hátt metið samkvæmt viðurkenndum virðislíkönum eða virðisaðferðum.
    Önnur hugtök sem notuð hafa verið um „fair value“ eru t.d. sannvirði, raunvirði, dagvirði, markaðsverð, matsverð o.fl.
    Ákvæði 1. mgr. nær til fjármálagerninga sem aflað er í þeim tilgangi að selja aftur (e. available for sale) eða er aflað til að hagnast á verðbreytingum sem verða innan skamms eignarhaldstíma (e. trading). Jafnframt nær þetta ákvæði til tiltekinna skuldbindinga, þ.e. vegna afleiðusamninga og skuldbindinga sem tengjast loforði um afhendingu fjármálagernings sem félagið hefur enn ekki aflað. Um er að ræða skuldbindingu vegna svokallaðrar skortsölu verðbréfa (e. short sale).
    Einnig má meta eignir og skuldbindingar sem þeim tengjast á gangverði þegar þessar eignir og skuldbindingar uppfylla kröfur alþjóðlegra reikningsskilareglna um áhættuvörn og skulu þær þá færðar eins og krafist er í þeim reikningsskilum. Er í þessu sambandi verið að vísa til svokallaðra baktryggingarreikningsskila (e. hedge accounting) sem gera ráð fyrir að áhættuvörn, í formi fjármálagernings, svo sem afleiðusamnings, sé tengd tilteknum eignum og skuldum eða framtíðarviðskiptum strax í upphafi. Í fyrsta lagi getur verið um að ræða áhættuvörn gagnvart tilteknum eignum og skuldum sem eru fyrir hendi í félaginu, gangverðsáhættuvörn (e. fair value hedge), í öðru lagi áhættuvörn gagnvart væntanlegum viðskipum eða samningum, sjóðsáhættuvörn (e. cash flow hedge), og í þriðja lagi er um að ræða vörn gagnvart nettófjárfestingum í erlendri starfsemi (e. hedge of a net investement in a foreign entity).
    Í 2. mgr. eru taldir upp þeir fjármálagerningar sem ekki má meta til gangverðs. Er þar fyrst að nefna útlán og viðskiptakröfur félaga í tengslum við viðskipti sín, sölu og kaup á vörum og þjónustu, einnig fjármálagerninga, aðra en afleiðusamninga, sem ætlunin er að eiga fram að gjalddaga.
    Ekki má heldur meta til gangverðs eignarhluta í tengdum félögum, svo sem dótturfélögum, hlutdeildarfélögum eða samrekstrarfélögum, eða eigin eignarhluta, skilyrt viðbótarverð við sameiningu félaga og aðra fjármálagerninga sem tengjast eigin fé félagsins. Þá má ekki meta til gangverðs aðra fjármálagerninga sem ekki er viðeigandi að færa á gangvirði samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum.
    Í 3. mgr. er hugtakið fjármálagerningur (e. financial instrument) skilgreint og er það notað í sömu merkingu og í lögum um verðbréfaviðskipti. Fjármálagerningur er samheiti eða yfirhugtak yfir hvers kyns afurðir fjármálamarkaðar, svo sem verðbréf, afleiður, hlutdeildarskírteini og peningagerninga. Þróun fjármálamarkaða hefur sýnt að nýjar tegundir fjármálagerninga líta reglulega dagsins ljós og eru því ekki taldir upp á tæmandi hátt í lögum um verðbréfaviðskipti. Því er líklegt að fleiri afurðir fjármálamarkaðarins sem eiga eftir að líta dagsins ljós geti einnig fallið undir lögin, enda hafi þeir fjármálagerningar svipað eðli og þeir sem taldir hafa verið upp. Í lögum um verðbréfaviðskipti er hugtakið verðbréf skilgreint sem hlutabréf, skuldabréf, skiptanleg verðbréf og breytanleg verðbréf. Afleiður eru aftur á móti samningar þar sem verðmæti samnings er leitt af verðbreytingum einhvers annars þáttar eða eignar, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla eða vísitalna. Hjá einni tegund afleiðna er undirliggjandi þáttur breytingar á verði tiltekinnar vörutegundar. Hér er um að ræða samning, afleiðu (e. derivatives on commodity) þar sem viðmiðunarverðmætið er háð þróun verðmætis viðkomandi vöru sem tilgreind er í samningnum. Samningurinn er því ekki gerður upp á þann hátt að viðkomandi vara sé nokkurn tíma afhent, heldur eru verðbreytingar vörunnar sem um ræðir aðeins notaðar til viðmiðunar við uppgjör samningsins. Algengustu afleiðusamningarnir eru framvirkir samningar (e. forward/future contracts) og valréttarsamningar (e. options). Munurinn á framvirkum samningum og valréttarsamningum er í grófum dráttum munurinn á skyldu og rétti. Framvirkur samningur er óafturkræfur samningur á milli tveggja aðila um kaup eða sölu á tiltekinni eign á tilteknu verði á tilteknum tíma í framtíðinni. Valréttarsamningur veitir hins vegar kaupanda sínum rétt, ekki skyldu, til að kaupa eða selja eign á ákveðnu verði á ákveðnum tíma eða tímabili.
    Með breytingu á þessari grein er jafnframt verið að fella niður heimild til að meta skráð verðbréf sem ekki eru ætluð til varanlegrar eignar á síðasta skráða kaupverði í stað kostnaðarverðs enda lagt til að í staðinn komi heimild til að nota gangverð.

