Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 654. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1443  —  654. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hvernig hefur ríkisstjórnin hrundið í framkvæmd aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna, sbr. II. kafla þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og hve miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna.

Öll tölfræði kyngreind.
    Með bréfi dags. 24. október 2000 fór forsætisráðuneytið þess á leit við Hagstofu Íslands að hún annaðist þetta verkefni í umboði ráðuneytisins. Um framvindu verkefnisins vísast því til þess sem fram kemur í skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna, sem lögð var fram á 127. löggjafarþingi, þskj. 1290, 732. mál, og svar ráðherra Hagstofu Íslands við fyrirspurn á yfirstandandi löggjafarþingi, þskj. 1159, 659. mál.
    Kannað verður hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Forsætisráðherra skipaði í nóvember 2000 nefnd sem falið var að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Nefndin lauk störfum í september 2002 og skilaði forsætisráðherra skýrslu um störf sín og niðurstöður.
    Meginniðurstöður nefndarinnar voru eftirfarandi:
     *      Vilji stjórnvalda til að gæta að jafnrétti kynjanna við opinbera stefnumótun er greinilegur. Hann birtist meðal annars í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlunum ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna, 1998–2001 og 2002–2004.
     *      Vinna við opinbera stefnumótun tekur í auknum mæli mið af jafnrétti kynjanna en þó er hægt að sjá dæmi þess að ekki er alltaf nægilega hugað að jafnréttissjónarmiðum við opinbera stefnumótun og stundum alls ekki.
     *      Misjafnt er hvort eða að hve miklu leyti forsendur eru fyrir hendi til samþættingar jafnréttissjónarmiða á hinum ýmsu sviðum. Þekking á jafnréttismálum og aðferðum samþættingar eru meðal þeirra forsendna sem að mati nefndarinnar skortir víða þar sem stefnumótun fer fram. Úr því þarf að bæta.
     *      Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna gegna veigamiklu hlutverki við að gæta jafnréttis við opinbera stefnumótun. Starf þeirra er í mótun og er staða þeirra missterk eftir ráðuneytum, starfsreynsla og menntun misjöfn, starfshlutfall þeirra óvíða skilgreint og þeir hafa ekki fengið nógu skýrt og afmarkað verksvið.
     *      Kynjahlutföll meðal æðstu embættismanna ríkisins eru ójöfn. Hlutfall kvenna í hópi forstöðumanna ráðuneyta og ríkisstofnana er 18,7% um mitt ár 2002 en hefur hækkað úr 14,4% frá árinu 2001. Í 19 stöður hafa verið ráðnar 12 konur og sjö karlar. Verður það að teljast jákvæð þróun. Athygli vekur þó að á vegum sjö ráðuneyta gegnir engin kona embætti forstöðumanns í stofnunum sem undir þau heyra.
     *      Kynjahlutföll í ráðum, stjórnum og nefndum á vegum ríkisins eru misjöfn eftir ráðuneytum. Í helmingi ráðuneyta verða þau að teljast viðunandi en alls óviðunandi í þremur ráðuneytum. Þróunin í átt til jafns hlutfalls í nefndum hefur verið hröð í þeim ráðuneytum sem hafa náð að nálgast 40–60% markið.
     *      Á vegum sveitarfélaga er víða unnið metnaðarfullt starf í jafnréttismálum. Í stærstu sveitarfélögunum starfa virkar jafnréttisnefndir og jafnréttisfulltrúar og settar hafa verið jafnréttisáætlanir en mörg minni sveitarfélög uppfylla ekki lagaskyldu um slíkt. Víða er öðrum nefndum, svo sem félagsmálaráðum, falin verkefni jafnréttisnefnda og verður það að teljast eðlilegt í minni sveitarfélögum en leiðir óhjákvæmilega til þess að áherslan á jafnréttismál verður minni.
     *      Jafnréttisáætlanir sveitarfélaga, ráðuneyta og opinberra stofnana eru mikilvægar. Um þriðjungur ráðuneyta hefur sett sér jafnréttisáætlanir eins og lög gera ráð fyrir, um þriðjungur er með þær í mótun og um þriðjungur ráðuneyta hefur ekki sett sér jafnréttisáætlun. Ekki er tryggt að slíkar áætlanir hafi bein áhrif á almenna stefnumótun. Þær eru oft eingöngu stefnuyfirlýsingar þar sem hnykkt er á ákvæðum jafnréttislaga þótt í sumum tilvikum fylgi þeim aðgerðaáætlanir. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er aðgerðaáætlun sem tvímælalaust hefur áhrif á stefnumótun.
    Nefndin lagði einnig fram tillögur um eftirfarandi úrbætur:
     *      Aukin áhersla verði lögð á fræðslu um jafnréttismál og samþættingu fyrir alla opinbera starfsmenn sem með einum eða öðrum hætti bera ábyrgð á stefnumótunarvinnu, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga.
     *      Nauðsynlegt er að auka vægi jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Skilgreina þarf starfshlutfall og samræma hlutverk og verksvið þeirra betur. Þá er mikilvægt að öll ráðuneytin setji sér jafnréttisáætlanir og fylgi þeim eftir með viðeigandi aðgerðum.
     *      Þeim tilmælum verði beint til Sambands íslenskra sveitarfélaga að það veiti sveitarfélögum hvatningu til að þau megi uppfylla lagaskyldur varðandi skipan jafnréttisnefnda og gerð og eftirfylgni jafnréttisáætlana. Í því sambandi er mikilvægt að Sambandið geti verið bakhjarl Jafnréttisstofu sem sinnir fræðslu og ráðgjöf fyrir sveitarfélögin.
     *      Lagt er til að jafnréttisgátlisti, þar sem svara þarf nokkrum spurningum er varða stöðu kvenna og karla, verði gefinn út í formi bæklings og að hvatt verði til notkunar hans við alla opinbera stefnumótun. Jafnréttisgátlistinn, sem nefndin hefur samið, verði kynntur hjá forsvarsmönnum ráðuneyta og stofnana sem undir þau heyra svo og öðrum starfsmönnum sem koma að stefnumótun, enn fremur sveitarstjórnum og framkvæmdaaðilum þeirra. Jafnréttisgátlistinn verði látinn fylgja öllum skipunarbréfum hópa og nefnda sem koma að opinberri stefnumótun.
     *      Nefndin telur ávinning af því að fá þriðja aðila, einkaaðila eða óháða stofnun, til að meta árangur framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna.
    Skýrsluna má nálgast á vef forsætisráðuneytisins á slóðinni:
     www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/jafnretti_kynjanna.pdf

