Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 143. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 329  —  143. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um leiðbeiningarreglur í anda ILO-samþykktar nr. 158.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður tillögum Rannsóknaseturs vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst að leiðbeiningarreglum í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, sem ráðherra boðaði í svari við fyrirspurn á síðasta þingi (756. mál)?


    Alþýðusamband Íslands hefur á undanförnum árum ítrekað beint áskorun til ráðherra um að hann beiti sér fyrir fullgildingu alþjóðasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Um fullgildingu nefndrar alþjóðasamþykktar hefur verið fjallað á vettvangi ráðuneytisins, m.a. í samstarfsnefnd þess og helstu samtaka á vinnumarkaði sem fjallar um samskipti Íslands við ILO. Í samstarfsnefndinni eiga sæti fulltrúar ASÍ og SA auk fulltrúa ráðherra sem er formaður nefndarinnar. Ekki hefur tekist samstaða innan nefndarinnar um að mæla með fullgildingu samþykktar nr. 158.
    Í framhaldi af ítrekun Alþýðusambands Íslands á því að alþjóðasamþykktin verði fullgilt ákvað félagsmálaráðherra með bréfi dags. 5. maí 2006 að fela Rannsóknarsetri í vinnurétti og jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann að Bifröst að semja tillögu að leiðbeiningarreglum varðandi uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158. Í bréfinu er á það lögð áhersla að við smíði leiðbeiningareglnanna verði m.a. litið til reglna sem gilda um þetta efni í ríkjum sem standa Íslendingum næst í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Lagt er fyrir rannsóknarsetrið að tillaga að reglum berist ráðuneytinu fyrir lok þessa árs. Fram kemur að tillagan verður lögð fyrir framangreinda samstarfsnefnd um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til frekari umfjöllunar.