Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.

Þskj. 572  —  337. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Með útlendingi er í lögum þessum átt við hvern þann einstakling sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.
     b.      Á eftir orðunum „í siglingum erlendis“ í 4. mgr. kemur: og íslensk loftför í flugferðum erlendis.

2. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Hann getur sett nánari reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér á landi, þar á meðal um frekari skilyrði fyrir dvalar- og búsetuleyfi.

3. gr.

    4. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

    Landamæraeftirlit.

    Hver sá sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram á landamærastöð eða við næsta lögregluyfirvald. Sama gildir um þann sem fer af landi brott og skal hann sæta brottfarareftirliti. Undanskilin er för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, svo og aðrar ferðir sem eru í samræmi við reglur sem dómsmálaráðherra setur.
    Koma til landsins og för úr landi skal fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem dómsmálaráðherra ákveður. Ákvæði tollalaga gilda um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um för yfir landamæri, þar á meðal skilyrði fyrir komu til landsins, tilhögun eftirlits, skráningu upplýsinga og jafnframt um undantekningar frá ákvæðum 1. og 2. mgr. um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Hann setur einnig reglur um skyldu stjórnanda skips eða loftfars til að ganga úr skugga um að farþegar hafi gild ferðaskilríki.

4. gr.

    Á eftir 4. mgr. 6. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Heimilt er að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef eftirfarandi grundvallarskilyrðum er fullnægt:
     a.      hann hefur gilt vegabréf eða annað gilt kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki við komu til Íslands og annarra Schengen-ríkja og við brottför er gildir a.m.k. í þrjá mánuði fram yfir þann tíma sem vegabréfsáritunin sem sótt er um tekur til,
     b.      hann hefur heimild til að ferðast til baka til heimalandsins eða annars ríkis sem gildir a.m.k. þrjá mánuði fram yfir gildistíma áritunarinnar,
     c.      hann hefur nægileg fjárráð sér til framfærslu meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur og til að greiða fyrir ferð til baka til heimalandsins eða annars lands þar sem honum hefur verið tryggður aðgangur, eða getur framfleytt sér á löglegan hátt,
     d.      hann getur sýnt fram á tilgang dvalar,
     e.      ekki liggur fyrir ástæða til frávísunar eða brottvísunar hans skv. 18. eða 20. gr.,
     f.      hann er ekki skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði meinað að koma til landsins,
     g.      hann telst ekki ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu,
     h.      hann hefur gilda sjúkrakostnaðar- og heimferðartryggingu.
    Ef ástæður sem varða utanríkisstefnu eða almannaöryggi mæla gegn því skal vegabréfsáritun ekki veitt. Sama gildir ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt, svo og þegar grunur leikur á að umsækjandi eða barn hans muni sæta misnotkun eða ofbeldi.
    Dómsmálaráðherra setur reglur um vegabréfsáritanir, þar á meðal um skilyrði fyrir að veita þær. Við mat á umsókn um vegabréfsáritun ber auk þjóðernis að taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Heimilt er að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á umsókn um vegabréfsáritun.

5. gr.

    Í stað 2. mgr. 8. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Eftirtöldum útlendingum er heimilt að dveljast hér á landi án dvalarleyfis:
     a.      dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum,
     b.      útlendingi sem öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu en hefur misst hann eða afsalað sér honum,
     c.      útlendingi sem á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur haft fasta búsetu og dvalarleyfi hér á landi samfellt í tvö ár, enda hafi foreldrið haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár,
     d.      útlendingi sem er lögráða og á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur haft fasta búsetu og dvalarleyfi hér á landi samfleytt í fimm ár,
     e.      útlendingi sem er í hjúskap eða staðfestri samvist með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar eða staðfestingu samvistar,
     f.      útlendingi, sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og haft hefur fasta búsetu og dvalarleyfi hér á landi samfellt í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar, enda séu bæði ógift og hinn íslenski ríkisborgari hafi haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um frekari undanþágur frá kröfu um dvalarleyfi.
    Útlendingastofnun er heimilt að gefa út skírteini til staðfestingar á því að útlendingur þurfi ekki dvalarleyfi hér á landi.

6. gr.

    10. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Umsókn um dvalarleyfi.


    Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skal sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá þessu má víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um dvalarleyfi. Sækja skal um dvalarleyfi á sérstöku eyðublaði. Umsókninni skal fylgja ljósmynd af umsækjanda og skal hann undirrita eigin hendi umsóknina þar sem m.a. komi fram að hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda. Umsókn um dvalarleyfi skulu einnig fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög og reglugerðir kveða á um, svo sem sakavottorð, heilbrigðisvottorð og staðfesting á framfærslu og sjúkratryggingu. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram.

7. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Útgáfa dvalarleyfis.


    Dvalarleyfi verður ekki gefið út fyrr en umsókn um dvalarleyfi hefur verið samþykkt, útlendingur er kominn til landsins, hefur gengist undir læknisskoðun samkvæmt vottorði heilbrigðisstofnunar og gengið frá skráningu heimilisfangs hér á landi. Útlendingastofnun gefur út skírteini til staðfestingar á veitingu dvalarleyfis. Skírteini er gefið út á nafn útlendingsins sem er handhafi dvalarleyfisins. Tekin skal stafræn mynd af umsækjanda og prentuð á skírteinið. Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða að dvalarleyfisskírteini skuli innihalda örflögu með þeim upplýsingum sem skráðar eru á kortið auk fingrafara handhafa. Í skírteininu skal m.a. koma fram nafn útlendings, ríkisfang hans, nafn atvinnurekanda þegar það á við og gildistími dvalarleyfisins.

8. gr.

    11. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Grunnskilyrði dvalarleyfis.


    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði 12. gr. – 12. gr. e eða 13. gr. samkvæmt umsókn uppfylli hann eftirtalin grunnskilyrði:
     a.      framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt, samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðherra setur,
     b.      hann uppfylli skilyrði fyrir dvalarleyfi sem fram koma í lögum þessum og reglum skv. 1. mgr. 3. gr.,
     c.      hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda,
     d.      ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.
    Framfærsla útlendings skv. a-lið 1. mgr. telst trygg ef hann fær launatekjur eða greiðslur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi sem nægja til framfærslu hans, hann fær tryggar reglulegar greiðslur sem nægja til framfærslu hans, hefur nægilegt eigið fé til framfærslu meðan á dvölinni stendur eða fær námslán eða námsstyrk sem nægir til framfærslu hans. Eigið fé, námslán eða námsstyrkur viðkomandi þarf að vera í gjaldmiðli sem skráður er hjá Seðlabanka Íslands. Framfærsla getur stuðst við fleiri en einn lið og telst þá trygg ef útlendingurinn sýnir fram á að samanlögð fjárráð hans nægi til framfærslunnar. Atvinnuleysisbætur eða greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags, teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði. Hið sama gildir um greiðslur úr almannatryggingum sem útlendingurinn öðlast rétt til á grundvelli búsetu hér á landi.
    Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að veita dvalarleyfi til útlendings sem til landsins kemur í lögmætum og sérstökum tilgangi að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr., þrátt fyrir að hann uppfylli ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. 12. gr. – 12. gr. e eða 13. gr. Slíkt dvalarleyfi skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs í senn og getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.

9. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 11. gr.“ í 2. mgr. 12. gr. laganna, sem verður 51. gr. a, kemur: 12. gr. f.

10. gr.

    Á undan 13. gr. laganna koma átta nýjar greinar er orðast svo ásamt fyrirsögnum:

    a. (12. gr.)

Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.


    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr.,
     b.      atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hefur verið veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að tvö ár í senn enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur verið grundvöllur búsetuleyfis.

    b. (12. gr. a.)

Dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli.


    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku á vinnumarkaði hér á landi í samræmi við 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr.,
     b.      atvinnuleyfi á grundvelli 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hefur verið veitt.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að eitt ár til viðbótar.
    Heimilt er að endurnýja leyfi til lengri tíma en skv. 2. mgr. þegar um er að ræða skýrt afmarkaða og tímabundna verkframkvæmd sem tekur lengri tíma en þar greinir. Er þá heimilt að veita dvalarleyfi til þess tíma þar til verkframkvæmd lýkur eða til þess tíma sem atvinnuleyfið gildir.
    Óheimilt er að veita útlendingi sem haft hefur dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu leyfi samkvæmt ákvæðinu að nýju fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins. Ákvæði þetta á þó ekki við þegar útlendingur starfar hér á landi skemur en sex mánuði á hverjum tólf mánuðum.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.

    c. (12. gr. b.)

Dvalarleyfi íþróttafólks.


    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi vegna starfa hans sem íþróttamaður eða þjálfari hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr.,
     b.      atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk hefur verið veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma atvinnuleyfis. Heimilt er að endurnýja það um allt að tvö ár í senn enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.

    d. (12. gr. c.)

Samningar Íslands við önnur ríki um dvöl ríkisborgara þeirra hér á landi.


    Heimilt er að veita ríkisborgurum tiltekinna ríkja á aldrinum 18 til 26 ára dvalarleyfi hér á landi að hámarki til eins árs á grundvelli samnings sem íslensk stjórnvöld hafa gert við annað ríki um dvöl ríkisborgara þess hér á landi í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu er m.a. að skilyrði 1. og 2. mgr. 11. gr. séu uppfyllt og að útlendingnum hafi ekki áður verið veitt dvalarleyfi á grundvelli slíks samnings hér á landi.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.

    e. (12. gr. d.)

Dvalarleyfi vegna vistráðningar.


    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi vegna vistráðningar á heimili fjölskyldu hér á landi. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr.,
     b.      útlendingur er ekki yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára,
     c.      undirritaður samningur um vistráðningu milli aðila liggur fyrir þar sem fram kemur m.a. gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími, réttur til að stunda nám og ákvæði um sjúkra- og slysatryggingar,
     d.      fæði og húsnæði útlendings er án endurgjalds,
     e.      hinn vistráðni hefur sérherbergi til afnota,
     f.      vistfjölskylda ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendings að starfstíma loknum, ef um er að ræða ráðningarslit eða ef útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa, og
     g.      vistfjölskylda tryggir að hinn vistráðni fái nægjanlegan tíma til íslenskunáms og til að geta sinnt eigin áhugamálum.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt samningi um vistráðningu. Óheimilt er að endurnýja leyfi samkvæmt ákvæði þessu. Jafnframt er óheimilt að veita útlendingnum dvalarleyfi samkvæmt ákvæði 12. gr. – 12. gr. c fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins.
    Verði slit á vistráðningu áður en vistráðningartíma samkvæmt samningi aðila er lokið skulu bæði hinn vistráðni og vistfjölskyldan tilkynna það til þess aðila sem hafði milligöngu um ráðninguna og til Útlendingastofnunar. Hinum vistráðna er heimilt að flytjast til nýrrar vistfjölskyldu. Samanlagður dvalartími hjá vistfjölskyldum skal ekki vera lengri en eitt ár.
    Útlendingi sem dvelur hér á landi samkvæmt ákvæði þessu er ekki heimilt að vinna almenn störf utan heimilisins á dvalartíma.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.
    Útlendingastofnun skal gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu. Einnig ákveður stofnunin lágmarksfjárhæð vasapeninga fyrir hinn vistráðna. Útlendingastofnun er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki alla milligöngu og eftirlit með vistráðningum. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um dvöl samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal um skilyrði sem útlendingur og viðkomandi fjölskylda þurfa að uppfylla vegna dvalarinnar og um kjör vistráðinna.

    f. (12. gr. e.)

Dvalarleyfi vegna náms.


    Heimilt er að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda fullnægi hann þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi um undirbúning, þar á meðal tungumálakunnáttu. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      útlendingur fullnægir skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr., og
     b.      stundar fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla.
    Fullt nám telst vera 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
     Heimilt er að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu komi þeir til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka. Jafnframt má veita útlendingi sem dvalið hefur í landinu á grundvelli dvalarleyfis skv. 13. gr. en missir rétt til dvalar á þeim grundvelli við 18 ára aldur dvalarleyfi samkvæmt þessari grein til að stunda nám við framhaldsskóla.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 50% af fullu námi.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.
    
    g. (12. gr. f.)

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.


    Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr. ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu í allt að tvö ár í senn enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins í upphafi ekki breyst.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur verið grundvöllur búsetuleyfis.
    
    h. (12. gr. g.)

Bráðabirgðadvalarleyfi.


    Heimilt er, að beiðni útlendings sem sótt hefur um hæli, að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina. Einnig er heimilt, að beiðni útlendings sem hefur fengið endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
     a.      að tekin hafi verið hælisskýrsla af umsækjanda,
     b.      að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er,
     c.      að ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda,
     d.      að ekki liggi fyrir beiðni um að annað ríki taki við honum á ný, sbr. e-lið 1. mgr. 46. gr.,
     e.      að útlendingur hafi veitt upplýsingar og atbeina sinn til að aðstoða við úrlausn máls.
    Heimilt er að víkja frá skilyrðum 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði eigi veitt til lengri tíma en sex mánaða. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu í allt að eitt ár samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar.
    Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru, og viðeigandi ákvæði V. kafla laga þessara, gilda ekki um ákvörðun um bráðabirgðadvalarleyfi. Bráðabirgðadvalarleyfi hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð.
    Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.
    

