Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 618. máls.
Þskj. 918  —  618. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.

2. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

     a.      (VII.)
             Vísitala sem reiknuð er og birt í janúarmánuði 2008 og grundvallast á verðupplýsingum miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga janúar skal gilda um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í febrúar 2008.

     b.      (VIII.)
             Vísitala sem reiknuð er og birt í janúarmánuði 2008 og grundvallast á verðupplýsingum miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan janúar skal gilda um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í mars 2008.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi ráðherra Hagstofu Íslands um breytingar á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995.
    Evrópusambandið hefur ákveðið með reglugerð, sem er bindandi fyrir EES-ríkin, að samræma tímabil fyrir söfnun verðupplýsinga fyrir hina samræmdu neysluverðsvísitölu EES. Frá og með janúarmánuði 2008 skal safna verðupplýsingum í að minnsta kosti vikutíma um miðjan hvern mánuð. Hagstofa Íslands reiknar vísitölu neysluverðs samkvæmt lögum nr. 12/1995 miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga hvers mánaðar. Útreikningur Hagstofunnar á samræmdu vísitölunni fyrir Ísland er miðaður við sama tímabil. Við gildistöku reglugerðar ESB er óhjákvæmilegt að laga verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs að hinum nýju Evrópuákvæðum þar sem ekki kemur til álita hér á landi að reikna tvær mismunandi neysluverðsvísitölur í hverjum mánuði. Því er í sérstöku frumvarpi lagt til að vísitala neysluverðs verði reiknuð miðað við verð um miðjan mánuð í stað verðs í upphafi mánaðar eins og verið hefur.
    Slík breyting á vísitölu neysluverðs hefur áhrif á beitingu vísitölunnar til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Í 14. gr. gildandi laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, segir í 1. mgr.: „Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.“
    Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögunum um vísitölu neysluverðs verður verðupplýsingum vegna útreiknings vísitölunnar safnað um miðjan hvern mánuð og vísitalan birt í lok mánaðarins að lokinni yfirferð gagna og útreikningi. Eftir að tímasetningu á vísitölu neysluverðs hefur verið breytt á þennan hátt geta ákvæði laga um vexti og verðtryggingu ekki staðið óbreytt. Ástæðan er sú að tíminn frá birtingu vísitölunnar í lok hvers mánaðar til gildistöku hennar til verðtryggingar verður einfaldlega of stuttur. Er þá sérstaklega haft í huga að ekki mun gefast tími til að senda út innheimtuseðla vegna þeirra fjárskuldbindinga sem eru á gjalddaga fyrstu daga mánaðarins. Af þessu leiðir að samhliða breytingu á tímasetningu á verðsöfnun – og þar með útreikningi og birtingu – vísitölu neysluverðs þarf að breyta fyrrgreindum ákvæðum í lögunum til þess að skýrt sé kveðið á um tímatafir milli útreiknings vísitölu neysluverðs og beitingar hennar til verðtryggingar. Er það efni þessa frumvarps.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í gildandi lögum er kveðið á um að vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildi um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir. Byggist þessi tilhögun á því að Hagstofa Íslands hefur hingað til safnað saman upplýsingum um verðlag tvo fyrstu daga hvers mánaðar og birt upplýsingar um niðurstöðu þeirra upplýsinga. Hefur vísitala neysluverðs til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár sem Hagstofan hefur birt á grundvelli þessara upplýsinga gilt í næsta mánuði á eftir. Hafa útreikningar Hagstofunnar verið birtir í tæka tíð til að unnt væri fyrir banka og aðra lánveitendur að tilgreina rétta fjárhæð afborgana og vaxta af verðtryggðum lánum á útsendum greiðsluseðlum.
    Breyting sú sem frumvarpið leggur til er nauðsynleg til að unnt sé að senda út greiðsluseðla með réttum upplýsingum um áfallnar verðbætur. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum verður breyting á söfnun verðupplýsinga frá 1. janúar 2008. Sjálf söfnunin og úrvinnsla tekur það langan tíma að með öllu er óraunhæft að gera ráð fyrir að upplýsingar liggi fyrir fyrr en örfáum dögum fyrir mánaðamót. Er þá þegar búið að senda greiðsluseðla vegna þeirra lána sem eru á gjalddaga í næsta mánuði.
    Af þessu leiðir að frumvarpið gerir nú ráð fyrir að framvegis muni birting Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs gilda fyrir verðtryggingu sparifjár og lánsfjár þar næsta mánuð á eftir, í stað næsta mánaðar.

Um 2. gr.

    Í bráðabirgðaákvæði í frumvarpi til laga um breyting á lögum um vísitölu neysluverðs er gert ráð fyrir tveimur söfnunum verðupplýsinga í janúar 2008. Sú fyrri fer fram tvo fyrstu virka daga mánaðarins, í samræmi við gildandi reglur, og hin síðari verður í samræmi við hina nýju tilhögun.
    Til að taka af allan vafa um stöðu þeirra sem hagsmuni hafa, og til að mæta breytingum á yfirfærslutíma yfir í nýtt kerfi söfnunar verðupplýsinga og birtingar vísitölu neysluverðs, er með frumvarpinu lagt til að vísitala sú sem gildir í febrúarmánuði 2008 grundvallist á söfnun tvo fyrstu daga janúar (eldra kerfi), en vísitala vegna marsmánaðar grundvallist á hinni nýju aðferðafræði, þ.e. söfnun verðupplýsinga um miðjan janúar.

Um 3. gr.

    Til að gefa lánveitendum og öðrum sem hagsmuni eiga svigrúm til að aðlaga sig að ákvæðum frumvarpsins er, með sama hætti og í frumvarpi til laga um breyting á lögum um vísitölu neysluverðs, gert ráð fyrir gildistöku þann 1. janúar 2008.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu,
nr. 38/2001, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er niðurstaða vinnuhóps undir formennsku hagstofustjóra þar sem farið var yfir þær breytingar sem gera þyrfti á innlendum lögum vegna reglugerðar Evrópusambandsins um að samræma tímabil fyrir söfnun verðupplýsinga fyrir samræmda neysluverðsvísitölu EES. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi ráðherra Hagstofu Íslands um breytingar á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, og er vísað í kostnaðarumsögn um það frumvarp.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildi um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir. Í frumvarpinu er gerð sú breyting að framvegis muni birting Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs gilda fyrir verðtryggingu sparifjár og lánsfjár þar næsta mánaðar á eftir.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.