Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 392. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 751  —  392. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur og Þuríðar Backman um flutning hættulegra efna.

     1.      Hvaða reglur gilda hér á landi um flutning hættulegra efna, sem eld-, sprengi- og mengunarhætta stafar af, og eftirlit með honum?
    Hér á landi gildir reglugerð nr. 984/2000 sem byggist á svonefndum ADR-reglum. Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar hvað varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófanir og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglunum, svo og eftirlit með innflutningi hættulegra efna, sem eld-, sprengi- og mengunarhætta stafar af. Lögreglan hefur eftirlit með flutningi á hættulegum farmi á vegum, Siglingastofnun þegar um er að ræða flutning á sjó og Flugmálastjórn þegar um er að ræða flutninga í lofti. Aðkoma umhverfisráðuneytisins að flutningi hættulegra efna tengist fyrst og fremst brunavörnum. Í því skyni hefur ráðuneytið nýlega sett reglugerð um brunavarnir í samgöngumannvirkjum. Ráðuneytinu er kunnugt um að ríkislögreglustjóri, í samvinnu við hlutaðeigandi aðila, er að láta undirbúa endurskoðun eftirlitsreglna varðandi flutning hættulegra efna.
    Heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi til flutnings á spilliefnum og hefur eftirlit með þeim þætti.

     2.      Eru þær reglur sambærilegar því sem gildir annars staðar á Norðurlöndum?
    Svokallaðar ADR-reglur gilda ekki aðeins á Norðurlöndum heldur og á Evrópska efnahagssvæðinu öllu.

     3.      Hefur verið gerð úttekt á flutningi hættulegra efna um þéttbýli, göng og vegskála hér á landi?
    Slík úttekt fór fram á vegum nefndar sem starfaði á vegum dómsmálaráðuneytisins og skilaði skýrslu um það í nóvember árið 2002.

     4.      Hefur ráðherra áætlanir um að herða eftirlit og láta gera hættumat vegna þessa?
    Engar fyrirætlanir eru uppi af hálfu umhverfisráðherra, en eins og áður greinir fellur eftirlitið að mestu leyti undir Vinnueftirlit ríkisins, lögregluna, Siglingastofnun og Flugmálastjórn en engin þeirra stofnana starfar á vegum umhverfisráðuneytisins.

     5.      Hafa flutningar umræddra efna aukist á þjóðvegum landsins vegna minnkandi strandsiglinga og er fylgst með umfangi þeirra?
    Flutningar hafa aukist á undanförnum missirum á þjóðvegum landsins og hefur það kallað á frekara eftirlit með flutningabílum en samkvæmt umferðarlögum eru gerðar kröfur til búnaðar slíkra tækja og kunnáttu þeirra sem flytja slík efni.