Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 615. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 915  —  615. mál.




    Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2006.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) árið 1949 skyggði nokkuð á starfsemi VES en með breyttri skipan öryggis- og varnarmála í kjölfar endaloka kalda stríðsins jókst mikilvægi stofnunarinnar til muna. Með Maastricht-sáttmálanum árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB). Næstu ár efldist VES verulega og gegndi æ stærra hlutverki í öryggismálum Evrópu. Auk þess sem sambandinu var ætlað að annast framkvæmd á fyrirhuguðum varnarmálahluta ESB átti það að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO. Af þessum sökum var litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmála ESB.
    Frá því á leiðtogafundi Bretlands og Frakklands í St. Malo í desember árið 1998 hefur Evrópusambandið tekið að sér stærra hlutverk á sviði öryggismála álfunnar. Þar var ákveðið að ESB kæmi sér upp sjálfstæðum hernaðarmætti og í framhaldinu var ákveðið á leiðtogafundum ESB í Köln árið 1999 að stefna bæri að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000. Nú er svo komið að utanríkismálastjóri ESB gegnir einnig stöðu framkvæmdastjóra VES og í fastaráði VES sitja fulltrúar í stjórnmála- og öryggismálanefnd ESB.
    Árið 2000 staðfestu leiðtogar ESB að NATO yrði áfram grundvöllur sameiginlegra varna ríkja sambandsins, en jafnframt að nauðsynlegt væri að koma á nýjum pólitískum og hernaðarlegum stofnunum er gerðu Evrópuríkjunum kleift að efna til hernaðaraðgerða undir forustu ESB þegar bregðast þyrfti við alþjóðlegum vanda. Samkvæmt ákvörðunum leiðtoga aðildarríkja ESB hefur nauðsynlegum stofnunum þegar verið komið á fót innan „annarrar stoðar“ ESB.
    Þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB hefur gert það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar hefur minnkað verulega. Jafnframt var í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO kveðið á um mikilvægi þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB og að NATO-ríkin utan ESB fengju aðgang að búnaði NATO.

