Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 348  —  319. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ungt fólk og getnaðarvarnir.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta Möller, Dagný Jónsdóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Kolbrún Halldórsdóttir, Birkir J. Jónsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Katrín Júlíusdóttir, Drífa Hjartardóttir, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra gerð framkvæmdaáætlunar um að auðvelda ungu fólki að fá getnaðarvarnir með það að markmiði að minnka hættu á smitsjúkdómum og fækka ótímabærum þungunum unglingsstúlkna.
    Við gerð framkvæmdaáætlunarinnar verði eftirfarandi þættir m.a. hafðir í huga:
     1.      Fræðsla fyrir ungmenni um kynlíf og barneignir þar sem hlutverk heimila, skóla og heilsugæslu verði skýrt sérstaklega.
     2.      Hvernig megi auðvelda ungu fólki að nálgast smokka, m.a. verði skoðað hvaða möguleikar eru til verðlækkunar og hvort dreifing ókeypis smokka til fólks undir 20 ára aldri í félagsmiðstöðvum, „tótalráðgjöf“ og á unglingamóttökum heilsugæslunnar mundi stuðla að því að markmið áætlunarinnar næðust.
     3.      Hvernig auðvelda megi útvegun getnaðarvarnapillu, m.a. verði athugað hvaða þýðingu niðurgreiðsla eða endurgjaldslaus dreifing pillunnar til kvenna undir 20 ára aldri hefði til að ná markmiðum áætlunarinnar.
     4.      Þjónusta lyfjaverslana vegna getnaðarvarna, þar á meðal neyðargetnaðarvarnar, verði athuguð sérstaklega sem og hvernig megi bæta hana með tilliti til þarfa ungs fólks.

Greinargerð.


    Í heilbrigðisáætlun til 2010 segir m.a. um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir í umfjöllun um markmið 4, heilsufar ungs fólks:
    „Eitt af verkefnum heilbrigðisþjónustunnar verður að auka fræðslu ungmenna um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir. Þetta er mjög brýnt ef takast á að draga úr ótímabærum þungunum ungra kvenna. Enn fremur þurfa getnaðarvarnir að vera mun aðgengilegri fyrir fólk en nú er.
    Þegar aldur mæðra á Íslandi er borinn saman við önnur lönd kemur í ljós að hlutfall ungra mæðra 19 ára og yngri er meira en helmingi hærra hér á landi en víðast annars staðar á Norðurlöndum. Árin 1991–1995 var fæðingartíðnin 24,8 á hverjar 1.000 konur í aldurshópnum 15–19 ára. Sambærilegar tölur í Finnlandi og Svíþjóð voru 1,9. Stór hluti þessara mæðra eru einstæðar og möguleikar þeirra til menntunar og starfsframa eru í mörgum tilvikum takmarkaðir. Þar af leiðandi eru líkur á því að bág staða mæðranna geti haft slæmar heilsufarslegar og félagslegar afleiðingar fyrir börnin.“

Prentað upp.

    Jafnframt segir að meðal markmiða til 2010 sé að ótímabærum þungunum meðal stúlkna 19 ára og yngri fækki um 50%.
    Í umfjöllun um markmið 7, sem snýst um að dregið verði úr smitsjúkdómum, segir m.a.:
    „Útbreiðsla nýrra smitsjúkdóma og sjúkdóma sem víða hafa komið fram á ný sýna samt sem áður að full þörf er á því að hafa ætíð fullan viðbúnað og sinna sóttvörnum á skipulegan hátt. Má þar nefna HIV-smit og alnæmi, berkla, klamýdíu …“
    Meðal markmiða áætlunarinnar er að dregið verði úr nýgengi klamýdíu um 50%.
    Til þess að þessi markmið náist er mikilvægt að gera sérstaka áætlun fyrir ungt fólk og mikilvægt er að flýta allri slíkri vinnu. Tölur, m.a. um þunganir unglingsstúlkna á Íslandi, eru afar sláandi. Annars staðar á Norðurlöndunum er mjög auðvelt að nálgast getnaðarvarnir og einnig eru ókeypis getnaðarvarnir víða.
    Staðreyndin er sú að ungt fólk byrjar að stunda kynlíf um 15 ára aldur, hvort sem slíkt þykir æskilegt eður ei. Getnaðarvarnir eru mikilvægar til að koma í veg fyrir bæði ótímabærar þunganir og smitun kynsjúkdóma. Mikilvægt er að minnka áhættuna á hvoru tveggja, en jafnframt er nauðsynlegt að öll kynfræðsla verði markvissari og reynt verði að ná til sem flestra ungmenna áður en þau fara að stunda kynlíf. Þar eru skólarnir meginvettvangurinn. Mikilvægt er að auka enn frekar útgáfu fræðsluefnis bæði fyrir ungmenni og foreldra. Væntanlegir eru tveir bæklingar á vegum Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir sem fyrst og fremst eru ætlaðir foreldrum en mikilvægt er að foreldrar verði virkari í allri slíkri fræðslu fyrir börn sín.
    Samtök félagsmiðstöðva (Samfés) hafa m.a. fjallað um það á landsþingi sínu að mikilvægt sé að bæta aðgengi ungs fólks að getnaðarvörnum. Þar hefur jafnframt verið rætt um ýmsar hindranir í vegi ungs fólks þegar það þarf að nálgast getnaðarvarnir eða spyrja viðkvæmra spurninga varðandi kynlíf, t.d. í lyfjaverslunum. Huga þarf sérstaklega að þessum þætti ráðgjafar.
    Jafnframt er nauðsynlegt að fjölga sértækum unglingamóttökum heilsugæslunnar sem nú eru t.d. á Akureyri, Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði. Þær hafa reynst sérstaklega vel, ekki einungis í ráðgjöf varðandi kynlíf og barneignir heldur einnig í sambandi við alla andlega líðan og stuðning vegna erfiðleika bæði í skóla og á heimili.
    Á 127. þingi var vísað til ríkisstjórnarinnar tillögu frá fyrsta flutningsmanni um að fela heilbrigðisráðherra að hefja viðræður við heilsugæsluna í Reykjavík um opnun unglingamóttöku. Mikilvægt er að sú tillaga komist í framkvæmd og haldist í hendur við tillöguna sem hér er flutt.
    Flutningsmenn vonast til þess að sérstök framkvæmdaáætlun um bætt aðgengi ungs fólks að getnaðarvörnum verði til þess að minnka hættu á smitsjúkdómum og fækka ótímabærum þungunum unglingsstúlkna.