Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 891  —  418. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um lokun starfsendurhæfingar í Bergiðjunni.

     1.      Hverjar eru forsendur fyrirhugaðrar lokunar starfsendurhæfingar í Bergiðjunni?
    Bergiðjan var opnuð þegar ekki voru til í samfélaginu atvinnutengd úrræði fyrir geðsjúka og var að því leyti barn síns tíma. Nú eru til margvísleg úrræði sem styðja við atvinnuþátttöku geðsjúkra og aðstoða þá við að verða sjálfbjarga við athafnir daglegs lífs. Þar má t.d. nefna AMS (Atvinna með stuðningi á vegum Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra), Fjölmennt, Hringsjá, Klúbbinn Geysi, AE-starfsendurhæfingu (starfs- og atvinnuendurhæfing fyrir geðfatlaða), Geðhjálp, Endurhæfingarklúbb öryrkja á Akranesi og Vinnumálastofnun höfuðborgarsvæðisins.
    Beiðnum um starfsendurhæfingu í Bergiðjunni hefur fækkað á undanförnum árum og ungt fólk sækir í auknum mæli eftir þeim stuðningi sem í boði er til starfa á hefðbundnum vinnustöðum. Krafa nútímans er að sjúklingar með langvinna geðsjúkdóma fái tækifæri í samfélaginu til jafns við aðra hvort sem er á vinnumarkaði eða öðrum þáttum.

     2.      Hver er áætlaður sparnaður Landspítala við lokunina?
    Áætlað er að 8–10 millj. kr. sparist við lokun Bergiðjunnar. Sá sparnaður gerir geðsviði Landspítala kleift að styrkja þá endurhæfingu sem betur hentar sjúklingum spítalans.

     3.      Hefur verið haft samráð við starfsmenn og þá sem eru í starfsendurhæfingu vegna fyrirhugaðrar lokunar?
    Allt frá því að Bergiðjan sameinaðist iðjuþjálfun geðsviðs 2002 hefur verið vitað að ákveðin þróun á þessu sviði mundi eiga sér stað.
    Í desember 2007 var haldinn fundur með starfsfólki Bergiðjunnar þar sem kynntar voru þær tillögur að Bergiðjunni yrði lokað 1. maí. Í byrjun janúar 2008 var haldinn fundur með sjúklingum sem voru í starfsendurhæfingu í Bergiðjunni þar sem þeim var tilkynnt um lokun hennar og í kjölfarið var haldinn fundur með aðstandendum þessa hóps. Strax var gerð aðgerðaáætlun. Markmiðið er að nýta tímann fram til 1. maí til að finna viðeigandi úrræði eða störf við hæfi. Haft er samstarf m.a. við Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík, Vinnumálastofnun höfuðborgarsvæðisins og Klúbbinn Geysi.

     4.      Hafa öllum verið tryggð önnur störf við hæfi og ef svo er, hvaða störf og á hvaða sviðum?
    Þrír starfsmenn starfa nú í Bergiðjunni, tveir í fullu starfi og einn í hlutastarfi sem fer að eigin ósk í annað starf í byrjun maí. Hinum tveimur verður boðið starf innan geðsviðs.
    Varðandi þá sjúklinga sem skráðir eru í Bergiðjunni stefna fjórir á Atvinnu með stuðningi, tveir stefna á Múlalund, einn stefnir í Klúbbinn Geysi, einn er óákveðinn og einn stefnir á almennan vinnumarkað.
     5.      Hvað geta margir sótt daglega starfsendurhæfingu í Bergiðjunni?
    Fjöldi sjúklinga í Bergiðjunni hefur ráðist af fjölda þeirra starfsmanna sem þar hafa starfað á hverjum tíma. Markviss starfsendurhæfing krefst fagfólks eins og t.d. iðjuþjálfa og félagsráðgjafa, en vegna skorts á fagfólki hefur ekki verið hægt að veita hana í nokkur ár. Átta sjúklingar eru nú í starfsendurhæfingu í Bergiðjunni og hafa þeir verið mislengi. Náms- og starfsendurhæfing fer einnig fram í vinnusal iðjuþjálfunar á Landspítalanum, þar eru tuttugu einstaklingar skráðir í meðferð.

     6.      Hefur ráðherra haft samráð við félags- og tryggingamálaráðherra og/eða Reykjavíkurborg um hugsanlega yfirtöku á rekstri Bergiðjunnar fyrir verndaðan vinnustað handa einstaklingum sem eiga erfitt með að stunda vinnu á almennum vinnumarkaði, sbr. Plastiðjuna – Iðjulund á Akureyri?
    Að gefnu tilefni skal tekið fram að málefni Bergiðjunnar heyra undir Landspítala en ekki undir ráðherra. Stofnanir sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið eru reknar af viðkomandi forstöðumönnum og kemur ráðherra ekki að einstökum ákvörðunum er varða reksturinn nema í undantekningartilvikum. Landspítali hagar starfsemi sinni með hagsmuni þeirra sem þurfa á þjónustu spítalans að halda að leiðarljósi. Það er mat spítalans að því fé sem nú er varið til rekstrar Bergiðjunnar sé betur varið til annarrar þjónustu innan stofnunarinnar. Landspítali hefur kynnt Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og öðrum er málið varðar ákvörðun sína og haft við þá samráð um úrvinnslu málsins eins og fram kemur í 3. lið. Er það í samræmi við almennt verklag spítalans, þ.e. að hafa samráð við veitendur félags- eða heilbrigðisþjónustu utan spítala, þarfnist sjúklingar slíkra úrræða eftir útskrift af Landspítala.

     7.      Hvað bíða margir eftir starfsendurhæfingu sakir örorku eða sjúkdóma?
    Langflestir sjúklingar sem eru í endurhæfingu á geðsviði eru með langvinna geðsjúkdóma og er enginn á biðlista eftir starfsendurhæfingu í Bergiðjunni, hvorki á geðsviði né utan geðsviðs.

     8.      Hvaða úrræði bjóðast fólki sem bíður eftir starfsendurhæfingu?
    Sjúklingum innan endurhæfingar geðsviðs stendur til boða að stunda margvíslega endurhæfingu, svo sem iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, listmeðferð, viðtalsmeðferð hjá sérfræðilæknum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum og hjúkrunarfræðingum. Tengsl og samvinna er við önnur úrræði í samfélaginu svo sem athvörf Rauða kross Íslands, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík, Vinnumálastofnun höfuðborgarsvæðisins, Klúbbinn Geysi, Hugarafl o.fl.

     9.      Hver er fagleg stefna Landspítala í endurhæfingu sjúklinga á geðsviði spítalans
                  a.      inni á geðdeildum spítalans,
                  b.      eftir útskrift,
                  c.      hvernig er þeirri stefnu fylgt eftir?
    Markmið endurhæfingar er að sem flestir geti búið sjálfstæðri búsetu utan stofnana. Til að ná því markmiði er þörf fyrir fjölbreytta sérfræðikunnáttu og teymisstarf þar sem sjúklingar fá meðferð, færniþjálfun og félagslega aðstoð. Þessi þjónusta er veitt á geðsviði Landspítala. Sjúklingum með langvinna geðsjúkdóma er fylgt eftir að útskrift lokinni frá göngudeild geðsviðs eins lengi og þörf er á.

     10.      Verður húsnæði Bergiðjunnar nýtt undir starfsemi á vegum Landspítala eða verður það selt eða leigt?
    Endanleg niðurstaða um nýtingu húsnæðis liggur ekki fyrir.