Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 497. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1218  —  497. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um einstaklinga í kynáttunarvanda (transgender).

     1.      Hvaða skilyrði þarf sá sem óskar eftir aðgerð til leiðréttingar á kyni að uppfylla? Hvaða mat fer fram, hver sér um það og í hverju felst það aðallega? Eru einhver tímamörk á slíku mati?
    Hvað varðar skilmerki aðgerða til leiðréttinga á kyni er fylgt ábendingum og stöðlum samtakanna The World Professional Association For Transgender Health (WPATH, áður þekkt sem Harry Benjamin International Gender Dysphoria Association, staðsett í Minneapolis, USA) eins og víðast hvar er gert í hinum vestræna heimi. Samkvæmt þeim verður einstaklingur að hafa sýnt mjög ákveðin einkenni þess að hafa lengi líði illa í eigin líkama og fundist að hann/hún hafi fæðst með rangt kyn. Viðkomandi verður að láta í ljósi mjög einlægan vilja til að skipta um kyn og hafa andlegan og líkamlegan styrk til að geta gengið í gegnum alla þá erfiðleika sem því eru samfara.
    Þegar samráðshópur á vegum landlæknis til að sinna málefnum þessara einstaklinga hóf störf var höfð náin samvinna við kynfræðideildina við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn og var þá miðað við vinnureglur þeirrar stofnunar. Þá var aldursmark aðgerða bundið við 25 ár en því hefur nú verið breytt í 21–22 ár til samræmis við það sem tíðkast t.d. í Danmörku.
    Matið fer fram á þann veg að venjulega er viðkomandi vísað til einhverra þeirra aðila sem mest hafa komið að þessum málum hérlendis, þ.e. þeirra sem sitja í fyrrnefndum samráðshópi sem landlæknir hefur kallað saman. Viðkomandi fer síðan í fjölda viðtala þar sem ástand hans/hennar er metið klínískt og þá er áfram miðað við fyrrnefndar ábendingar; hann/hún er send(ur) í sálfræðilegt mat og blóðrannsóknir. Síðan er honum/henni vísað áfram í viðtöl til annarra nefndarmanna til viðtals. Þegar ákvörðun er tekin hefur viðkomandi hitt geðlæknana Óttar Guðmundsson og Tómas Zoega, kvensjúkdómalæknana Arnar Hauksson og Jens Guðmundsson og Jens Kjartansson lýtalækni. Hingað til hafa ekki verið nein tímamörk á slíku mati.

     2.      Eru skurðaðgerðir til leiðréttingar á kyni framkvæmdar hér á landi? Ef svo er, hversu margir hafa farið í slíka aðgerð, sundurliðað eftir kyni? Hversu margir hafa verið sendir utan í slíkar aðgerðir og til hvaða landa?
    Hingað til hafa tvær aðgerðir verið gerðar hérlendis; ein á konu sem breytt var í karl og önnur á karli sem breytt var í konu. Enginn hefur verið sendur utan til aðgerðar fyrir atbeina samráðshópsins, en einstaklingar eru frjálsir að því að leita til annarra en þeirra sem skipa samráðshóp landlæknis. Ekki er vitað til þess að aðrir læknar eða heilbrigðisstarfsmenn hérlendis hafi sinnt málum sem þessum í heild.

     3.      Eru til sérmenntaðir sálfræðingar, læknar eða félagsfræðingar á þessu sviði og er gerð krafa um það af hálfu yfirvalda að þeir sem sinna ráðgjöf á þessu sviði afli sér þekkingar á málefnum fólks í kynáttunarvanda?
    Þeir aðilar sem hingað til hafa sinnt þessu mati og þessum aðgerðum hafa allir aflað sér sérþekkingar á þessu sviði. Óttar Guðmundsson dvaldist hjá Preben Hertoft, prófessor í kynfræðum (sexologi) á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í nokkra daga til að afla sér upplýsinga um framgangsmáta þessara aðgerða þar. Hann fór auk þess til Gautaborgar til að skoða verklag Svía. Jens Kjartansson framkvæmdi nokkrar kynskiptiaðgerðir þegar hann var í sérnámi í Svíþjóð. Ekki hefur verið krafist neinnar sérstakrar menntunar á þessu sviði af hendi heilbrigðisyfirvalda, en leitað var til þeirra lækna íslenskra, sem helst hafa látið sig varða þessi mál.

