Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 687. máls.

Þskj. 1004  —  687. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 frá 8. júlí 2005, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskipaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 frá 8. júlí 2005, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
    Tilskipunin mælir fyrir um lágmarkssamræmingu á reglum um endurnot þeirra opinberu upplýsinga sem almenningi er á annað borð heimill aðgangur að. Takmarkanir og skorður við slíkum endurnotum má setja í þágu persónuverndar og friðhelgi einkalífs annars vegar og höfundaréttar og lögverndar annarra hugverka hins vegar. Ákvæði tilskipunarinnar varða markmið og gildissvið, tengsl við reglur um aðgang að upplýsingum, meðferð umsókna og skilmála um endurnot upplýsinga, upplýsingaskyldu um rétthafa verndaðra verka, form aðgangs, gjaldtöku og jafnan rétt til að endurnýta upplýsingar.
    Samkvæmt tilskipuninni ber að svara beiðni um endurnot opinberra upplýsinga innan hæfilegs tíma og ekki síðar en 20 dögum eftir að hún berst stjórnvaldi. Þegar endurgjalds er krafist fyrir endurnot opinberra upplýsinga skal gjaldið ekki vera hærra en sem nemur kostnaði stjórnvaldsins af upplýsingagjöfinni og nauðsynlegum fjárfestingum.
    Þá er kveðið á um að aðildarríkjum beri að sjá til þess að leit að gögnum sem heimilt er að endurnýta sé auðveld, t.d. þannig að skjalalistar séu birtir á netinu.
    Gæta ber jafnræðis þegar endurnot eru heimiluð. Bann er lagt við einokunarsamningum við einstaka notendur nema þeir séu nauðsynlegir til þess að sjá megi fyrir opinberri þjónustu. Í því tilfelli skal það endurskoðað reglulega hvort þörf sé á slíkum samningum.
    Loks er mælt fyrir um að framkvæmdastjórn ESB muni endurskoða beitingu tilskipunarinnar ekki síðar en 1. júlí 2008.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 105/2005

frá 8. júlí 2005

um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XI. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2005 frá 11. mars 2005 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 5j (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/84/EB) í XI. viðauka við samninginn:

„5k.              32003 L 0098: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 90).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2003/98/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 9. júlí 2005 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 8. júlí 2005.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Nikulás prins af Liechtenstein