Kostnaður.
    Heildarkostnaður við störf nefndarinnar var 1.195.000 kr.

Jafnrétti hjá ríkisstofnunum.
    Gerð árangursstjórnunarsamninga og frágangur erindisbréfa er á ábyrgð einstakra ráðuneyta. Lausleg athugun fjármálaráðuneytis bendir til þess að afar misjafnt sé hvernig þetta markmið hefur verið nálgast. Almennar tilvísanir í lög eru fátíðar í árangursstjórnunarsamningum og er það með ráði gert þar sem leitast hefur verið við að hafa þessa samninga stutta og sértæka fyrir viðkomandi stofnun. Í erindisbréfum forstöðumanna stofnana er á hinn bóginn almennt vísað til starfsmannalaga og í erindisbréfum margra ráðuneyta er sérstaklega minnt á þá skyldu forstöðumanna að virða jafnrétti kynjanna.

Kostnaður.
    Enginn sértilgreindur kostnaður var vegna athugunar fjármálaráðuneytis.

Konur og efnahagsmál – konur og efnahagsleg völd.
    Forsætisráðherra skipaði í október 2000 nefnd þriggja sérfræðinga sem skyldi leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi. Nefndin lauk störfum í febrúar 2004 og skilað forsætisráðherra skýrslu um störf og niðurstöður nefndarinnar. Nefndin stóð fyrir gerð umfangsmikillar launakönnunar í samvinnu við Jafnréttisráð Íslands, en niðurstöður hennar voru kynntar í september 2002. Einnig kom nefndin að gerð viðhorfskönnunnar um viðhorf Íslendinga til jafnréttismála og var hún unnin í samvinnu við Rannsóknarstofu í kynjafræðum við Háskóla Íslands og framkvæmd af IMG-Gallup. Könnunin var jafnframt styrkt af félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Að síðustu tók nefndin saman ýmsar tölur sem varpa ljósi á hlut kvenna í íslensku efnahagslífi. Kannanirnar og talnasamantektin gefa vísbendingar um áhrif kvenna í íslensku efnahagslífi.
    Launakönnunin náði til stórs hluta íslenskra launþega. Mjög margir þættir voru kannaðir til að skilja hvers vegna konur hafa að jafnaði lægri laun en karlar. Meginniðurstaða launakönnunarinnar var að konur hefðu 72% af launum karla fyrir sambærileg störf. Könnunin sýnir að skýra má 21–24% af þessum launamun með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna (ólík niðurstaða fékkst eftir því hvort miðað var við að,,konur fengju greitt eins og karlar í sama starfi” eða ,,karlar fengju greitt eins og konur í sama starfi”). Það sem eftir stendur (7,5–11% launamunur) stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla. Föst dagvinnulaun karla eru t.d. 4–5% hærri en ella ef þeir eru í sambúð eða hjúskap en sambúð hefur lítil áhrif á laun kvenna.
    Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar styrkja þessa niðurstöðu. 65% karlkyns svarenda starfa á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meiri hluta og 64% kvenkyns svarenda starfa á vinnustöðum þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Samkvæmt viðhorfskönnuninni unnu 57% kvenkyns svarenda hjá hinu opinbera en 22% karla.
    Atvinnutekjur kvenna eru um 60% af atvinnutekjum karla. Íslenskar konur eru þó mjög virkar á vinnumarkaði en vinna heldur styttri vinnudag en karlar á vinnustað en meira en þeir heima við. Um 35% kvenna vinna í skólum eða á heilbrigðisstofnunum. Árið 2002 voru konur fjórðungur sjálfstætt starfandi manna hér á landi og meðal kjörinna fulltrúa og stjórnenda voru konur tæp 30%. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands var um 7% (sumarið 2003).