VES-þingið.
    VES-þingið var stofnað árið 1954 og kom fyrst saman ári síðar þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Á VES-þinginu koma saman alls 370 þjóðkjörnir þingmenn. Stór hluti þeirra, eða 115 þingmenn, er frá stofnaðildarríkjum VES sem eru alls tíu talsins, Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Sambandsaðild ( e. affiliate member) eiga átta ný ESB-ríki, Pólland, Tékkland, Ungverjaland, Slóvakía, Litháen, Eistland, Lettland og Slóvenía. Aukaaðild ( e. associate member) að þinginu eiga þau þrjú evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur og Tyrkland. Sambandsaukaaðild ( e. affiliate associate member) að VES-þinginu eiga Rúmenía og Búlgaría. Áheyrnaraðild ( e. observer countries) eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Írland, auk Danmerkur. Þá hafa tvö ný ESB-ríki stöðuna sambandsáheyrnaraðili ( e. affiliate observer countries), þ.e. Malta og Kýpur. Króatía hefur samstarfssamning ( e. affiliate associate partner country) við VES- þingið og fulltrúar þjóðþinga Albaníu, Makedóníu, Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu og Svartfjallalands hafa stöðu sérlegra gesta ( e. special guests). Loks hafa fulltrúar rússneska þingsins og úkraínska þingsins stöðu fastagesta ( e. permanent guests).
    VES-þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES- þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, tíu varaforsetar þess (einn frá hverju aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna 4–5 fundi á ári utan þingfundanna.
    Starfsemi og umræður á VES-þinginu má greina í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er þingið vettvangur þingmannavíddar Vestur-Evrópusambandsins og skv. 9. gr. endurskoðaða Brussel-sáttmálans frá 1954 er VES-þingið ráðherraráði VES innan handar og ráðgefandi. VES-þingið hefur eftirlit með framkvæmd sameiginlegra varnarskuldbindinga sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í 9. gr. sáttmálans kemur fram að „ráðherraráð Vestur-Evrópusambandsins skal birta árlega skýrslu um starfsemi sína [...] til þingmannasamkundu sem samanstendur af fulltrúum aðildarríkja Brussel-sáttmálans [...]“. Starfsemi VES-þingsins er þannig bundin í milliríkjasáttmála og er það því ein þriggja evrópskra þingmannasamkundna sem slíkt á við um. Hinar tvær eru Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið. Í öðru lagi hefur VES-þingið haft það hlutverk, í kjölfar yfirtöku Evrópusambandsins á verkefnum VES árið 2000, að vera tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu og vettvangur þinglegrar meðferðar á sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Í þriðja lagi hefur VES-þingið eftirlit með milliríkjasamstarfi á sviði hergagnaframleiðslu og rannsókna- og þróunarstarfs í hergögnum sem sinnt er af WEAG og WEAO, tveimur fjölþjóðastofnunum sem starfa undir væng Vestur-Evrópusambandsins.
    VES-þingið hefur verið afgerandi þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. VES-þingið hefur lagt til að komið verði á fót öryggis- og varnarmálaþingi Evrópu þar sem þjóðkjörnir þingmenn hefðu eftirlit með starfsemi stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Annað væri ótækt þar eð mál er lúti að beitingu herafla og útgjalda til öryggis- og varnarmála væru bundin við þjóðríkin, þau þyrftu að njóta samþykkis þjóðþinga og þar af leiðandi væri það hlutverk fjölþjóðlegrar þingmannasamkundu sem í sætu fulltrúar þjóðþinganna að ræða slík mál.
