Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 449  —  403. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 4 30. janúar 1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Við hækkun fasteignamats er óheimilt að hækka fasteignaskatt meira en nemur breytingu á launavísitölu.
     b.      Í stað „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 4. mgr.
     c.      Í stað „4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 5. mgr.

2. gr.

    Við 5. mgr. 5. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi svo verið um tvö ár að útihús í sveitum séu ekki nýtt skal enginn skattur á þau lagður. Fasteignaskattur skal lagður á að nýju ef útihúsin eru tekin í notkun sem gripahús.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 132. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt.
    Fasteignaskattur er ein af meginuppistöðum í tekjuöflun sveitarfélaga ásamt útsvarstekjum. Útsvarstekjur sveitarfélaga taka mið af tekjum fólks og hækka eða lækka á milli ára út frá tekjum þegnanna. Fasteignagjöld taka ekki mið af tekjum fólks og þar með greiðslugetu þegnanna. Að þessu leyti eru fasteignaskattar ekki réttlátir þar sem álögur geta hækkað meira milli ára en laun þeirra sem greiða eiga. Í þessu frumvarpi er lögð til takmörkun á hækkun fasteignaskatts til jafns við launaþróun í þjóðfélaginu almennt. Í annan stað er lagt til að fasteignagjöld verði felld niður í sveitum þegar svo háttar til að útihús hafa ekki verið nýtt í tvö ár. Fasteignaskattur skal hins vegar lagður á að nýju ef útihúsin eru tekin í notkun sem gripahús þannig að jafngildi tekjum af jörðinni.
    Frumvarp þetta kann að minnka tekjur sumra sveitarfélaga og telja flutningsmenn að mjög sé orðið tímabært að sveitarfélög fái hlut í tekjustofnum sem færa þeim tekjur af neyslusköttum, eins og t.d. virðisaukaskatti.