Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 784. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1428  —  784. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um réttindi starfsfólks á einkaheimilum.

     1.      Telur ráðherra að lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eigi við um starfsfólk sem sinnir umönnunarstörfum á einkaheimilum?
    Ákvæði um að lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, tækju ekki til algengra heimilisstarfa í einkaíbúðum var fellt brott með lögum nr. 68/2003. Í athugasemdum við ákvæði 1. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 68/2003 segir að telja verði „eðlilegt að um afmörkun þess hvort störf í heimahúsum falli undir gildissvið laganna fari eftir hugtakanotkun og markmiðum þeirra að öðru leyti, svo sem um það hverjir teljast starfsmenn og hvað teljist starfsemi í skilningi þeirra“. Kveðið er á um gildissvið laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í 2. gr. laganna þar sem tekið er fram að lögin gildi um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn. Samkvæmt ákvæði 41. gr. laganna merkir vinnustaður í lögunum umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Ekki er að finna nánari skýringar í frumvarpi því er varð að lögunum um hvað átt er við með orðalagi ákvæðisins annað en að um nýmæli var að ræða. Þá merkir hugtakið starfsmaður í skilningi laganna hvern þann sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu, sbr. 24. gr. laganna. Þegar um er að ræða starfsfólk fyrirtækja eða stofnana sem bjóða umönnun einstaklinga á einkaheimilum verður ekki annað ráðið í ljósi framangreinds en að lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, eigi við um vinnuaðstæður starfsfólks er það sinnir störfum sínum á einkaheimilum.

     2.      Ef svo er, hvernig telur ráðherra unnt að tryggja að lögunum sé framfylgt í tengslum við umönnun sjúklinga í heimahúsum?
    Atvinnurekandi skal tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað skv. 13. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar er sérstaklega vísað til V. kafla laganna um framkvæmd vinnu, VI. kafla um vinnustaði, VII. kafla um vélar, tækjabúnað og fleira, VIII. kafla um hættuleg efni og vörur og XI. kafla um áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir. Enn fremur er lögð sú skylda á atvinnurekendur að gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómahættu sem kann að vera bundin við störf þeirra. Skal atvinnurekandi auk þess sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Leggja því lögin ríkar skyldur á herðar atvinnurekanda um að gæta að aðbúnaði starfsmanna sinna á vinnustöðum.
    Vinnueftirliti ríkisins er falið að hafa eftirlit með að atvinnurekendur er lögin taka til stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsmenn sína í starfi. Er starfsmönnum stofnunarinnar gert að fara í eftirlitsheimsóknir inn í fyrirtækin til þess að sinna hlutverki sínu og skal þeim veittur aðgangur að vinnustöðvum þeirra í þeim tilgangi. Í tilvikum er vinnustöðvar eru inni á einkaheimilum fólks þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða við eftirlitið, svo sem friðhelgi einkalífsins. Yrði því að koma eftirlitinu við í samvinnu atvinnurekanda, starfsmanns og þess er umönnunar nýtur. Enn fremur er atvinnurekanda skylt að hafa skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað aðgengilega fyrir starfsmenn Vinnueftirlitsins en stofnunin hefur eftirlit með að gerð sé slík áætlun, sbr. 2. mgr. 65. gr. laganna.
    Starfsmönnum er jafnan heimilt að gera Vinnueftirliti ríkisins viðvart telji þeir aðstæður á vinnustað ekki fullnægjandi. Er starfsmönnum Vinnueftirlitsins óheimilt að láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans þegar eftirlitsferð er gerð vegna umkvörtunar, sbr. 2. mgr. 83. gr. laganna. Verði atvinnurekandi ekki við athugasemdum stofnunarinnar um að bæta úr vanbúnaði eða öðru ástandi, sem brýtur gegn lögunum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er stofnuninni heimilt að beita þvingunarúrræðum skv. 84.–85. gr. og 87. gr. laganna.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að gera sérstakt áhættumat vegna einstakra verkefna í heimahjúkrun?
    Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu en skv. 65. gr. a laganna ber atvinnurekandi ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat. Þar skal meta áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Tilgangur áhættumatsins er einkum sá að gera atvinnurekendum og starfsmönnum grein fyrir þeirri áhættu sem kann að felast í viðkomandi störfum. Þannig er þeim gert kleift að koma í veg fyrir hana eða ef þess er ekki kostur að draga úr henni eins og frekast er unnt. Atvinnurekendum er bjóða heimahjúkrun ber því að sjá til þess að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem og að gert sé sérstakt áhættumat á sama hátt og öðrum atvinnurekendum er lögin taka til.
    Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt, sbr. 2. gr. 65. gr. a laganna.

     4.      Hver eru réttindi starfsfólks varðandi álag og slæman aðbúnað við umönnunarstörf ef:
              a.      sjúklingur hafnar notkun viðeigandi hjálpartækis,
              b.      ef ekki er hægt að koma hjálpartæki við?

    Atvinnurekanda ber að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar á meðal er honum gert að gera áætlun um forvarnir þar sem koma skal fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, þjálfun, vali á tækjum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar eða öðrum forvörnum enda er markmiðið ætíð að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
    Það getur verið þýðingarmikið að sá er nýtur umönnunar njóti jafnframt fræðslu um mikilvægi notkunar hjálpartækja fyrir heilsu og líðan þess er veitir umönnunina. Hlýtur það að teljast eðlilegt að atvinnurekendur er koma að þessum málum leiti eftir samkomulagi við þann er nýtur þjónustunnar um notkun viðeigandi hjálpartækja og jafnvel geri notkun slíkra tækja að skilyrði fyrir þjónustunni. Við val á tækjum þarf meðal annars þá að taka tillit til aðstæðna þess er nýtur þjónustunnar og jafnvel annarra heimilismanna. Er eðlilegt að þar sé gætt meðalhófs en sem dæmi má nefna að skoða þyrfti sérstaklega hvort talið gæti réttlætanlegt að gera kröfur um búnað sem er til þess fallinn að rýra verðgildi fasteignar þegar öðrum ráðstöfunum verður við komið. Engu síður verður ávallt að tryggja aðbúnað starfsmannsins eins og best verður á kosið miðað við aðstæður. Í tilvikum þegar ekki er unnt að koma í veg fyrir áhættu sem kann að felast í viðkomandi störfum, t.d. ekki unnt að koma viðeigandi hjálpartækjum við, ber að draga úr henni eins og frekast er kostur með öðrum ráðstöfunum. Getur atvinnurekandi þá til dæmis gripið til þeirrar ráðstöfunar að fleiri starfsmenn komi að aðhlynningu inni á einkaheimili sem létti starfsmönnum starfið þannig að öryggi þeirra sé tryggt.

     5.      Kemur ef til vill til álita að setja sérreglur um heimahjúkrun, líkt og gert var í Svíþjóð 1990?
    Ekki hefur verið sérstaklega skoðað hvort ástæða sé til að setja sérreglur um vinnuaðstæður þeirra er starfa við heimahjúkrun. Félagsmálaráðherra telur eðlilegt að mál þetta verði tekið upp á vettvangi stjórnar Vinnueftirlits ríkisins þar sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins eiga meðal annars sæti en stjórninni er ætlað að vera ráðherra til ráðgjafar í málum er tengjast bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum. Mun ráðherra því senda erindi til stjórnar stofnunarinnar þar sem óskað verður eftir áliti hennar um hvernig best verði staðið að þessum málum hér á landi.