     4.      Hvaða stuðningsúrræði eru til fyrir þá sem láta breyta kyni sínu? Fá þeir sem hafa fengið höfnun hérlendis einhvern stuðning? Er samstarf eða sameiginleg stefnumótun á þessu sviði milli Norðurlanda- og Evrópuþjóða?
    Þeir aðilar sem farið hafa í kynskipti eru áfram í tengslum við lækna nefndarinnar. Hingað til hefur ekki verið boðið upp á nein sérstök félagsleg úrræði enda gengið út frá því að þetta sé einlægur vilji annars heilbrigðra einstaklinga og þeir eigi að geta séð sér farborða á sama hátt og áður. Hópurinn sem slíkur hefur ekki haft frekari afskipti af þeim aðilum sem hafa fengið neitun, enda gert ráð fyrir að þeir leiti sér hjálpar og aðstoðar í hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi.
    Eins og áður segir hefur nefndin verið í nánu samstarfi við kynfræðideildina á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Allar Norðurlandaþjóðirnar svo og flest Evrópulönd fylgja áðurnefndum staðli WPATH.

     5.      Hverjar eru vinnureglur varðandi fæðingarvottorð þeirra sem fara í aðgerð til leiðréttingar á kyni?
    Þjóðskrá hefur í sinni vörslu fæðingarskýrslur allra sem fæðast hér á landi. Fyrir tæpum tólf árum barst Þjóðskrá í fyrsta skipti erindi um leiðréttingu á kyni einstaklings er gengist hafði undir aðgerð. Við því var orðið og hefur sami háttur verið hafður á síðan. Skiptir þá ekki máli hvort aðgerð fer fram hér á landi eða erlendis ef hún er samþykkt af þar til bærum stjórnvöldum. Eftir leiðréttingu á fæðingarskýrslu gefur Þjóðskrá út fæðingarvottorð sem ber með sér hið nýja kyn.

     6.      Fjallar einhver nefnd um mál þeirra sem eru í kynáttunarvanda? Ef svo er, hvert er hlutverk slíkrar nefndar og hvenær hóf hún störf, hverjir sitja í henni og hversu oft hefur hún komið saman?
    Ekki er um eiginlega nefndarskipan að ræða, öllu fremur samráðshóp þeirra lækna sem hafa komið að þessum málum hér á landi, en Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir hafði frumkvæði að þessu fyrirkomulagi. Tilgangurinn mun fyrst og fremst hafa verið sá að kalla til hæfustu aðila til ráðuneytis áður en svo afdrifarík ákvörðun er tekin, tryggja að ákvörðun væri tekin á faglegum grunni og tryggja sem jafnasta möguleika allra, en hlutverk samráðshópsins er að sinna beiðnum og vandamálum þeirra einstaklinga sem eru í kynáttunarvanda. Nefndin hefur komið saman tvisvar til þrisvar á ári og hefur tíðni funda mótast af fjölda þeirra beiðna sem liggja fyrir.

     7.      Hvenær geta einstaklingar með nýtt kyn fengið nýtt nafn og kennitölu? Hversu langur tími líður þar til slíkt er hægt? Hvaða möguleika hefur fólk til þess að skipta um nafn áður en leiðrétting á kyni er framkvæmd? Hverjar eru vinnureglur Þjóðskrár í þessu sambandi?
    Sú verklagsregla hefur gilt hjá Þjóðskrá að hafi kyn einstaklings verið leiðrétt hér á landi er skráning þeirrar breytingar færð á fæðingarskýrslu og í tölvukerfi skrárinnar um leið og viðkomandi fær fullu nafni sínu breytt samkvæmt lögum um mannanöfn. Hafi leiðrétting átt sér stað í útlöndum hefur viðkomandi undantekningarlaust lagt fram hjá Þjóðskrá gögn um nafnbreytingu í búsetulandi. Kennitölu er breytt samtímis óski viðkomandi þess. Kennitölubreyting er ekki nauðsynleg því kyngreining kemur ekki fram í íslensku kennitölunni eins og í kennitölum útgefnum í sumum löndum.
    Í mannanafnalögum kemur skýrt fram að stúlka skuli bera kvenmannsnafn og vera með dótturkenningu til föður síns eða móður en drengur skuli bera karlmannsnafn og vera með sonarkenningu til föður síns eða móður, sbr. 5. og 8. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996. Ef um ættarnöfn er að ræða eru undantekningar frá þessu. Samkvæmt þessum lagaákvæðum hefur Þjóðskrá litið svo á að sá sem hyggst fara í aðgerð hér á landi til leiðréttingar á kyni sínu geti ekki fengið nafni sínu breytt í þjóðskrá fyrr en eftir þá leiðréttingu. Þjóðskrá hefur ekki fengið til umfjöllunar erindi einstaklings sem búsettur er erlendis og hefur fengið þar nafnbreytingu áður en leiðrétting á kyni hefur átt sér stað.