    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/98/EB
frá 17. nóvember 2003
um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Sáttmálinn kveður á um stofnun innri markaðar og kerfis sem tryggir að samkeppni á innri markaðinum raskist ekki. Samræming á reglum og venjum aðildarríkjanna um hagnýtingu upplýsinga frá hinu opinbera stuðlar að því að þessum markmiðum verði náð.
2)          Þróun í átt til upplýsinga- og þekkingarsamfélags hefur áhrif á líf allra borgara í Evrópusambandinu með því, m.a., að gera þeim kleift að leita nýrra leiða til aðgangs að þekkingu og þekkingaröflunar.
3)          Stafrænt efni gegnir mikilvægu hlutverki í þessari þróun. Framleiðsla á slíku efni hefur stuðlað að örri atvinnusköpun á undanförnum árum og heldur sú þróun áfram. Flest þessara starfa verða til í litlum, nýstofnuðum fyrirtækjum.
4)          Hið opinbera lætur safna, framleiða, fjölfalda og dreifa margvíslegum upplýsingum á ýmsum sviðum, s.s. á sviði félagsmála, efnahagsmála, landafræði, veðurs, ferðamála, viðskipta, einkaleyfa og menntamála.
5)          Eitt af meginmarkmiðunum með því að koma á fót innri markaði er að skapa skilyrði sem stuðla að þróun þjónustu sem nær til alls Bandalagsins. Upplýsingar frá hinu opinbera eru mikilvægur efniviður í stafrænar vörur og þjónustu og verða jafnvel enn mikilvægari uppspretta efnis eftir því sem þráðlaus efnisþjónusta þróast. Víðtæk landfræðileg útbreiðsla yfir landamæri mun einnig skipta sköpum í þessu samhengi. Auknir möguleikar á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera ættu m.a. að gera evrópskum fyrirtækjum kleift að hagnýta möguleika þeirra og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun.
6)          Verulegur munur er á reglum og venjum aðildarríkjanna um hagnýtingu upplýsinga frá hinu opinbera og kemur hann í veg fyrir að þessi mikilvæga uppspretta gagna sé nýtt til fulls. Mjög mismunandi hefðir hafa skapast hjá opinberum aðilum varðandi hagnýtingu upplýsinga frá hinu opinbera. Þetta ber að hafa í huga. Því skal fara fram lágmarkssamræming á innlendum reglum og venjum um endurnotkun gagna frá hinu opinbera þegar innlendar reglur og venjur eða skortur á skýrleika hindra snurðulausa starfsemi innri markaðarins og eðlilega þróun upplýsingasamfélagsins í Bandalaginu.
7)          Án lágmarkssamræmingar innan Bandalagsins gæti lagasetning á innlendum vettvangi, sem þegar er hafin í mörgum aðildarríkjanna til að koma til móts við þróun tækninnar, ennfremur leitt til þess að munurinn verði ennþá meiri. Áhrif þessa lagaósamræmis og réttaróvissu munu verða veigameiri eftir því sem upplýsingasamfélagið þróast, en það hefur þegar aukið verulega hagnýtingu upplýsinga yfir landamæri.
8)          Brýnt er að setja almennan ramma um skilyrði fyrir endurnotkun gagna frá hinu opinbera til að tryggja að skilyrðin fyrir endurnotkun slíkra upplýsinga séu sanngjörn, án mismununar og hlutfallsbundin. Opinberir aðilar safna, framleiða, fjölfalda og dreifa gögnum við opinber störf sín. Notkun slíkra gagna í öðrum tilgangi telst endurnotkun. Aðildarríkin geta gengið lengra í stefnum sínum en lágmarksstaðlarnir, sem settir eru í þessari tilskipun, og þannig heimilað víðtækari endurnotkun.
