Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 553. máls.

Þskj. 854  —  553. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu,
nr. 57/1998, með síðari breytingum, og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu,
nr. 57/1998, með síðari breytingum.

1.      gr.

    Við 33. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 1. og 2. mgr., svohljóðandi:
    Iðnaðarráðherra getur falið Orkustofnun leyfisveitingarvald skv. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. að hluta eða öllu leyti. Fer Orkustofnun þá einnig með heimildir ráðherra skv. 1. mgr. 4. gr., 19. gr. og 20. gr.
    Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar samkvæmt lögum þessum sæta kæru til iðnaðarráðherra. Kæra til ráðherra skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan 30 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Um meðferð máls fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

II. KAFLI
Breyting á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins,
nr. 73/1990, með síðari breytingum.

2. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Iðnaðarráðherra getur falið Orkustofnun leyfisveitingarvald skv. 2. og 3. gr. að hluta eða öllu leyti.
    Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar samkvæmt lögum þessum sæta kæru til iðnaðarráðherra. Kæra til ráðherra skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan 30 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Um meðferð máls fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, í þá veru að heimila iðnaðarráðherra að fela Orkustofnun leyfisveitingar á grundvelli laganna.
    Samkvæmt aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland, sem samþykkt var í ríkisstjórn 17. október 2006, var gert ráð fyrir að hvert ráðuneyti setti sér langtímaáætlun um einföldun opinberra reglna og stjórnsýslu. Iðnaðarráðuneytið setti sér slíka áætlun í september 2007 og er frumvarp þetta liður í þeirri áætlun. Tilgangur frumvarpsins er einföldun á allri stjórnsýslu þar sem lagt verður til að ráðherra geti falið Orkustofnun leyfisveitingarvald samkvæmt ákvæðum laganna. Er sú tilhögun jafnframt í samræmi við aðra löggjöf á sviði auðlinda- og orkumála, m.a. lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, raforkulög, nr. 65/2003, og vatnalög, nr. 20/2006, sem og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/ 1998, sem lagt var fram á 133. löggjafarþingi. Á síðustu missirum hefur verið unnið að endurskoðun á auðlindalöggjöf, m.a. í samræmi við tillögur auðlindanefndar, sem skilaði af sér skýrslu til ráðherra í október 2006. Nefndin taldi m.a. að veiting leyfa á grundvelli laga nr. 57/1998 ætti fyrst og síðast að lúta faglegu og sérfræðilegu mati. Því væri eðlilegt að færa úthlutun leyfa alfarið frá iðnaðarráðuneyti til Orkustofnunar. Nái frumvarpið fram að ganga mun slíkt framsal leyfisveitingar til Orkustofnunar hafa í för með sér að almenningur hefur samskipti við sama stjórnvald í gegnum allt leyfisveitingarferlið.
    Helstu rökin fyrir flutningi leyfisveitingarvalds iðnaðarráðherra til Orkustofnunar eru þau að um er að ræða stjórnsýslu sem telja verður að eigi frekar heima á verksviði fagstofnunar á sviði auðlinda- og orkumála en ráðuneytis. Óumdeilt er einnig að það skapar hagræði í stjórnsýslunni og þjónar vel hagsmunum umsækjanda og/eða leyfishafa að geta beint öllum sínum erindum til sama stjórnsýsluaðila. Standa því rök til þess að leyfishafar eigi samskipti við sama stjórnvaldið á öllum stigum starfsemi samkvæmt lögunum. Að sama skapi einfaldar framsal á leyfisveitingum til Orkustofnunar umsagnarferli vegna laga um mats á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, en skv. 2. mgr. 6. gr. laganna skal Skipulagsstofnun leita álits m.a. leyfisveitenda vegna framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Felst þar af leiðandi ákveðin einföldun í því að Orkustofnun veiti umsögn um tilteknar framkvæmdir, bæði sem leyfisveitandi sem og fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála. Fæst þá ekki eingöngu faglegri umsögn heldur kann slíkt verkferli að auka málshraða við umsagnarferli samkvæmt lögum nr. 106/2000, á þann veg að umsagnar verði leitað hjá einni stofnun í stað tveggja.
    Þá er breytingin ákjósanleg út frá sjónarmiðum um réttaröryggi en verði frumvarpið að lögum getur umsækjandi um leyfi borið ákvörðun Orkustofnunar undir ráðuneytið og þannig látið fjalla um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum. Loks er hér um að ræða mikla einföldun á málsmeðferð og styttingu málsmeðferðartíma þar sem ráðuneytið hefur sent flestar umsóknir um leyfi til umsagnar hjá Orkustofnun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að fela Orkustofnun leyfisveitingu og ákvarðanatöku skv. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. að hluta eða öllu leyti. Þá fari Orkustofnun einnig með heimildir ráðherra skv. 19. gr. og 20. gr.
