Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 212. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 212  —  212. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis.

Flm.: Jón Bjarnason, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og mögulegar leiðir til að draga úr honum og auka í staðinn fullvinnslu innan lands. Ráðherra birti Alþingi niðurstöður sínar og tillögur eins fljótt og unnt er.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 131. löggjafarþingi og er nú lögð fram lítið breytt en fylgiskjöl hafa verið uppfærð.
    Útflutningur á óunnum fiski í gámum á fiskmarkaði erlendis jókst frá árinu 2002 úr rúmlega 21 þús. tonnum í rúm 43 þús. tonn árið 2004 og nam á fyrstu sex mánuðum þessa árs tæpum 27 þús. tonnum. Útflutningur þessi hefur verulega neikvæð áhrif á þjóðarbúið enda ljóst að unnt væri að auka útflutningsverðmæti þessa afla umtalsvert ef hann væri unninn hér á landi. Hráefnisskortur er viðvarandi vandamál í íslenskri fiskvinnslu, ekki síst hjá þeim fyrirtækjum sem reka fiskvinnslu án útgerðar og treysta því algjörlega á nægt framboð af fiski á íslenskum fiskmörkuðum. Þegar fiskur er fluttur óunninn á fiskmarkaði erlendis hafa íslenskir fiskverkendur enga möguleika til að bjóða í hann. Segja má að jafnræði íslenskra fiskkaupenda gagnvart erlendum fiskkaupendum, sem og samkeppnisstaða þeirra, sé skert að þessu leyti. Þegar útflutningur á óunnum fiski er orðinn eins mikill og raun ber vitni hefur hann mjög neikvæð áhrif á möguleika fiskvinnslufyrirtækja til viðgangs og vaxtar. Þetta er sérstaklega bagalegt í því ljósi að virðisauki í vinnslu sjávarafurða hefur verið með mesta móti hjá þeim fyrirtækjum sem stunda fiskvinnslu án útgerðar auk þess sem þessi fyrirtæki hafa í mörgum tilvikum verið í fararbroddi við að vinna nýja markaði fyrir hágæða íslenskan fisk í hæsta verðflokki.
    Spyrja má hvað valdi því að óunninn fiskur sé fluttur úr landi í þessum mæli. Margir hafa haldið því fram að orsakanna megi leita í ólíkum vigtunarreglum og svokallaðri yfirvigt sem tíðkast á erlendum fiskmörkuðum. Að minnsta kosti virðist ekki eingöngu unnt að skýra hinn mikla útflutning með vísan til þess að hærra verð fáist fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum enda hefur fiskverð verið mjög hátt á fiskmörkuðum hérlendis undanfarin ár. Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra kanni hvaða undirliggjandi ástæður og orsakir séu fyrir þessum mikla útflutningi og komi með tillögur til úrbóta.
    Í sjávarútvegsstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er komið inn á þetta, m.a. með eftirfarandi hætti: „Auk þess sem hér er talið upp má nefna að skoða þarf sérstaklega aðstöðumun landvinnslu og sjóvinnslu með það fyrir augum að finna leiðir til að jafna þann mun, auka alhliða menntun á sviði sjósóknar og fiskvinnslu og stuðla að fullvinnslu alls sjávarfangs. Þá þarf að tryggja nýliðun í greininni og huga sérstaklega að þjálfun verðandi sjómanna. Einnig ber að setja reglur um að allur afli, sem ekki fer beint til vinnslu hjá sama aðila og veiðarnar stundar, skuli fara á markað til að auðvelda aðgang innlendrar fiskvinnslu að öllu því hráefni.“
    Íslenskur fiskmarkaður hefur verið í mikilli framþróun á síðustu árum. Með upptöku fullkomins uppboðskerfis er nú unnt að stunda viðskipti á honum með hjálp netsins, hvar sem er í heiminum. Þannig standa kaupendur erlendis jafnfætis öðrum þegar uppboð fara fram. Er það álit flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu að eðlilegast væri að allur sá fiskur sem nú er fluttur á erlenda fiskmarkaði færi þess í stað á íslenskan fiskmarkað enda væru möguleikar erlendra fiskkaupenda til að bjóða í og kaupa íslenskan fisk og flytja hann út óunninn til vinnslu eða sölu ekki skertir. Hins vegar hefðu íslenskir fiskkaupendur þá alltaf möguleika á að bjóða í fiskinn í samkeppni við aðra.
    Ótvírætt er að það þjónar hagsmunum Íslendinga að sem mest af þeim fiski sem veiddur er hér við land sé jafnframt unninn hér á landi. Alþingi og stjórnvöldum ber að haga lögum og reglum þannig að jafnræði og samkeppnisstaða íslenskra fiskverkenda sé trygg til að svo geti orðið.