9)          Þessi tilskipun felur ekki í sér skyldu til að heimila endurnotkun gagna. Það er áfram ákvörðun aðildarríkisins eða hlutaðeigandi opinbers aðila hvort heimila skuli slíka endurnotkun eða ekki. Þessi tilskipun gildir um gögn sem gerð eru aðgengileg til endurnotkunar þegar opinberir aðilar gefa út leyfi fyrir upplýsingum, selja, dreifa, skiptast á eða gefa út upplýsingar. Til að komast hjá víxlniðurgreiðslum skal endurnotkun fela í sér frekari notkun gagna innan stofnunarinnar sjálfrar vegna starfsemi sem fellur utan opinbers starfssviðs hennar. Dæmigerð starfsemi sem er utan opinbers starfssvið nær til afhendingar gagna sem eru búin til og tekið er gjald fyrir eingöngu á viðskiptagrundvelli og í samkeppni við aðra á markaðinum. Skilgreiningunni „gögn“ er ekki ætlað að taka til tölvuforrita. Tilskipun þessi byggir á því fyrirkomulagi um aðgang sem fyrir er í aðildarríkjunum og hefur ekki áhrif á innlendar reglur um aðgang að gögnum. Hún gildir ekki í þeim tilvikum þar sem borgarar eða fyrirtæki geta, samkvæmt gildandi fyrirkomulagi um aðgang, einungis fengið gögn með því að sýna fram á að þeir hafi sérstakra hagsmuna að gæta. Á vettvangi Bandalagsins er viðurkenndur í 41. gr. (réttur til góðrar stjórnsýslu) og 42. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, réttur allra borgara í Evrópusambandinu og allra einstaklinga og lögaðila sem hafa fasta búsetu eða skráð aðsetur í aðildarríki til aðgangs að gögnum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Opinberir aðilar skulu hvattir til að gera öll gögn í vörslu sinni aðgengileg til endurnotkunar. Opinberir aðilar skulu hvetja til og stuðla að endurnotkun gagna, þ.m.t. opinberra laga- og stjórnsýslutexta í þeim tilvikum sem opinber aðili hefur rétt til að heimila endurnotkun þeirra.
10)          Skilgreiningarnar á „opinber aðili“ og „stofnun sem heyrir undir opinberan rétt“ eru fengnar úr tilskipununum um opinber innkaup 92/50/EBE ( 1 ), 93/36/EBE ( 2 ) og 93/37/EBE ( 3 ) og 98/4/EB ( 4 )). Opinber fyrirtæki falla ekki undir þessar skilgreiningar.
11)          Í þessari tilskipun er mælt fyrir um almenna skilgreiningu á hugtakinu „gögn“ í samræmi við þróun innan upplýsingasamfélagsins. Hún tekur til allrar birtingar á aðgerðum, staðreyndum eða upplýsingum – og hvers kyns samantektar á slíkum aðgerðum, staðreyndum eða upplýsingum – á hvaða formi sem það er, (ritað á pappír eða vistað á rafrænu formi, sem hljóðritun, upptaka á myndum eða myndmiðlaefni), sem er í vörslu opinberra aðila. Gögn sem eru í vörslu opinbers aðila eru gögn sem opinber aðili hefur rétt til að heimila endurnotkun á.
12)          Fresturinn til að svara beiðnum um endurnotkun skal vera sanngjarn og í samræmi við samsvarandi frest vegna beiðna um aðgang að gögnum samkvæmt viðkomandi fyrirkomulagi um aðgang. Sanngjarn frestur í gjörvöllu Evrópusambandinu stuðlar að því að til verði nýjar samsettar upplýsingavörur og -þjónusta á samevrópskum vettvangi. Þegar beiðni um endurnotkun hefur verið samþykkt skulu opinberir aðilar gera gögnin aðgengileg innan þess tímaramma sem þarf svo að efnahagslegt gildi þeirra sé hagnýtt til fulls. Þetta er einkum mikilvægt að því er varðar efni sem tekur örum breytingum, (t.d. upplýsingar um umferð), en efnahagsgildi þess byggist á því að upplýsingarnar séu tiltækar þegar í stað og uppfærðar reglulega. Ef upplýsingarnar eru háðar leyfi getur hluti af skilmálum leyfisins verið þess efnis að gögnin séu aðgengileg innan tiltekinna tímamarka.
13)          Hægt er að bæta möguleikana til endurnotkunar með því að takmarka þörfina á að færa gögn sem eru á pappír yfir á stafrænt form eða með því að vinna stafrænar skrár til að þær séu innbyrðis samhæfðar. Því ættu opinberir aðilar að gera gögn aðgengileg á sniði eða tungumáli sem til er, með rafrænum hætti þar sem það er mögulegt og á við. Opinberir aðilar skulu bregðast með jákvæðum hætti við beiðnum um útdrætti úr gögnum sem fyrir eru þegar það felur í sér einungis einfalda aðgerð að verða við slíkri beiðni. Opinberum aðilum ber hins vegar ekki skylda til að gera útdrátt úr skjali þegar slíkt hefur óhóflega fyrirhöfn í för með sér. Til að auðvelda endurnotkun skulu opinberir aðilar gera eigin gögn aðgengileg á sniði sem, eftir því sem mögulegt er og eftir því sem við á, er ekki háð notkun tiltekins hugbúnaðar. Ef unnt er og eftir því sem við á skulu opinberir aðilar taka tillit til möguleika fatlaðra á því að endurnota gögnin og að það sé gert í þeirra þágu.