11. gr.

    13. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.


    Nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 12. gr., 12. gr. b. og 12. gr. f. eða á grundvelli búsetuleyfis geta samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í d-lið 1. mgr. 11. gr., auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. Sama gildir um nánustu aðstandendur þeirra sem stunda doktorsnám hér á landi á grundvelli 12. gr. e.
    Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki og samvistarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.
    Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar, staðfestrar samvistar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar eða staðfestrar samvistar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar eða staðfestrar samvistar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga. Ef annar makinn er 24 ára eða yngri skal ávallt kanna hvort málsatvik eru með þeim hætti sem um getur í 1. og 2. málsl.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu verður ekki veitt ef nánasti aðstandandi umsækjanda hefur á síðustu fimm árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga, nema synjun um dvalarleyfi mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal í fyrsta skipti eigi veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið samkvæmt umsókn ef skilyrði þess eru enn uppfyllt. Dvalarleyfi aðstandanda útlendings, sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalar- eða búsetuleyfis, getur þó aldrei gilt lengur en leyfi þess síðarnefnda.
    Dvalarleyfi sem aðstandandi fær samkvæmt þessu ákvæði getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis nema útlendingurinn sem hann leiðir rétt sinn af hafi dvalarleyfi sem skapar slíkan grundvöll.
    

12. gr.

    14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Endurnýjun dvalarleyfis.


    Endurnýja má dvalarleyfi útlendings að fenginni umsókn ef skilyrðum leyfisins er áfram fullnægt.
    Útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis skal sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Sé sótt um endurnýjun innan tilskilins frests er útlendingi heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans. Að öðrum kosti skal útlendingur hverfa úr landi áður en leyfi hans rennur út.
    Útlendingastofnun getur í undantekningartilvikum heimilað útlendingi áframhaldandi dvöl þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr., ef afsakanlegt er að umsókn hafi ekki verið skilað fyrr eða ríkar sanngirnisástæður mæli með því.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að fella dvalarleyfi niður þegar leyfishafi hefur dvalist erlendis samfellt lengur en þrjá mánuði. Þegar lögheimili útlendings hefur verið skráð erlendis í þrjá mánuði fellur dvalarleyfið sjálfkrafa niður. Þótt dvalarleyfi falli niður kemur það ekki í veg fyrir að útlendingur geti sótt um endurnýjun samkvæmt ákvæði þessu ef það er gert innan upphaflegs gildistíma dvalarleyfisins og sanngirnisástæður mæla með því.

13. gr.

    15. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Búsetuleyfi.


    Heimilt er að veita útlendingi búsetuleyfi, hafi hann dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis. Skilyrði fyrir veitingu búsetuleyfis eru m.a. eftirfarandi:
     a.      Útlendingur hefur sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga.
     b.      Ekki liggja fyrir ástæður sem valdið geta því að honum verði vísað úr landi, sbr. 1. mgr. 20. gr.
     c.      Útlendingur sýnir fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti. Útlendingastofnun er m.a. heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar. Greiðslur almannatrygginga, atvinnuleysisbætur eða greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef framfærsla hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
     d.      Útlendingur hefur haft dvalarleyfi á sama grundvelli síðustu fjögur ár áður en umsókn um búsetuleyfi er lögð fram og skilyrði þess leyfis eru enn uppfyllt.
     e.      Útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
    Búsetuleyfi felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi.
    Heimilt er að veita barni sem fæðist eftir að forsjárforeldri kemur til landsins búsetuleyfi enda hafi foreldrið búsetuleyfi hér á landi.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um búsetuleyfi. Útlendingur sem óskar eftir búsetuleyfi skal sækja um leyfið til Útlendingastofnunar eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Honum er heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans, enda hafi umsóknin borist Útlendingastofnun innan tilskilins frests. Ákvæði 2. mgr. 14. gr. á við um umsóknir sem síðar berast.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að fella búsetuleyfi niður þegar leyfishafi hefur dvalist erlendis samfellt lengur en 18 mánuði. Þegar lögheimili útlendings hefur verið skráð erlendis í 18 mánuði fellur búsetuleyfið sjálfkrafa niður. Að fenginni umsókn má heimila útlendingi lengri dvöl erlendis án þess að búsetuleyfið falli úr gildi.
    Útlendingastofnun gefur út skírteini til staðfestingar á veitingu búsetuleyfis. Skírteini er gefið út á nafn útlendingsins sem er handhafi leyfisins. Ákvæði 10. gr. a eiga við um útgáfu skírteinis til staðfestingar á búsetuleyfi.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um búsetuleyfi, þar á meðal um lengri dvöl erlendis skv. 5. mgr. og um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt að kveða þar á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er í reglugerðinni heimilt að kveða á um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.

14. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Eftir afturköllun leyfis á grundvelli rangra upplýsinga eða þess að leynt var atvikum sem verulega þýðingu gátu haft við útgáfu leyfis, skal réttarstaða útlendingsins samkvæmt lögum þessum vera sem hann hefði aldrei fengið útgefið leyfi.

15. gr.

    Við 3. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um endurkomubann.

16. gr.

    Við 23. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Útlendingastofnun er heimilt að fengnu samþykki dómsmálaráðherra að veita umsóknum skv. 12. gr., 12. gr. a og 12. gr. e forgangsafgreiðslu.
    Útlendingastofnun er heimilt að veita umsóknum skv. 12. gr. og 12. gr. a hraðafgreiðslu á grundvelli yfirlýsingar atvinnurekanda, sem fengið hefur viðurkenningu Útlendingastofnunar. Atvinnurekandi skal lýsa því yfir að öll skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt og að hann muni skila inn fullnægjandi gögnum fyrir hönd útlendings. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um beitingu þessarar heimildar, þar á meðal um þau skilyrði sem atvinnurekendur þurfa að uppfylla til að hljóta viðurkenningu.

17. gr.

    1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnvöldum sem fara með málefni útlendinga er heimilt að láta erlendum stjórnvöldum í té upplýsingar um útlending vegna meðferðar á máli er varðar vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða hæli að því marki sem nauðsynlegt er vegna samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi eða í einhverju samningsríkjanna.

18. gr.

    7. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann eða hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Einnig er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á.

19. gr.

    Í stað orðanna „3. mgr. 14. gr.“ í 1. og 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: 2. mgr. 14. gr.

20. gr.

    3. og 4. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
    Til að tryggja að ákvörðun skv. 1. mgr. verði framkvæmd og í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta getur lögregla lagt fyrir útlendinginn að:
     a.      tilkynna sig,
     b.      afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, sbr. 5. gr., og
     c.      halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.
    Fyrirmæli sem greinir í 3. mgr. má því aðeins gefa að ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar skv. 1. mgr. eða í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta fyrir samfélagið. Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar skv. 1. mgr. má taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í fjórar vikur nema útlendingurinn samþykki það eða dómari ákveði samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna ,,6. mgr. 29. gr.“ í 1. mgr. kemur: 7. mgr. 29. gr.
     b.      Í stað orðanna ,,2. mgr. 43. gr.“ í 2. mgr. kemur: 2. mgr. 42. gr.
     c.      Í stað orðanna „2. mgr. 11. gr.“ í 2. mgr. kemur: 12. gr. f.
    

22. gr.

    35. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Koma og dvöl.


    Útlendingur, sem fellur undir reglur EES-samningsins (EES-útlendingur) eða stofnsamnings EFTA (EFTA-útlendingur), má koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast eða starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins, eða allt að sex mánuði ef hann er í atvinnuleit. Dvöl í öðru norrænu landi skal ekki draga frá dvalartímanum.
    Útlendingur, sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara, má koma til landsins án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári sé hann sannanlega starfsmaður þjónustuveitanda á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki.
    EES- eða EFTA-útlendingi, sem dvelst eða starfar hér á landi lengur en greinir í 1. mgr., ber að skrá sig og skal hann uppfylla skilyrði 36. gr.

23. gr.

    36. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Réttur til dvalar.


    EES- eða EFTA-útlendingur, þó ekki útlendingur sem greinir í 2. mgr. 35. gr., á rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir eftirgreindum skilyrðum:
     a.      er launþegi sem fellur undir lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. tölul. V. viðauka við EES-samninginn,
     b.      ætlar að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi eða veita eða njóta hér þjónustu,
     c.      þiggur nægilegar fastar reglubundnar greiðslur eða á nægilegt eigið fé og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir, eða
     d.      er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.
    Krefja má EES- eða EFTA-útlending um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði 1. mgr.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um rétt EES- og EFTA-útlendinga til dvalar hér á landi, þar á meðal um skráningu réttar til dvalar og um gögn skv. 2. mgr.

24. gr.

    37. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Dvöl aðstandenda.


    Aðstandandi EES- eða EFTA-útlendings sem dvelur löglega hér á landi á rétt til að dvelja með honum hérlendis.
    Eftirgreindir teljast til aðstandenda útlendings sem fellur undir 1. mgr. 36. gr.:
    a.     maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki,
    b.     niðji útlendings, sem dvelur hér á landi skv. 1. mgr. 36. gr., og/eða maka hans, ef niðjinn er yngri en 21 árs eða á framfæri viðkomandi,
    c.     ættmenni útlendings, sem dvelur hér á landi skv. 1. mgr. 36. gr., eða maka hans, í beinan legg og á framfæri viðkomandi.
    Aðstandanda EES- eða EFTA-útlendings, sem hyggst dvelja með honum hér á landi lengur en greinir í 1. mgr. 35. gr. og er sjálfur EES- eða EFTA-útlendingur, ber að skrá sig hér á landi, sbr. 3. mgr. 35. gr.
    Aðstandanda sem er ekki EES- eða EFTA-útlendingur ber að sækja um dvalarskírteini innan þriggja mánaða frá komu til landsins.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-útlendings, þar á meðal um skilyrði fyrir dvöl þeirra hér á landi.

25. gr.

    39. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Réttur til ótímabundinnar dvalar.


     EES- eða EFTA-útlendingur, sem dvalið hefur löglega hér á landi samfellt í fimm ár skv. 1. mgr. 36. gr., á rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Sama gildir um aðstandendur hans sem hafa dvalið löglega með honum hér á landi í fimm ár.
    Dvöl erlendis í skemmri tíma en samtals sex mánuði á ári, dvöl erlendis vegna herþjónustu eða dvöl í eitt skipti að hámarki í eitt ár vegna meðgöngu, fæðingar, alvarlegs sjúkdóms, náms eða starfsþjálfunar, telst ekki rof á samfelldri dvöl skv. 1. mgr.
    Réttur til ótímabundinnar dvalar fellur niður ef samfelld dvöl erlendis varir lengur en tvö ár.
    Samkvæmt umsókn og að uppfylltum skilyrðum gefur Útlendingastofnun út staðfestingu á rétti til ótímabundinnar dvalar.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um skilyrði fyrir ótímabundinni dvöl EES- eða EFTA-útlendings og aðstandenda hans hér á landi, svo og um undanþágur frá þeim.

26. gr.

    40. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Brottfall dvalarréttar.


    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar, ef um málamyndagerninga að hætti 3. mgr. 13. gr. er að ræða eða dvöl í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 1. mgr. 36. gr. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða.
    Réttur til dvalar hér á landi skv. a- eða b-lið 1. mgr. 36. gr. fellur ekki niður vegna tímabundinna veikinda, slyss eða þess að EES-eða EFTA-útlendingur er atvinnulaus gegn vilja sínum eftir að hafa starfað hér á landi í meira en eitt ár. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um takmarkanir á brottfalli dvalarréttar.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður.

27. gr.

    41. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Frávísun.


    Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef:
     a.      hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um ferðaskilríki eða komu til landsins,
     b.      honum hefur verið vísað úr landi og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
     c.      um er að ræða háttsemi sem greinir í 1. mgr. 42. gr., eða
     d.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins, krefjandi þjóðarhagsmuna eða almannaheilbrigðis.
    Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a- og b- lið 1. mgr., en Útlendingastofnun skv. c- og d-lið. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
    Ef meðferð máls skv. 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa má vísa EES- eða EFTA-útlendingi frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar innan þriggja mánaða frá komu til landsins.

28. gr.

    42. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Brottvísun.


    Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-útlendingi, eða aðstandanda hans, úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis.
    Brottvísun skv. 1. mgr. má framkvæma ef útlendingurinn sýnir af sér eða ætla má að um sé að ræða persónubundna háttsemi sem felur í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum. Ef útlendingurinn hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar má brottvísun af þessari ástæðu því aðeins fara fram að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.
    Einnig er heimilt að vísa EES- eða EFTA-útlendingi úr landi ef hann fullnægir ekki skilyrðum um dvöl skv. 36.–38. gr.
    Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið gildir að jafnaði ekki skemur en tvö ár. Samkvæmt umsókn má fella endurkomubannið úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um endurkomubann.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun, svo og um heimild útlendings sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu.
    

29. gr.

    43. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Takmarkanir á heimild til brottvísunar .


    Brottvísun skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Við matið skal m.a. taka mið af lengd dvalar á Íslandi, aldri, heilsufari, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland.
    Ekki er heimilt að vísa brott EES- eða EFTA-útlendingi, eða aðstandanda hans, sem hefur varanlega búsetu hér á landi, sbr. 39. gr., nema alvarlegar ástæður er varða allsherjarreglu eða almannaöryggi krefjist þess.
    Hafi EES-eða EFTA-útlendingur dvalið löglega hér á landi lengur en í tíu ár verða ástæður brottvísunar skv. 42. gr. að vera brýnar. Sama gildir um ólögráða EES- eða EFTA-útlending, nema annað verði talið nauðsynlegt vegna hagsmuna hans.

30. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 11. gr.“ í 2. mgr. 45. gr. laganna kemur: 12. gr. f.
    

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
    a.     E-liður 1. mgr. orðast svo: krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við.
    b.     Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Dómsmálaráðherra getur sett reglur um málsmeðferð samkvæmt þessum kafla.

32. gr.

    1. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
    Útlendingastofnun og lögreglu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd laganna. Að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja að útlendingar dvelji og starfi löglega hér á landi er heimilt við vinnslu persónuupplýsinga að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar, lögreglu, skattyfirvalda og þjóðskrár. Slíkar samkeyrslur skulu gerðar án þess að upplýsingar úr skrám einstakra stofnana séu sendar öðrum þessara stofnana umfram það sem nauðsynlegt er til skoðunar á fyrir fram skilgreindu athugunarefni. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

33. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2008.
    

Ákvæði til bráðabirgða.

    Dvalarleyfi og búsetuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu. Þeir sem fengið hafa útgefið dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku án takmarkana fyrir gildistöku laganna geta óskað endurnýjunar á leyfum sínum skv. 12. gr. a laga um útlendinga þrátt fyrir að skilyrðið um skort á vinnuafli sé ekki uppfyllt enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum ákvæðisins. Handhafi slíks leyfis getur sótt um búsetuleyfi skv. 15. gr. laganna og aðstandendur hans geta sótt um dvalarleyfi skv. 13. gr. þeirra þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 12. gr. a og 1. mgr. 13. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á allmörgum þáttum gildandi laga. Ástæður til þessara breytinga eru af ýmsu tagi og stafa þær bæði af kröfum sem gerðar eru í nýjum gerðum sem samþykktar hafa verið á vettvangi Schengen-samstarfsins eða teknar upp í EES-samninginn og af innlendum ástæðum.
    Í fyrsta lagi miðar frumvarp þetta að því að samræma ákvæði útlendingalaga við ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Félagsmálaráðherra mun leggja fram samhliða þessu frumvarpi, frumvarp til breytinga á þeim lögum þar sem m.a. er lagt til að fjölga flokkum atvinnuleyfa. Nauðsynlegt er að flokkar dvalarleyfa endurspegli flokka atvinnuleyfa, en rétt er að geta þess að með nýjum flokkum atvinnuleyfa eru lagðar til töluverðar breytingar varðandi aðgang ríkisborgara frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins að íslenskum vinnumarkaði. Um leið er leitast við að hnykkja á þeirri grundvallarstefnu að koma og dvöl útlendings til landsins skuli vera í einhverjum yfirlýstum, lögmætum tilgangi og reglur sem lúta að dvölinni taki mið af þeim tilgangi. Samráð hefur verið haft við félagsmálaráðuneytið um þessar breytingar.
    Í öðru lagi miðar frumvarp þetta að því að innleiða tilskipun Evrópusambandsins 38/2004/ EB um rétt ríkisborgara ríkja Evrópusambandsins, og fjölskyldna þeirra, til frjálsrar farar og dvalar. Með breytingum þeim sem lagðar eru til á VI. kafla gildandi laga og finna má í 22.–29. gr. frumvarpsins eru efnisákvæði tilskipunarinnar innleidd í íslenskan rétt. Þessi gerð verður væntanlega tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni. Með tilskipuninni er steypt saman í eina gerð helstu reglum sem gilt hafa um rétt EES- og EFTA-útlendinga til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu. Hin nýja tilskipun felur í sér breytingar á ákvæðum reglugerðar nr. 1612/68/EBE um frjálsa flutninga launþega innan EB en eftirfarandi tilskipanir eru jafnframt felldar úr gildi: Tilskipun nr. 64/221/EBE um takmarkanir á för fólks vegna allsherjarreglu, öryggis eða heilbrigðis; 72/194/EBE um að tilskipun 64/221/EBE nái einnig til þeirra sem nota sér rétt til áframhaldandi dvalar í aðildarríki eftir að hafa starfað í því; 75/35/EBE um að tilskipun 64/221/EBE nái einnig til aðila sem stundað hafa sjálfstæða starfsemi og nota sér rétt til áframhaldandi dvalar í aðildarríki eftir að hafa starfað í því; 68/360/EBE um afnám takmarkana á ferðum og búsetu launþega og fjölskyldna þeirra innan EB; 73/148/EBE um afnám hafta á flutningi og búsetu sjálfstætt starfandi ríkisborgara aðildarríkja EB innan bandalagsins; 73/34/EBE um rétt ríkisborgara aðildarríkis til að dvelja í öðru aðildarríki eftir að hafa stundað þar sjálfstæða starfsemi; tilskipun 75/34/EBE um rétt sjálfstætt starfandi ríkisborgara og fjölskyldna þeirra til áframhaldandi búsetu eftir að þeir hafa hætt rekstri; 90/364/EBE um búseturétt þeirra sem hafa tekjur frá öðru landi en þeir búa í; 90/365/EBE um búseturétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem látið hafa af störfum; og tilskipun 93/96/EBE um búseturétt námsmanna.
    Hin nýja tilskipun felur í sér talsverðar efnisbreytingar varðandi réttinn til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, m.a. í samræmi við túlkun Evrópudómstólsins á ákvæðum um hann. Sem dæmi má nefna að dvalarleyfi til EES- eða EFTA-útlendinga eru afnumin en í stað þeirra er EES- eða EFTA-útlendingi gert að skrá sig hér á landi, því rétturinn til dvalar er sjálfstæður og ekki háður því að skráningarvottorð (áður dvalarleyfi) sé gefið út. Einnig er skerpt á réttindum fjölskyldumeðlima EES- eða EFTA-útlendings til að koma með honum og dvelja hér á landi auk þess sem kveðið er skýrar á um takmarkanir sem aðildarríkin mega setja um m.a. brottvísun EES- eða EFTA-útlendings eða aðstandenda hans. Þá er jafnframt kveðið á um rétt EES- eða EFTA-útlendings til varanlegrar búsetu eftir að hafa búið um ákveðinn tíma í öðru EES-ríki.
    Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér tillögu um að miklu nákvæmari reglur um komu og dvöl verði að finna í lögunum sjálfum, en minna svigrúm skilið eftir fyrir stjórnvaldsreglur. Eru fjölmörg ákvæði núgildandi reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2003, með síðari breytingum tekin upp í frumvarpið. Þetta á sérstaklega við um ákvæðin um einstaka dvalarleyfisflokka en einnig um ákvæði um vegabréfsáritanir o.fl. Með þessu er komið til móts við þá gagnrýni sem fram kom þegar núgildandi lög voru sett. Þá er það jafnframt til þess fallið að styrkja þann lagaramma sem stjórnvöld sem að þessum málaflokki starfa búa við.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar til að koma til móts við athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
    Um aðrar breytingar vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í útlendingalögunum er ekki að finna skilgreiningu á því hver teljist útlendingur í skilningi laganna. Er lagt til að úr þessu verði bætt með því að í 1. gr. laganna verði tekið fram að með útlendingi í lögunum sé átt við hvern þann einstakling sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt. Um útlendinga sem falla undir EES-samninginn eða stofnsamning EFTA gilda sérreglur og er skilgreiningu þess hóps að finna í 35. gr. laganna. Þá er lagt til að sama regla gildi um íslensk loftför í ferðum erlendis án viðkomu hér á landi og nú gildir um íslensk skip, þ.e. að þau falli ekki undir gildissvið laganna.
    

Um 2. gr.


    Um er að ræða lagfæringu á orðalagi 1. mgr. 3. gr. laganna varðandi heimild dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Breytingunni er ætlað að taka af allan vafa um það að ráðherra sé m.a. heimilt að setja frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis og búsetuleyfis en fram koma í lögunum, ef ástæða þykir til. Reynslan sýnir að óraunhæft er að útiloka að útfæra þurfi einstök atriði með þessum hætti.
    

Um 3. gr.


    Með þessu ákvæði er í fyrsta lagi lagt til að heiti 4. gr. laganna verði breytt í „landamæraeftirlit“ Orðið vegabréfaeftirlit þykir of þröngt hugtak fyrir þá starfsemi á landamærum sem fellur undir hugtakið landamæraeftirlit og ekki vera í samræmi við þá starfsemi sem átt er við. Í öðru lagi er lagt til að heimild ráðherra til að setja reglugerð um landamæraeftirlit verði skýrð, en þetta er talið nauðsynlegt vegna alþjóðlegra skuldbindinga á vettvangi Schengen-samstarfsins en þar er sérstaklega átt við heildarreglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 562/2006 um för yfir landamæri ( Schengen Borders Code), sem þegar hefur tekið gildi. Efni þeirrar gerðar, sem er mjög ítarleg, getur tekið breytingum og þykir rétt að hún sé innleidd í íslenskan rétt í heild sinni með reglugerð. Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott heimild lögreglustjóra til að veita undanþágu frá þeirri reglu að för yfir landamæri skuli aðeins fara fram á viðurkenndum stöðum, en þetta er í samræmi við kröfur framangreindrar gerðar. Þær undanþágur sem veita má eru tilgreindar í gerðinni.

Um 4. gr.


    Lagt er til að þremur nýjum málsgreinum, 5.–7. mgr., verði bætt við 6. gr. um vegabréfsáritanir, en í núgildandi ákvæði er ekki að finna neina fyrirsögn um hverjir skuli fá áritun eða við hvaða sjónarmið skuli miða slíka ákvörðun. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað núgildandi 5. mgr., sem verður 8. mgr., komi ný málsgrein sem hafi að geyma lágmarksskilyrði fyrir útgáfu samræmdrar vegabréfsáritunar sem gildir á öllu Schengen-svæðinu. Að fenginni reynslu þykir nauðsynlegt að lögin sjálf hafi að geyma slíkt ákvæði en skilyrði þessi eru nánast óbreytt færð úr 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Ákvæðið er heimildarákvæði fyrir útgáfu vegabréfsáritunar en felur ekki í sér skyldu stjórnvalda til slíkrar útgáfu enda er rétt að hafa hugfast að íslensk stjórnvöld eru bundin af þeim reglum sem samþykktar hafa verið á vettvangi Schengen-samstarfsins og af framkvæmd ríkja sem eru í fyrirsvari fyrir Ísland við útgáfu vegabréfsáritana. Þá er í öðru lagi lagt til að við ákvæði 6. gr. bætist ný málsgrein sem hefur að geyma varnagla vegna útgáfu vegabréfsáritana ef ástæður sem varða utanríkisstefnu eða almannaöryggi mæla gegn veitingu vegabréfsáritunar. Þessi málsgrein er einnig færð úr 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Í lokamálslið er þó að finna nýmæli þess efnis að þegar grunur leikur á að umsækjandi um vegabréfsáritun eða barn hans muni sæta misnotkun eða ofbeldi í ferð sinni hingað til lands skuli ekki veita vegabréfsáritun. Brýnt þykir að veita stjórnvöldum sérstaka heimild til að synja umsókn um vegabréfsáritun ef hætt er við að umsækjandi eða barn hans lendi í slíkum aðstæðum en hér er um ákveðin verndarsjónarmið að ræða. Í tilvikum þar sem slíkur grunur er uppi væri til að mynda hægt að styðjast við sakaferil gestgjafa hér á landi sem yrði þá í höndum lögreglu að kanna. Í einhverjum tilvikum kann slík vitneskja að liggja fyrir án þess að leita þurfi til lögreglu eftir þeim upplýsingum. Gert er ráð fyrir að rökstuddur grunur dugi hér sem ástæða synjunar, en óásættanlegt er að leggja sönnunarbyrði um þetta atriði á Útlendingastofnun þar sem slíkt fæli í raun í sér að þekktir ofbeldismenn gætu tælt til sín konur og börn í skjóli sönnunarörðugleika. Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglur um vegabréfsáritanir, þar á meðal um frekari skilyrði fyrir veitingu vegabréfsáritunar. Auk þess er lagt til að lögfest verði ákveðin sjónarmið sem við skuli miða við mat á umsókn um vegabréfsáritun. Þykir rétt að bæta úr því að nú er ekki að finna neina vísbendingu um það í settum rétti eftir hvaða sjónarmiðum skuli farið þegar umsókn um vegabréfsáritun er afgreidd utan upptalningu á nokkrum ófrávíkjanlegum skilyrðum fyrir áritun í núgildandi reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003. Þessi sjónarmið styðjast við markmið laganna yfirleitt og hafa mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Við mat á einstökum atriðum er nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja, enda er stefnan að þessu leyti í framkvæmd mótuð að öllu verulegu leyti á sameiginlegum vettvangi þeirra (samsettu nefndinni). Leiðir það af eðli samstarfsins að mikilvægt er að samræmis sé gætt á þessu sviði, svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Um 5. gr.