Fylgiskjal I.


Hagstofa Íslands:

Verðmæti sjávarafla janúar–nóvember 2005.
(www.hagstofa.is)


Verðmæti útflutts óunnins afla eykst um 23% milli ára.
    Á fyrri helmingi ársins 2005 var aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 36,7 milljarðar króna samanborið við 36,2 milljarða á sama tímabili 2004. Aflaverðmæti hefur því aukist um 1,4% frá fyrra ári eða um tæpar 520 milljónir króna. Verðmæti botnfiskaflans var rúmir 25,2 milljarðar og jókst um ríflega 570 milljónir króna (2,3%). Verðmæti þorsks var rúmlega 14,1 milljarður og dróst saman um 1,7 milljarða króna (-10,8%). Verðmæti ýsuaflans nam 4,6 milljörðum króna og jókst um tæpan 1,1 milljarð (31%). Verðmæti karfa var 2,9 milljarðar króna og er það aukning um rúmlega 800 milljónir frá fyrra ári (37%). Verðmæti flatfiskaflans var 2,8 milljarðar króna og dróst saman um ríflega 730 milljónir milli ára (-21%). Aflaverðmæti síldar á þessu tímabili jókst töluvert og var tæplega 1,5 milljarðar króna og er það aukning um rúmar 530 milljónir (56%). Í heild nam aflaverðmæti uppsjávaraflans 7,9 milljörðum sem er aukning um 1,3 milljarða milli ára (20%). Verðmæti skel- og krabbadýraafla var tæplega 770 milljónir sem er ríflega 640 milljóna króna samdráttur frá 2004 (-46%), þar af nam verðmæti rækjuafla einungis um 280 milljónum sem er samdráttur um tæpar 800 milljónir frá fyrra ári (-74%).
    Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var á tímabilinu 16,7 milljarðar króna samanborið við 17,6 milljarða á árinu 2004 og er það samdráttur um 5,3%. Verðmæti sjófrysts afla var 10,4 milljarðar króna samanborið við 9,1 milljarð á árinu 2004 sem er aukning um 15%.Verðmæti afla sem seldur var á fiskmörkuðum til vinnslu innan lands dróst saman um 3,9%, var 5,2 milljarðar króna samanborið við 5,5 milljarða á sama tímabili 2004. Í gámum var fluttur út ferskur fiskur fyrir 3,5 milljarða króna sem er aukning frá fyrra ári um rúmar 650 milljónir (23%).
    Á Suðurnesjum var unnið úr afla að verðmæti 6,7 milljarðar króna sem er samdráttur upp á hálft prósent milli ára. Hlutfallslega er aukning aflaverðmætis til vinnslu mest á Suðurlandi eða 21% en mest aukning milli ára í krónum talið varð á höfuðborgarsvæðinu, tæpar 890 milljónir króna eða sem nemur 18%. Mestur varð samdráttur hins vegar á Vesturlandi, tæpir 1,3 milljarðar (-45%).
    Upplýsingar um afla og aflaverðmæti janúar–maí 2005 1 er að finna í talnaefni.

