Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 173. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 737  —  173. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

     1.      Hvernig hafa útgjöld stærstu sveitarfélaganna til fjárhagsaðstoðar þróast árin 2000– 2004, sundurliðað eftir sveitarfélögum og tegund aðstoðar, og hversu hátt hlutfall er aðstoðin af tekjum einstakra sveitarfélaga? Óskað er eftir áætlunum um útgjöld á árinu 2004.
    Óskað var eftir upplýsingum frá fjölmennustu sveitarfélögunum: Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri, Reykjanesbæ og Garðabæ. Óskað var eftir því við félagsþjónustuna að fjárhæðir væru sundurliðaðar með tilliti til þess um hvers konar aðstoð var að ræða, annars vegar lágmarksfjárhagsaðstoð, sem víða er nefnd grunnaðstoð og felur í sér aðstoð til brýnustu nauðsynja, og hins vegar aðstoð vegna sérstakra aðstæðna. Ekki gátu öll sveitarfélögin sundurliðað þessar fjárhæðir og birtast því fyrst heildartölurnar í töflu 1. Í töflu 2 má sjá fjárhæðina sundurliðaða í grunngreiðslur og aðra fjárhagsaðstoð. Í töflu 3 koma fram útgjöld sveitarfélaga sem hlutfall af skatttekjum.

Tafla 1. Útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar, þús. kr.


2000 2001 2002 2003 Áætlun 2004
Reykjavík 610.910 680.583 965.824 1.085.421 1.201.981
Kópavogur 37.750 34.875 68.996 70.249 68.000
Hafnarfjörður 45.300 38.500 50.300 73.000 70.600
Akureyri 26.252 37.384 44.621 47.114 47.000
Reykjanesbær 16.812 24.130 29.285 35.862 27.000
Garðabær 2.300 4.816 10.500 11.630 10.300
Samtals 739.324 820.288 1.169.526 1.323.276 1.424.881

    Í töflu 2 birtast sundurliðaðar fjárhæðir hjá Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Frá Kópavogi bárust ekki nánari upplýsingar fyrir árið 2000 og áætlunin fyrir árið 2004 er ekki sundurliðuð. Hin sveitarfélögin gerðu ekki nánari grein fyrir aðstoðinni. Með grunnaðstoð er átt við greiðslur til einstaklinga og fjölskyldna sem hafa tekjur undir lágmarksviðmiðum sem tilgreind eru í reglum hvers og eins sveitarfélags. Önnur fjárhagsaðstoð er greiðslur samkvæmt heimildum til að veita einstaklingum eða fjölskyldum fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna, svo sem óvæntra áfalla eða sérstaks kostnaðar vegna barna. Þessar heimildir geta verið mismunandi milli sveitarfélaga.

Tafla 2. Sundurliðuð útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar, þús. kr.


2000 2001 2002 2003 Áætlun 2004
Reykjavík
Grunnaðstoð 442.747 470.678 630.297 699.058 828.250
Önnur fjárhagsaðstoð 150.838 198.536 323.800 372.560 363.731
Samtals 610.910 680.583 965.824 1.085.421 1.201.981
Kópavogur
Grunnaðstoð 25.853 40.164 41.378
Önnur fjárhagsaðstoð 37.750 9.022 28.832 28.871 68.000
Samtals 37.750 34.875 68.996 70.249 68.000
Hafnarfjörður
Grunnaðstoð 40.800 35.500 45.200 65.100 66.900
Önnur fjárhagsaðstoð 4.500 3.000 5.100 7.900 3.700
Samtals 45.300 38.500 50.300 73.000 70.600


    Í töflu 3 kemur fram hversu hátt hlutfall aðstoðin er af skatttekjum einstakra sveitarfélaga.

Tafla 3. Fjárhagsaðstoð sem hlutfall af skatttekjum.


2000 2001 2002 2003
Reykjavík 2,9% 2,7% 3,5% 3,7%
Kópavogur 0,9% 0,7% 1,2% 1,1%
Hafnarfjörður 1,2% 0,9% 1,0% 1,3%
Akureyri 1,0% 1,1% 1,2% 1,2%
Reykjanesbær 0,8% 1,0% 1,2% 1,4%
Garðabær 0,1% 0,2% 0,5% 0,5%
Samtals 2,1% 1,9% 2,5% 2,7%

     2.      Hversu margir nutu fjárhagsaðstoðar stærstu sveitarfélaganna á sama tímabili, sundurliðað eftir sveitarfélögum, kyni og fjölskylduaðstæðum?
    Í töflu 4 kemur fram að tæplega 6 þúsund fjölskyldur nutu aðstoðar árið 2002. Ekki eru fyrir hendi nýrri tölur yfir allt landið. Í töflu 5 er að finna fjölda fjölskyldna sundurliðað eftir fjölskyldugerð í einstökum sveitarfélögum á árabilinu 2000 til 2003. Hafa ber í huga að með barnlausu fólki er hér átt við þá sem ekki eru með börn á sínu framfæri, engu að síður getur verið um að ræða fólk sem greiðir meðlag með börnum sínum.

Tafla 4. Fjöldi íbúa sem naut fjárhagsaðstoðar árin 2000–2003,
sundurliðað eftir kyni og fjölskyldugerð.

Samtals öll sveitarfélög á landinu
2000 2001 2002
Einstæðir karlar með börn 69 99 107
Einstæðir karlar, barnlausir 1.596 1.686 2.113
Einstæðar konur með börn 1.541 1.743 1.994
Einstæðar konur, barnlausar 777 839 1.031
Hjón/sambúðarfólk með börn 405 356 479
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 224 203 206
Fjöldi fjölskyldna/heimila 4.612 4.926 5.930
Heimild: Landshagir 2004. Undanskilin eru sveitarfélög með færri en 250 íbúa.


Tafla 5. Fjöldi íbúa sem naut fjárhagsaðstoðar árin 2000–2003,
sundurliðað eftir sveitarfélögum, kyni og fjölskyldugerð.

2000 2001 2002 2003
Reykjavík
Einstæðir karlar með börn 28 43 50 62
Einstæðir karlar, barnlausir 1.055 1.215 1.441 1.541
Einstæðar konur með börn 829 970 1.092 1.132
Einstæðar konur, barnlausar 471 548 701 753
Hjón/sambúðarfólk með börn 159 116 191 188
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 138 88 125 126
Fjöldi fjölskyldna/heimila 2.680 2.980 3.600 3.802
Kópavogur
Einstæðir karlar með börn 0 0
Einstæðir karlar, barnlausir 92 109
Einstæðar konur með börn 130 138
Einstæðar konur, barnlausar 52 63
Hjón/sambúðarfólk með börn 25 26
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 6 10
Fjöldi fjölskyldna/heimila 305 346
Hafnarfjörður
Einstæðir karlar með börn 4 4 7 9
Einstæðir karlar, barnlausir 67 68 83 102
Einstæðar konur með börn 102 107 125 134
Einstæðar konur, barnlausar 33 41 46 52
Hjón/sambúðarfólk með börn 16 12 10 21
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 4 1 3 6
Fjöldi fjölskyldna/heimila 226 233 274 324
Akureyri
Einstæðir karlar með börn 6 10 15 12
Einstæðir karlar, barnlausir 74 84 83 90
Einstæðar konur með börn 115 135 140 134
Einstæðar konur, barnlausar 58 58 58 52
Hjón/sambúðarfólk með börn 22 28 32 37
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 4 11 10 5
Fjöldi fjölskyldna/heimila 279 326 338 330
Reykjanesbær
Einstæðir karlar með börn 3 0 0 0
Einstæðir karlar, barnlausir 41 40 89 98
Einstæðar konur með börn 75 58 104 106
Einstæðar konur, barnlausar 39 28 50 52
Hjón/sambúðarfólk með börn 31 42 56 11
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 0 45 0 11
Fjöldi fjölskyldna/heimila 189 213 299 278
Garðabær
Einstæðir karlar með börn 0 1 3 1
Einstæðir karlar, barnlausir 10 13 33 39
Einstæðar konur með börn 7 15 17 22
Einstæðar konur, barnlausar 4 13 6 8
Hjón/sambúðarfólk með börn 4 3 7 2
Hjón/sambúðarfólk, barnlaus 1 2 2 5
Fjöldi fjölskyldna/heimila 26 47 68 77

    Upplýsingar í töflu 5 eru fengnar frá viðkomandi sveitarfélögum. Frá Kópavogi bárust einungis sundurliðaðar upplýsingar fyrir árin 2001 og 2002.

     3.      Telur ráðherra að öll sveitarfélög hafi sett sér reglur um fjárhagsaðstoð sem uppfylli skyldur þeirra í samræmi við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga?

    Í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, er kveðið á um sveitarfélög skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í VI. kafla laganna er fjallað um fjárhagsaðstoð og skal sveitarstjórn hver um sig setja sér reglur um fjárhagsaðstoð. Ekki er kveðið á um lágmarksfjárhæð til framfærslu í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Árið 2003 samdi ráðuneytið nýjar leiðbeiningar til sveitarfélaganna um reglur um fjárhagsaðstoð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök félagsmálastjóra á Íslandi. Þar er lagt til að lágmarksfjárhæð til einstaklings sé 84.245 kr. og er miðað við ákveðnar fjárhæðir bóta Tryggingastofnunar ríkisins 1 . Enn fremur er lagt til að tekið sé tillit til sérstakra aðstæðna hjá tekjulágum heimilum, svo sem vegna þarfa ungra barna, kostnaðar við skólasókn ungmenna sem þurfa að sækja framhaldsskóla fjarri heimabyggð og óvæntra áfalla. Gerð reglna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er á hinn bóginn í höndum hvers og eins sveitarfélags. Reglurnar skulu vera í samræmi við skyldur sveitarfélaganna samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í þessu felst meðal annars að í reglunum skal viðunandi lágmarksfjárhæð tilgreind sem félagsmálanefnd noti við mat á fjárþörf.
    Sveitarfélögin hafa valið mismunandi leiðir við mat á fjárþörf. Tvær leiðir eru tilgreindar í leiðbeiningum ráðuneytisins. Annars vegar að fjárþörf sé miðuð við alla fjölskylduna og framfærsla barna talin með í útreikningi, ef þau eru á heimili, og hins vegar að einungis sé tekið mið af fjárþörf fullorðinna og samhliða séu greiðslur hins opinbera með börnum og meðlög með þeim ekki talin til tekna. Varðandi barnlausar fjölskyldur og einhleypa er sama hvor leiðin er valin, niðurstaðan verður sú sama. Ljóst er að nokkur munur getur því reynst á fjárhagsaðstoð milli sveitarfélaga. Leiðbeiningar ráðuneytisins um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og reglur flestra sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð er að finna á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.
    Það er mat ráðuneytisins að langflest sveitarfélögin hafi sett sér reglur sem uppfylla skyldur þeirra í samræmi við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta atriði þarf þrátt fyrir það að kanna nánar og verður það gert um leið framkvæmd laganna verður rannsökuð í heild sinni. Má geta þess hér að ákveðið hefur verið í ráðuneytinu að gera á næstu mánuðum könnun hjá sveitarfélögunum á framkvæmd laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, einkum með tilliti til fjárhagsaðstoðar, félagslegrar ráðgjafar og félagslegrar heimaþjónustu.

     4.      Telur ráðherra réttlætanlegt að skattleggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að sú skattlagning verði afnumin?

    Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er staðgreiðsluskyld. Aðstoðin kemur iðulega í stað tekjutaps vegna áfalla, svo sem atvinnumissis eða heilsubrests. Oftast er um tímabundna aðstoð að ræða til einstaklinga og fjölskyldna vegna framfærslu og nauðþurfta.
    Langflestar greiðslur almannatrygginga eru skattlagðar og sama á við um atvinnuleysisbætur. Þessar greiðslur eru meðhöndlaðar eins og tekjur og koma í stað tekna til framfærslu einstaklinga og í sumum tilvikum fjölskyldna. Til fróðleiks má benda á að fullar atvinnuleysisbætur einstaklings að frádreginni staðgreiðslu skatta, stéttarfélagsgjaldi og lífeyrissjóðsgreiðslu nema nánast sömu fjárhæð og fjárhagsaðstoð sveitarfélags eftir skatt ef miðað er við grunnfjárhæðina sem fram kemur í leiðbeiningum ráðuneytisins og mörg sveitarfélög miða við.
    Að undanskilja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna frá skattalagningu felur í sér mismunun gagnvart öðrum tekjulágum hópum, svo sem bótaþegum almannatrygginga, þeim sem fá atvinnuleysisbætur og þeim sem fá lægstu launin. Í þessu ljósi er erfitt að færa rök fyrir því að skattlagning á fjárhagsaðstoð verði afnumin og er félagsmálaráðherra ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir slíku.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Fjárhæðir eftirtalinna bótaflokka almannatrygginga, janúar 2005: Örorkulífeyrir 21,993 kr., tekjutrygging örorkulífeyrisþega 44.172, kr. og óskert heimilisuppbót 18.080 kr., samtals 84.245 kr.