14)          Ef gjald er tekið fyrir skulu heildartekjurnar ekki vera meiri en sem nemur heildarkostnaðinum við að safna, framleiða, fjölfalda og dreifa gögnunum auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni að teknu tilhlýðilegu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til viðkomandi opinbers aðila, þar sem það á við, um að hann standi undir sér fjárhagslega. Framleiðsla felur í sér að búa til gögnin og setja þau saman, og dreifing getur einnig falið í sér stuðning við notendur. Þar eð koma ber í veg fyrir of háa verðlagningu skulu efri mörk gjalds miðast við endurheimt kostnaðar, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni, í samræmi við gildandi reikningsskilareglur og viðeigandi aðferðir við kostnaðarútreikninga hlutaðeigandi opinberra aðila. Efri mörk gjalda, sem eru sett í þessari tilskipun, eru með fyrirvara um rétt aðildarríkjanna eða opinberra aðila til að innheimta lægri gjöld eða engin gjöld og aðildarríkin skulu hvetja opinbera aðila til að gera gögn aðgengileg gegn gjaldi sem er ekki hærra en lágmarkskostnaður við að fjölfalda gögnin og dreifa þeim.
15)          Ein af forsendunum fyrir þróun upplýsingamarkaðar innan alls Bandalagsins er að tryggja að skilyrði fyrir endurnotkun gagna frá hinu opinbera séu skýr og almenningi aðgengileg. Því skal hugsanlegum endurnotendum gerð skýr grein fyrir öllum gildandi skilyrðum fyrir endurnotkun gagnanna. Í því skyni að stuðla að og greiða fyrir beiðnum um endurnotkun skulu aðildarríkin hvetja til þess að gerðar verði atriðisorðaskrár, sem eru aðgengilegar á Netinu og taka til þeirra gagna sem eru aðgengileg. Umsækjendum um endurnotkun gagna skal gerð grein fyrir þeim leiðum sem þeir hafa til að leggja fram kvartanir varðandi ákvarðanir eða venjur sem hafa áhrif á þá. Þetta er einkum mikilvægt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem óvíst er að þekki til samskipta við opinbera aðila í öðrum aðildarríkjum og leiða þeirra til kvartana.
16)          Birting allra gagna í vörslu hins opinbera sem eru almenningi aðgengileg – sem varða ekki einungis pólítíska ferlið heldur einnig laga- og stjórnsýsluferlið – er grundvallartæki til að víkka út réttinn til þekkingar, sem er ein af grundvallarreglum lýðræðis. Þetta markmið gildir um stofnanir á öllum stjórnsýslustigum, hvort sem er á staðar-, lands- eða alþjóðavísu.
17)          Í sumum tilvikum eru gögn endurnotuð án þess að samið hafi verið um leyfi. Í öðrum tilvikum er leyfi veitt með skilyrðum um endurnotkun sem leyfishafa eru sett og taka til atriða eins og skaðabótaábyrgðar, réttrar notkunar gagnanna sem tryggir að þeim sé ekki breytt og að uppruna þeirra sé getið. Ef opinberir aðilar leyfa að gögn séu endurnotuð skulu skilyrðin fyrir leyfinu vera sanngjörn og gegnsæ. Stöðluð leyfi sem eru aðgengileg á Netinu geta einnig gegnt mikilvægu hlutverki í þessu tilliti. Því skulu aðildarríkin kveða á um að stöðluð leyfi séu tiltæk.
18)          Ef lögbæra yfirvaldið ákveður að tiltekin gögn séu ekki lengur aðgengileg til endurnotkunar eða ákveður að hætta að uppfæra þessi gögn skal það auglýsa þessar ákvarðanir opinberlega, við fyrsta tækifæri, með rafrænum hætti eftir því sem við verður komið.
19)          Skilyrðin fyrir endurnotkun skulu ekki fela í sér mismunun að því er varðar sambærilega flokka endurnotkunar. Þetta skal, t.d. ekki koma í veg fyrir að opinberir aðilar skiptist á upplýsingum án endurgjalds vegna opinberra verkefna, þó svo að gjald sé tekið af öðrum aðilum vegna endurnotkunar sömu gagna. Þetta skal ekki heldur koma í veg fyrir að samþykkt verði aðskilin gjaldtökustefna eftir því hvort endurnotkunin er í atvinnuskyni eða ekki.