Verðmæti afla janúar–júní 2005
Milljónir kr. Breytingar frá
Júní Janúar–júní fyrra ári í %
2004 2005 2004 2005 Jan.–júní
Verðmæti alls 5.971,7 5.141,1 36.223,1 36.741,7 1,4
Botnfiskur 3.186,8 2.669,7 24.658,4 25.231,3 2,3
        Þorskur 1.682,5 1.344,9 15.767,8 14.060,1 -10,8
        Ýsa 316,9 375,1 3.545,4 4.637,5 30,8
        Ufsi 121,3 95,8 977,4 1.103,0 12,9
        Karfi 217,1 237,6 2.140,5 2.941,8 37,4
        Úthafskarfi 664,5 367,3 903,7 846,2 -6,4
        Annar botnfiskur 184,5 249,1 1.323,5 1.642,6 24,1
Flatfiskur 1.129,9 801,9 3.559,5 2.825,0 -20,6
Uppsjávarafli 1.219,6 1.482,2 6.589,1 7.918,0 20,2
        Síld 576,2 1.011,4 952,5 1.484,0 55,8
        Loðna 61,3 0,5 3.669,3 4.746,8 29,4
        Kolmunni 582,0 470,3 1.460,6 1.246,7 -14,6
        Annar uppsjávarafli 0,0 0,0 506,7 440,6 -13,1
Skel- og krabbadýraafli 435,4 187,2 1.406,2 765,5 -45,6
        Rækja 317,7 40,3 1.075,2 279,5 -74
        Annar skel- og krabbadýraafli 117,7 146,9 331,0 486,0 46,8
Annar afli 0,0 0,1 9,9 1,9 -81,3
Verðmæti afla eftir tegund löndunar janúar–júní 2005
Milljónir kr. Breytingar frá
Júní Janúar–júní fyrra ári í %
2004 2005 2004 2005 Jan.–júní
Verðmæti alls 5.971,7 5.141,1 36.223,1 36.741,7 1,4
Til vinnslu innan lands 2.588,6 1.970,7 17.654,6 16.714,4 -5,3
Í gáma til útflutnings 440,8 487,5 2.884,9 3.538,4 22,7
Landað erlendis í bræðslu 0,0 0,0 89,6 33,3 -62,9
Sjófryst 2.034,4 1.954,5 9.095,2 10.423,9 14,6
Á markað til vinnslu innan lands 745,3 634,7 5.453,5 5.241,5 -3,9
Á markað, í gáma til útflutnings 81,0 83,1 492,6 558,7 13,4
Sjófryst til endurvinnslu innan lands 50,1 0,0 159,2 44,4 -72,1
Selt úr skipi erlendis 11,0 0,0 252,5 54,6 -78,4
Fiskeldi 6,1 0,8 17,4 4,7 -73,1
Aðrar löndunartegundir 14,5 9,8 123,6 127,9 3,5
Verðmæti afla eftir staðsetningu verkunarstaðar janúar–júní 2005
Milljónir kr. Breytingar frá
Júní Janúar–júní fyrra ári í %
2004 2005 2004 2005 Jan.–júní
Verðmæti alls 5.971,7 5.141,1 36.223,1 36.741,7 1,4
Höfuðborgarsvæði 785,9 646,5 5.000,1 5.889,6 17,8
Suðurnes 664,1 698,1 6.733,2 6.708,5 -0,4
Vesturland 515,7 173,2 2.812,4 1.562,1 -44,5
Vestfirðir 421,1 282,5 2.266,6 1.973,2 -12,9
Norðurland vestra 492,0 430,9 2.581,0 2.493,3 -3,4
Norðurland eystra 1.248,3 1.138,1 5.338,8 5.715,9 7,1
Austurland 839,3 697,9 4.839,5 4.681,5 -3,3
Suðurland 563,8 614,8 3.458,7 4.179,8 20,8
Útlönd 441,4 459,2 3.192,8 3.537,9 10,8



Fylgiskjal II.


Hagstofa Íslands:

Afli af Íslandsmiðum eftir tegund löndunar og fisktegundum.1
(Heimild: Vigtarskýrslur.)