    Í 8. gr. laganna er fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Í 2. mgr. 8. gr. er nú mælt fyrir um að dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum sé heimilt að dveljast hér á landi án dvalarleyfis en jafnframt er gert ráð fyrir því að dómsmálaráðherra geti sett reglur um frekari undanþágur frá kröfu um dvalarleyfi. Þannig hefur verið getið um frekari undanþágur í 32. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2003. Rétt þykir að ákvæði um dvöl án dvalarleyfis sé að finna á einum stað í lögunum sjálfum. Er því lagt til að þær undanþágur sem upp eru taldar í 32. gr. reglugerðarinnar verði færðar inn í 2. mgr. 8. gr. laganna, auk þess sem gert er ráð fyrir tveimur nýjum undanþágum. Undanþága a-liðar kemur sem fyrr segir þegar fram í 2. mgr. 8. gr. laganna. Undanþága b-liðar er nýmæli en ástæða þykir til að leggja til að útlendingar sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu, en hafa afsalað sér honum eða misst hann, þurfi ekki leyfi til dvalar hér á landi. Er það einnig til samræmis við b-lið 14. gr. núgildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga. Undanþágur c-, e- og f-liðar eru þegar í reglugerð um útlendinga og eru þær til samræmis við lög nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Þess ber að geta að í þeim tilvikum þegar hjúskap eða staðfestri samvist lýkur bresta forsendur fyrir undanþágu fyrir dvalarleyfi og ber útlendingi þá að sækja um dvalarleyfi hafi hann hug á áframhaldandi dvöl hér á landi. Áskilnaður e-liðar um þriggja ára samfellu tekur bæði til búsetu með maka hér á landi og dvalarleyfis. Undanþága d-liðar er nýmæli og er til samræmis við lög um íslenskan ríkisborgararétt.
     Þá er enn fremur lagt til að reglugerðarheimild ráðherra verði færð í nýja málsgrein, 3. mgr., og að jafnframt bætist við ný málsgrein þess efnis að Útlendingastofnun sé heimilt að gefa út skírteini til staðfestingar á því að útlendingur þurfi ekki dvalarleyfi hér á landi, en slíkt skírteini er útlendingi í þeim sporum nauðsynlegt til að geta sýnt fram á að dvöl hans hér á landi sé lögleg.

Um 6. gr.


    Ákvæði 10. gr. núgildandi laga kveður á um útgáfu dvalarleyfis og að umsókn um dvalarleyfi skuli hafa verið samþykkt áður en útlendingur kemur til landsins. Í samræmi við það sem fyrr segir um þá viðleitni að færa meira af efnisreglum inn í lögin sjálf þykir rétt að lögin geymi nánari ákvæði um umsóknir um dvalarleyfi og móttöku þeirra. Er því lagt til að 10. gr. fjalli eingöngu um umsókn um dvalarleyfi en ákvæði um útgáfu komi í næstu grein á eftir. Ekki er um sérstakar efnisbreytingar að ræða heldur tilfærslu ákvæða úr reglugerð í lög. Í núgildandi reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003, er fjallað um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi í 39. gr. en þaðan kemur hluti þeirra breytinga sem lagðar eru til með ákvæði þessu. Áfram verður við það miðað að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið til Útlendingastofnunar áður en hann kemur til landsins og honum verði óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá þessu megi þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með eða samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að sótt verði um dvalarleyfi á sérstöku eyðublaði og að umsókninni skuli fylgja ljósmynd af umsækjanda og skuli hann undirrita eigin hendi umsóknina þar sem meðal annars komi fram að hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Umsókn um dvalarleyfi skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög og reglugerðir kveða á um. Í ákvæðinu eru nefnd dæmi um hvers konar gögn geti verið að ræða. Þá er í 2. mgr. tekinn af allur vafi um að dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram með umsókn um dvalarleyfi. Er það án efa vandaðri háttur en að leggja slíkt alfarið í hendur Útlendingastofnunar.
    

Um 7. gr.


    Hér er gert ráð fyrir sérstöku ákvæði er lýtur að útgáfu dvalarleyfis. Er að öllu verulegu leyti byggt á ákvæðum núgildandi reglugerðar og núverandi framkvæmd. Eftir að Útlendingastofnun hefur farið yfir umsókn og metið hvort skilyrðum dvalarleyfis sé fullnægt er umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að útlendingur gangist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu hans til landsins. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt, útlendingur er kominn til landsins, hefur skilað vottorði um læknisskoðun innan tilskilins frests og gengið frá skráningu heimilisfangs hér á landi, er dvalarleyfið gefið út. Samþykki dvalarleyfisumsóknar felur að þessu leyti í sér skilyrta veitingu leyfis því ef útlendingur gengst til að mynda ekki undir læknisskoðun innan tilskilins frests eða í ljós kemur að hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi, sem getur varðað frávísun skv. g-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, verður dvalarleyfi ekki gefið út. Rétt þykir að lögin hafi að geyma skýrt ákvæði þessa efnis. Eftir að dvalarleyfið hefur verið veitt gefur Útlendingastofnun út skírteini til útlendings til staðfestingar á dvalarleyfinu með þeim upplýsingum sem getið er í ákvæðinu. Sami búnaður er notaður við stafræna myndatöku og við móttöku umsókna um vegabréf fyrir íslenska borgara. Lagt er til að veita ráðherra heimild til að mæla fyrir um að upplýsingar á korti, auk fingrafara handhafa, verði skráðar í örflögu á kortinu. Um er að ræða sambærilegar kröfur og gerðar eru við útgáfu vegabréfa og er ákvæðið um skráningu fingrafara á kortið sambærilegt við 3. mgr. 3. gr. laga nr. 136/1998, um vegabréf, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2006. Þess er að vænta að á vettvangi Schengen-ríkjanna verði á allra næstu missirum samþykktar reglur um útgáfu dvalarleyfiskorta með þessu sniði og nýtist sami búnaður og sama starfsfólk við skráningu umsókna og framleiðslu þeirra og sinnir vegabréfaumsóknum og framleiðslu.

Um 8. gr.


    Lagt er til að gerðar verði talsverðar breytingar á 11. gr. laganna sem ber nú yfirskriftina Skilyrði dvalarleyfis. Þó nokkuð hefur borið á þeim misskilningi að nægilegt sé að útlendingur uppfylli þau skilyrði sem fram koma í núgildandi ákvæði 11. gr. en raunin er sú að ákvæðið hefur aðeins að geyma grunnskilyrði dvalarleyfis sem ávallt verða að vera uppfyllt þegar sótt er um dvalarleyfi, óháð tilgangi dvalar og áður en metið er hvort sérstökum skilyrðum dvalarleyfis sé fullnægt. Er því lagt til að ákvæðið beri nú yfirskriftina Grunnskilyrði dvalarleyfis til að endurspegla nægilega vel hvers eðlis skilyrðin eru sem þar koma fram. Lagt er til að 1. mgr. haldist óbreytt að mestu leyti fyrir utan orðalagsbreytingu og nýjan c-lið um að útlendingur samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Þá er lagt til að 2. og 3. mgr. núgildandi 11. gr. verði færðar í sérstök ákvæði í 12. gr. laganna eins og nánar verður vikið að síðar, en að í nýrri 2. mgr. verði fjallað nánar um framfærslu skv. a-lið 1. mgr. Þar er um að ræða tilfærslu ákvæðis úr 42. gr. reglugerðar um útlendinga yfir í lögin. Ástæða er til að geta þess að ábyrgðaryfirlýsing eða greiðslur þriðja aðila, t.d. ættmennis útlendings, eru ekki lagðar til grundvallar við mat á framfærslu útlendings þar sem slíkt er ekki viðurkennt sem trygg framfærsla. Er hér einkum átt við tilvik þar sem ekki er framfærsluskylda á milli aðila lögum samkvæmt.
    Þá er lagt til að í nýrri 3. mgr. verði lögfest heimild fyrir Útlendingastofnun til að veita útlendingi dvalarleyfi í sérstökum undanþágutilvikum þrátt fyrir að hann uppfylli ekki skilyrði dvalarleyfis skv. 12. gr. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna. Það er þó skilyrði fyrir veitingu slíks dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu að skilyrði 1. og 2. mgr. séu uppfyllt og að tilgangur dvalar sé lögmætur og sérstakur. Sem dæmi má nefna að undir þetta ákvæði gætu fallið nunnur og trúboðar sem koma hingað til lands, sem og útlendingur sem hefur sérstök tengsl við landið. Dæmi um útlending sem hefur sérstök tengsl við landið er útlendingur sem á von á barni með íslenskum ríkisborgara og er í sambúð með honum, en getur ekki fengið dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. laganna. Þar sem um undanþáguákvæði er að ræða ber að túlka það þröngri skýringu.

Um 9. gr.


    Lagt er til að ákvæði núgildandi 12. gr. laganna verði fært til í nýja grein, 51. gr. a, og jafnframt er lagfærð tilvísun í 11. gr. gildandi laga um dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem samkvæmt frumvarpinu verður í 12. gr. f.

Um 10. gr.


    Lagt er til að bætt verði í lögin átta nýjum greinum, 12. gr. – 12. gr. g, um dvalarleyfisflokka. Slíkt er nýmæli þar sem lögin nú hafa ekki að geyma ákvæði um mismunandi dvalarleyfisflokka. Breytingarnar eru lagðar til nú til samræmis við frumvarp félagsmálaráðherra þar sem flokkum atvinnuleyfa er fjölgað en rétt þykir að mælt sé fyrir um samsvarandi dvalarleyfisflokka í lögunum sjálfum. Þá er einnig lagt til að 2. mgr. 11. gr. núgildandi laga um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði færð með þeim greinum sem fjalla um dvalarleyfisflokkana og verði 12. gr. f. Sama á við um bráðabirgðadvalarleyfi sem nú er í 3. mgr. 11. gr. laganna en verður 12. gr. g. Um alla flokkana á það við að í ákvæðunum koma fram skilyrði sem m.a. þurfa að vera uppfyllt en gert er ráð fyrir að ráðherra geti sett frekari skilyrði í reglugerð ef nauðsynlegt þykir á grundvelli reglugerðarheimildar í 3. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir að í 12. gr. verði að finna ákvæði um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Ákvæðið mælir fyrir um hvaða skilyrði þurfi m.a. að vera uppfyllt. Gildistími leyfisins mundi fylgja gildistíma atvinnuleyfisins nema aðrar ástæður myndu mæla með skemmri gildistíma, t.d. gildistími vegabréfs. Að lokum er lagt til að dvalarleyfið geti orðið grundvöllur búsetuleyfis, en gert er ráð fyrir að samsvarandi atvinnuleyfi geti verið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis.
    Í 12. gr. a er gert ráð fyrir ákvæði um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli hér á landi. Hér er um að ræða leyfi sem er hliðstætt tímabundnu atvinnuleyfi vegna skorts á vinnuafli þannig að dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu verður ekki veitt nema samsvarandi atvinnuleyfi hafi áður verið veitt. Gert er ráð fyrir að á grundvelli þessa ákvæðis verði einnig veitt dvalarleyfi þegar Vinnumálastofnun hefur veitt tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings. Gildistími slíks leyfis mundi ávallt fylgja gildistíma atvinnuleyfis og því að jafnaði ekki vera veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama þjónustusamnings. Ákvæði 12. gr. a mælir að öðru leyti fyrir um skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt. Þegar um er að ræða dvalarleyfi vegna atvinnuleyfis á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, eins og frumvarp félagsmálaráðherra um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga gerir ráð fyrir, mundi gildistími leyfisins almennt einnig fylgja gildistíma atvinnuleyfisins nema aðrar ástæður mæltu með skemmri gildistíma, t.d. gildistími vegabréfs. Í samræmi við viðkomandi atvinnuleyfi er gert ráð fyrir að hér sé um að ræða leyfi sem ekki er unnt að endurnýja nema í takmarkaðan tíma. Ekki er gert ráð fyrir að dvalarleyfi á þessum grunni geti orðið grundvöllur búsetuleyfis.
    Lagt er til að í 12. gr. b verði að finna ákvæði um dvalarleyfi íþróttafólks, þ.e. komi útlendingur til starfa hér á landi sem íþróttamaður eða þjálfari hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Gildistími leyfisins mundi fylgja gildistíma atvinnuleyfisins. Í frumvarpi félagsmálaráðherra til breytinga á lögum um atvinnuréttinda útlendinga er ekki gert ráð fyrir að atvinnuleyfi íþróttafólks geti orðið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis og er lagt til hér að samsvarandi dvalarleyfi íþróttafólks geti ekki heldur orðið grundvöllur búsetuleyfis.
    Ákvæði 12. gr. c felur í sér nýmæli en gert er ráð fyrir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi á grundvelli samnings sem Ísland hefur gert við annað ríki um dvöl ríkisborgara þess hér á landi í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess. Er hér einkum átt við samninga sem ætlað er að veita ungu fólki á aldrinum 18–26 ára tækifæri til að auka víðsýni sína með því að gefa því kost á að kynna sér lífshætti og viðhorf annarra þjóða í leik og starfi. Slíkir samningar eru þekktir meðal annarra vestrænna þjóða, svo sem þar sem ungu fólki á tilteknu aldursbili er veitt færi á að dvelja í hámarki eitt ár í samningsríki og kynnast menningu, þjóð og störfum ( Working holidays). Gert er ráð fyrir að ákvæði 11. gr. um grunnskilyrði dvalarleyfis yrðu ávallt að vera uppfyllt auk þeirra reglna sem um slíka dvöl mundu gilda samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra. Þá er það skilyrði að útlendingi hafi ekki áður verið veitt dvalarleyfi á þessum grundvelli hér á landi.
    Í 12. gr. d er gert ráð fyrir dvalarleyfi vegna vistráðningar („au-pair“). Í núgildandi lögum er ekki ákvæði um dvalarleyfi vegna vistráðningar þó að slík leyfi hafi verið veitt fram til þessa samkvæmt reglugerð um útlendinga. Í lögum um atvinnuréttindi útlendinga hefur hins vegar fram til þessa verið að finna ákvæði um atvinnuleyfi vegna vistráðningar. Það ákvæði byggist á samningi Evrópuráðsins um „au pair“-ráðningar þar sem slík ráðning er skilgreind sem „tímabundin móttaka fjölskyldna, í skiptum fyrir ákveðna þjónustu, á ungum, erlendum einstaklingum, sem koma til þess að auka tungumálakunnáttu sína og jafnvel faglega þekkingu, jafnframt því að víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn með því að öðlast meiri þekkingu á landi því sem þeir koma til“. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er því um að ræða eins konar menningarskiptasamning sem hvorki fellur undir skilgreiningar um námsmenn né almenna starfsmenn. Er því talið heppilegra að vegna dvalar útlendings vegna vistráðningar verði einungis veitt dvalarleyfi en ekki atvinnuleyfi þar sem ekki er um starf að ræða sem lýtur hefðbundnum vinnumarkaðssjónarmiðum. Þess misskilnings hefur oft á tíðum gætt að útlendingur í vistráðningu megi starfa á almennum markaði en sú hefur ekki verið raunin. Þá er ekki gert ráð fyrir að útlendingar komi í framangreindum tilgangi til að dvelja á heimili ættmenna enda verður vart séð að með því væri þeim tilgangi náð sem býr að baki slíkri dvöl. Þrátt fyrir að framvegis verði aðeins gert ráð fyrir að veitt verði dvalarleyfi vegna vistráðningar en ekki atvinnuleyfi munu svipuð skilyrði gilda áfram fyrir slíkri dvöl, þ.e. skilyrði er snúa að útlendingi sjálfum, kjörum hans, vistfjölskyldu o.fl. Tilgangur vistráðningar er eins og fyrr segir fyrst og fremst menningarlegur og vinnuframlag hins vistráðna sætir takmörkunum. Er því bæði gert ráð fyrir að virkur vinnutími verði ekki lengri en fimm tímar á dag eða 30 vinnustundir á viku og að hinn vistráðni fái nægjanlegan tíma til íslenskunáms sem og til að sinna menningarlegum og faglegum áhugamálum sínum. Gert er ráð fyrir að neðri aldursmörkin verði miðuð við átján ára afmælisdag útlendingsins við umsókn, þannig að útlendingurinn sé orðinn fullra 18 ára þegar sótt er um tímabundið dvalarleyfi á grundvelli ákvæðis þessa. Enn fremur er lagt til að efri aldursmörkin verði miðuð við að sótt sé um leyfi áður en útlendingurinn verði 25 ára þannig að tryggt sé að hann ljúki vistinni á 26. aldursári. Þá er eingöngu kveðið á um lágmarksfjárhæð vasapeninga í stað launa en fæði og húsnæði er án endurgjalds. Þá skal hinn vistráðni hafa sérherbergi til afnota. Í ljósi tilgangs dvalar þeirra er ráða sig í vist á heimili hér á landi er ekki gert ráð fyrir að hinn vistráðni dveljist á landinu lengur en eitt ár. Er því miðað við að hinn vistráðni snúi aftur til heimalands síns að dvalartíma loknum en ekki verður unnt að endurnýja dvalarleyfi vegna vistráðningar. Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um skilyrði er snúa að dvöl samkvæmt ákvæði þessu.
    Ákvæði 12. gr. e kveður á um dvalarleyfi útlendings vegna náms hér á landi. Ákvæðið felur ekki í sér verulegar efnislegar breytingar heldur er lagt til að lögfest verði sú framkvæmd sem viðhöfð hefur verið fram til þessa varðandi námsmenn. Er áréttað í ákvæðinu að erlendur námsmaður verði að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í fyrirhuguðu námi hans um undirbúning enda telst það grundvallarforsenda fyrir þátttöku hans í náminu. Í síðari málslið 3. mgr. er að finna nýmæli varðandi stöðu þeirra ungmenna sem koma til landsins til dvalar á grundvelli 13. gr. laganna. Við 18 ára aldur eiga ungmenni sem hafa komið skömmu fyrir það aldursmark á forsendum fjölskyldusameiningar ekki lengur sama rétt til dvalar á grundvelli 13. gr. Ekkert er því til fyrirstöðu samkvæmt núgildandi lögum um útlendinga að gefa út námsmannaleyfi vegna iðnnáms þeim til handa, ellegar að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku ef þeir hafa verið á vinnumarkaði. Oft stunda þau ungmenni sem hér um ræðir hins vegar nám við framhaldsskóla og er með þessu ákvæði leitast við að tryggja þeim rétt til áframhaldandi dvalar á grundvelli námsmannaleyfis þrátt fyrir að námið mundi ekki teljast fullnægjandi sem grundvöllur námsdvalar að öðrum kosti. Loks er lagt til að við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis námsmanns verði veitt aukið svigrúm við mat á viðunandi námsárangri þannig að miðað sé við að útlendingur hafi a.m.k. lokið 50% af fullu námi. Er þannig komið til móts við þá erlendu nema sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum í nýju landi og við nýjar aðstæður.
    Í 12. gr. f er ekki um að ræða efnislega breytingu heldur er ákvæði þessa efnis að finna í núgildandi 2. mgr. 11. gr. Gert er ráð fyrir að áfram geti Útlendingastofnun veitt útlendingi dvalarleyfi hér á landi þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr. ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess. Rétt er að árétta að um undanþáguheimild er að ræða og er gert ráð fyrir að hvert tilvik sem til álita kemur verði skoðað sérstaklega. Við skoðun á því hvort til greina komi að beita ákvæðinu er lagt í hendur stjórnvalda að meta hversu langt eigi að ganga í að heimila undanþágu frá skilyrðum 11. gr. enda eru forsendur í málum misjafnar hverju sinni. Þá er í ákvæðinu gert ráð fyrir að við endurnýjun leyfis samkvæmt ákvæðinu verði upphaflegar forsendur fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli þess áfram að vera til staðar. Þá er gert ráð fyrir að ákvæðið geti orðið grundvöllur búsetuleyfis en til þess að svo geti orðið þarf viðkomandi að fullnægja öllum skilyrðum 15. gr.
    Í 12. gr. g er að finna ákvæði 3. mgr. 11. gr. núgildandi laga um bráðabirgðadvalarleyfi ásamt þeim skilyrðum sem fram koma í 46. gr. reglugerðar um útlendinga vegna slíks leyfis. Til viðbótar við þau skilyrði sem þar koma fram er lagt til að bætt verði inn skilyrði um að útlendingur hafi veitt upplýsingar og atbeina sinn til að aðstoða við úrlausn máls. Er það til samræmis við það sem fram kemur um tilgang ákvæðisins í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 96/2002. Þá er lagt til í 2. mgr. að Útlendingastofnun verði veitt heimild til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Er t.d. átt við tilvik þegar öll skilyrði nema skilyrði b-liðar eru uppfyllt og ekki tekst að afla ferðaskilríkja fyrir viðkomandi en ómöguleikann er ekki að rekja til útlendingsins sjálfs heldur yfirvalda heimalands. Þykir ekki sanngjarnt að láta útlendinginn gjalda þess og væri Útlendingastofnun þá heimilt að gefa út bráðabirgðadvalarleyfi. Ákvæði 3. mgr. lýtur að gildistíma bráðabirgðadvalarleyfa en 4. mgr. er óbreytt frá 3. mgr. 11. gr. núgildandi laga. Skv. 5. mgr. er síðan tekið fram að bráðabirgðadvalarleyfi geti ekki orðið grundvöllur búsetuleyfis.

Um 11. gr.


    Hér er lagt til að gerðar verði töluverðar breytingar á 13. gr. núgildandi útlendingalaga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting á 1. mgr. þannig að ljóst sé hvers konar dvalarleyfi sá útlendingur sem hér dvelst og aðstandandi hyggst leiða rétt sinn af þarf að hafa til að ákvæðið komi til álita. Þá er einnig gert ráð fyrir samkvæmt ákvæðinu að nánustu aðstandendur erlendra doktorsnema geti fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 13. gr. Þá tillögu er að rekja til samnings menntamálaráðherra við Háskóla Íslands um kennslu og rannsóknir við Háskólann til ársins 2011, sem undirritaður var í janúarmánuði 2007. Eitt af markmiðum þess samnings er að styrkja stöðu háskólans í alþjóðlegu umhverfi háskólamenntunar. Er m.a. stefnt að því að stórefla rannsóknatengt framhaldsnám við Háskólann með því að auka fjölda brautskráðra doktora. Vitað er að doktorsnemar eru oftar en ekki fjölskyldufólk og ef stefnan er að laða að erlenda doktorsnema er ljóst að gera verður þeim kleift að koma með fjölskyldur sínar, þrátt fyrir að um tímabundna dvöl sé að ræða. Er þessari tillögu ætlað að koma til móts við þessa stefnumótun menntamálaráðherra. Áskilnaður 1. mgr. um búsetu hér á landi á bæði við um íslenska ríkisborgara og aðra norræna ríkisborgara.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting að ungur aldur komi ekki fortakslaust í veg fyrir að dvalarleyfi verði reist á hjúskap. Er því lagt til að 24 ára aldursmark verði fellt úr skilgreiningu ákvæðisins á nánasta aðstandanda. Hins vegar er lagt til að í 3. mgr. komi nýr málsliður þess efnis að ef annar makinn er 24 ára eða yngri skuli ávallt kanna hvort þau tilvik sem um getur í því ákvæði séu til staðar. Með þessari breytingu er löggjöfin færð til þeirrar framkvæmdar sem hefur verið fest í sessi eftir að svonefnd 24 ára regla var lögfest með lögum nr. 20/2004. Hefur Útlendingastofnun viðhaft það verklag að kanna hvert mál sérstaklega, en ef til hjúskapar hefur verið stofnað með eðlilegum hætti hafa dvalarleyfi maka verið reist á atvinnuþátttöku eða námi viðkomandi ellegar einhverjum öðrum grunni. Rétt þykir að áfram verði viðhöfð sérstök aðgát við veitingu dvalarleyfis þegar maki er yngri en 24 ára þannig að kannað verði hvort ástæða sé til að ætla að um málamynda- eða nauðungargerning sé að ræða. Með þessu móti er talið að tryggt sé eftir föngum að staðinn sé vörður um hagsmuni þeirra sem telja má minni máttar vegna ungs aldurs, án þess að lagatextinn gefi til kynna að hjúskapur slíkra einstaklinga sé almennt ekki viðurkenndur sem lögmætur grundvöllur búsetu hér á landi. Þá eru lagðar til einfaldar orðalagsbreytingar þannig að í stað orðanna „niðjar“ komi „börn“ og í stað orðanna „að feðgatali“ komi „í beinan legg“. Þá þykir rétt að hnykkja á þeirri framkvæmd laganna að um sé að ræða börn viðkomandi sem hann hafi forsjá fyrir. Fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns og hitt foreldrið sækir ekki um dvalarleyfi ásamt barninu þá leiðir það af reglum um sameiginlega forsjá að samþykki hins foreldrisins verður að liggja fyrir ef unnt á að vera að veita barninu dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins.
    Þá er lagt til að við síðasta málslið 3. mgr. verði bætt nýjum málslið þar sem tekinn verði af allur vafi um að ef stofnun hjúskapar eða staðfestrar samvistar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki um gildan gerning að ræða og hann veiti þar af leiðandi ekki rétt til dvalarleyfis. Þetta á t.d. við um hjónavígslu ef hjónin eða annað þeirra voru börn eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt athöfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar (vígsluheimild) í því landi þar sem vígslan fór fram og þegar stofnað er til tvíkvænis. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga (ordre public), í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi.
    Ákvæði 4. mgr. er nýmæli. Lagt er til að útlendingur fái ekki útgefið dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. ef fyrir liggur að sá sem hann hyggst leiða rétt sinn af hér á landi hefur fengið dóm eða þurft að sæta öryggisráðstöfun fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga. Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali og heimilisofbeldi og á sér fyrirmynd m.a. í dönskum og norskum lögum. Ákvæðið í frumvarpi þessu spannar þó yfir styttra tímabil en það danska en nær yfir fleiri brotaflokka. Norska ákvæðið er einnig sett fram með öðrum hætti þó að það feli í sér sömu verndarsjónarmið. Reynslan hefur sýnt að öðru hvoru koma upp tilvik þar sem aðalhvati umsækjanda fyrir að ganga í hjúskap með aðila búsettum hér á landi er að eignast möguleika á bættum lífskjörum fyrir sig og e.t.v. börn sín. Í sumum tilvikum verða hinir sömu einstaklingar fórnarlömb ofbeldis og sæta misnotkun á heimilinu. Oftast er þá um að ræða tilvik þar sem umsækjandi er kvenkyns en karlkyns maki er búsettur hér á landi. Þegar fyrir liggur vitneskja um að nánasti aðstandandi hér á landi hefur verið dæmdur fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum þykir ástæða til að ætla að umsækjandi geti vegna þeirra brota verið í sérstakri hættu á að verða sjálfur fyrir ofbeldi eða sæta misnotkun af hálfu aðstandandans. Á hinn bóginn er ljóst að slík synjun getur í einstökum tilvikum verið mjög íþyngjandi í samanburði við þá hættu sem er á ferðum. Er því lagt til að ákvæði 4. mgr. feli jafnframt í sér þann varnagla að ekki skuli synja umsóknar um dvalarleyfi ef synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim sem brotið framdi eða nánustu ættingjum hans. Við matið verður m.a. að taka mið af því hvers eðlis og hversu alvarlegt brotið er, hverjum það beindist gegn og hvort um ítrekun brota sé að ræða. Ef brot var ekki alvarlegt, beindist ekki gegn heimilisfólki og hefur ekki verið ítrekað yrði litið svo á að synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu ættingjum hans. Þá verður að gera greinarmun á þeim málum þar sem umsækjandi hefur búið í sínu heimaríki með aðstandanda og þeir vilja flytjast saman til Íslands og þeim tilvikum þar sem menn með ofbeldisferil vilja stofna nýja fjölskyldu með maka sem þeir hafa ekki búið með áður. Ef um er að ræða sameiningu fjölskyldufólks sem áður hefur búið saman um nokkurt skeið mundi skilyrðið um ósanngjarna ráðstöfun oftast vera talið fyrir hendi.
    Ákvæði 5. mgr. lýtur að gildistíma dvalarleyfis en með 6. mgr. er lagt til að dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu geti ekki orðið grundvöllur búsetuleyfis nema sá útlendingur sem aðstandandi leiðir rétt sinn af hafi sjálfur dvalarleyfi sem getur orðið grundvöllur búsetuleyfis, eða búsetuleyfi. Ekki er um að ræða nýmæli heldur hefur framkvæmdin hingað til verið með þessum hætti. Rétt þykir að hafa ákvæði þessa efnis í lögunum til að koma í veg fyrir að aðstandandi geti haft betri rétt en sá sem hann leiðir rétt sinn af.

Um 12. gr.


    Lagt er til að ákvæði 14. gr. verði breytt þannig að 2. mgr. er felld brott þar sem í frumvarpinu, sbr. 10. gr., er tekið fram sérstaklega við hvern dvalarleyfisflokk hver gildistími leyfisins skuli vera og hvort endurnýjun sé heimil. Brýnt þykir að árétta að útlendingi ber að sækja um endurnýjun dvalarleyfis fjórum vikum áður en leyfi hans rennur út. Geri hann það er honum heimil áframhaldandi dvöl á landinu meðan umsókn hans er til meðferðar en að öðrum kosti er gert ráð fyrir að útlendingur þurfi að vera staddur erlendis á meðan umsóknin er til meðferðar, líkt og þegar umsókn um fyrsta leyfi er afgreidd. Ef afsakanlegt er að umsókn berst ekki innan tilskilins frests getur Útlendingastofnun þó heimilað útlendingi áframhaldandi dvöl á landinu. Sem dæmi um afsakanleg tilvik má nefna ef útlendingur hefur verið alvarlega veikur eða hann hefur af óviðráðanlegum ástæðum þurft að fara fyrirvaralaust til heimalands án þess að hafa tök á að leggja inn umsókn um endurnýjun. Sem dæmi um tilvik sem ekki falla undir greinina er ef útlendingur ber því við að hann hafi ekki vitað að leyfi hans væri að renna út eða að umboðsmaður hans hafi gert mistök. Ef útlendingur sækir of seint um endurnýjun dvalarleyfis, þ.e. eftir að leyfi hans rennur út, verður litið svo á að um fyrsta leyfi sé að ræða og hefst talning í búsetuleyfi upp á nýtt. Ákvæði 4. mgr. felur ekki í sér efnislegt nýmæli heldur er um að ræða tilfærslu úr reglugerð í lög. Þó er hnekkt á því að Útlendingastofnun tekur almennt ákvörðun um niðurfellingu leyfis og gilda þá reglur stjórnsýslulaga um meðferð máls. Ef leyfishafi hefur flutt lögheimili sitt og hefur dvalist lengur en þrjá mánuði erlendis fellur leyfið sjálfkrafa niður án þess að stofnunin taki um það sérstaka ákvörðun.

Um 13. gr.


    Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæði 15. gr. um búsetuleyfi. Í fyrsta lagi er lagt til að tímamark það sem útlendingur þarf að hafa tímabundið dvalarleyfi áður en hann getur sótt um búsetuleyfi verði fært úr þremur árum í fjögur. Hefur verið tekið tillit til reglna á Norðurlöndunum þar sem tímamarkið er að jafnaði allt að sjö ár í Danmörku, fimm ár í Svíþjóð og fjögur ár í Finnlandi. Þykir tímabært að færa tímamarkið hér á landi nær því sem tíðkast á Norðurlöndunum.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á uppsetningu ákvæðis 1. mgr. með því að taka inn í ákvæðið upptalningu á helstu skilyrðum fyrir veitingu búsetuleyfis. Skilyrði a-liðar og b-liðar eru þegar að finna í 1. mgr. 15. gr. Skilyrði c-liðar er nýmæli en ákvæði þessa efnis hefur skort í lögin til að taka af allan vafa um það grundvallarskilyrði fyrir veitingu búsetuleyfis að útlendingur hafi getað og muni geta framfleytt sér á Íslandi með löglegum hætti. Þá er lögfest heimild fyrir Útlendingastofnun að afla gagna til að ganga úr skugga um að skilyrðið sé uppfyllt. Í ákvæðinu eru einnig taldar upp greiðslur sem ekki teljast trygg framfærsla í skilningi ákvæðisins og er það til samræmis við það sem lagt er til í 11. gr. og kemur þegar fram í reglugerð um útlendinga. Hins vegar er gert ráð fyrir svigrúmi fyrir Útlendingastofnun í undantekningartilvikum til að taka tillit til þess þegar útlendingur hefur þegið slíkar greiðslur aðeins í skamman tíma, t.d. vegna veikinda eða slyss viðkomandi útlendings. Skilyrði d-liðar er nýmæli en gert er ráð fyrir að útlendingur þurfi að hafa dvalist fjögur ár á sama dvalargrundvelli hér á landi. Með þessu verði tryggt að nægileg festa sé komin á dvöl hans og grundvöll hennar hér á landi áður en hann getur fengið ótímabundið dvalarleyfi. Skilyrði e-liðar er einnig nýmæli en rétt þykir að útlendingur geti ekki fengið búsetuleyfi ef hann á ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun afli nauðsynlegra upplýsinga til að ganga úr skugga um hvort svo hátti til. Skilyrðið e-liðar tengist skilyrði b-liðar að því leyti að ef skilyrði e-liðar er ekki uppfyllt gætu legið fyrir ástæður sem valdið geta brottvísun útlendings skv. 20. gr. laganna. Hér er enn fremur horft til samræmingar laganna við lög um íslenskan ríkisborgararétt.
    Í þriðja lagi er lagt til að nýtt ákvæði komi í 3. mgr. varðandi heimild til að veita búsetuleyfi til barns sem fæðist hérlendis þegar forsjárforeldri sjálft hefur búsetuleyfi. Er ákvæðinu ætlað að tryggja stöðu barns við þær aðstæður svo það njóti sömu dvalarréttinda og forsjárforeldri þess.
    Í fjórða lagi er lagt til að 4. mgr. verði samræmd 14. gr. eins og lagt er til að henni verði breytt í frumvarpi þessu. Þá er lagt til að í 5. mgr. verði kveðið á um niðurfellingu búsetuleyfis þegar leyfishafi hefur dvalist erlendis lengur en 18 mánuði. Ekki er um nýmæli að ræða heldur tilfærslu úr reglugerð í lögin sjálf eins og í 11. gr. frumvarpsins. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um niðurfellingu leyfis og gilda þá reglur stjórnsýslulaga um meðferð máls. Ef lögheimili leyfishafa hefur verið skráð erlendis lengur en 18 mánuði erlendis fellur leyfið sjálfkrafa niður án þess að stofnunin taki um það sérstaka ákvörðun.
    Í fimmta lagi er lagt til að kveðið verði á um útgáfu búsetuleyfis í 6. mgr. Önnur ákvæði 15. gr. haldast óbreytt.

Um 14. gr.


    Lagt er til að við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein sem tekur af allan vafa um það að útlendingur sem aflað hefur leyfis á grundvelli rangra upplýsinga eða hefur leynt atvikum við leyfisveitinguna, skuli vera eins settur og ef leyfi hefði ekki verið gefið út. Dvöl á grundvelli dvalarleyfis sem verður afturkallað telst því ekki til dvalartíma á Íslandi ef byggt er á slíku leyfi við umsókn um búsetuleyfi. Verður að teljast óeðlilegt að útlendingur sem aflað hefur leyfis á þennan hátt geti að einhverju marki öðlast betri rétt en sá sem aldrei hefur fengið útgefið leyfi.
    

Um 15. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði sérstök reglugerðarheimild fyrir dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur um endurkomubann en hefur verið að finna í gildandi regluverki fram til þessa. Er sérstaklega ætlast til að gildandi framkvæmd um ákvörðun á lengd endurkomubanns verði færð í reglugerð til að stuðla að auknu gagnsæi fyrir þá útlendinga sem sæta brottvísun og til að tryggja samræmi í framkvæmd.

Um 16. gr.


    Lagt er til að við hina almennu málsmeðferðarreglu 23. gr. bætist tvær málsgreinar þar sem veittar eru heimildir til að haga afgreiðslu dvalarleyfa með tilteknum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að ákveða að forgangsraða erindum sem Útlendingastofnun berast. Ekki er þó gert ráð fyrir að ráðherra hafi sjálfdæmi um hvaða umsóknir skulu fá hraðasta afgreiðslu, heldur er þessu ákvæði ætlað að opna möguleika á því að koma til móts við þarfir fyrirtækja á að fá fólk, einkum sérfræðinga, til starfa án frekari tafa en hjá verður komist auk þess sem gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun fái heimild til að hraða afgreiðslu námsmannaleyfa, en oft er nauðsynlegt að þau séu afgreidd hratt svo að viðkomandi geti hafið nám t.d. að hausti. Sú öra fjölgun sem orðið hefur á erindum til Útlendingastofnunar hefur óhjákvæmilega leitt til þess að mál þurfa að bíða eftir afgreiðslu og er þá mikilvægt að stofnunin hafi heimild til að forgangsraða í sinni vinnu. Gert er ráð fyrir að þessari heimild verði beitt með almennum, skriflegum fyrirmælum dómsmálaráðherra til stofnunarinnar.
    Í sama skyni er í öðru lagi lagt til að heimilað verði að taka upp svonefndar hraðafgreiðslur. Þar er átt við að unnt verði að beita hraðvirkari vinnubrögðum þegar umsókn er lögð fram af fyrirtæki sem hefur sýnt af sér vönduð vinnubrögð um nokkurn tíma og hefur getu til að standa undir kröfum um mjög vandaða vinnslu umsókna. Ákvæðið á sér nokkra fyrirmynd í ákvæðum tollalaga um rafrænar tollafgreiðslur. Hugmyndin er að á grundvelli ákvæðisins verði fyrst útfært tilraunaverkefni þar sem Útlendingastofnun, í samstarfi við nokkur fyrirtæki sem í senn hafa mikil umsvif á þessu sviði og sýnt hafa af sér vönduð vinnubrögð, móti fyrirkomulag þar sem gengið er út frá að umsókn uppfylli öll skilyrði á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar viðkomandi fyrirtækis. Ef þetta gefur góða raun verði síðan sett í reglugerð viðmið um hvaða skilyrði fyrirtæki þurfi að uppfylla til að geta fengið afgreiðslu af þessu tagi.

Um 17. gr.


    Um er að ræða orðalagsbreytingu í tilvísun í 26. gr. laganna varðandi það samkomulag sem þar er vísað til. Breyting þessi er talin nauðsynleg vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Breytingin er til samræmis við það sem lagt er til með 31. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda sem þar koma fram.

Um 18. gr.


    Hér er lögð til breyting á 7. mgr. 29. gr. þannig að ákvæðið taki einnig til tilvika þar sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta fyrir einhverja lögvarða hagsmuni. Einnig er lagt til að við ákvæðið um að útlendingur skuli halda sig á ákveðnu svæði verði bætt að um afmarkað svæði sé að ræða. Að fenginni reynslu frá setningu laganna þykir nauðsynlegt að árétta heimild lögreglu til að gera þeim útlendingum sem taldir eru upp í frumvarpsgreininni að halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Stjórnvöldum er ekki heimilt að ganga lengra en þörf er á hverju sinni til að ná því markmiði sem að er stefnt, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Í núgildandi ákvæðum er gert ráð fyrir að gæsluvarðhald sé lokaúrræði sem hægt er að grípa til, að undangengnum öðrum vægari úrræðum, sem ekki hafa skilað tilskildum árangri eða teljast ófullnægjandi. Á það hefur reynt fyrir Hæstarétti en með dómi hans í máli nr. 379/2004, sem var kveðinn upp þann 15. september 2004, felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð héraðsdóms um að útlendingur skyldi sæta gæsluvarðhaldi þar sem ekki þótti nægilega sýnt fram á að nauðsyn væri á því á grundvelli útlendingalaganna þar sem ekki væru tiltækar aðrar léttbærari aðgerðir til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að útlendingurinn skyldi yfirgefa landið. Af dómnum má skýrt ráða að útlendingur, sem ekki er vitað hver er og hefur ekki gefið réttar upplýsingar um hver hann er, verður ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald nema gripið hafi verið til annarra vægari úrræða fyrst, enda þótt um sé að ræða menn sem ekki uppfylla skilyrði laganna til dvalar í landinu og enginn veit hverjir eru.
    Aukist hefur að útlendingar sem sótt hafa um hæli hér á landi og ekki er vitað hverjir eru, sýni af sér hegðun sem gefur til kynna að af þeim stafi hætta. Eru til að mynda dæmi um hótanir um líkamsmeiðingar gagnvart öðrum útlendingum, sem dvelja á sama gististað og starfsmönnum félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Þá er jafnframt dæmi um líkamsárás gagnvart almennum borgara og önnur afbrot. Ótækt verður að telja að útlendingur sem sýnir af sér slíka hegðun geti dvalið áfram á sama gististað meðal annarra hælisleitenda, þar sem oft dvelja einnig börn. Í tilvikum sem þessum er nauðsynlegt að lögregla geti lagt fyrir viðkomandi útlending að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald. Með breytingunni í „ákveðnu afmörkuðu svæði“ er t.d. átt við tiltekinn bæjarhluta, gistiheimili eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem hér um ræðir. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er dómurum veitt almenn heimild til að úrskurða í gæslu þá útlendinga sem fjallað er um í 29. gr. laganna. Heildstætt mat á því hvort réttlætanlegt sé að viðkomandi útlendingur gangi laus hlýtur að taka mið af því að almennt er mönnum óheimil dvöl hér á landi ef þeir uppfylla ekki lögmælt skilyrði. Þetta mat getur síðan breyst, t.d. við það að útlendingur sem hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald sýnir eftir það samvinnuvilja og góða hegðun eða að maður sem ákveðið hefur verið að eingöngu skuli tilkynna sig, þverskallast við að sýna samvinnu við að staðreyna hver hann er.
    Þá er lagt til að hámarkstími gæsluvarðhalds verði afnuminn enda kann að vera óljóst hvort máli verði lokið á þeim tíma, t.d. vegna þess að útlendingur er áfram ósamvinnuþýður eða önnur þörf er á gæsluvarðhaldi. Líkt og í gæsluvarðhaldsmálum almennt er gert ráð fyrir að dómari marki gæsluvarðhaldi ákveðinn tíma. Viðkomandi útlendingur yrði síðan látinn laus þegar ástæður til gæslu væru ekki lengur fyrir hendi. Á það sama við í þessum málum og má því treysta á að gæsluvarðhald verði ekki lengra en nauðsyn ber til samkvæmt úrskurði dómara.

Um 19. gr.


    Um er að ræða breytingu til samræmis við 12. gr. frumvarpsins.
    

Um 20. gr.


    Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru sama eðlis og í 18. gr. frumvarpsins. Lagt er til að fyrirmæli 3. mgr. 33. gr. verði þannig að þau verði einnig hægt að gefa þegar útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta fyrir einhverja lögvarða hagsmuni. Þá er enn fremur lagt til að við ákvæðið verði bætt „afmörkuðu“ svæði, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Er vísað til athugasemda við þá grein til frekari skýringar. Þá er einnig lagt til að hámarkstími sem fyrirmæli 3. mgr. geta gilt verði færður úr tveimur vikum í fjórar. Frá þeim tíma sem liðinn er frá setningu laga nr. 96/2002, um útlendinga, hefur komið í ljós að tveggja vikna hámarkstími er ekki raunhæfur, enda getur mun lengri tími liðið þar til hægt er að framkvæma þá ákvörðun sem um ræðir og sömu forsendur geta enn verið til staðar. Því þykir nauðsynlegt að lengja þann hámarkstíma sem ákvæðið mælir fyrir um.

Um 21. gr.


    Um er að ræða breytingar til samræmis við g-lið 10. gr., 18. gr. og 28. gr. frumvarpsins.
    

Um 22. gr.


    Með þessu ákvæði er í fyrsta lagi lögð til breyting á yfirskrift núgildandi ákvæðis þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir að réttur EES- eða EFTA-útlendings til dvalar verði byggður á dvalar- eða búsetuleyfi sem veitt er hér á landi. Breytingin er til komin vegna tilskipunar Evrópusambandsins nr. 38/2004 um frjálsa för. Þar er því slegið föstu að rétturinn til frjálsrar farar og dvalar sé svo afdráttarlaus að ekki þurfti að veita EES- eða EFTA-útlendingi sérstakt leyfi til staðfestingar á réttinum. EES- eða EFTA-útlendingur nýtur því réttar til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu án þess að til komi sérstakt dvalarleyfi en hins vegar má skylda EES- eða EFTA-útlending til að skrá sig hjá viðeigandi stjórnvöldum hér á landi. Felur þessi breyting í raun í sér að réttarstaða EES- og EFTA-útlendinga hér á landi verður lík þeirri sem norrænir borgarar hafa notið hingað til. Í öðru lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 35. gr. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gert athugasemdir við ákvæði núgildandi 2. mgr. 35. gr. laganna í ljósi dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins. Skilyrðið í ákvæðinu um óbundið leyfi eða þriggja ára tímabundið leyfi þykir takmarka rétt þjónustuveitenda um of samkvæmt EES-rétti. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að löggjöf sem krefst þess að útsendir starfsmenn hafi starfað í a.m.k. 6 mánuði áður en þeir fara og veita þjónustuna gangi of langt. Er því lagt til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að skilyrðið verði tekið út. Með þeirri breytingu sem lögð er til með þessari grein og í eftirfarandi greinum um breytingar á VI. kafla laganna (22.–29. gr. frumvarps þessa) er efni framangreindrar tilskipunar innleidd í íslenskan rétt.

Um 23. gr.


    Líkt og getið var hér að framan hafa dvalarleyfi EES- eða EFTA-útlendinga verið afnumin með tilskipun 38/2004/EB og er hér því lagt til að yfirskrift núgildandi ákvæðis verði breytt til samræmis við það. Jafnframt þykir rétt að breyta 1. mgr. 36. gr. þannig að í stað orðanna „á rétt á dvalarleyfi“ komi orðin „á rétt til dvalar“. Skilyrðið um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. verði ný 2. mgr. Í d-lið 1. mgr. er hins vegar lagt til að skerpt verði á skilyrðinu um að námsmaður verði að sýna fram á að hann sé sjúkratryggður og hafi trygga framfærslu en ákvæði þessa efnis er nú að finna í 4. mgr. 71. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2003. Núverandi 2. mgr. verður 3. mgr. en lagt er til að ákvæði núgildandi 3. og 4. mgr. 36. gr. verði felld brott þar sem þau eiga ekki lengur við.

Um 24. gr.


    Með þessu ákvæði er kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-útlendings, sem dvelur hér á landi löglega, eigi rétt til að dvelja með honum hérlendis án þess að þurfa sérstakt dvalarleyfi. Breytingin er í samræmi við tilskipun 38/2004/EB þar sem kveðið er skýrar á um rétt fjölskyldumeðlima EES- eða EFTA-útlendings til að koma og dvelja með honum á Evrópska efnahagssvæðinu. Rétturinn á við um aðstandendur hvort sem þeir eru sjálfir EES- eða EFTA-útlendingar eða hafa ríkisfang í ríki sem er utan EES. Lagt er til að í 2. mgr. verði skilgreint hverjir teljist til aðstandenda útlendings sem dvelur hér á landi skv. 1. mgr. 36. gr. en skilgreiningu er nú að finna í 73. gr. reglugerðar um útlendinga. Eðlilegt þykir að skilgreiningin sé færð úr reglugerð í lagatextann sjálfan. Í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um sömu skyldu til skráningar og mælt er fyrir um í 3. mgr. 35. gr. til að ítreka að skyldan nái einnig til aðstandanda sem sjálfur er EES- eða EFTA-útlendingur. Lagt er til að aðstandendur sem hafa ríkisfang í ríki utan EES sæki um dvalarskírteini. Samkvæmt tilskipun 38/2004/EB á slíkur aðstandandi að sækja um dvalarskírteini (e. residence card) í því ríki sem dvalist er í innan þriggja mánaða frá komu til landsins, ef ætlunin er að dveljast lengur en þrjá mánuði í landinu. Dvalarskírteinið kemur í stað dvalarleyfisskírteinis og er gefið út til staðfestingar á rétti til dvalar. Aðstandandi sem er handhafi slíks dvalarskírteinis getur framvísað því við komu inn á Schengen-svæðið og þarf þá ekki vegabréfsáritun sé hann á annað borð skyldugur til að hafa slíka áritun við komu inn á Schengen-svæðið. Loks er gert ráð fyrir að reglugerðarheimild dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur um dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-útlendings verði að finna í 5. mgr. 37. gr. Verður sú heimild m.a. nýtt til að afmarka, innan þeirra marka sem tilskipun 38/2004/EB setur, í hvaða mæli aðstandendur EES- eða EFTA-útlendings geta haldið rétti sínum til dvalar eftir andlát hans eða eftir skilnað við hann.

Um 25. gr.


    Hér er lagt til að 39. gr. núgildandi laga verði felld brott þar sem dvalarleyfi verða ekki lengur gefin út til EES- eða EFTA-útlendinga. Í staðinn er gert ráð fyrir að ákvæðið mæli fyrir um rétt EES- eða EFTA-útlendings, eða aðstandanda hans, til ótímabundinnar dvalar hér á landi eftir fimm ára samfellda búsetu. Hér er um nýmæli að ræða en áður var gert ráð fyrir að EES- útlendingur eða EFTA-útlendingur gæti sótt um búsetuleyfi samkvæmt almennum reglum laganna. Ákvæðið felur í sér töluverða rýmkun á réttindum þessa hóps til varanlegrar búsetu hér á landi og fellur rétturinn ekki niður nema samfelld dvöl erlendis vari lengur en í tvö ár, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. eru talin upp tilvik þar sem EES- eða EFTA-útlendingur þarf að dvelja erlendis af tilgreindum ástæðum og er gert ráð fyrir að sú dvöl teljist ekki rof á samfelldri dvöl í skilningi 1. mgr. Gert er ráð fyrir að Útlendingastofnun gefi út staðfestingu á rétti til ótímabundinnar dvalar, hvort sem er í formi vottorðs eða skírteinis. Þá er lagt til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um skilyrði fyrir ótímabundinni dvöl EES- eða EFTA-útlendings, og aðstandenda hans, innan þess ramma sem tilskipun 38/2004/EB mælir fyrir um. Að sama skapi er gert ráð fyrir að settar verði nánari reglur um í hvaða tilvikum er unnt að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar áður en fimm ára tímamarkinu er náð og um aðrar undanþágur frá skilyrðunum sem mælt er fyrir um í tilskipun 38/ 2004/EB.

Um 26. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði núgildandi 40. gr. laganna verði fellt brott og í staðinn komi nýtt ákvæði um brottfall dvalarréttar. Ákvæðið kemur að hluta til í stað 41. gr. núgildandi laga en ekki verður lengur gert ráð fyrir afturköllun dvalarleyfis þegar svo stendur á sem í 16. gr. greinir. Í 35. gr. tilskipunar 38/2004/EB er hins vegar gert ráð fyrir að aðildarríkin geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að sporna gegn misnotkun á þeim réttindum sem tilskipunin mælir fyrir um, t.d. vegna málamyndahjónabanda. Því er lagt til að í 40. gr. verði að finna heimildarákvæði fyrir Útlendingastofnun til að fella niður dvalarrétt EES- eða EFTA-útlendings þegar um misnotkun er að ræða, t.d. málamyndahjónaband eða vísvitandi ranga upplýsingagjöf.
    Í ákvæði 2. mgr. þykir hins vegar rétt að taka fram hvenær dvalarréttur fellur ekki niður jafnvel þótt viðkomandi útlendingur uppfylli ekki lengur skilyrði a–b-liðar 1. mgr. 36. gr. um rétt til dvalar, en hér er um að ræða hluta af ákvæði núgildandi 1. mgr. 41. gr. Þá er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um hvenær dvalarréttur EES- eða EFTA- útlendings, eða aðstandanda hans, heldur gildi sínu vegna sérstakra aðstæðna. Í 3. mgr. er lagt til að tekið verði fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um niðurfellingu leyfis. Þegar til álita kemur að fella niður rétt til dvalar gilda reglur stjórnsýslulaga um meðferð máls.

Um 27. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að núgildandi 42. gr. verði 41. gr. Þá er lagt til að orðinu „vegabréf“ í a-lið 1. mgr. verði breytt í „ferðaskilríki“ enda getur EES- eða EFTA-útlendingur framvísað vegabréfi eða öðru kennivottorði frá heimalandi sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Hugtakið er því rýmra og þykir lýsa betur því sem átt er við. Þá er lagt til að gerð verði breyting á núgildandi b-lið 1. mgr. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gert athugasemdir við b-lið 1. mgr. 42. gr. laganna, þ.e. einkum orðin „í öðru norrænu landi“. Haustið 2002 hóf ESA að eigin frumkvæði athugun á íslenskri löggjöf um útlendinga til að kanna hvort hún væri fyllilega í samræmi við EES-gerðir um rétt EES-borgara samkvæmt tilteknum gerðum ESB. Ákvæði b-liðar hefur enga raunhæfa þýðingu lengur þar sem Norðurlöndin hættu að skiptast sérstaklega á upplýsingum um brottvísaða útlendinga um leið og þau tengdust Schengen- upplýsingakerfinu. Ákvæðinu hefur ekki verið beitt í tíu ár. ESA telur eigi að síður að ákvæðið feli í sér brot á EES-samningsskuldbindingum okkar. Lagt er því til að orðin „hér á landi eða í öðru norrænu landi“ verði felld brott. Auk þessa er í d-lið lagt til að almannaheilbrigði bætist við sem nauðsynleg ástæða frávísunar þar sem tilskipun 38/2004/EB tilgreinir það sem ástæðu fyrir takmörkun réttar til komu. Þeir sjúkdómar sem geta réttlætt frávísun með skírskotun til almannaheilbrigðis er hver sá sjúkdómur sem getur valdið farsótt eins og skilgreint er í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, sem og aðrir smitsjúkdómar af völdum sníkjudýra í samræmi við ákvæði laga um sóttvarnir. Loks er lagt til að í 3. mgr. verði sett inn þriggja mánaða viðmiðunartímamark en gera má ráð fyrir að eftir það tímamark verði að koma til brottvísunar ef ástæður sem varða allsherjarreglu eða almannaöryggi krefjast þess að dvalarréttur verði takmarkaður. Ekki er heimilt að vísa frá EES- eða EFTA-útlendingi, eða aðstandanda hans, með skírskotun til almannaheilbrigðis ef lengri tími en þrír mánuðir eru liðnir frá komu til landsins.

Um 28. gr.


    Hér er í fyrsta lagi lagt til að 43. gr. gildandi laga verði 42. gr. Í öðru lagi er lagt til að heimild 1. mgr. til brottvísunar verði einnig látin ná til aðstandanda EES- eða EFTA-útlendings, enda er skýrt kveðið á um það í tilskipun 38/2004/EB að heimildin nái einnig til aðstandenda óháð ríkisfangi þeirra. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði núgildandi 4. mgr. 43. gr. verði fært í nýja grein um takmarkanir á heimild til brottvísunar, sem vikið verður að hér á eftir. Í fjórða lagi er lagt til að ótímabundið endurkomubann verði afnumið þar sem tilskipun 38/2004/EB kveður á um að slíkt bann skuli ekki lengur heimilað gagnvart EES- eða EFTA-útlendingi. Þá er í fimmta lagi lagt til að lögfest verði sérstök reglugerðarheimild fyrir dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur um endurkomubann og vísast til athugasemda við 15 gr. frumvarpsins.

Um 29. gr.


    Hér er lagt til að bætt verði við nýrri lagagrein, 43. gr., sem kveði á um takmarkanir á heimild Útlendingastofnunar til brottvísunar EES- eða EFTA-útlendings, eða aðstandanda hans. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er í fyrsta lagi fært óbreytt úr 4. mgr. núgildandi 43. gr. Þá er í öðru lagi lagt til að ákvæðið tilgreini dæmi um atriði sem Útlendingastofnun ber að leggja mat á varðandi aðstæður EES-eða EFTA-útlendings, eða aðstandanda hans, þegar ákvörðun um brottvísun kemur til álita. Í þriðja lagi er lagt til að þeim EES- eða EFTA- útlendingum, eða aðstandendum þeirra, sem hér hafa varanlega búsetu hér á landi skv. 39. gr. laganna, verði veitt aukin vernd gegn brottvísun, þannig að þeim verði ekki vísað brott nema alvarlegar ástæður er varða allsherjarreglu eða almannaöryggi krefjist þess. Í fjórða lagi er einnig lagt til að tilteknum hópi EES- eða EFTA-útlendinga, eða aðstandenda þeirra, verði veitt aukin vernd þannig að þeim sem hafa dvalið hér löglega í lengri tíma en tíu ár verði ekki vísað brott nema brýnar ástæður skv. 42. gr. krefjist þess. Sama gildi um ólögráða einstaklinga nema annað verði talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins eins og sáttmáli SÞ um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 kveður á um (meginreglan um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. 3.gr. sáttmálans).

    Um 30. gr.


    Um er að ræða breytingu til samræmis við g-lið 10. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.


    Tvenns konar breytingar eru lagðar til á 46. gr. með þessu ákvæði. Í fyrsta lagi er lagt til að orðalagi e-liðar 1. mgr. verði breytt til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í samstarfi Íslands og Evrópusambandsins um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins. Nú þegar hefur ríkið Sviss undirritað samning við Ísland, Noreg og Evrópusambandið um þátttöku og síðar munu bætast við hin nýju aðildarríki Evrópusambandsins, en ekki er ljóst hvernig aðild þeirra ríkja verður háttað og er því lagt til að orðalag ákvæðisins verði almennara en nú er þannig að ekki þurfi að koma til lagabreyting í hvert sinn sem gerður er nýr samningur á þessum vettvangi. Í öðru lagi er lagt til að dómsmálaráðherra geti sett reglur um málsmeðferð í hælismálum en slíkar reglur er ekki að finna í löggjöfinni í dag. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. gagnrýnt að slíkar reglur sé ekki að finna í löggjöfinni og er því lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að festa í sessi þær reglur sem viðhafðar hafa verið í framkvæmd.
    

Um 32. gr.


    Lagt er til að núgildandi heimild til að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar og lögreglu verði víkkuð út þannig að hún nái einnig til upplýsinga í vörslum Vinnumálastofnunar, skattyfirvalda og þjóðskrár. Um leið er leitast við að setja því skýrari mörk en áður í hvaða skyni og með hvaða hætti slík upplýsingaskipti geti farið fram. Ástæða þessarar tillögu er að í framkvæmd hefur komið í ljós að baráttan gegn misnotkun erlends vinnuafls og ólögmætri dvöl útlendinga hér á landi nær ekki settu markmiði ef einvörðungu er stuðst við upplýsingar úr skrám Útlendingastofnunar og lögreglu. Til að tryggt verði að stjórnvöld hafi yfirsýn yfir fjölda erlendra ríkisborgara sem koma til dvalar og starfa hingað til lands og að farið verði eftir þeim reglum sem um komu, dvöl og atvinnu þeirra gilda, er nauðsynlegt að efla eftirlitsþátt stjórnvalda. Slíkt eftirlit þarf m.a. að vera reglubundið og skilvirkt. Með skilvirku eftirliti verður unnt að fylgjast mun betur með því að þeir sem skráðir eru inn í landið hjá tilteknum yfirvöldum, skili sér réttilega í skrár annarra. Eftirlit af þessu tagi krefst samvinnu þeirra stjórnvalda sem að málaflokknum koma, m.a. með samkeyrslu upplýsinga frá þjóðskrá, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, skattyfirvöldum og lögreglu. Sem dæmi um athuganir sem fram geta farið á grundvelli ákvæðisins er athugun á því hvort útlendingar með dvalarleyfi sem renna út á tilteknu tímamarki telja fram staðgreiðslu á einhverju öðru, síðara tímamarki. Slíkt er unnt að leiða í ljós með vélrænum samanburði á kennitölum þeirra sem eru í þessum tveimur hópum. Annað dæmi um heimila vinnslu er vélræn athugun með fyrirspurn á milli tölvukerfa á því að tiltekinn útlendingur hafi atvinnuleyfi áður en skattkort er gefið út eða að hann eigi ekki ólokið mál í refsivörslukerfinu áður en búsetuleyfi er gefið út. Þriðja dæmið um heimila vinnslu er samanburður á skrá Útlendingastofnunar yfir útlendinga sem vísað hefur verið brott og þjóðskrá þar sem fram gæti komið að t.d. norrænn borgari sem úrskurðaður hefur verið í endurkomubann sé búinn að færa lögheimili sitt hingað til lands. Sem dæmi um vinnslu sem er ekki heimil samkvæmt ákvæðinu er almennur aðgangur lögreglu eða Útlendingastofnunar að upplýsingum skattyfirvalda eða að einstökum hlutum upplýsingakerfa sem bera með sér launafjárhæðir. Annað dæmi um vinnslu sem ekki fær stoð í ákvæðinu er samkeyrsla á skrám Útlendingastofnunar eða þjóðskrár annars vegar og skattyfirvalda hins vegar í því skyni að athuga tekjudreifingu einstakra hópa á borð við erlenda maka íslenskra borgara eða erlenda námsmenn.
    

Um 33. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðinu er ætlað að tryggja að þeir sem komið hafa hingað til lands fyrir gildistöku laganna haldi leyfum sínum og geti fengið þau endurnýjuð að öllum skilyrðum uppfylltum þrátt fyrir að sú tegund dvalarleyfis sem þeir hafa nú hverfi við gildistöku þessara laga. Sama á við um þá sem þegar hafa fengið útgefin búsetuleyfi fyrir gildistöku laganna. Þau halda gildi sínu. Þá á ákvæðið að tryggja að þessi lög hrófli ekki við réttarstöðu aðstandenda útlendinga í þessari stöðu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2002,
um útlendinga, með síðari breytingum.

    Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum greinum núgildandi laga á þessu sviði. Helstu breytingarnar lúta að því að veita ráðherra heimild til að innleiða með reglugerð heildarreglur Evrópuráðsins og þingsins um för yfir landamæri nr. 562/2006/ESB, að innleiða tilskipun Evrópuráðsins og þingsins nr. 38/2004/EC um rétt ríkisborgara EB og EFTA og fjölskyldna þeirra til frjálsrar farar og dvalar á EES-svæðinu, samræma ákvæði laganna við fyrirhugaðar breytingar á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sem lagðar eru til í öðru frumvarpi samhliða þessu og fjölga dvalarleyfisflokkum, auk þess sem komið er til móts við athugasemdir sem komið hafa fram frá Eftirlitsstofnun EFTA. Ekki er þó gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins feli í sér verulegar breytingar á framkvæmd laganna og er ekki ástæða til að ætla að það hafi í för með sér teljandi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.