Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 530. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1191  —  530. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Friðgeirssonar um fjárveitingar til rannsóknastofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mikið fé var veitt úr opinberum sjóðum á vegum menntamálaráðuneytis til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs eftirtalinna stofnana árin 2001, 2002 og 2003 og úr hvaða sjóðum rann féð, hver ákvað fjárveitingarnar og á hvaða forsendum:
    Háskóla Íslands,
    Félagsvísindastofnunar Háskólans,
    Guðfræðistofnunar Háskólans,
    Bókmenntafræðistofnunar Háskólans,
    Heimspekistofnunar Háskólans,
    Íslenskrar málstöðvar,
    Málvísindastofnunar Háskólans,
    Sagnfræðistofnunar Háskólans,
    Stofnunar Sigurðar Nordals,
    Orðabókar Háskólans,
    Stofnunar í erlendum tungumálum,
    Stofnunar Árna Magnússonar,
    Hugvísindastofnunar Háskólans,
    Lagastofnunar Háskólans,
    Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði,
    Rannsóknastofu í heilbrigðisfræði,
    Rannsóknastofu í líffærafræði,
    Lífeðlisfræðistofnunar Háskólans,
    Rannsóknastofu í meinafræði,
    Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum,
    Raunvísindastofnunar Háskólans,
    Líffræðistofnunar Háskólans,
    Rannsóknaseturs Vestmannaeyja,
    Verkfræðistofnunar Háskólans,
    Viðskiptafræðistofnunar Háskólans,
    Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns,
    Rannsóknaþjónustu Háskólans,
    Sjávarútvegsstofnunar Háskólans,
    Rannsóknastofu í kvennafræðum,
    Alþjóðamálastofnunar Háskólans,
    Umhverfisstofnunar Háskólans,
    Háskólans á Akureyri,
    Kennaraháskóla Íslands,
    Tækniháskóla Íslands,
    Listaháskóla Íslands,
    Viðskiptaháskólans á Bifröst,
    Háskólans í Reykjavík,
    Námsmatsstofnunar,
    Þjóðminjasafns Íslands,
    Norrænu eldfjallastöðvarinnar,
    Listasafns Íslands?


    Á árunum 2001–2003 fór opinbert fé til þeirra þátta sem spurt er um í gegnum sjóði Rannsóknarráðs Íslands, RANNÍS. Ráðið starfaði samkvæmt lögum nr. 6/1994 sem sjálfstæð stofnun sem heyrði undir ráðuneytið. Hlutverk þess var að treysta stoðir íslenskrar menningar og atvinnulífs með því að stuðla að markvissu vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun. Ráðið mótaði úthlutunarstefnu og veitti styrki úr sjóðum í vörslu þess, en ákvarðanir ráðsins voru ekki kæranlegar til menntamálaráðneytisins. Fjárveitingar til sjóðanna voru ákveðnar á fjárlögum hverju sinni.
    Sjóðir í vörslu og umsýslu Rannsóknarráðs Íslands á þessu tímabili voru:
     1.      Vísindasjóður. Úthlutað var að fengnum tillögum sérstakrar úthlutunarnefndar eftir umfjöllun fagráða á fjórum sviðum vísinda.
     2.      Tæknisjóður. Úthlutað að fengnum tillögum sérstakrar nefndar eftir umfjöllun fagráða á þremur sviðum hagnýtra rannsókna og tækni.
     3.      Bygginga- og tækjasjóður. Úthlutað að fengnum tillögum undirnefndar ráðsins eftir umfjöllun formanna fagráða Vísindasjóðs og Tæknisjóðs með hliðsjón af faglegum kröfum sjóðanna og frammistöðu og rannsóknavirkni umsækjenda.
     4.      Markáætlun um rannsóknir á sviði upplýsingatækni og umhverfismála 1998–2004. Útlutun ákveðin að fengnum tillögum sérstakrar úthlutunarnefndar eftir umfjöllun tveggja fagráða á þessum sviðum.
     5.      Rannsóknanámssjóður sem starfar undir sérstakri stjórn skipaðri af menntamálaráðherra. Úthlutað af stjórninni á grundvelli faglegs mats og umsagna frá vísindanefndum eða fagaðilum viðkomandi háskóla.
     6.      Launasjóður fræðirithöfunda sem starfar undir sérstakri stjórn skipaðri af menntmálaráðherra. Úthlutað af stjórninni á grundvelli faglegs mats.
    Um starfshætti og matsforsendur við undirbúning að úhlutunum fyrir þessa sjóði vísast til ítarlegra ársskýrslna Rannsóknarráðs Íslands, síðast fyrir árið 2002, en þær eru aðgengilegar á vef RANNÍS, rannis.is.
