Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 793. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1226      —  793. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir gegn ótímabæru og óeðlilegu kynlífi unglinga.

Flm.: Una María Óskarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem beiti sér fyrir árangursríkum forvörnum og samhæfðum aðgerðum til að vinna gegn ótímabæru og óeðlilegu kynlífi unglinga.
    Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá Félagi framhaldsskólanema, Samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Félagi framhaldsskólakennara, landlæknisembættinu, Félagsþjónustunni í Reykjavík og Félagsþjónustu Kópavogs, Heimili og skóla, umboðsmanni barna og Stígamótum. Í starfshópnum verði hlutur hvors kyns a.m.k. 40%.

Greinargerð.


    Hér er lagt til að skipaður verði starfshópur sem beiti sér fyrir samhæfðu forvarnastarfi innan heilbrigðisþjónustu, skólakerfis og félagsþjónustu. Starfið beinist m.a. að opinni umræðu í þjóðfélaginu og fræðslu ungmenna, foreldra og annarra sem eiga samskipti við ungmenni, um samskipti kynjanna, kynlíf og gildi þess, fjölskylduráðgjöf og áhrifaþætti á borð við klám og klámvæðingu. Jafnframt beinir Alþingi því til heilbrigðisráðherra að aukin áhersla verði lögð á kynheilbrigðismál og að landlæknisembættinu, sem og Lýðheilsustöð, verði falin aukin verkefni í því sambandi.
    Mjög brýnt er að tekið verði á þeim vanda sem ótímabært og óeðlilegt kynlíf ungmenna hefur í för með sér. Kynlífsbyltingin og allt það frjálsræði sem henni fylgir hefur því miður leitt til þess að grundvallarreglur siðferðisins hafa verið gróflega brotnar, t.d. mun ekki einsdæmi að unglingsstúlkur greiði með einhvers konar kynmökum fyrir aðgang að samkvæmum. Því er spurt: Hvernig er hægt að sporna við því að unglingar fari of snemma að stunda kynlíf? Staðfest hefur verið að það er oft á einhvern hátt óeðlilegt og leiðir því miður ekki til þeirrar vellíðunar sem það ætti að gera. Líklegra er að upplifunin leiði til vanlíðunar og sektarkenndar. Einnig þarf að skoða hvaða þættir hafa áhrif. Auðvelt er að nálgast klámkennt efni þar sem kynlíf er afskræmt, t.d. í kvikmyndum og auglýsingum og á netinu, en ungir og óharðnaðir unglingar hafa oft ekki forsendur til að greina á milli þess sem er virðingu þeirra samboðið og þess sem er það ekki. Á vegum landlæknisembættisins vinnur þverfaglegur hópur nú að þessu máli.
    Vinna starfshópsins sem hér er lagt til að verði stofnaður gæti fallið að þeirri vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi innan heilbrigðisþjónustunnar og styrkt hana. Nauðsynlegt er að efla starfsemina, m.a. með nýju stöðugildi. Starfshópurinn gæti jafnframt beitt sér fyrir betra aðgengi að getnaðarvörnum, árangursríkari forvörnum og samhæfðum aðgerðum innan heibrigðiskerfis og menntakerfis og stuðlað að opinni umræðu og fræðslu í þjóðfélaginu meðal ungmenna, foreldra og annarra sem eiga samskipti við ungmenni.
    Hér á landi er einnig vert að sporna við ótímabærum þungunum, en um 1.000 fóstureyðingar eru nú framkvæmdar á ári hverju og u.þ.b. þriðjungur þeirra sem í hlut eiga eru undir 20 ára aldri. Tíðni þungana og fóstureyðinga meðal táninga hérlendis hefur þó minnkað síðustu ár og má að nokkru leyti rekja það til þess að auðveldara er orðið að nálgast neyðargetnaðarvarnir.
    Mikilvægt er að landlæknisembættinu, sem og Lýðheilsustöð, verði gert kleift að efla forvarnir í kynheilbrigðismálum, en benda má á að í skipuriti Lýðheilsustöðvar er ekki að sjá að starfssvið stofnunarinnar taki á þeim málaflokki.
    Styrkja þarf foreldra og aðra uppalendur og benda á áhrifaríkar leiðir til þess að börn og unglingar stundi ekki ótímabært kynlíf með öllum þeim afleiðingum sem það getur haft. Margoft hefur komið fram í rannsóknum að þar sem samskipti barna og foreldra eru góð komast góðar uppeldisreglur fremur til skila og meiri líkur eru á að unglingar fari eftir þeim. Mikilvægt er að byrja kynfræðslu snemma vegna þess að þegar börn eru komin á ákveðinn aldur vilja þau skilja sig frá foreldrunum og fara á stig sem kalla mætti stig aðskilnaðar-sjálfstæðis. Á þessu tímabili vilja þau síður taka mark á foreldrum sínum og fara þá síður eftir því sem þeir segja, sérstaklega ef samskiptin byggjast ekki á góðum grunni.
    Rannsóknir sýna að það eru aðallega mæður sem sjá um kynfræðslu barna sinna og einnig að stúlkur fá meiri fræðslu en piltar. Fræðslan hefur að stórum hluta verið um þær hættur sem felast í því að stunda kynlíf og því hefur í ríkara mæli verið haldið að stúlkum en drengjum að sýna ábyrgð í kynlífi. Fram hefur komið að yngri unglingar verða fyrir meiri áhrifum frá foreldrum, sérstaklega mæðrum, en þeir sem eldri eru og stúlkur frekar en piltar. Kynlífsbyltingin og allt það frjálsræði sem henni fylgir getur haft mjög óæskileg áhrif á óþroskaða unglinga. Þess vegna er nú tími til kominn að hefja hreinskilnislega umræðu um kynlíf unglinga og fræða þá ekki bara um hætturnar sem því fylgja heldur einnig um ábyrgðina sem fylgir því að stunda kynlíf og um þau siðferðislegu gildi sem hafa þarf í hávegum. Feður þurfa í ríkara mæli að fræða syni sína um hvað er eðlilegt í kynlífi og hvað ekki. Mikilvægt er að efla umræðuna meðal unglinganna sjálfra, meðal foreldra og í samfélaginu í heild. Það er því brýnt að starfshópur sá sem lagt er til að verði stofnaður hefji störf svo fljótt sem auðið er og að honum verði gert kleift að sinna því mikilvæga starfi að sporna við ótímabæru og óeðlilegu kynlífi unglinga.