Í gáma til útflutnings
2002 2003 2004 20052
Heildarafli 21.114 27.831 43.430 26.549
Botnfiskafli 19.084 24.919 39.900 24.586
Þorskur 3.485 4.944 7.498 3.531
Ýsa 3.447 8.208 16.410 9.799
Ufsi 117 219 1.399 328
Karfi 9.031 8.085 9.532 7.370
Úthafskarfi 53 417 83 128
Steinbítur 1.355 1.521 2.649 2.266
Hlýri 32 63 309 151
Langa 142 176 268 193
Blálanga 217 125 284 176
Keila 17 26 33 15
Langhali - 1 - -
Tindaskata 1 1 - -
Skötuselur 173 474 719 307
Skata 3 2 12 16
Lýsa 732 442 526 266
Gulllax - - - -
Háfur 253 192 132 24
Hákarl - - - -
Annar botnfiskur 26 22 45 14
Flatfiskafli 2.030 2.912 3.530 1.963
Lúða 108 120 104 56
Grálúða 283 1.121 1.176 505
Skarkoli 1.224 1.313 1.536 869
Þykkvalúra 324 319 678 509
Langlúra 7 4 18 12
Stórkjafta 5 9 12 9
Sandkoli 78 23 5 2
Skrápflúra - 2 1 2
Annar flatfiskur - - 1 -
1 Í tonnum.
2 Tölur fyrir árið 2005 eru fyrir fyrstu sex mánuði ársins.



Fylgiskjal III.


Hagstofa Íslands:

Verðmæti afla af Íslandsmiðum eftir tegund löndunar og fisktegundum.1
(Heimild: Vigtarskýrslur.)


Í gáma til útflutnings
2002 2003 2004 20052
Heildarafli 3.608.606 4.127.199 6.378.577 3.538.426
Botnfiskafli 3.070.503 3.409.401 5.429.284 3.071.168
Þorskur 680.446 929.170 1.395.707 606.009
Ýsa 566.385 967.832 2.024.559 1.167.382
Ufsi 8.755 13.399 89.460 20.572
Karfi 1.385.263 1.011.941 1.251.233 846.006
Úthafskarfi 6.879 44.184 9.242 12.778
Steinbítur 221.732 215.532 337.167 270.753
Hlýri 5.621 11.152 46.339 18.663
Langa 15.428 14.704 20.653 14.276
Blálanga 21.274 11.539 26.539 13.611
Keila 1.241 1.505 2.128 887
Langhali 2 88 - -
Tindaskata 9 57 - -
Skötuselur 55.446 126.219 164.014 73.021
Skata 246 244 1.857 2.794
Lýsa 53.704 30.606 36.790 20.021
Gulllax - - - -
Háfur 44.993 29.399 17.872 2.600
Hákarl 8 - - 4
Annar botnfiskur 3.073 1.828 5.726 1.792
Flatfiskafli 538.103 717.798 949.293 467.258
Lúða 58.084 58.938 59.446 27.240
Grálúða 69.596 275.149 338.431 134.603
Skarkoli 296.404 276.203 361.285 183.016
Þykkvalúra 107.075 104.835 186.290 119.530
Langlúra 543 436 2.023 1.549
Stórkjafta 677 701 1.300 716
Sandkoli 5.698 1.390 255 56
Skrápflúra - 105 73 514
Annar flatfiskur 27 41 191 34
1 Í þús. kr.
2 Tölur fyrir árið 2005 eru frá fyrstu sex mánuðum ársins.




Fylgiskjal IV.


Útflutningur á óunnum fiski hefur aukist mikið.
(Morgunblaðið 11. október, 2005.)