    Er Orkustofnun, sem fagaðila á sviði auðlinda- og orkumála, falið það hlutverk sem áður féll beint undir iðnaðarráðherra og mun sérfræðiþekking Orkustofnunar nýtast við framkvæmd laganna á skilvirkari hátt en ella en Orkustofnun er nú lögbundinn umsagnaraðili við veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa á grundvelli laganna.
    Valdaframsal til Orkustofnunar er innan þess ramma sem stofnuninni er markaður skv. 2. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003, þar sem segir að Orkustofnun skuli annast stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Verði frumvarp þetta samþykkt mun Orkustofnun, auk þeirra verkefna sem stofnuninni eru nú þegar falin í lögunum, geta annast alla umsýslu og þjónustu sem iðnaðarráðuneytið hefur til þessa annast vegna rannsóknar- og nýtingarleyfa, þar á meðal er móttaka umsókna, samskipti við umsækjendur og/eða leyfishafa og undirbúningur stjórnvaldsákvarðana. Undir framsal leyfisveitingarvalds falla eðli máls samkvæmt þær heimildir sem ráðherra eru veittar í lögunum í tengslum við leyfisveitingar, m.a. að setja þau skilyrði fyrir leyfi sem nauðsynleg eru talin, sbr. m.a. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr., og að veita fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi, sbr. 3. mgr. 5. gr. Í ljósi sérfræðiþekkingar og mannafla Orkustofnunar og aðstæðna að öðru leyti má gera ráð fyrir að stofnunin sé vel í stakk búin til að taka ákvarðanir um veitingu leyfa og aðrar ákvarðanir sem að þeim lúta. Framsal til Orkustofnunar mun því stuðla að auknum málshraða í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Einnig verður stjórnsýsla einfaldari fyrir umsækjendur og/eða leyfishafa sem sækja og skila öllum upplýsingum til sama stjórnvalds. Eðlilegt er í ljósi sérfræðiþekkingar Orkustofnunar að heimild ráðherra til þess að hafa frumkvæði að og/eða láta rannsaka og leita verði samhliða leyfisveitingarvaldi falið Orkustofnun og heimild 19. gr. til að auglýsa eftir umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi.
    Yfirstjórn samkvæmt lögunum mun eftir sem áður vera í höndum iðnaðarráðherra og stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til iðnaðarráðherra. Um meðferð málsins fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Framsal leyfisveitingarvalds til Orkustofnunar eykur því til muna réttaröryggi umsækjenda og leyfishafa að því leyti að þeir eiga þess þá kost að fá umfjöllun um mál á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að fela Orkustofnun leyfisveitingu og ákvarðanatöku skv. 2. og 3. gr. að hluta eða öllu leyti. Vísast til almennra athugasemda og athugasemda við 1. gr. hér að framan en valdaframsal til Orkustofnunar er innan þess ramma sem stofnuninni er markaður skv. 2. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003, þar sem segir að Orkustofnun skuli annast stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Framsal leyfisveitingarvalds samkvæmt greininni nær jafnframt til framsals heimildar 2. mgr. 2. gr. til að veita leyfishafa fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi í allt að tvö ár frá því að gildistími leyfis til leitar er lokið og að öðrum verði ekki veitt leyfi til leitar á þeim tíma. Það sama gildir um heimild iðnaðarráðherra skv. 2. mgr. 3. gr. til að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir töku eða nýtingu sem heimiluð er. Ákvörðunarvald ráðherra samkvæmt þessum greinum flyst til Orkustofnunar í samræmi við ákvörðun iðnaðarráðherra.

Um 3. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir
og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, með síðari breytingum,
og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins,
nr. 73/1990, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, í þá veru að heimila iðnaðarráðherra að fela Orkustofnun leyfisveitingar á grundvelli laganna en aðalskrifstofa iðnaðarráðuneytisins hefur haft það með höndum. Iðnaðarráðuneytið telur að bæta þurfi við einu stöðugildi hjá Orkustofnun vegna aukinna verkefna stofnunarinnar á sviði stjórnsýslu er tengist leyfisveitingunni. Ráðuneytið gerir ekki ráð fyrir að fjárheimild verði færð frá aðalskrifstofunni til Orkustofnunar í tengslum við þessa tilfærslu á verkefnum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að vegna fjölgunar um eitt stöðugildi hjá Orkustofnun aukist útgjöld stofnunarinnar um 7–8 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárveitingum gildandi fjárlaga.