    Árið 2001 voru konur framkvæmdastjórar í 18% íslenskra fyrirtækja og stjórnarformenn í 36% þeirra. En ef litið var á fyrirtæki þar sem skattskyld laun fóru yfir 100 millj. kr. voru konur um 4% framkvæmdastjóra. Í fræðslustarfsemi voru þó 43% framkvæmdastjóra konur, í heilbrigðis- og félagsþjónustu 35%, en í annarri samfélagsþjónustu voru 39% framkvæmdastjóra konur. Þessi svið heyra einkum undir hið opinbera. Forstöðumenn ríkisstofnana og ráðuneyta eru hins vegar langflestir karlar, eða um 80%.
    Fáar konur sitja í opinberum úthlutunarnefndum sem veita fé til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og konur fá lítinn hluta þess fjármagns sem veitt er úr opinberum sjóðum til styrktar atvinnuuppbyggingu. Engin kona er bankastjóri og fyrir utan tvær konur í stjórn Seðlabanka Íslands sitja engar konur í bankaráðum. Viðhorfskönnunin sýnir að helmingur karla og 67% kvenna telja að konur hafi ekki jafn góðan aðgang að fjármagni til fyrirtækjareksturs og karlar.
    Kynskiptur vinnumarkaður endurspeglar að einhverju leyti þá staðreynd að námsval kynjanna er kynbundið. Konur eru í meiri hluta þeirra sem ljúka námi frá háskólum, en karlar sækja einkum í iðn- og tæknigreinar.
    Viðhorfskönnunin sýnir að umönnun barna og heimilisstörf eru að miklu leyti í höndum kvenna jafnvel þótt flestir telji að feður eigi ekki síður en mæður að sjá um uppeldi barna sinna. Þó halda margir karlar og eldra fólk að mæður séu hæfari en feður til að annast uppeldi barna. Viðhorfskönnunin sýnir jafnframt að 79,4% aðspurðra eru ánægðir með fæðingarorlofslögin frá 2000. Þeir sem hafa átt rétt á fæðingarorlofi eftir að lögin tóku gildi eru aðeins hlynntari lögunum (84%) en þeir sem ekki áttu rétt á fæðingarorlofi (76%).
    71% kvenna sem tóku þátt í viðhorfskönnuninni hafði ekki sóst eftir aukinni ábyrgð og 63% kvenna hafði ekki sóst eftir launahækkun. Sama gildir um karla því 71% karla hafði heldur ekki sóst eftir aukinni ábyrgð og 64% karla hafði ekki sóst eftir launahækkun. Helst eru það konur með hærri laun en 250 þús. kr. á mánuði sem eru líklegar til að hafa sóst eftir meiri ábyrgð og hærri launum. En karlar með sambærileg laun eru ólíklegri en karlar með
lægri laun til að hafa beðið um launahækkun og aukna ábyrgð.
    Samkvæmt viðhorfskönnuninni telja langflestir að það sé jákvætt að konum fjölgi í stjórnunarstörfum. Könnun á meðal stjórnenda leiðir í ljós að konur þykja almennt góðir stjórnendur.
    Viðhorfskönnunin sýnir að ákvarðanir um fjárfestingar heimilisins eru í flestum tilvikum teknar sameiginlega af sambýlisfólki. Ef börn yngri en 18 ára eru í heimili er langalgengast að sambúðarfólk hafi sameiginlegan bankareikning, að öllu eða einhverju leyti, eða 77%.
    54,9% svarenda telja sig að öllu leyti fjárhagslega sjálfstæða og 36,4% telja sig að mestu leyti fjárhagslega sjálfstæða. 6% karla og 11% kvenna telur sig að litlu eða engu leyti fjárhagslega sjálfstæð. En 28% þeirra sem eru heimavinnandi, öryrkjar og atvinnulausir telja sig vera að litlu eða engu leyti fjárhagslega sjálfstæð.
    Skýrsluna má nálgast á vef forsætisráðuneytisins á slóðinni:
     www.forsaetisraduneyti.is/media/Efnhasleg_vold_kvenna/EVKskyrsla.pdf

Kostnaður.
    Samtals áfallin kostnaður 1.540.400 kr.
    Nefndin hélt 24 fundi og á þóknananefnd eftir að úrskurða um nefndarlaun.

    Sé óskað ítarlegri skýringa við hvert verkefni er vakin athygli á skýrslum félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna sem lagðar hafa verið fram á Alþingi:
    Þskj. 1433, 745. mál 126. löggjafarþings,
    þskj. 1290, 732. mál 127. löggjafarþings,
    þskj. 1332, 874. mál 130. löggjafarþings.