Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 716  —  359. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um nýgengi krabbameins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mörg tilvik krabbameins hafa greinst hér sl. sex ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum, fjölda, tegund krabbameins, kyni sjúklings og landshlutum.

    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands. Töflur og myndir í viðaukum eru úr ritinu Krabbamein á Íslandi. Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands 50 ára sem kom út á vegum Krabbameinsfélagsins árið 2004.
    Spurt er um sex ára tímabil en svörin hér miðast við fimm ára tímabil. Ekki er mælt með því að sundurliða hvert ár fyrir sig af eftirfarandi ástæðum: Nýgengis- og fjöldatölur sem Krabbameinsskráin gefur út miðast yfirleitt við meðaltöl fimm ára tímabila. Þetta er gert til að auka áreiðanleika, með því að draga úr tilviljanasveiflum sem annars verða mjög áberandi vegna fámennis þjóðarinnar. Í viðauka I – mynd 1 má sjá tilviljunarsveiflur í nýgengi allra krabbameina á Íslandi þegar horft er á nýgengi eins árs í senn. Til samanburðar er í sama viðauka, mynd 2, nýgengi sem grundvallast á meðaltölum fimm ára tímabila þar sem tilviljanasveiflur hafa jafnast út. Viðauka I fylgir jafnframt skýring á hugtakinu nýgengi.
Sjá viðauka I.
    Á árunum 1998–2002 greindust að meðaltali 1.146 Íslendingar á ári með krabbamein, 571 karl og 575 konur.
    Meðal karla var krabbamein í blöðruhálskirtli algengast og voru 164 karlar greindir árlega að meðaltali. Næstalgengast var lungnakrabbamein sem greindist hjá 57 körlum að meðaltali á ári. Þriðja algengasta krabbameinið meðal karla var ristilkrabbamein, greint hjá 49 körlum að meðaltali á ári (ristil- og endaþarmskrabbamein samanlagt greindist hjá 64 körlum á ári).
    Meðal kvenna var brjóstakrabbamein algengast og voru 164 konur greindar árlega að meðaltali. Næstalgengast var lungnakrabbamein, greint hjá 57 konum að meðaltali á ári. Þriðja algengasta krabbameinið meðal kvenna var ristilkrabbamein sem 39 konur greindust með að meðaltali á ári (ristil- og endaþarmskrabbamein samanlagt greindist hjá 53 konum á ári.
    Í viðauka II – töflu 1 má sjá árlegan meðalfjölda tilfella hjá íslenskum körlum og konum fyrir tíðustu meinin. Sjá viðauka II.
    Í viðauka III má sjá breytingu á fjölda greindra tilfella frá árinu 1958 til 2002 fyrir helstu mein. Tölur eru uppsafnaður fjöldi tilfella (deilt með 5 til að fá árlegan meðalfjölda). Fyrri taflan er fyrir karla og sú síðari fyrir konur. Sjá viðauka III.
    Mismunandi nýgengi krabbameins eftir búsetu getur gefið vísbendingar um umhverfisþætti sem hafa áhrif á myndun krabbameina. Þó þarf að taka tillit til þess að það tekur krabbamein oftast langan tíma að myndast og því væri réttara að kanna búsetu 10–20 árum fyrir greiningu, en hún er ekki skráð í Krabbameinsskránni. Samanburður eftir búsetu við greiningu er erfiður hér á landi vegna þess hve fámenn þjóðin er og þar af leiðandi miklar tilviljanasveiflur í nýgengistölum, ekki síst ef landinu er skipt upp í minni svæði.
    Vegna fámennis þjóðarinnar eru því takmarkaðir möguleikar á að greina marktækan mun á nýgengi krabbameina milli einstakra landssvæða. Þetta hefur þó verið gert með því að kanna lengri tímabil en fimm ár í senn og skipta landinu upp í nokkuð stóra hluta, eða hin átta fyrrverandi kjördæmi landsins. Upplýsingarnar sem hér fylgja ná til tveggja fimmtán ára tímabila.
    Á myndum 14 og 15 í viðauka IV sést samanburður fyrir öll mein saman fyrir árabilin 1973–1987 og 1988–2002 fyrir karla. Á myndum 16 og 17 eru sömu upplýsingar fyrir konur. Þar sést að Reykjavík hefur hæsta nýgengið á báðum tímabilum og hjá báðum kynjum. Reykjanes fylgir fast í kjölfarið, enda tilheyra 75% íbúanna þar höfuðborgarsvæðinu. Þetta er í samræmi við það sem gerist hjá öðrum þjóðum, að stærstu þéttbýliskjarnarnir hafa hæsta nýgengið. Sjá viðauka IV.
    Í töflu 5 í viðauka V er stjörnumerking notuð til að gefa til kynna hvort munur milli tiltekins staðar og Reykjavíkur sé tölfræðilega marktækur. Í fyrsta dálki eru öll mein tekin saman. Þar sést að Reykjavík hefur tölfræðilega marktækt hærra nýgengi en aðrir staðir á landinu fyrir bæði tímabilin og hjá báðum kynjum. Sé dæmi tekið af körlum á Suðurlandi á fyrra tímabilinu er hlutfallsleg áhætta þeirra 0,77 sem þýðir að áhættan er 77% af áhættu karla í Reykjavík. Þegar horft er til nokkurra einstakra meina helst sú tilhneiging að Reykjavík hafi hæsta nýgengið, með ákveðnum undantekningum þó, en það eru magakrabbamein hjá körlum og krabbamein í eggjastokkum hjá konum. Sjá viðauka V


Viðauki I.

Skilgreining á orðinu nýgengi: Árlegt nýgengi (incidence) er skilgreint sem fjöldi krabbameina sem greinist á einu ári. Þegar deilt hefur verið með íbúafjölda gefur nýgengið til kynna meðaltalshættu á að greinast með krabbamein á hverju ári. Þar sem krabbameinstíðni er ólík milli karla og kvenna, jafnvel fyrir sömu mein, eru nýgengistölur birtar fyrir kynin hvort í sínu lagi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Viðauki II.
Viðauki III.

Fjöldi nýrra tilfella 1958–2002, karlar.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjöldi nýrra tilfella 1958–2002, konur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Viðauki IV.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Viðauki V.