    Mun meira var flutt utan af ísuðum fiski í gámum og í siglingum á síðasta fiskveiðiári en fiskveiðiárið á undan. Það skýrist að hluta af mikilli aukningu á ýsu í kjölfar mun meiri ýsuafla á síðustu tveimur árum. Útflutningur á ísuðum karfa vegur svipað á milli ára og sama gildir um þorskinn og ufsann. Að meðtöldum öðrum botnfisktegundum og flatfiski má reikna með að heildarmagn upp úr sjó í gáma og siglingar hafi verið um 55 þúsund tonn á síðasta fiskveiðiári. Þetta kom fram í skýrslu Arnars Sigurmundsson, formanns Samtaka fiskvinnslustöðva, á aðalfundi samtakanna.
    Ef fimm ára tímabil er skoðað kemur í ljós að mestu sveiflurnar hafa orðið í útflutningi á þorski og ýsu. Á fyrsta ári þessa fimm ára tímabils nam þorskurinn rúmlega 8 þúsund tonnum, en fór lægst í rúm 5 þúsund tonn, en á nýliðnu fiskveiðiári í tæp 10 þúsund tonn. Ýsan hefur sveiflast nokkuð eftir aflabrögðum og fór lægst í rúm 4 þúsund tonn, en var rúm 19 þúsund tonn á síðasta fiskveiðiári. Mjög takmarkað hefur verið flutt út af ísuðum ufsa á síðustu fimm árum. Fór magnið niður í 250 tonn, en hækkaði upp í rúm 1.700 tonn upp úr sjó á síðasta fiskveiðiári. Árlegur útflutningur á ísuðum karfa verið á bilinu 8 þúsund upp í tæp 12 þúsund tonn í fyrra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Breytt ráðstöfun botnfiskaflans.
    Ráðstöfun botnfiskaflans hefur breyst nokkuð á síðustu 10 árum. „Við upphaf tímabilsins var fjölgun vinnsluskipa komin fram að miklu leyti og tekið var að draga úr hlutdeild gámafisks. Veiðar utan lögsögunnar voru umtalsverðar á fyrstu 2–3 árum tímabilsins og sama gilti um innflutning á Rússaþorski. En hlutirnir breytast hratt. Mikill samdráttur varð í botnfiskveiðum utan lögsögunnar og vinnsla á rússafiski innanlands minnkaði mjög mikið. Heildarbotnfiskaflinn hefur aftur á móti lítið breyst á milli ára og verið um og yfir 500 þúsund tonn upp úr sjó flest árin.
    Ráðstöfun botnfiskafla til vinnslu innanlands var komin niður í tæp 60% fyrir áratug og hefur haldist mjög nálægt því hlutfalli síðan. Fyrstu sjö mánuði þessa árs er áætlað að 58% af botnfiskaflanum hafi farið til vinnslu hér á landi og ferskfiskvinnsla í flug innifalin í þeim tölum. Er þetta 4 prósentustigum lægra hlutfall en á síðasta ári. Nær alveg hefur tekið fyrir innflutning á Rússaþorski til vinnslu innanlands og var hann aðeins tæplega 350 tonn sem er meira en helmingi minna en á sama tíma í fyrra.
    Hlutdeild vinnsluskipa í botnfiskaflanum hefur verið að meðaltali um og yfir 30% á síðustu árum. Fyrstu sjö mánuði þessa árs er hlutfall vinnsluskipa 26% og þessu til viðbótar kemur úthafsafli innlendra vinnsluskipa sem vegur um 2% fyrstu sjö mánuði ársins. Eru þetta svipaðar hlutfallstölur og á sama tímabili í fyrra.
    Hlutfall gámafisks og siglinga fiskiskipa á erlendan markað náði hámarki, tæpum 20% fyrir einum og hálfum áratug. Síðan tók hlutfallið að lækka og varð nokkuð stöðugt eða 6-7% af heildarbotnfiskaflanum. Fyrstu sjö mánuði þessa árs er hlutfall gámafisks áætlað um 13% af botnfiskaflanum, en allt árið í fyrra nam gámafiskur 12%. Aukinn ýsuafli á verulegan þátt í aukningu gámafisks á síðustu tveimur árum.
    En fiskvinnslan er ekki eingöngu háð hráefni af innlendum fiskiskipum. Ef við skoðum hlutfallstölur frá fiskveiðiárinu sem lauk 31. ágúst sl. kemur í ljós að 79% af hráefni til rækjuvinnslu er innflutt á móti 60% árið áður og 12% af uppsjávarfiski eru af erlendum veiðiskipum, sem er nær sama hlutfall og árið áður,“ sagði Arnar Sigurmundsson á aðalfundi SF.
Neðanmálsgrein: 1
1 Þessar upplýsingar byggjast á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendum. Fyrir árið 2005 er stuðst við bráðabirgðatölur en endanlegar tölur liggja að baki talna fyrir árið 2004. Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1–2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri.