Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 502. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 829  —  502. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um vinnu útlendinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er fyrirhugað aukið samstarf Schengen-ríkjanna til þess að hindra brot á vinnulöggjöf ríkjanna?
     2.      Er fyrirhugað aukið eftirlit við komu til landsins til að hindra brot á vinnulöggjöfinni? Ef svo er, í hverju felst það?
     3.      Hvernig er eftirliti lögreglu háttað varðandi útlendinga sem dveljast og vinna hér á landi og hver hefur árangurinn verið?
     4.      Hversu mörg dvalarleyfi hafa verið gefin út hér á landi síðustu tíu ár og hvernig skiptist fjöldinn milli þjóðerna?
     5.      Eru fyrirhugaðar aðgerðir hjá lögreglu til að fylgjast með hvort farið sé að lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga? Ef svo er, hverjar eru þær?


    1. Á vettvangi Schengen-samstarfsins hefur verið gripið til ráðstafana gegn ólöglegum innflutningi fólks á Schengen-svæðið. Samstarf á þessu sviði mun aukast enn frekar á næstu árum, enda eru mál þessi í brennidepli víðast hvar í Evrópu. Brot á vinnulöggjöf ríkjanna fellur á hinn bóginn alfarið utan þess ramma sem Schengen-samstarfinu hefur verið settur.

    2. Umfang brota á vinnulöggjöfinni hefur ekki verið kannað með þeim hætti að unnt sé að fullyrða eitthvað um umfang og eðli brotanna. Þó virðist sem langstærstur hluti þeirra mála sem upp koma eða spurnir berast af snúist um atvinnuþátttöku fólks frá nýju ESB- ríkjunum tíu. Þetta fólk hefur þá réttarstöðu að það getur ferðast löglega til landsins sem ferðamenn. Þar sem fólkið ferðast innan Schengen-svæðisins er ekki heimilt að framkvæma sérstakt landamæraeftirlit við komuna til Íslands nema í ákveðnum sérgreindum tilvikum. Þess vegna er ekki hægt að kanna kerfisbundið hver tilgangur dvalar viðkomandi er hérlendis eða hvernig högum hans er háttað (fjárhagur, húsnæði). Því er ekki raunhæft að taka á þessu vandamáli nema að mjög takmörkuðu leyti við landamæragæslu. Vakni grunur um að ferðamenn ætli sér að vinna hér á landi, án þess að fyrir liggi gögn því til staðfestingar, hefur lögregla á innri landamærum leiðbeint viðkomandi um þær reglur sem gilda um atvinnuþátttöku hérlendis, auk þess sem lögregluyfirvöldum í viðkomandi umdæmi hefur verið gert viðvart ef talið er líklegt að ætlunin sé að vinna þar ólöglega. Þótt langstærstur hluti þessa fólks sé frá nýju aðildarríkjunum tíu má ekki gleyma öðrum þeim sem njóta áritunarfrelsis og komast inn á Schengen-svæðið í skjóli þess frelsis þrátt fyrir að tilgangur þeirra sé að vinna.
    Gagnvart fólki frá ríkjum utan Evrópu er reynt að halda uppi öflugu eftirliti sem felst í að kanna lögmæti komu þess, þ.e. að kanna hver sé tilgangur komunnar, hvernig fjárhag viðkomandi er háttað og hvar hann muni dveljast. Ætíð er nokkuð um að fólki sé vísað frá á landamærunum þegar það getur ekki gert nægilega glögga grein fyrir tilgangi dvalar sinnar á Íslandi.
    3. Eftirlit með útlendingum er í höndum lögreglustjóra. Lögreglustjóri skal sjá um að lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga sé framfylgt. Vægi þessa eftirlits í störfum lögreglunnar hefur stöðugt aukist samhliða því sem reynsla eykst við úrlausn þeirra. Lögregla fer oftar en áður á vinnustaði og athugar hvort ólögleg atvinnustarfsemi sé stunduð. Þegar þetta eftirlit tók að eflast (eftir 1999) var ólöglegt vinnuafl helst að finna á næturklúbbum og í fiskiðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Nú finnst ólögmætt vinnuafl varla á fyrrgreindum stöðum og verður að ætla að það megi rekja til þess að eftirlitið varð skilvirkara og lögreglumenn meðvitaðri um réttarheimildir til eftirlitsins. Þannig hefur skilvirkt eftirlit þegar skilað árangri. Að sögn lögreglumanna nú er ólöglegt vinnuafl einkum að finna í byggingariðnaði. Mat ráðherra er að eftirlitið þurfi að efla enn frekar og fylgja beri þessum málum fastar eftir þegar grunur vaknar um refsiverða háttsemi.

    4. Fjöldi dvalarleyfa sem gefin hafa verið út sl. fjórtán ár birtast í töflu hér að neðan. Þessar tölur er að finna á heimsíðu Útlendingastofnunar ásamt fleiri tölfræðilegum upplýsingum er varða útlendinga.

Veitt dvalarleyfi 1990–2003.


Ný leyfi Framlengingar Alls
1990 1047 1.053 2.100
1991 1.053 1.083 2.136
1992 491 1.116 1.607
1993 417 1.264 1.681
1994 494 1.154 1.648
1995 554 1.087 1.641
1996 1.539 477 2.016
1997 1.751 1.039 2.790
1998 1.845 1.337 3.182
1999 2.333 2.243 4.576
2000 2.833 2.931 5.764
2001 2.753 3.772 6.515
2002 1.656 4.192 5.848
2003 1.372 3.763 5.135

Veitt dvalarleyfi 1990–2003.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Veitt ný dvalarleyfi 1990–2003.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Veitt framlengd dvalarleyfi 1990–2003.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Áreiðanlegar upplýsingar um ríkisfang dvalarleyfishafa ná einvörðungu til ársins 2004. Ástæður þessa eru þær að Útlendingastofnun tók á haustmánuðum ársins 2003 í notkun nýtt tölvukerfi sem leysti eldra kerfi af hólmi. Við gagnaflutning milli þessara ólíku tölvukerfa reyndist ekki unnt að flytja traustar tölulegar upplýsingar um ríkisfang þeirra sem hér fengu útgefið dvalarleyfi fram til ársins 2003. Athugun innan Útlendingastofnunar hefur leitt í ljós að samsetning þessa hóps eftir ríkisfangi hefur ekki tekið verulegum breytingum síðustu ár.
    Á eftirfarandi töflu má sjá hvernig fjöldi útgefinna leyfa skiptist eftir þjóðernum árið 2004. Þar er greint frá heildarfjölda leyfa og síðan þeim 14 ríkjum sem flestir leyfishafar komu frá.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Landakóðar:
CN Kína RU Rússland
DE Þýskaland SK Slóvakía
IT Ítalía TH Taíland
LT Litháen UA Úkraína
PH Filippseyjar US Bandaríkin
PL Pólland VN Víetnam
PT Portúgal YU Júgóslavía (Serbía og Svartfjallaland)

    5. Ráðuneytið hefur á síðustu vikum rætt við fulltrúa ríkislögreglustjóra og lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu hvernig best sé að framfylgja lögum um atvinnuþátttöku útlendinga. Ákveðið hefur verið að Útlendingastofnun sendi lögreglustjórum mánaðarlega lista yfir handhafa þeirra dvalarleyfa sem renna út í þeim mánuði og lögregla fylgi því eftir að viðkomandi hverfi af landi brott en hefji ekki ólöglega atvinnuþátttöku. Þá hafa komið fram tillögur um að endurskoða gildistíma skattkorta útlendinga í tímabundinni dvöl þannig að þau taki mið af gildistíma dvalarleyfa. Enn fremur hefur verið rætt um að fjarlægja nöfn útlendinga af þjóðskrá þegar löglegri dvöl þeirra lýkur. Síðastnefndu aðgerðirnar eru á verksviði fjármálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Þá er til skoðunar að fella mál í auknum mæli í þann farveg að þeim ljúki með lögreglustjórasátt um sektargreiðslu en tilgangurinn með því er einkum sá að gera lögreglustjórum kleift að sinna fleiri brotamálum en ella. Það er að mati ráðherra brýnt að tryggja að þeir sem nýta útlendinga í atvinnustarfsemi í trássi við lög og rétt séu látnir sæta ábyrgð vegna þess.