Um 2. gr.


    Í a-lið greinarinnar eru ákvæði um leiðir og aðferðir til að meta fjármálagerninga og skuldbindingar til gangverðs.
    Samkvæmt 1. mgr. skal mat þetta vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilareglur og er þá átt við alþjóðlega reikningsskilastaðla, nú IAS 39. Einungis er heimilt að beita slíku mati að það byggist á áreiðanlegum upplýsingum um gangverð og farið sé í einu og öllu eftir viðurkenndum reikningsskilareglum.
    Í 2. mgr. eru taldar upp þrjár leiðir til að leiða út gangverðið á hverri einstakri eign.
    Í fyrsta lagi skal nota markaðsverð (e. market value). Með markaðsverði er átt við verð sem fram hefur komið á virkum markaði á tilgreindum tíma.
    Í öðru lagi má reikna gangverð út frá upplýsingum um markaðsverð undirliggjandi þátta í viðkomandi fjármálagerningi ef sjálfur gerningurinn er ekki skráður á markaði.
    Í þriðja lagi má reikna út gangverðið með almennum virðislíkönum eða virðisaðferðum fyrir þær eignir sem ekki eru á markaði og verða slík líkön eða aðferðir að geta gefið góða mynd af markaðsverðinu. Í skýringum með ársreikningi, sbr. 4. gr., verður að gera fullnægjandi grein fyrir þessum líkönum og aðferðum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það að meta skuli eignir og skuldbindingar á kostnaðarverði skv. 22. gr. laganna þegar ekki er hægt að beita þeim aðferðum sem lýst er í 2. mgr.
    Rétt er að taka fram að samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum er sérstaklega tiltekið að óskráð hlutabréf, eða afleiðusamningar sem tengjast slíkum verðbréfum, uppfylla ekki alltaf skilyrði um áreiðanlegar upplýsingar um gangverð, enda er í þeim tilfellum ekki til að dreifa skráðu verði á virkum markaði sem hægt er að byggja mat eða virðislíkön á.
    Samkvæmt 54. gr. C í lögunum skulu í samstæðureikningi notaðar sömu matsaðferðir og í ársreikningi móðurfélags þannig að ekki er þörf á sérstöku ákvæði um mat þessara eigna og skuldbindinga í VI. kafla laganna.
    Í b-lið greinarinnar eru ákvæði um að færa skuli verðbreytingarnar sem leiðir af mati fjármálagerninga samkvæmt ákvæðum 29. gr. A annaðhvort í rekstrarreikning eða á sérstakan reikning, gangvirðissjóð, meðal eigin fjár á efnahagsreikningi.
    Í skilningi hefðbundinna reikningsskila eru tekjur að jafnaði skráðar þegar til þeirra hefur verið unnið án tillits til þess hvort þær hafi verið innheimtar eða ekki. Almennt er þó gert ráð fyrir að tekjur séu innleystar eða innleysanlegar þegar þær eru skráðar. Tekjur eru því ekki skráðar þótt eign hækki í verði á reikningsári, svo sem vegna markaðsaðstæðna. Með innleiðingu 29. gr. A er vikið frá þessari meginreglu hvað varðar mat á fjármálgerningum og í þessari grein er síðan nánar skilgreint með hvaða hætti eigi að fara með verðbreytingar sem leiðir af þessu.
    Mismunur á því hvort verðbreytingar séu færðar í rekstrarreikning og þannig sem hluti rekstrarafkomu á eigið fé á efnahagsreikningi eða beint á gangvirðissjóð á meðal eigin fjár hefur áhrif á heimildir félaga til greiðslu arðs til hluthafa og aðrar heimildir þeirra til ráðstöfun eigin fjár samkvæmt lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög. Þar sem það er meginreglan að félag ráðstafi ekki eigin fé fyrr en tekjur þess eru í hendi er þýðingarmikið að það sé vel skilgreint hvaða verðbreytingar skuli færa á rekstrarreikning og hvaða beint á gangvirðissjóð meðal eigin fjár. Annars getur félag hafa ráðstafað hagnaði vegna framtíðarvæntinga en þegar tekjur eru að lokum í hendi félagins við innlausn eða sölu eru þær aðrar og lægri en voru í fyrri uppgjörum félagsins.
