Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 455. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 831  —  455. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um viðbótarlaun og launakönnun út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum.

     1.      Hver voru viðbrögð ráðherra við tilmælum Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu, sem fram komu í bréfi til ráðuneytisins dags. 25. nóvember sl., um að gerð yrði launakönnun og áhrif nýs launakerfis frá 1997 skoðuð með hliðsjón af kynja- og jafnréttissjónarmiðum?
    Samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum til ársins 2008 er eitt af verkefnum þeim sem fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á „Úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna“. Í greinargerð ráðuneytisins til Jafnréttisstofu um stöðu þeirra verkefna sem ráðuneytið ber ábyrgð á, dags. 31. janúar 2005, er m.a. gerð grein fyrir stöðu þessa verkefnis. Þar er því lýst að þar sem undirbúningur og innleiðing hinna nýju kerfa hafi dregist fram yfir þau tímamörk sem samið var um á sínum tíma, hafi ekki tekist að halda þá tímaáætlun sem sett var fram á sínum tíma varðandi vinnu við að skilgreina þær kröfur sem launagögn þurfa að uppfylla til að hægt sé að nýta þau við mat á kynbundnum launamun. Fyrir liggi ný verkáætlun sem gerir ráð fyrir að hið nýja launa- og starfsmannakerfi komist í gagnið á þessu ári. Í kjölfar þess er gert ráð fyrir að fylgst verði reglulega með þróun kynjabundins launamunar. Í þessu sambandi má benda á að af hálfu ráðuneytisins hefur tvisvar sinnum á undanförnum árum verið leitað til Félagsvísindastofnunar með ósk um slíka úttekt en Félagsvísindastofnun hefur ekki treyst sér til slíks þar sem ekki er í núverandi kerfi hægt að flokka launagögn í samræmi við starfaflokkun Hagstofu Íslands en gert er ráð fyrir þeirri flokkun í þeim skilgreiningum sem hið nýja mannauðs- og launakerfi byggist á.

     2.      Hafa verið gefnar út leiðbeiningarreglur um greiðslu á viðbótarlaunum í samræmi við álit Ríkisendurskoðunar og tilmæli Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu í áðurnefndu bréfi? Ef svo er, hvernig eru þær leiðbeiningar? En ef svo er ekki, hver er skýringin á því?
    Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, segir að ákvarðanir forstöðumanna um að greiða starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum skuli fara eftir reglum sem fjármálaráðherra setji. Í samræmi við 52. gr. sömu laga ber fjármálaráðherra að hafa samráð við heildarsamtök starfsmanna ríkisins við setningu reglna af þessu tagi. Ríkisendurskoðun virðist ekki hafa byggt á þessu lagaákvæði í úttekt sinni.
    Ekki hafa verið settar reglur á grundvelli fyrrgreindrar 3. mgr. 9.gr. laga nr. 70/1996. Ástæða þess er sú að í tengslum við upptöku hins nýja launakerfis á sínum tíma, ákvað þáverandi fjármálaráðherra í samráði við formann BSRB, að ekki yrði að svo stöddu lögð vinna í útfærslu og framkvæmd reglna um viðbótarlaun skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996.