Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 534  — 179. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Guðlaug Sverrisson frá Úrvinnslusjóði. Umsagnir bárust frá Bændasamtökunum, Olíudreifingu, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Skeljungi, tollstjóranum í Reykjavík og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um úrvinnslugjald: Í fyrsta lagi að nýjar reiknireglur verði teknar upp vegna útreikninga á hlutfalli pappa-, pappírs- og plastumbúða utan um vöru, í annan stað breytingar á reglum um niðurfellingu og endurgreiðslu úrvinnslugjalds og í þriðja lagi er lögð til lækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða.
    Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald er meginreglan sú að gjaldskyldur aðili skal gefa upp þyngd umbúða þegar vörusending hlýtur tollafgreiðslu. Lagt er til í a-lið 1. gr. frumvarpsins að í þeim tilvikum þegar staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða liggja ekki fyrir verði beitt ákveðnum reiknireglum sem ráðherra setur með reglugerð. Í athugasemdum með frumvarpinu er fjallað um þessar reiknireglur en þær byggjast á reiknimódeli Logisys A/S sem er danskt ráðgjafar- og verkfræðifyrirtæki og hefur í u.þ.b. 15 ár mælt hlutfall umbúða utan um vörur á dönskum markaði. Sýnir módelið að magn umbúða utan um vöru liggur á bilinu 1–5% af nettóþyngd hennar. A-liður 1. gr. frumvarpsins kom talsvert til umræðu í nefndinni. Nefndin telur að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé farið á svig við þær kröfur sem gerðar eru í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kemur fram að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Nefndin gerir því tillögu um að viðkomandi tollskrárnúmer fylgi í viðauka við lögin og að þar komi álagningarstofninn fram, þ.e. hlutfall nettóþyngdar pappa-, pappírs- og plastumbúða utan um vöru.
    Eins og að framan greinir er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á framkvæmd niðurfellingar og endurgreiðslu úrvinnslugjalds. Annars vegar er í b-lið 1. gr. heimild til niðurfellingar úrvinnslugjalds þegar um pappa-, pappír- og plastumbúðir er að ræða og á niðurfellingin einungis við um umbúðir sem heyra til ákveðinna tollskrárnúmera. Hins vegar er í 2. gr. veitt heimild til endurgreiðslu úrvinnslugjalds þegar gjaldskyld vara verður sannanlega flutt úr landi og kemur ekki til úrvinnslu hér á landi. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir að ráðherra setji með reglugerð nánari reglur um framkvæmd. Farið verður með endurgreiðslur eins og aðrar endurgreiðslur hjá skattstjórum og niðurfellingarheimildir verða í tolli.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust kom t.d. fram að það þætti kostur að settar væru nákvæmari reiknireglur um magn umbúða og þær skiptu máli varðandi markmið um endurvinnslu og endurnotkun. Þá kom fram að það fyrirkomulag að úrvinnslugjald yrði fellt niður í þeim tilfellum þegar umbúðir fara til útflutnings væri einfaldara en núverandi fyrirkomulag og kæmi í veg fyrir að úrvinnslugjald lægi falið í umbúðum á lager. Jafnframt var því fagnað að innheimta og umsýsla opinberra gjalda væri einfölduð með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu, þ.e. að innheimta og endurgreiðsla sé á sömu hendi, hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Auk þess kom fram að mikilvægt væri að vandað yrði til reglugerðar um framkvæmd endurgreiðslu.
    Nefndin telur eðlilegt að gerð sé tillaga um lækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða eins og gert er í frumvarpinu.
    Upphaflega átti gjaldtaka úrvinnslugjalds af pappa-, plast- og pappírsumbúðum að hefjast 1. september 2005. Á vorþingi 2005 (á 131. löggjafarþingi) voru samþykkt lög sem heimiluðu frestun gjaldtöku um fjóra mánuði, eða til 1. janúar 2006. Nefndin telur ánægjulegt að niðurstaða hafa fengist og er það von hennar að þessi langi undirbúningur skili sér í góðri framkvæmd.
    Að mati nefndarinnar eiga Íslendingar að vera til fyrirmyndar á sviði umhverfismála og mikilvægt er að ríki og sveitarfélög ásamt hagsmunaaðilum hugi að næstu skrefum í söfnun, úrvinnslu og endurnýtingu.
    Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frumvarpinu: Í fyrsta lagi að a-lið 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að þær reiknireglur sem mynda álagningarstofn úrvinnslugjalds verði í viðauka við lögin í stað þess að ráðherra setji þær í reglugerð. Í öðru lagi að tekið verði fram að það sé umhverfisráðherra sem setur reglugerð skv. a-lið 1. gr., b- lið 1. gr. og 6. málsl. 2. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi er gerð tillaga um orðalagsbreytingu í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 1. des. 2005.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.



Ásta Möller.


Mörður Árnason.


Kjartan Ólafsson.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.