Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 6. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 6  —  6. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir,


Ágúst Ólafur Ágústsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Jón Gunnarsson, Jóhann Ársælsson, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson,
Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „14%“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: 7%.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með þessu frumvarpi leggur Samfylkingin til að matarreikningur íslenskra heimila verði lækkaður um 5 milljarða kr. Sú lækkun næst með því að lækka um helming, eða úr 14% í 7%, virðisaukaskatt af nauðþurftum eins og mjólk, kjöti, fiski, brauði, ávöxtum, grænmeti, eggjum, mjöli og tengdum afurðum.
    Slík skattalækkun kemur öllum þegnum landsins vel. Hún kemur þeim hins vegar langbest sem hafa úr minnstu að spila og fjölskyldufólki. Jöfnunaráhrifin af þessari skattalækkun eru því mun meiri en af öðrum skattalækkunum eins og lækkun tekjuskattshlutfallsins sem ríkisstjórnin áformar að ráðast í.
    Skattlagning er meðal helstu orsaka hás matarverðs á Íslandi. Lækkun á matarskattinum leiðir því til tafarlausrar verðlækkunar á mat. Hún styrkir kaupmátt almennings án þess að ýta undir ofþenslu, og treystir því undirstöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Samfylkingin telur því að lækkun á matarskattinum sé langskynsamlegasta leiðin sem völ er á til að lækka skatta í núverandi efnahagsumhverfi.

Besta kjarabótin.
    Undanfarin missiri hefur mikil umræða verið um skattalækkanir. Samfylkingin hefur tekið þá afstöðu að skattalækkanir eigi ekki að fjármagna með niðurskurði á velferðarkerfinu, s.s. á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu, og staða efnahagslífsins verði að geta þolað þær án þess að fara úr böndum. Auðvelt er að rökstyðja að ætli stjórnvöld að ráðast í skattalækkanir á annað borð sé skynsamlegast að lækka matarskattinn.
    Lækkun matarskattsins samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar kostar ríkissjóð ekki meira en felst í þeim nýju álögum og skattahækkunum sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks knúði í gegnum Alþingi á síðasta þingvetri. Samþykkt frumvarpsins felur því í sér að skattheimta hins opinbera verður sú sama. Hugmynd Samfylkingarinnar setur því hvorki stöðugleika efnahagslífsins í hættu né kallar á niðurskurð velferðarkerfisins. Þvert á móti má færa sterk rök að því að það efli stöðugleikann með því að treysta kjarasamninga og bæti umtalsvert velferð þeirra sem mest þurfa á liðsinni að halda.
    Einhver mesta kjarabót sem íslenskum almenningi getur hlotnast er varanleg lækkun á matarverði. Dýrtíð á íslenskum matvælum er nú heimsfræg enda er matvælaverð hér á landi með því allra hæsta sem þekkist í heiminum. Hlutfallið sem meðalfjölskylda ver af ráðstöfunartekjum sínum til að standa straum af brýnum nauðþurftum er að sama skapi allt of hátt. Enginn kemst hjá því að kaupa sér mat. Því lægri sem ráðstöfunartekjur fjölskyldu eru því hærra hlutfall þeirra fer til kaupa á nauðþurftum eins og kjöt, mjólk, fiski, brauði ávöxtum og grænmeti. Barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar, námsmenn, öryrkjar og aldraðir borgarar með lágar og millitekjur fara því verst út úr háu matvælaverði. Lækkun á matarskattinum er því einhver besta kjarabót sem hægt er að færa lágtekjuhópum og íslenskum fjölskyldum.
    Matvælaverð reyndist árið 2000 vera 69% hærra hér á landi en í Evrópusambandslöndunum samkvæmt könnun norsku Hagstofunnar. Þetta, ásamt ýmsum öðrum upplýsingum, kemur fram í þingsályktunartillögu um rannsókn á háu matarverði hér á landi sem Rannveig Guðmundsdóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, flutti ásamt öðrum þingmönnum flokksins. Alþingi samþykkti tillöguna á sínum tíma og rannsóknin, sem þar er lögð til, hefur farið fram á vegum Hagfræðistofnunar HÍ. Niðurstaða hennar sýndi að skattlagning er meðal helstu orsaka hás matarverðs á Íslandi. Það er því ekki síst með hliðsjón af þeirri rannsókn sem Samfylkingin leggur þunga áherslu á að lækka matarskattinn. Í framhaldi af úttekt Hagfræðistofnunar HÍ er jafnframt nauðsynlegt að skoða áhrif annarra skatta, tolla og vörugjalda á matarverð og fylgja eftir ábendingum stofnunarinnar um að tryggja samkeppni, opna meira gagnvart viðskiptum við útlönd og gera breytingar á formi stuðnings við landbúnað en af 12–13 milljarða kr. árlegum greiðslum til hans er helmingur tekinn í gegnum matarverðið.

Skynsamleg skattalækkun.
    Lækkun á matarskattinum er skynsamlegasta leiðin til skattalækkunar sem nú er völ á. Hún kemur öllum til góða, einnig þeim sem hafa úr svo litlu að spila að þeir greiða lítinn eða engan tekjuskatt, og mundu því ekki njóta góðs af lækkun tekjuskattsins eins og stjórnarflokkarnir hafa boðað. Mikilvægur kostur skattalækkunar af þessu tagi er því að jöfnunaráhrif hennar eru mun meiri en væri sömu upphæð varið til dæmis til að lækka tekjuskattshlutfallið. Lækkun á matarskatti felur því í sér réttlæti sem vantar í of miklum mæli í skattkerfi okkar Íslendinga.
    Á tímum eins og nú ríkja, þar sem verðbólga er á uppleið í þeim mæli að kjarasamningum er stefnt í hættu, þá er lækkun virðisaukaskatts á matvælum ákjósanleg leið til að jafna lífskjör, auka kaupmátt og þannig að treysta undirstöður kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Samanlagt hníga framangreindar röksemdir allar að þeirri niðurstöðu að langskynsamlegasta aðferðin til að lækka skatta sé að lækka matarskattinn með þeirri aðferð sem Samfylkingin leggur hér til.

Lægra matarverð.
    Samkvæmt lögum nr. 50/1988 ber að greiða 24,5% virðisaukaskatt af vörum og þjónustu. Lögin undanþiggja þó ýmsa flokka þjónustu og varnings frá öllum virðisaukaskattsgreiðslum. Í 14. gr. laganna er enn fremur að finna sérstakt ákvæði þar sem ákveðin matvara er sett í sérflokk, sem einungis ber 14% virðisaukaskatt. Varningur og þjónusta fellur því samkvæmt lögunum í þrjú mismunandi skattþrep: 24,5%, 14% og 0%.
    Í lægra virðisaukaskattsþrepið (14%) fellur mikilvæg matvara. Þar ber hæst kjöt, fisk mjólk, brauð, ávexti, grænmeti, hveiti, mjöl, sykur og ýmsar afleiddar afurðir. Þessar vörur eiga það sammerkt að flokkast undir nauðþurftir. Engin fjölskylda getur án þeirra verið og gildir þá einu hvort hún er í flokki hátekju- eða lágtekjufólks. Sérstök reglugerð tilnefnir allar þær matvörur sem falla í lægra virðisaukaskattsþrepið, sbr. fylgiskjal I. Nokkrar aðrar tegundir varnings og þjónustu falla einnig í lægra virðisaukaskattsþrepið skv. 14. gr. núgildandi laga (fylgiskjal II). Í frumvarpinu er lagt til að virðisaukaskattur á þeim lækki einnig niður í 7% til að koma í veg fyrir að virðisaukaskattsþrepunum fjölgi og kerfið verði of flókið.
    Lægra virðisaukaskattsþrepinu var beinlínis ætlað að lækka verð á brýnum nauðþurftum til að létta undir með þeim sem minnstar ráðstöfunartekjur hafa. Með þessu frumvarpi leggur Samfylkingin til að matarskattur á brýnustu nauðþurftum verði lækkaður enn frekar.

Kostnaður.
    Líklegt er að matarreikningur Íslendinga muni lækka um ríflega 5 milljarða kr. verði frumvarpið samþykkt. Að auki mun lækkun vegna annarra þátta en matvæla, sem falla í lægra virðisaukaskattsþrepið, kosta ríkið um 1,5 milljarða kr. samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins. Heildarkostnaður hins opinbera er þó snöggtum minni vegna aukinnar veltu, og má gera ráð fyrir að hann verði 4–4,5 milljarðar kr.


Fylgiskjal I.


REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 554/1993, um virðisaukaskattskylda
sölu á vörum til manneldis o.fl., með síðari breytingum.


1. gr.

    1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
    Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis ber 14% virðisaukaskatt samkvæmt nánari afmörkun í 2. gr. þessarar reglugerðar.

2. gr.

    2. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
    Af vörum til manneldis í eftirgreindum tollskrárnúmerum skal greiða 14% virðisaukaskatt:
0201.1000–0210.9990     Kjöt og ætir hlutar af dýrum.
0302.1101–0307.9920     Fiskur, krabbadýr, lindýr og aðrir vatna- og sjávarhryggleysingjar.
         0401.1000–0401.3000     Mjólk og rjómi. Þó skal greiða 24,5% virðisaukaskatt af ógerilsneyddum vörum í þessum tollflokkum.
0402.1000–0410.0000     Mjólkurafurðir, fuglaegg, náttúrulegt hunang og ætar vörur úr dýraríkinu, ót.a.
0504.0001–0504.0009     Þarmar, blöðrur og magar úr dýrum (þó ekki úr fiski), heilt og í stykkjum.
0511.9901     Dýrablóð.
0701.1000–0714.9000     Matjurtir og tilteknar rætur og hnýði.
0801.1100–0814.0000     Ætir ávextir, hnetur og hýði af sítrusávöxtum eða melónum.
0901.1100–0910.9900     Kaffi, te, maté og krydd.
1001.1001–1004.0009     Hveiti, meslín, rúgur, bygg og hafrar.
1005.9001–1008.2009     Maís (annar en fræ), rís, dúrra, bókhveiti og hirsi.
1008.9009     Annað korn, ót.a.
1101.0010–1105.2009     Malaðar vörur (korn, mjöl, bögglar og flögur).
1106.1000     Mjöl úr þurrkuðum belgávöxtum.
1106.2009     Mjöl úr sagó, rótum eða hnýðum.
1106.3000     Mjöl úr ávöxtum og hnetum.
1107.1000–1202.2000     Malt, sterkja, inúlín, hveitiglúten, sojabaunir og jarðhnetur.
1204.0000     Línfræ (hörfræ).
1206.0000–1208.9000     Sólblómafræ, önnur olíufræ, olíurík aldin og mjöl úr þeim vörum.
         1211.9001–1211.9002     Plöntur og plöntuhlutar til manneldis (basilíkum, borasurt, mynta, rósmarín, rúturunni, salvía og malurt).
1212.1000     Fuglatrésbaunir (jóhannesarbrauð).
1212.2009     Sjávargróður og þörungar (söl o.fl.).
1302.2001 og 1302.2009     Pektínefni, pektínöt, pektöt, jurtaslím og hleypiefni.
1501.0011 og 1501.0021     Svína- og alifuglafeiti.
1502.0011 og 1502.0021     Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum.
1503.0001     Svínafeitisterín, svínaolía, tólgarsterín, oleóolía og tólgarolía.
1504.1001 og 1504.1002     Þorskalýsi.
1504.1004     Lýsi úr fisklifur, ót.a.
1507.1001 og 1507.9001     Sojabaunaolía.
1508.1001 og 1508.9001     Jarðhnetuolía.
1509.1001 og 1509.9001     Ólívuolía.
1510.0001     Aðrar olíur.
1511.1001 og 1511.9001     Pálmaolía.
1512.1101 og 1512.1901     Olía úr fræi sólblóma eða körfublóma.
1512.2101 og 1512.2901     Olía úr fræi baðmullar.
1513.1101 og 1513.1901     Kókoshnetuolía.
1513.2101 og 1513.2901     Pálmakjarna- eða babassúolía.
1514.1101 og 1514.1901     Repju-, kolsa- eða mustarðsolía.
1514.9101 og 1514.9901     Repju-, kolsa- eða mustarðsolía.
1515.2101, 1515.2901,
1515.5001 og 1515.9001     Maísolía, sesamolía og önnur olía eða feiti, ót.a.
1516.1001–1516.2002,
1516.2009     Feiti eða olíur, hertar.
1517.1001–1517.9009     Smjörlíki og blöndur eða framleiðsla til manneldis úr jurtafeiti eða olíum.
         1601.0010–1605.9029     Framleiðsla úr kjöti, fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum.
1701.1100–1702.9009     Sykur (þó ekki skrautsykur).
1703.1002 og 1703.1009     Reyrmelassi.
1703.9009     Melassi, ót.a.
         1801.0000–1804.0000     Kakaóvörur, svo sem kakaóbaunir, kakaódeig og kakaósmjör (þó ekki kakaóduft).
1806.2002 og 1806.9021     Búðingsduft, búðingar og súpur sem innihalda kakaó.
1806.9011–1806.9019     Efni til framleiðslu á drykkjarvörum sem innihalda kakaó.
1806.9022     Fæða sem inniheldur kakaó, sérstaklega tilreidd fyrir sjúka.
1806.9027 og 1806.2007     Morgunverðarkorn sem inniheldur kakaó.
1901.1000–1904.9009     Framleiðsla úr korni, fínmöluðu mjöli, sterkju eða mjólk.
1905.1000     Hrökkbrauð.
1905.3122     Sætakex og smákökur sem innihalda minna en 20% af sykri.
1905.4000     Tvíbökur, ristað brauð og áþekkar ristaðar vörur.
1905.9011 og 1905.9019     Brauð.
1905.9020     Ósætt kex.
1905.9030     Saltkex og kryddkex.
1905.9040     Kökur og konditorstykki.
1905.9051 og 1905.9059     Bökur, þ.m.t. pítsur (pizza).
1905.9060     Nasl (snack), ót.a.
1905.9090     Brauðvörur, ót.a.