20)          Opinberir aðilar skulu virða samkeppnisreglur við setningu meginreglna um endurnotkun gagna og forðast eins og mögulegt er gerð einkaréttarsamninga við einkaaðila. Hins vegar kann einkaréttur á endurnotkun sérstakra gagna frá hinu opinbera stundum að vera nauðsynlegur í því skyni að veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Þetta getur gilt ef enginn atvinnuútgefandi myndi gefa upplýsingar út án slíks einkaréttar.
21)          Þessi tilskipun skal koma til framkvæmda og henni beitt í fullu samræmi við meginreglurnar um verndun persónuupplýsinga í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ).
22)          Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á hugverkarétt þriðju aðila. Til að taka af allan vafa vísar hugtakið „hugverkaréttur“ einungis til höfundaréttar og skyldra réttinda (þ.m.t. vernd sinnar tegundar (sui generis)). Þessi tilskipun gildir ekki um gögn sem falla undir hugverkarétt á sviði iðnaðar, svo sem einkaleyfi, skráða hönnun og vörumerki. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á hugverkarétt opinberra aðila né eignarhald þeirra á slíkum rétti, né takmarkar hún beitingu þessa réttar á nokkurn hátt út fyrir þau mörk sem þessi tilskipun setur. Skyldurnar sem lagðar eru á með þessari tilskipun skulu einungis gilda að svo miklu leyti sem þær samræmast ákvæðum alþjóðasamninga um hugverkaréttarvernd, einkum Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum (Bernarsáttmálans) og samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS-samningsins). Opinberir aðilar skulu þó beita höfundarrétti sínum þannig að það auðveldi endurnotkun.
23)          Hjálparúrræði fyrir hugsanlega endurnotendur til að finna gögn sem eru aðgengileg til endurnotkunar og skilyrðin fyrir endurnotkun geta auðveldað verulega notkun gagna frá hinu opinbera yfir landamæri. Aðildarríkin skulu því tryggja að hagnýtt fyrirkomulag sé fyrir hendi sem hjálpar endurnotendum í leit sinni að gögnum sem eru aðgengileg til endurnotkunar. Skrá, helst aðgengileg á Netinu, yfir helstu gögn, (gögn sem eru mikið endurnotuð eða hafa möguleika til að vera mikið endurnotuð), og vefgáttir sem eru tengdar við sjálfstæðar skrár yfir gögn eru dæmi um slíkt hagnýtt fyrirkomulag.
24)          Tilskipun þessi er með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( 2 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna ( 3 ). Hún útskýrir skilyrðin sem gilda um beitingu opinberra aðila á hugverkarétti sínum á innri upplýsingamarkaðnum þegar endurnotkun gagna er leyfð.
25)          Þar eð aðildarríkin geta ekki náð fyrirhuguðu markmiði, þ.e. að greiða fyrir að búnar verði til upplýsingavörur og -þjónusta alls staðar í Bandalaginu sem byggjast á gögnum frá hinu opinbera, að auka skilvirka notkun einkafyrirtækja yfir landamæri á gögnum frá hinu opinbera í upplýsingavörur og þjónustu sem hafa aukið virði og að takmarka röskun á samkeppni á markaði Bandalagsins, og í ljósi þess að umfang og áhrif framangreindrar aðgerðar eru svo samofin Bandalaginu að auðveldara er að ná þessu markmiði á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu því heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, sbr. 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þessum markmiðum verði náð. Með tilskipun þessari skal ná fram lágmarkssamræmingu og komast þannig hjá frekara misræmi í meðhöndlun aðildarríkjanna á endurnotuðum gögnum frá hinu opinbera.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Í þessari tilskipun eru settar lágmarksreglur um endurnotkun og hagnýtar leiðir til að auðvelda endurnotkun gagna sem til eru og eru í vörslu opinberra aðila í aðildarríkjunum.
2.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    gögn ef afhending þeirra er utan við starfssvið hlutaðeigandi opinberra aðila eins og það er skilgreint í lögum eða öðrum bindandi reglum í aðildarríkinu, eða, ef slíkar reglur eru ekki til staðar, eins og það er skilgreint í samræmi við almennar stjórnsýsluvenjur í aðildarríkinu sem um ræðir,
b)    gögn sem þriðju aðilar eiga hugverkarétt á,
c)    gögn sem ekki er aðgangur að samkvæmt fyrirkomulagi um aðgang í aðildarríkjunum, þ.m.t vegna:
    —    verndar þjóðaröryggis (þ.e. öryggis ríkisins), landvarna og almannaöryggis,
    —    trúnaðarkvaða í hagskýrslum eða viðskiptaleyndar,
d)    gögn sem eru í vörslu opinberra útvarpsrekanda og dótturfyrirtækja þeirra eða í vörslu annarra stofnana eða dótturfyrirtækja þeirra sem nota þau til að sinna verkefnum á sviði opinberra útvarpssendinga,
e)    gögn sem eru í vörslu mennta- og rannsóknastofnana, svo sem skóla, háskóla, safna, bókasafna, rannsóknaraðstöðu, þ.m.t., ef við á, stofnunum sem komið er á fót til að yfirfæra rannsóknarniðurstöður,
f)    gögn sem eru í vörslu menningarstofnana, svo sem safna, bókasafna, skjalasafna, hljómsveita, ópera, balletta og leikhúsa.
3.     Tilskipun þessi byggir á og er með fyrirvara um það fyrirkomulag um aðgang sem fyrir er í aðildarríkjunum. Tilskipun þessi gildir ekki í tilvikum þar sem borgarar eða fyrirtæki verða að sýna fram á að þeir hafi sérstakra hagsmuna að gæta samkvæmt fyrirkomulaginu um aðgang til að fá aðgang að gögnunum.
4.     Tilskipun þessi skerðir ekki og hefur á engan hátt áhrif á umfang verndunar einstaklinga með tilliti til vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum laga Bandalagsins og innlendra laga og einkum breytir hún ekki þeim skyldum og réttindum sem sett eru fram í tilskipun 95/46/EB.
5.     Skyldurnar sem lagðar eru á með þessari tilskipun skulu einungis gilda að svo miklu leyti sem þær samræmast ákvæðum alþjóðasamninga um hugverkaréttarvernd, einkum Bernarsáttmálans og TRIPS-samningsins.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     „opinber aðili“: ríkið, svæðis- eða staðaryfirvöld, stofnanir sem heyra undir opinberan rétt og samtök sem mynduð eru af einu eða fleiri slíkum yfirvöldum eða einni eða fleiri slíkum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt,
2.     „stofnun sem heyrir undir opinberan rétt“: allir aðilar sem:
    a)    gegna einungis því hlutverki að fullnægja þörfum almennings en starfa hvorki á sviði iðnaðar né viðskipta, og
    b)    eru lögaðilar, og
    c)    eru reknir að mestu leyti á kostnað ríkisins, svæðis- eða staðaryfirvalda eða annarra stofnana sem heyra undir opinberan rétt eða lúta yfirstjórn þessara aðila, eða ef þeir lúta stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn þar sem meirihluti stjórnarmanna er skipaður af ríkinu, svæðis- eða staðaryfirvöldum eða öðrum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt,
3.     „gögn“ eru:
    a)    hvers konar efni, á hvaða miðli sem er (ritað á pappír eða vistað á rafrænu formi, eða sem hljóð eða mynd eða hljóð- og myndmiðlunarefni),
    b)    allir hlutar slíks efnis,
4.     „endurnotkun“: notkun einstaklinga eða lögaðila á gögnum í vörslu opinberra aðila í viðskiptaskyni eða tilgangi sem ekki er viðskiptalegs eðlis, sem er annar en upphaflegur tilgangur hins opinbera með því að búa gögnin til. Skipti á gögnum milli opinberra aðila sem einungis eru til að sinna opinberu starfssviði þeirra er ekki endurnotkun,
5.     „persónuupplýsingar“: gögn sem skilgreind eru í a-lið 2. gr í tilskipun 95/46/EB.

3. gr.
Meginregla

Aðildarríkin skulu tryggja að ef endurnotkun gagna í vörslu opinberra aðila er heimil skal vera hægt að endurnota þessi gögn í viðskiptaskyni eða tilgangi sem ekki er viðskiptalegs eðlis í samræmi við skilyrðin sem sett eru í III. og IV. kafla. Ef unnt er skal gera gögnin aðgengileg með rafrænum hætti.

II. KAFLI
BEIÐNIR UM ENDURNOTKUN
4. gr.
Kröfur sem gilda um afgreiðslu á beiðnum um endurnotkun

1.     Opinberir aðilar skulu afgreiða beiðnir um endurnotkun með rafrænum hætti, ef unnt er og við á, og veita umsækjandanum aðgang að gögnunum til endurnotkunar eða, ef leyfi er nauðsynlegt, ganga frá leyfisskilmálum til umsækjandans innan sanngjarns frests sem er innan þess tímaramma sem mælt er fyrir um til afgreiðslu beiðna um aðgang að gögnum.
2.     Ef ekki hafa verið sett nein tímamörk eða aðrar reglur um afhendingu gagna innan ákveðins tíma skulu opinberir aðilar afgreiða beiðnina og afhenda gögnin umsækjandanum til endurnotkunar eða, ef leyfi er nauðsynlegt, ganga frá leyfistilboði til umsækjandans innan frests sem er ekki lengri en 20 virkir dagar eftir að beiðnin hefur verið móttekin. Heimilt er að framlengja þennan frest um aðra 20 virka daga ef beiðnin er umfangsmikil eða flókin. Í slíkum tilvikum skal tilkynna umsækjandanum innan þriggja vikna eftir að upphaflega beiðnin var lögð fram, að lengri frest þurfi til að afgreiða hana.
3.     Ef beiðni er synjað skulu opinberir aðilar tilkynna umsækjandanum ástæður synjunarinnar á grundvelli viðeigandi ákvæða fyrirkomulagsins um aðgang í því aðildarríki eða innlendra ákvæða sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun, einkum a-, b- eða c-lið 2. mgr. 1. gr. eða 3. gr. Ef synjun er byggð á b-lið 2. mgr. 1. gr. skal opinber aðili láta fylgja tilvísun til einstaklingsins eða lögaðilans sem er rétthafi, ef hann er þekktur, eða að öðrum kosti leyfisveitandans sem opinberi aðilinn fékk viðeigandi efni frá.
4.     Allir neikvæðir úrskurðir skulu innihalda tilvísun í leiðir til kvartana ef umsækjandi skyldi óska eftir því að áfrýja úrskurðinum.
5.     Ekki er krafist að opinberir aðilar sem falla undir d-, e- og f-lið 2. mgr. 1. gr uppfylli kröfur þessarar greinar.

III. KAFLI
SKILYRÐI FYRIR ENDURNOTKUN
5. gr.
Tiltæk snið

1.     Opinberir aðilar skulu gera gögn sín aðgengileg á sniði eða tungumáli sem til er og með rafrænum hætti þar sem það er mögulegt og á við. Þetta skal ekki fela í sér skyldu fyrir opinbera aðila til að búa til eða breyta gögnum í því skyni að uppfylla beiðnina, né skal það fela í sér skyldu til að gera útdrátt úr gögnum þegar slíkt hefur óhóflega fyrirhöfn í för með sér og er meira en bara einföld aðgerð.
2.     Ekki er hægt að krefjast þess á grundvelli þessarar tilskipunar að opinberir aðilar haldi áfram að útbúa tiltekna tegund gagna til endurnotkunar af hálfu aðila í einkageiranum eða hins opinbera.

6. gr.
Meginreglur um gjaldtöku

Ef gjald er tekið skulu heildartekjurnar af því að láta í té og leyfa endurnotkun gagna ekki vera meiri en kostnaðurinn við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Gjöld skulu vera kostnaðartengd á viðkomandi uppgjörstímabili og reiknuð út í samræmi við þær reikningsskilareglur sem gilda um þann opinbera aðila sem málið varðar.

7. gr.
Gagnsæi

Öll skilyrði sem gilda um endurnotkun á gögnum í vörslu opinberra aðila og stöðluð gjöld fyrir hana skulu ákveðin fyrir fram og birt með rafrænum hætti ef unnt er og við á. Ef þess er óskað skal opinber aðili tilgreina grundvöll útreikninga á gjaldinu sem birt er. Hlutaðeigandi opinberir aðilar skulu einnig tilgreina til hvaða þátta er tekið tillit við útreikninga á gjöldum í undantekningartilvikum. Opinberir aðilar skulu tryggja að umsækjendum um endurnotkun gagna sé gerð grein fyrir þeim leiðum sem tiltækar eru til að leggja fram kvartanir varðandi úrskurði eða venjur sem hafa áhrif á þá.

8. gr.
Leyfi

1.     Opinberir aðilar geta heimilað endurnotkun á gögnum án skilyrða eða sett skilyrði, með leyfi ef við á, sem tekur á viðeigandi málefnum. Þessi skilyrði skulu ekki takmarka að óþörfu möguleika á endurnotkun og skulu ekki notuð til að takmarka samkeppni.
2.     Í aðildarríkjum þar sem leyfi eru notuð skulu aðildarríkin tryggja að stöðluð leyfi fyrir endurnotkun gagna frá hinu opinbera, sem hægt er að breyta fyrir sérstakar umsóknir um leyfi, séu aðgengileg á stafrænu sniði og að þær sé hægt að afgreiða með rafrænum hætti. Aðildarríkin skulu hvetja alla opinbera aðila til að nota stöðluð leyfi.

9. gr.
Hagnýtt fyrirkomulag

Aðildarríkin skulu tryggja að hagnýtt fyrirkomulag sé fyrir hendi sem auðveldar leit að gögnum sem eru aðgengileg til endurnotkunar, svo sem skrár yfir helstu gögn, helst aðgengilegar á Netinu, og vefgáttir sem eru tengdar við sjálfstæðar skrár.

IV. KAFLI
BANN VIÐ MISMUNUN OG GÓÐIR VIÐSKIPTAHÆTTIR
10. gr.
Bann við mismunun

1.     Öll gildandi skilyrði fyrir endurnotkun skulu vera án mismununar að því er varðar sambærilega flokka endurnotkunar.
2.     Ef opinber aðili endurnotar gögn sem ílag til viðskiptastarfsemi sinnar, sem fellur utan við opinbert starfssvið hans, skulu sömu gjöld og önnur skilyrði gilda um afhendingu gagnanna til þeirrar starfsemi og gilda um aðra notendur.

11. gr.
Bann við einkanytjafyrirkomulagi

1.     Endurnotkun gagna skal vera opin öllum hugsanlegum aðilum á markaðnum jafnvel þó einn eða fleiri markaðsaðilar hagnýti nú þegar vörur, sem hafa aukið virði, sem byggja á þessum gögnum. Samningar eða annað fyrirkomulag milli opinbers aðila sem er með gögnin í vörslu sinni og þriðju aðila skal ekki veita einkarétt.
2.     Ef einkaréttur er hins vegar nauðsynlegur til að veita þjónustu í þágu almennings skal réttmæti ástæðunnar til að veita slíkan einkarétt vera háð reglulegri endurskoðun og skal a.m.k. endurskoðuð á þriggja ára fresti. Einkanytjafyrirkomulag sem komið er á fót eftir að tilskipun þessi tekur gildi skal vera gagnsætt og birt opinberlega.
3.     Einkanytjafyrirkomulagi, sem uppfyllir ekki skilyrðið um undantekningu skv. 2. mgr., skal slitið í lok samningsins eða eigi síðar en 31. desember 2008.

V. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
12. gr.
Framkvæmd

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. júlí 2005. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

13. gr.
Endurskoðun

1.     Framkvæmdastjórnin skal láta fara fram endurskoðun á beitingu þessarar tilskipunar fyrir 1. júlí 2008 og skal tilkynna Evrópuþinginu og ráðinu um niðurstöður þessarar endurskoðunar ásamt tillögum um breytingar á tilskipuninni.
2.     Endurskoðunin skal einkum taka til gildissviðs og áhrifa þessarar tilskipunar, þ.m.t. aukningar á endurnotkun gagna frá hinu opinbera, áhrifa meginreglnanna sem gilda um gjaldtöku og endurnotkunar opinberra laga- og stjórnsýslutexta, sem og frekari möguleika á að bæta eðlilega starfsemi innri markaðarins og þróunar evrópsks efnisiðnaðar.

14. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

15. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 17. nóvember 2003.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX G. ALEMANNO
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 198, 28.7.2005, bls. 36 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 38, 28.7.2005, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 90.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 227 E, 24.9.2002, bls. 382.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 85, 8.4.2003, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 73, 26.3.2003, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 12. febrúar 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 26. maí 2003 (Stjtíð. B C 159 E, 8.7.2003, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 25. september 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 27. október 2003.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 209, 24.7.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB (Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.
Neðanmálsgrein: 10
(3)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 54. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.
Neðanmálsgrein: 11
(4)    Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 14
(3)    Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20.