    Fyrirspurnin nær fyrst og fremst til styrkveitinga fjögurra fyrst töldu sjóðanna til tiltekinna stofnana. Greiðslur úr Rannsóknanámssjóði og Launasjóði fræðirithöfunda fara allar til einstaklinga og eru því ekki tilteknar hér. Verkefnastyrkir og tækjastyrkir fara í ýmsum tilvikum á reikning einstakra stofnana. Það ber hins vegar að athuga að styrkir eru alla jafna ekki veittir ákveðnum stofnunum heldur einstaklingum eða hópum sem undir stjórn verkefnisstjóra skipta fjármagninu niður á einstaka verkþætti. Fyrsti umsækjandi eða vinnustaður hans er ávallt skráður fyrir allri fjárhæðinni í kerfinu, jafnvel þótt aðrir aðilar kunni að fá hluta hennar. Kerfið sem Rannsóknamiðstöð Íslands notar getur því ekki svarað með beinum hætti fyrirspurn þessari í þeim anda sem spurt er. Ef aðilar sem fyrirspyrjandi nefnir eru annar eða þriðji umsækjandi þá koma þeir ekki fram á listanum, þótt þeir fái hluta greiðslnanna. Hins vegar væri hægt að svara því hvert styrkirnir voru greiddir og hver annast bókhaldið fyrir hvert verkefni. Meiri hluti allra verkefna fólu í sér samvinnu tveggja eða fleiri aðila sem ýmist störfuðu við háskólastofnanir, rannsóknastofnanir eða fyrirtæki. Svarið felur þess vegna ekki í sér nákvæmar upplýsingar um endanlegan viðtakanda fjármunanna. Þetta ber að hafa í huga við túlkun talnanna.
    Fyrir tvo fyrst töldu sjóðina, sem störfuðu í samræmi við ákvæði laga nr. 61/1994 um Rannsóknarráð Íslands, var sett á fót sérstök úthlutunarstjórn sem skipuð var af Rannsóknarráði Íslands til þriggja ára í senn. Rannsóknarráð valdi jafnframt einstaklinga til setu í fagráðum sem höfðu það hlutverk að meta umsóknir sem auglýst var eftir ár hvert. Einstaklingar sem sátu í fagráðum áttu ekki sæti í úthlutunarstjórnum. Þetta var gert til að auka trúverðugleika aðferðarinnar við að velja á milli umsókna. Rannsóknarráð fékk tillögur úthlutunarnefnda til ákvörðunar. Ráðið samþykkti tillögurnar en gaf umsækjendum kost á að kæra afgreiðslur ef þeir gætu sýnt fram á að þær byggðust ekki á málaefnalegum forsendum. Rannsóknarráð gat þá úrskurðað um styrkveitingar að nýju. Ekki var hægt að skjóta þeirri niðurstöðu til ráðherra.
    Rannsóknarráð Íslands markaði á þessum árum úthlutunarstefnu sjóðanna og setti úthlutunarreglur. Viðmiðanir fyrir styrkveitingum voru birtar í auglýsingum eftir styrkjum og í leiðbeiningum sem unnar voru af skrifstofu ráðsins undir stjórn þesss. Viðmiðanir Vísindasjóðs voru einkum hefðbundnar viðmiðanir vísindasamfélagsins þar sem lögð var áhersla á fagleg gæði, reynslu umsækjenda, vísindalegt nýnæmi og sambærileg atriði. Jafningjamati var undantekningarlaust beitt í umfjöllun um umsóknir. Ef þurfa þótti voru fleiri sérfræðingar kallaðir til, innlendir og erlendir. Hjá Tæknisjóði var auk hefðbundinna vísindalegra viðmiðana og jafningjamats, með áherslu á vísindaleg gæði, reynslu umsækjenda, o.s.frv., lögð áhersla á að meta nýnæmi í verkefnum sem sótt var um styrki til, gagnsemi fyrir atvinnulíf og líkur á hagnýtingu o.fl. Við ferli styrkveitinga hefur í veigamiklum atriðum verið byggt á erlendum fyrirmyndum sem lagaðar hafa verið að hérlendum aðstæðum. Gerður var samningur um sérhverja styrkveitingu og í þeim voru mælistikur sem styrkþegar skyldu ná áður en til greiðslu á styrkhlutum kæmi. Oftar en ekki var um samfjármögnun verkefna að ræða þannig að styrkur sjóða í vörslu Rannsóknarráðs Íslands nýttist mjög til að laða fram framlög frá öðrum aðilum, stofnunum, háskólum, fyrirtækjum og öðrum sjóðum, innlendum og erlendum.Veittir voru ýmis konar styrkir, m.a. hefðbundnir verkefnastyrkir, rannsóknastöðustyrkir, forverkefnisstyrkir, styrkir til að undirbúa umsóknir um erlenda styrki, ofl. Styrktímabil var allt að þremur árum, eftir eðli verkefna og með fyrirvara um fjárveitingar Alþingis. Öllum verkefnum lauk/lýkur með lokaskýrslu.
    Starfsemi Bygginga- og tækjasjóðs byggðist mjög á starfsemi Vísindasjóðs og Tæknisjóðs og hafði sömu viðmið um gæði og skilvirkni verkefna til hliðsjónar eftir því sem tök voru á og tækjakaup tengdust verkefnum sem farið höfðu í gegnum mat fagráða. Formenn fagráða mátu allar umsóknir Bygginga- og tækjasjóðs með hliðsjón af þessu, en undirnefnd ráðsins gerði tillögu um úthlutanir. Í undirnefnd sátu alla jafna fulltrúar atvinnulífs í Rannsóknarráði og einstaklingar sem ekki höfðu hagsmuna að gæta í neinum opinberum stofnunum.
    Með bréfi menntamálaráðherra til Rannsóknarráðs Íslands á árinu 1998 var ráðinu falið að skilgreina sérstaka markvissa rannsóknaráætlun á sviði upplýsingatækni og umhverfisrannsókna. Starfshópar skilgreindu markmið áætlunarinnar og gerðu tillögu um úthlutunarstefnu og áherslur sem Rannsóknarráð fjallaði um og lagði fyrir ráðherra. Ríkisstjórnin samþykkti tillögur ráðherra árið 1999 um fimm ára áætlun sem lýkur í ár og skyldi verja um 580 millj. kr til áætlunarinnar á tímabilinu. Samþykkt ríkisstjórnarinnar fól í sér forgangsröðun og skiptingu fjármuna á einstök áherslusvið. Fyrir markáætlun var valin sérstök framkvæmdanefnd, skipuð fulltrúum úr Rannsóknarráði Íslands. Sérstök fagráð gegndu sambærilegu hlutverki í að meta gæði umsókna um styrki í markáætlun og fyrir hina sjóðina. Vinnubrögð voru hin sömu og hjá Tæknisjóði og Vísindasjóði. Einnig hér var leitað samfjármögnunar við aðra aðila til að auka umfang verkefnanna. Markáætlun var nýjung í fjármögnun rannsókna hér á landi. Þar voru einkum styrktir rannsóknarhópar, þ.e. eins konar millistig milli stofnanafjárveitinga og hefðbundinna verkefnisstyrkja úr öðrum samkeppnissjóðum. Markmið fyrir tímabundnar fjárveitingar til rannsókna höfðu ekki verið sett áður með þessum hætti.
    Loks má nefna áætlun um tungutækni sem ráðherra hratt af stað síðla árs 2000. Þar er um að ræða þriggja ára áætlun og voru 104 millj. kr til ráðstöfunar. Skipuð var sérstök stjórn áætlunarinnar. Mörg verkefna sem hlotið hafa styrki úr tungutækniátaki ráðuneytisins eru á mörkum rannsókna, þróunar og nýsköpunar á þessu afmarkaða sviði. Í listanum hér á eftir eru tilgreindir styrkir sem að hluta hafa runnið til stofnana á lista fyrirspyrjanda. Vakin er athygli á því að um er að ræða fremur stóra styrki og að jafnan er um að ræða samstarf milli nokkurra aðila, háskólastofnana, rannsóknastofnana, annarra stofnana og fyrirtækja, einkum á sviði upplýsingatækni. Bróðurpartur þessa fjár hefur reyndar runnið til fyrirtækja.

Styrkir sem að hluta hafa runnið til stofnana á lista fyrirspyrjanda.
2001 2002 2003
Vísindasjóður
Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1.100 1.000 1.500
Félagsvísindadeild Háskóla Íslands 7.800 6.215 7.300
Félagsvísindastofnun 2.000
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands 600 2.700 3.000
Háskóli Íslands 9.550 5.000 6.000
Háskólinn í Reykjavík 1.600 600
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 800 1.000 1.000
Hugvísindastofnun Háskóla Íslands 3.000 2.000 2.000
Jarð- og landfræðiskor 1.400 1.500
Kennarháskóli Íslands 600 1.800 1.500
Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands 2.450 1.700 1.000
Lífefna- og sameindalíffræðistofa 1.000 1.000 1.000
Lífefna- og sameindalíffræðistofa Háskóla Íslands 1.200 1.000
Líffræðistofnun Háskóla Íslands 10.100 4.100 8.500
Lyfjafræðideild Háskóla Íslands 4.200 4.000 1.500
Lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði
700

1.000

1.000
Læknadeild Háskóla Íslands 1.200 1.500
Námsráðgjöf Háskóla Íslands 450
Norræna eldfjallastöðin 1.500 4.500
Rannsóknarstofa í lyfjafræði 1.000 1.500
Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, Háskóla Íslands 1.500
Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði 1.000 1.500
Rannsóknastofa Landspítala – háskólasjúkrahúss í meinafræði 1.000
Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum, Landspítali – háskólasjúkrahús 700
Raunvísindastofnun Háskóla Íslands 24.700 21.040 22.900
Stofnun Árna Magnússonar 1.400 2.500 2.500
Tannlæknadeild Háskóla Íslands 1.500 1.000
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði 12.700 8.000 4.500
Verkfræðistofnun Háskóla Íslands 1.000
Þjóðminjasafn Íslands 1.500 1.500
Tæknisjóður
Háskóli Íslands 3.500 3.325
Háskólinn á Akureyri 2.000 2.200
Háskólinn í Reykjavík 6.000 8.200
Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands 5.000
Lífefna- og sameindalíffræðistofa Háskóla Íslands 2.900
Líffræðistofnun Háskóla Íslands 10.500 12.200 13.379
Norræna eldfjallastöðin 1.300
Rannsóknastofa í næringarfræði LSH og HÍ 600
Rannsóknastofa um mannlegt atferli, Háskóli Íslands 600
Raunvísindastofnun Háskóla Íslands 11.000 6.600
Stofnun Árna Magnússonar 3.500
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði 1.000 4.400
Verkfræðideild Háskóla Íslands 2.500 600 4.000
Verkfræðistofnun Háskóla Íslands 3.800 7.300 8.800
Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 3.600
Bygginga- og tækjasjóður
Háskóli Íslands 1.510 6.220
Hugvísindastofnun 1.600
Landsbókasafn 360 3.000
Listasafn Íslands 1.000
Lífefna og sameindalíffræðistofa 6.600 2.815
Líffræðistofnun Háskóla Íslands 4.741 4.900 6.000
Læknadeild Háskóla Íslands 850
Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands, Hveragerði 490
Rannsóknastofa í líffærafræði Háskóli Íslands 1.200
Raunvísindastofnun 8.436 9.576 23.914
Sjúkraþjálfunarskor læknadeilar Háskóla Íslands 2.900
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði 5.317 2.500
Markáætlun
Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1.000
Félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1.500
Háskóli Íslands Hugvísindastofnun 3.000
Háskóli Íslands Lífefna- og sameindalíffræðistofa 1.750
Háskóli Íslands Siðfræðistofnun 4.000
Háskóli Íslands Verkfræðideild 2.700 3.300 2.500
Háskólinn á Akureyri 4.000 5.200 4.000
Háskólinn í Reykjavík 5.000
Heilbrigðistæknisvið, Landspítali – Háskólasjúkrahús 3.000
Háskóli Íslands, jarð-og landfræðiskor 1.500 1.800
Jarð- og landfræðiskor 2.500 1.500 1.500
Kennaraháskóli Íslands 400 1.000
Lífefna- og sameindalíffræðistofa Háskóla Íslands 3.500
Líffræðistofnun Háskóla Íslands 7.500
Læknadeild Háskóla Íslands 3.000
Málvísindastofnun Háskóla Íslands 3.000
Námsgagnastofnun 2.500 2.400
Rannsóknastofa um mannlegt atferli, Háskóli Íslands 14.000
Rannsóknastofnun Kennaraháskóla Íslands 600 12.000 7.200
Raunvísindastofnun Háskóla Íslands 5.500 6.800 7.800
Siðfræðistofnun Háskóla Íslands 3.500 4.500 6.000
Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands 4.000 12.000
Stofnun Árna Magnússonar 5.000
Stofnun Sigurðar Nordals 2.400 2.500
Umhverfisstofnun Háskóla Íslands 600
Verkfræðistofnun Háskóla Íslands 7.400
Þjóðminjasafn Íslands 4.000
Tungutækni
Orðabók Háskólans (auk Eddu hf. miðlunar og útgáfu) 10.000
Orðabók Háskólans (auk málgreiningarhópsins) 6.000
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn 1.600
Háskóli Íslands (ásamt Landsíma Íslands, Nýherja hf. o.fl.) 14.800