Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 762. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1211  —  762. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar um þróun áfengisgjalds.

     1.      Hver hefur þróun áfengisgjalds verið frá árinu 1995 að nafnvirði og raungildi á:
          a.      sterku áfengi,
          b.      léttvíni,
          c.      bjór?
    Í eftirfarandi töflu er að finna þróun áfengisgjalds frá árinu 1995 til 2005 að nafnvirði og raungildi. Við mat á raungildi er miðað við vísitölu neysluverðs.

Áfengi Þróun að nafnvirði Þróun að raungildi
Sterkt áfengi 17,1% -14,4%
Léttvín -11,2% -36,2%
Bjór 0,0% -29,0%


     2.      Hver hefur hækkun vísitölu neysluverðs verið á sama tíma?
    Frá árinu 1995 til 2005 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 40,9%.

     3.      Hefur þróun áfengisgjalds endurspeglast í útsöluverði áfengis á sama tíma, að teknu tilliti til gengisþróunar?

    Frá árinu 1995 hefur áfengisgjaldinu verið breytt þrívegis. Árið 1998 lækkaði áfengisgjald á léttvíni um 11,2% en áfengisgjald á bjór var óbreytt. Þá var áfengisgjald á sterku áfengi lækkað um 2,1% en gerðar voru breytingar á gjaldtökunni þannig að áfengisgjald var lagt á allt vínandamagn í viðkomandi drykk en það leiddi til lítillegrar hækkunar á útsöluverði á sterku áfengi. Árið 2002 hækkaði áfengisgjald á sterku áfengi um 15,1% en áfengisgjald á léttvíni og bjór var óbreytt. Árið 2004 var áfengisgjald á sterku áfengi hækkað um 7% en áfengisgjald á léttvíni og bjór var óbreytt.
    Á meðfylgjandi mynd kemur fram hvernig útsöluverð á áfengum bjór, léttvíni og sterku áfengi hefur þróast á tímabilinu frá janúar 1995 til apríl 2006. Að baki liggja upplýsingar frá Hagstofu Íslands og miðað er við útsöluverð sé 100 í janúar 1995. Á myndinni er einnig að finna þróun á vísitölu meðalgengis fyrir viðkomandi tímabil og vísitölu neysluverðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Þær breytingar sem gerðar hafa verið á áfengisgjaldinu sjálfu, þ.e. á árunum 1998, 2002 og 2004, koma nokkuð glöggt fram á myndinni í samsvarandi breytingum á útsöluverði. Á hinn bóginn vekur nokkra athygli hversu lítil áhrif veik staða erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni á undanförnum árum virðist hafa á verðmyndun áfengis, en á móti þeim vega óhjákvæmilega innlend kostnaðaáhrif sem endurspeglast að miklu leyti í þróun vísitölu neysluverðs.