    Samkvæmt 1. mgr. skal færa í rekstrarreikning þær breytingar á virði fjármálagerninga og skuldbindinga sem metnar eru í samræmi við ákvæði 29. gr. A, sbr. þó 2. mgr. Hér er um að ræða t.d. verðbreytingu á fjármálagerningi sem félag hefur aflað sér í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum og sem það áformar að selja þegar besta verð býðst á markaði (e. trading). Rétt er að taka fram að ákvæði þessarar málsgreinar nær til allra annarra afleiðusamninga en þeirra sem uppfylla skilyrðin sem fram eru sett í IAS 39, um að vera áhættuvörn (e. hedging instrument).
    Í 2. mgr. er kveðið á um það hvenær verðbreytingar sem leiðir af 29. gr. A skuli færðar á sérstakan reikning, gangvirðissjóð, meðal eigin fjár. Gangvirðissjóður á að sýna allar verðbreytingar sem verða á fjármálagerningum sem metnir eru á gangverði aðrar en þær verðbreytingar sem færast beint á rekstrarreikning.
    Í 1. tölul. er kveðið á um að við reikningsskil afleiðusamnings sem er áhættuvörn í skilningi alþjóðlegra reikningsskilareglna skuli verðbreytingin færð í gangvirðissjóð ef alþjóðlegar reikningsskilareglur gera það ekki að skyldu að hún færist í rekstrarreikning. Hér getur verið um að ræða afleiðusamning vegna framtíðarviðskipta, t.d. kaup á rekstrarfjármunum, sem telst vera sjóðsáhættuvörn í skilningi alþjóðlegra reikningsskilareglna. Verðbreyting afleiðusamnings fram að kaupdegi þessara rekstrarfjármuna er færð á gangvirðissjóð, en er færð af gangvirðissjóði til hækkunar/lækkunar á kostnaðarverði viðkomandi eignar við kaup hennar.
    Samkvæmt 2. tölul. er skylt að færa á gangvirðissjóð breytingar á virði fjármálagerninga sem aflað er til að selja aftur (e. available for sale). Í þessu sambandi er rétt að árétta þann mun sem er á meðferð virðisbreytinga fjármálagerninga sem aflað er í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum (e. trading) og færðar eru í rekstrarreikning og virðisbreytinga fjármálagerninga sem aflað er í þeim tilgangi að selja aftur (e. available for sale) sem færast á gangvirðissjóð. Varðandi skiptingu fjármálagerninga í framangreinda flokka verður að gera ráð fyrir að í hinu síðarnefnda sé einungis fjárfest í fjármálagerningum sem hægt er að selja á virkum markaði eða sem tengjast verðþróun á slíkum markaði. Af því leiðir að það eru fyrst og fremst skráð markaðsverðbréf sem falla í þennan flokk, auk afleiðusamninga annarra en þeirra sem uppfylla skilyrði alþjóðlegra reikningsskilareglna um að vera áhættuvörn.
    Í 3. tölul. er kveðið á um það að ef verðbreytingin tengist gengismun sem verður á peningalegum liðum sem eru hluti af nettófjárfestingu félagsins í starfsemi erlendis skal færa verðbreytinguna á gangvirðissjóð. Til dæmis er gengismunur af lánum vegna fjárfestingar í erlendri starfsemi færður á gangvirðissjóð.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um upplausn á gangvirðissjóði. Hann skal leystur upp til jafns við framkomnar breytingar á viðkomandi eign eða skuldbindingu þegar hún er seld eða innleyst eða forsendur fyrir verðbreytingunni eru ekki lengur fyrir hendi. Færist þá uppsöfnuð verðbreyting á rekstrarreikning nema um sé að ræða sjóðsáhættuvörn sem færa ber á viðkomandi eign, sbr. athugasemd við 1. tölul. 2. mgr.

Um 3. gr.


    Í a-lið þessarar greinar eru ákvæði um að í skýringum með ársreikningi skuli gera grein fyrir helstu forsendum sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangverðið er ákvarðað skv. 3. tölul. 2. mgr. 29. gr. A. Einnig skal gera grein fyrir breytingu á virði fyrir hvern flokk fjármálagerninga hvort sem breytingin hefur verið færð á rekstrarreikning eða gangvirðissjóð. Þá skal gera grein fyrir umfangi og eðli fyrir hvern flokk afleiðusamninga og um mikilvægi skilmála og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika framtíðarfjárstreymis. Þá skal birta töflu sem sýnir breytingar á gangvirðissjóði á árinu.
    Í b-lið greinarinnar eru ákvæði um að félög sem ekki hafa nýtt sér heimild til að meta eignir og skuldbindingar á gangverði skuli samt sem áður greina frá gangverði þeirra í skýringum.
    Í 1. mgr. kemur fram að greina skuli frá gangvirði fyrir hvern flokk afleiddra fjármálagerninga í samræmi við 29. gr. A og greina frá umfangi þeirra og eðli.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að þegar um er að ræða áhættufjármuni (e. financial fixed assets) sem eru fjármálagerningar í skilningi 3. mgr. 29. gr. og niðurfærsla í samræmi við 24. gr. hefur ekki farið fram, skuli upplýsa um bókfært verð og gangverð einstakra eigna eða flokka eigna. Rökstyðja skal forsendur þess álits að um skammvinna verðlækkun sé að ræða.
    Samkvæmt 3. mgr. skulu félög upplýsa um gangverð einstakra eignarhluta eða eignarflokka fyrir fjárfestingar þeirra í dóttur- og hlutdeildarfélögum.

Um 4. gr.


    Samkvæmt þessari grein skal stjórn félagsins gera grein fyrir meginmarkmiðum og stefnu í áhættustýringu í rekstri félagsins í skýrslu sinni til hluthafa, enda geti breytingar á virði fjármálagerninga haft veruleg áhrif á rekstur og fjárhagsstöðu félagsins. Í skýrslunni skal greina sérstaklega með hvaða hætti mat á einstökum liðum í reikningsskilum félagsins byggist á slíkri markmiðssetningu í áhættustýringu og þeim áhættuþáttum, svo sem varðandi framtíðarviðskipti, sem máli skipta við matið. Enn fremur skal gera grein fyrir markaðsáhættu, sem og útlánaáhættu og lausafjárstöðu í rekstri félagsins. Með markaðsáhættu er átt við þau áhrif sem breytingar á markaðsvöxtum, gengi gjaldmiðla eða á skráðu gengi hlutabréfa geta haft á rekstur eða fjárhagsstöðu viðkomandi félags.

Um 5. gr.


    Í greininni er leiðrétting á tilvísun í lagagrein.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga,
nr. 144/1994, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga með takmarkaða ábyrgð eigenda, sem og banka og annarra fjármálastofnana. Ákvæðum frumvarpsins er ætlað að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins á þessu sviði í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóð.