Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 757  —  475. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um uppbyggingu þekkingarmiðstöðvar um uppeldismál.

Flm.: Huld Aðalbjarnardóttir, Birkir J. Jónsson, Guðbjartur Hannesson,
Einar Már Sigurðarson, Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson,
Kristinn H. Gunnarsson.

    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja uppbyggingu þekkingarmiðstöðvar um uppeldismál í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur mikil umræða skapast um líðan, aga og agavandamál ungmenna í skólum landsins. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða í því skyni að styðja starfsfólk í skólum til að taka á slíkum málum þar sem ljóst er að góð líðan er forsenda fyrir náms- og félagslegum árangri. Helst er litið til fyrirbyggjandi leiða til að takmarka þann fjölda nemenda sem nær ekki að fóta sig í skólakerfinu og auka jafnframt lífsgæði barna og þar með fjölskyldna þeirra. Einnig er það vel þekkt staðreynd að bestu forvarnir gegn ýmiss konar fíkn og misnotkun eru árangursríkar uppeldisleiðir. Því er mikilvægt að styrkja þekkingu og rannsóknir á því sviði.
    Menntasvið Reykjavíkur fól Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans að vinna rannsókn á hegðunarvanda í grunnskólum borgarinnar skólaárið 2005–2006. Í skýrslunni kemur fram að vandinn er minnstur þar sem jákvæður skólabragur er, virðing ríkir milli nemenda og starfsfólks og samstarf er við foreldra. Einnig kemur fram að nemendur séu almennt kurteisir og samstarfsfúsir, en 10–15% nemenda eigi við alvarleg hegðunarvandamál að stríða og 67% kennara telja að þeim einstaklingum fari fjölgandi. Ýmislegt hefur verið gert til að bregðast við þeim vanda. Jafningjastuðningur er algengur meðal kennara, svo og stuðningur frá skólastjórnendum, námsráðgjöfum, sálfræðingum og kennsluráðgjöfum. Á síðustu árum hafa einnig verið innleiddar heildstæðar uppeldisleiðir með það að markmiði að bæta samskipti og styrkja jákvætt hegðunarmynstur. Erlendar rannsóknir sýna að með slíkum leiðum megi fjölga þeim sem vel gengur í skólakerfinu og að sama skapi fækka í hópi þeirra sem teljast vera með alvarleg hegðunarvandamál. Í skýrslunni er lögð áhersla á að fylgjast vel með þróun slíkra aðferða og hvort og hvernig árangri þær skila. Enn fremur kemur fram að víða er unnið mikið og gott þróunarstarf hvað þennan málaflokk varðar en sárlega vanti að safna saman og miðla þeirri þekkingu sem myndast. Auk þess benda höfundar skýrslunnar á að efla mætti þekkingu og skilning skólafólks á eðli og orsökum hegðunarvandkvæða, sem og á þeim úrræðum sem duga og tiltæk eru. Þá er vitnað í skýrslu Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings um þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Þar kemur fram að brýnt sé að þróa forvarnir, sem m.a. beinast að samstarfi og þjónustu við foreldra barna með hegðunarraskanir, mun fyrr en nú er gert. Að lokum er lögð áhersla á að efla rannsóknir á hegðun og samskiptum í skólum á Íslandi en þær eru af skornum skammti.
    Af framangreindu má ljóst vera að mikil þörf er fyrir rannsóknir og öflun upplýsinga um uppeldis- og forvarnamál. Hér á landi er snúið að nálgast upplýsingar um árangursríkar uppeldis- og forvarnaleiðir. Tilfinnanlega vantar aðila eða stofnun sem getur gefið faglegar og hlutlausar ráðleggingar um hvaða aðferð henti best fyrir mismunandi aðstæður og veitt starfsfólki í skólum og meðferðaraðilum handleiðslu og fræðslu. Einnig er mikilvægt að samtök foreldra geti leitað eftir fræðslu um uppeldismál foreldrum til handa þar sem þeir hafa meginhlutverk í uppeldi barnanna. Þá er brýnt að faglegt mat fari fram á þeim leiðum sem notaðar eru. Þar sem margir skólar hafa of lítinn markhóp þarf að safna upplýsingum saman af stærra svæði til að rannsóknir verði marktækar og hægt verði að nota niðurstöðurnar til jákvæðrar þróunar.
    Norðmenn hafa farið þá leið að fela Atferdssentret í Ósló að halda utan um þekkingu, rannsóknir og fræðslu á uppeldisleiðum sem miða að jákvæðari hegðun og leiðum til að takast á við hegðunarvandamál. Þar er lögð áhersla á að þeir sem veita fræðsluna vinni að hluta til með börnum og foreldrum. Með því náist betri tenging við aðstæðurnar sem um er rætt. Slík leið tryggir öllum aðgengi að þekkingunni og rannsóknir verða skilvirkar og leiða til möguleika á umbótum á landsvísu. Vert væri að líta til norsku leiðarinnar við uppbyggingu þekkingarmiðstöðvar um uppeldismál.
    Við Háskólann á Akureyri er skólaþróunarsvið sem hefur m.a. það hlutverk að vera ráðgefandi við hvers konar þróunar- og umbótastarf í skólum, kynna nýjungar á sviði skóla- og kennslumála og standa fyrir rannsóknum á skólastarfi og fræðslu til starfandi kennara. Við Háskólann á Akureyri er jafnframt starfrækt Rannsóknasetur forvarna sem stendur fyrir reglubundnum rannsóknum á líðan, hegðun og lífskjörum íslenskra grunnskólanema í samanburði við jafnaldra þeirra á Vesturlöndum. Þekkingarmiðstöð um uppeldismál á vel heima í þessu umhverfi og styrkir stoðir Háskólans á Akureyri enn frekar.
    Þingsályktunartillaga þessi er í anda stefnu allra stjórnmálaflokkanna um málefni barna og eflingu forvarna. Með henni er því beint til menntamálaráðherra að hefja uppbyggingu á þekkingarmiðstöð um uppeldismál í samvinnu við Háskólann á Akureyri, enda mikilvægt að auka lífsgæði fjölskyldna og hlúa þannig að mannauðnum í landinu.