2001.1000–2008.9909     Framleiðsla úr matjurtum, ávöxtum, hnetum eða öðrum plöntuhlutum.
2101.1100–2101.3009     Kjarni, kraftur og seyði úr kaffi, tei eða maté.
2102.1001–2102.2002     Ger og bökunarduft.
2102.2009–2102.3009     Ger og bökunarduft.
         2103.1000–2104.2009     Sósur, súpur og seyði og framleiðsla í það, blönduð bragðefni og bragðbætiefni, jafnblönduð samsett matvæli.
2105.0011–2105.0029     Rjómaís og annar ís til manneldis.
2106.1000     Próteinseyði og textúruð próteinefni.
2106.9023     Blöndur jurta eða jurtahluta til lögunar á seyði.
2106.9024     Drykkjarvara, sérstaklega tilreidd fyrir börn og sjúka.
2106.9025     Tilreidd drykkjarvöruefni sem innihalda prótein o.fl.
2106.9026     Tilreidd drykkjarvöruefni úr gingsengkjörnum o.fl.
2106.9041–2106.9049     Búðingsduft, ót.a.
         2106.9051     Blöndur úr kemískum efnum og fæðu, svo sem sakkaríni og laktósa, notaðar sem sætuefni.
2106.9059     Létt smjörlíki o.fl. að meginstofni úr feiti og vatni.
2106.9062     Ávaxtasúpur og -grautar.
         2106.9064     Búðingsduft með kjötinnihaldi sem að magni til er 3%, til og með 20%, miðað við þyngd.
2106.9069     Ýmis matvælaframleiðsla, ót.a.
2201.9011–2201.9029     Drykkjarvatn, annað en ölkelduvatn.
2202.1021–2202.1029     Drykkjarvara, sérstaklega tilreidd fyrir börn og sjúka.
2202.9011–2202.9019     Blönduð mjólk (25% eða minna blönduð miðað við rúmmál).
2202.9021–2202.9029     Drykkjarvara, sérstaklega tilreidd fyrir börn og sjúka.
2501.0001     Matarsalt í smásöluumbúðum, 5 kg eða minna.
2836.1001     Ammoníumkarbónat (hjartarsalt) í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2836.3001 og 2836.4001     Karbónöt í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2836.9902     Pottaska í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2918.1200–2918.1300     Vínsýra.
2922.4201     Glútamínsýra í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
2925.1101     Sakkarín og sölt þess í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.
3203.0001     Matarlitur.
3302.1010     Blöndur af ilmandi efnum til matvælaiðnaðar.
3501.9001     Kaseínöt.
3502.1101 og 3502.1901     Albúmín.
3502.2001 og 3502.9001     Albúmín.
3503.0011 og 3503.0021     Matarlím (gelatín o.fl.).
3824.9008     Blanda úr sakkaríni og kemískum efnum í smásöluumbúðum, 1 kg eða minna.

3. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 5. gr. orðast svo: Endurgreiðslutímabil fyrir rekstraraðila sem gera upp virðisaukaskatt skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, skal þó vera almanaksárið.

4. gr.

    Við 6. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
    Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef umsókn um endurgreiðslu berst viðkomandi skattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

5. gr.

    Reglugerð þessi er sett með stoð í 14., 42. og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað.

Fjármálaráðuneytinu, 15. júlí 2002.


F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Ingvar Pálsson.

Fylgiskjal II.


14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

14. gr.

    Virðisaukaskattur skal vera 24,5% og rennur hann í ríkissjóð.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal virðisaukaskattur af sölu á eftirtalinni vöru og þjónustu vera 14%:
     1.     
     2.      Útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta.
     3.     
     4.      Afnotagjöld útvarpsstöðva.
     5.      Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða.
     6.      Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.
     7.      Sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
     8.      Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis samkvæmt nánari afmörkun í viðauka við lög þessi. Sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu er þó skattskyld skv. 1. mgr. þessarar greinar. Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis.
     9.      Aðgangur að vegamannvirkjum.