    Hin sameiginlega öryggis- og varnarmálastefna ESB lýtur ekki stefnu framkvæmdastjórnar bandalagsins sem slíks heldur er um milliríkjamálefni að ræða. Í allri slíkri vinnu er það grundvallaratriði og hafa fulltrúar VES-þingsins því lagt ofuráherslu á að það séu þjóðþing aðildarríkjanna sem hafi eftirlit með þessum málaflokki en ekki Evrópuþingið. Það sé grundvallaratriði að fjölþjóðlegar þingmannasamkundur sem hafa bein tengsl við umbjóðendur, þ.e. kjósendur í aðildarríkjunum, endurspegli mikilvæg milliríkjamálefni. Reynslan af slíkum þingmannasamkundum hafi verið afar farsæl og nægi þar að nefna, auk VES-þingsins, NATO-þingið, Evrópuráðsþingið og þingmannasamkundu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
    Hins vegar er staðan sú að hvorki VES-þinginu né Evrópuþinginu hefur verið gefinn kostur á að tryggja nægilega hið þinglega eftirlit með starfsemi ESB á sviði öryggis- og varnarmála sem getið er um í endurskoðaða Brussel-sáttmálanum. Þar með er talin sú grundvallarskylda ráðherraráðs VES að birta þinginu ársskýrslu um starfsemina og að svara ályktunum þingsins og fyrirspurnum þingmanna.
    Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er VES-þingið enn sem komið er eina evrópska þingmannasamkundan sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið er vettvangur sem leiðtogar Evrópuríkja nýta til að skýra frá stefnumiðum sínum. Þá viðheldur VES-þingið nánum tengslum við rússnesku dúmuna og býður jafnframt þingmönnum frá Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, Makedóníu og Úkraínu til funda.
    Á árinu 2005 varð áframhald á lífseigri umræðu um framtíðarhorfur VES-þingsins og um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en sem kunnugt er hafa miklar og örar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu síðustu ár. Þessi umræða varð sérstaklega hávær í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur Frakka og Hollendinga um nýja stjórnarskrá ESB, sem báðar þjóðirnar höfnuðu. Stjórnarskráin hefði haft þónokkur áhrif á stöðu varnar- og öryggismála innan ESB en samkvæmt stjórnarskrárdrögunum var staða þjóðþinganna veik, t.d. á sviði öryggis- og varnarmála. Eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Frakklandi og Hollandi lá fyrir ákváðu leiðtogar Evrópusambandsins að fresta frekari ákvörðunartöku varðandi stjórnarskrána og taka sér umhugsunartíma um framtíð sambandsins. Austurríkismenn lýstu því yfir við upphaf forsetatíðar sinnar í ESB í ársbyrjun 2006 að þeir hefðu áhuga á að endurvekja stjórnarskrárferlið en lítill áhugi virðist vera á því innan sambandsins.
    Ljóst er að ESB taldi útkomuna vera mikið áfall fyrir pólitíska þróun sambandsins og á fundinum kom glögglega fram að framhaldið væri að mestu óráðið. Á hinn bóginn mátti einnig greina að menn töldu að þessi nýja staða væri til þess fallin að greiða fyrir því að niðurstaða í helstu baráttumálum VES-þingsins undanfarin ár og missiri, þ.e. aukin þátttaka og hlutur þjóðþinga í lýðræðislegu eftirliti með öryggis- og varnarmálastefnu ESB, yrði farsælli en ella.

2. Íslandsdeild VES-þingsins árið 2006.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæða – eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa ekki heldur rétt til að tala á móðurmáli sínu á fundum þingsins. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Í upphafi árs 2006 voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Guðjón Hjörleifsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Gunnar Örlygsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Á fundi Íslandsdeildarinnar 5. október 2006 var Guðjón Hjörleifsson endurkjörinn formaður og Gunnar Örlygsson varaformaður. Tómas Brynjólfsson gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.

3. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í starfsemi VES-þingsins á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í báðum hlutum þingfundarins.

     a.      Fyrri hluti 52. fundar VES-þingsins.
    Dagana 19.–21. júní var fyrri hluti 52. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Gunnar Örlygsson, varaformaður, Einar Már Sigurðarson og Kjartan Ólafsson, í fjarveru Guðjóns Hjörleifssonar, auk Tómasar Brynjólfssonar alþjóðaritara.
    Fundurinn einkenndist af umræðum um framtíð VES-þingsins og auknum áhrifum Evrópuþingsins á evrópsku öryggis- og varnarstefnuna. Vandamál tengd stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins voru einnig til umræðu. Ýmsir þingmenn töldu að höfnun Frakka og Hollendinga á sáttmálanum hefði framlengt líf VES-þingsins og gefið því tækifæri til þess að styrkja stöðu sína í framtíðarstofnanaverki Evrópusambandsins.
    Þingfundurinn hófst með því að Karel De Gucht, utanríkisráðherra Belgíu, sem tók við formennsku í VES 1. júlí, ávarpaði þingheim. De Gucht lagði áherslu á að nauðsynlegt væri fyrir aðildarríki ESB að horfa á jákvæðan árangur sambandsins undanfarna áratugi í stað þess að einblína á vandamál þess. De Gucht lagði í þessu sambandi áherslu á þann mikla árangur sem náðst hefur í samstarfi ESB-ríkja á sviði öryggis- og varnarmála á mjög stuttum tíma.
    Seppo Kääriäinen, varnarmálaráðherra Finnlands, sem tók við formennsku í ESB 1. júlí, flutti því næst ávarp. Kääriäinen fjallaði um þrjú meginefni. Í fyrsta lagi áherslur Finna í formennskutíð sinni varðandi pólitískt öryggi sambandsins. Í öðru lagi kynnti hann nokkra þætti í varnarstefnu Finna og í þriðja lagi fjallaði hann um það bil sem myndast hefur milli Evrópusambandsins og íbúa í aðildarríkjunum. Kääriäinen sagði að Finnar mundu leitast eftir því að gera Evrópusambandið trúverðugan og samstíga þátttakanda í alþjóðastjórnmálum. Varnarmálaráðherrann lagði áherslu á samstarf ESB-ríkja við vopna- og tækjakaup auk þess sem hann sagði að samstarf sambandsins við þriðju aðila, sérstaklega NATO, þyrfti að styrkja. Hann lagði einnig áherslu á að Finnar mundu áfram standa utan hernaðarbandalaga þótt þeir tækju virkan þátt í öryggis- og varnarsamstarfi ESB og í friðargæsluaðgerðum á vegum bandalaga á borð við NATO. Kääriäinen lagði að síðustu áherslu á nauðsyn þess að kynna fyrir íbúum ESB-ríkja þau jákvæðu áhrif sem sambandið hefur haft á líf þeirra. Í því sambandi lagði hann áherslu á hlutverk Evrópusambandsins við að tryggja frið og öryggi í álfunni á undanförnum áratugum.
    Á öðrum fundardegi flutti Vuk Draskovic, utanríkisráðherra Serbíu, erindi. Draskovic lagði áherslu á áhuga Serbíu á góðum samskiptum við ESB. Hann bað Evrópusambandið um að láta íbúa Serbíu ekki gjalda fyrir glæpi einstakra manna í stríðunum á tíunda áratugi síðustu aldar og kvað serbnesk stjórnvöld gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að hafa hendur í hári stríðsglæpamannanna Ratko Mladic og Radovan Karadzic. Evrópusambandið hefur sagt að handtaka þeirra sé forsenda bættra samskipta þess við Serbíu. Draskovic fjallaði einnig mikið um Kosovo og lagði áherslu á þá stefnu serbneskra stjórnvalda að leyfa Kosovo- Albönum að hafa fullt sjálfræði í sínum málum. Skilyrðin sem Serbar setja í viðræðunum sem nú fara fram um framtíð héraðsins eru þau að Kosovo verði enn hluti Serbíu á opinberum kortum og að réttindi serbneska minni hlutans í héraðinu verði tryggð. Draskovic sagðist telja að ef alþjóðasamfélagið þrýsti á um sjálfstæði Kosovo yrði það vatn á myllu öfgaafla í Serbíu.
    Utanríkisráðherra Grikklands, Dora Bakoyianni, flutti einnig ávarp á þingfundi. Hún fór yfir stöðu Grikklands í öryggis- og varnarsamstarfi Evrópu og áherslur þess í varnarsamstarfi innan álfunnar. Æðsti borgaralegi fulltrúi NATO í Afganistan, Hikmet Çetin, fór yfir stöðu mála í landinu og lagði áherslu á þau fjölmörgu vandamál sem alþjóðasamfélagið stæði enn frammi fyrir þar. Hann sagði frá auknu hlutverki NATO í suður- og austurhluta Afganistan og því mati sínu að ef alþjóðasamfélagið næði ekki að bæta ástandið í Afganistan mundu vandamál landsins flæða yfir til Evrópu.

     b.      Síðari hluti 52. fundar VES-þingsins.
    Seinni hluti 52. VES-þingsins fór fram í París 18.–20. desember 2006. Fundinn sóttu fyrir hönd Alþingis Guðjón Hjörleifsson, formaður Íslandsdeildarinnar, Gunnar Örlygsson varaformaður og Einar Már Sigurðarson, auk Tómasar Brynjólfssonar, ritara deildarinnar.
    Óvissa um framtíð stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins hafði mikil áhrif á umræður á desemberfundum VES-þingsins líkt og verið hefur undanfarið eitt og hálft ár. VES-þingið verður áfram eini samráðs- og eftirlitsvettvangur þingmanna ESB vegna varnar- og öryggissamstarfs aðildarríkja Evrópusambandsins þangað til stjórnarskrársáttmáli verður samþykktur af öllum aðildarríkjum sambandsins. Þingmenn lögðu áherslu á að hver sem niðurstaðan yrði varðandi framtíð stjórnarskrársáttmálans yrði að tryggja lýðræðislegt eftirlit með samstarfi Evrópusambandsríkja á sviði öryggis- og varnarmála. Þróun evrópsku varnar- og öryggisstefnunnar, samskipti Evrópusambandsins og NATO auk stöðu hergagnaframleiðslu í Evrópu voru meðal annarra málefna sem voru fyrirferðarmikil í umræðum á þingfundum í desember. Málefni Mið-Austurlanda voru þingmönnum einnig hugleikin. Átökin í Líbanon sumarið 2006 voru ítarlega rædd, sérstaklega ásakanir um skort á samstarfi og samstöðu aðildarríkja ESB við brottflutning Evrópubúa frá átakasvæðinu og við mönnun friðargæsluliðs á landamærum Ísraels og Líbanons.
    Þingfundunum í desember má í raun skipta í þrennt. Í fyrsta lagi má nefna undirbúning fyrir starf VES-þingsins fyrir árið 2007, með kosningu yfirmanna þess og umræðum um fjármál þingsins og ráðherrahliðarinnar. Í öðru lagi ávörp ráðherra, fulltrúa þeirra og boðsgesta. Í þriðja lagi kynningar, umræður og kosningar um skýrslur og tillögur sem lagðar eru fram á þinginu.
    Endurkjör Jean-Pierre Masseret sem forseta VES-þingsins bar hæst vegna undirbúnings fyrir 53. VES-þingið sem fram fer árið 2007. Auk þess voru tíu varaforsetar kjörnir fyrir sama tímabil. Forsetinn og varaforsetarnir nutu einróma stuðnings þingheims.
    Günter Gloser, Evrópuráðherra Þýskalands, ávarpaði þingið fyrir hönd Þýskalands sem fer með formennsku í Evrópusambandinu og Vestur-Evrópusambandinu frá ársbyrjun 2007. Ráðherrann lýsti stefnu Þýskalands gagnvart evrópsku öryggis- og varnarstefnunni, auk afstöðu Þýskalands til næstu skrefa varðandi stjórnarskrá Evrópusambandsins. Gloser sagði evrópska varnar- og öryggisstefnu standa frammi fyrir fjölmörgum áskorunum vegna styrkingar og breikkunar stefnunnar. Til þess að bregðast við þessum áskorunum hyggjast stjórnvöld í Þýskalandi beina spjótum sínum að fjórum meginþáttum. Í fyrsta lagi verður lögð áhersla á verkefni og aðgerðir í nafni sambandsins. Í öðru lagi verður litið til styrkingar getu ESB til þess að ná stjórn á hættuástandi. Í þriðja lagi mun Þýskaland leggja áherslu á styrkingu hernaðarlegs samstarfs við þriðju aðila og í fjórða lagi á þróun hugmyndafræði stefnunnar. Gloser lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi borgaralegra viðbragða ESB til þess að takast á við hættuástand. Hann sagði að næsta verkefni evrópsku varnar- og öryggisstefnunnar yrði í Kosovo eftir að samkomulag hefur náðst um framtíðarstöðu héraðsins. Hann sagði að einnig mætti vænta aukinna verkefna fyrir evrópskar sveitir í Afganistan.
    Gloser lýsti því yfir að herfylki ESB yrðu reiðubúin til aðgerða frá 1. janúar 2007. Hann sagði þó einnig að enn vantaði ríki til þess að taka að sér verkefni á því sviði eftir árið 2008 og að enn skorti upp á getu stuðningssveita herfylkjanna, t.d. varðandi sjó- og loftflutninga. Auk þess þyrfti að auka enn samhæfingu borgaralegra og hernaðarlegra þátta í viðbragðsgetu ESB við hættuástandi. Einnig þyrfti að styrkja samskipti við aðra áhrifavalda í alþjóðakerfinu, sérstaklega Bandaríkin, NATO og Sameinuðu þjóðirnar. Einnig þyrfti að bæta þekkingu og skilning rússneskra stjórnvalda á evrópsku öryggis- og varnarstefnunni. Að lokum lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi orkuöryggis fyrir orkustefnu og utanríkisstefnu sambandsins. Í því samhengi þyrfti að líta til aukins samstarfs við ríki sem hafa olíu- og gasleiðslur til Evrópu á landsvæði sínu.
    Pertti Torstila, ráðuneytisstjóri í finnska varnarmálaráðuneytinu, sagði getu sambandsins til aðgerða hafa aukist verulega á undanförnum missirum. Auk þess hefði aðgerðum fjölgað til muna og væntingar um aðkomu ESB að krefjandi alþjóðlegum verkefnum aukist verulega. Ráðuneytisstjórinn fjallaði um núverandi verkefni evrópsku öryggis- og varnarstefnunnar og lagði áherslu á mikilvægi borgaralegra viðbragða við hættuástandi. Hann sagði auk þess að ESB væri að líta til nýrra verkefna í ljósi þess að aðgerðum þess í Aceh-héraði í Indónesíu og í Kongó væri lokið. Meðal nýrra verkefna eru hugsanlegar aðgerðir í Kosovo og samstarf um þróun og endurbætur á löggæslu í Afganistan. Auk nýrra verkefna væri ESB að vinna að þróun stefnunnar sem liggur að baki þeirra, m.a. með samstarfi innan varnarmálastofnunar Evrópu og með því að þrýsta mannréttindum framar á stefnuskrána. Aðrir gestir sem ávörpuðu þingið voru Nino Burjanadze, forseti þjóðþings Georgíu, Zoltan Nagy, deildarstjóri samstarfsdeildar stjórnmálasviðs NATO, Lorenzo Forcieri, varautanríkisráðherra Ítalíu með umsjón með varnarmálum, og André Flahaut, varnarmálaráðherra Belgíu.

Alþingi, 5. feb. 2007.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Gunnar Örlygsson,


varaform.


Einar Már Sigurðarson.


Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og tilskipanir VES-þingsins árið 2006.


Fyrri hluti 52. þingfundar, 19.–21. júní:
     1.      tilmæli nr. 776 um ný viðfangsefni fyrir evrópsku öryggis- og varnaráætlunina – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     2.      tilskipun nr. 122 um ný viðfangsefni fyrir sameiginlega utanríkis-, öryggis- og varnarstefnu Evrópu – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     3.      tilskipun nr. 123 um samskipti VES-þingsins og Evrópuþingsins,
     4.      tilmæli nr. 777 um álit almennings á Althea-aðgerðinni, ári síðar,
     5.      tilmæli nr. 778 um borgaralega þætti evrópsku öryggis- og varnaráætlunarinnar – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     6.      tilmæli nr. 779 um öryggi og stöðugleika við Miðjarðarhaf,
     7.      tilmæli nr. 780 um evrópskar sveitir í Afganistan og hvaða lærdóm má draga af starfi þeirra,
     8.      tilmæli 781 um fjármögnun eftirlauna VES,
     9.      tilmæli 782 um öryggisrannsóknir í Evrópu – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     10.      tilmæli nr. 783 um vopn í geimnum,
     11.      tilmæli 784 um verkefni evrópskra lögreglusveita með herþjálfun,
     12.      tilmæli 785 um stöðvun útbreiðslu gereyðingarvopna.

Síðari hluti 52. þingfundar, 18.–20. desember:
     1.      tilmæli nr. 786 um NATO og samstarf bandalagsins við Evrópusambandið – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     2.      tilskipun nr. 124 um NATO og samstarf bandalagsins við Evrópusambandið – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     3.      tilmæli nr. 787 um viðvarandi lausn á málefnum Mið-Austurlanda og hlutverk Evrópu á því sviði,
     4.      tilmæli nr. 788 um fjármálatillögu þingsins fyrir árið 2007,
     5.      tilmæli nr. 789 um fjármál ráðherrahluta VES fyrir árið 2006,
     6.      tilmæli nr. 790 um öryggi og stöðugleika í Mið-Asíu,
     7.      tilmæli nr. 791 um evrópska landheri í verkefnum utan álfunnar,
     8.      tilmæli nr. 792 um samstarf yfir Atlantsála á sviði flugmála: Sameiginlega orrustuflugvélin,
     9.      tilmæli nr. 793 um aðgerðir Evrópusambandsins í Kongó – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     10.      tilmæli nr. 794 um flugmálaiðnaðinn í Úkraínu – samstarf við Evrópu,
     11.      ályktun nr. 129 um VES-þingið sem verkfæri fyrir þjóðþing,
     12.      tilskipun nr. 125 um VES-þingið sem verkfæri fyrir þjóðþing,
     13.      ályktun nr. 140 um breytt viðhorf almennings og fjölmiðla gagnvart hryðjuverkum.