Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 575. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 949  —  575. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar um slit flutningabíla á vegum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu hlutfallslega mikið meira slítur flutningabíll vegum landsins en meðalfólksbíll, miðað við að flutningabíllinn hafi 80% hleðslu, bæði með og án tengivagns, og fólksbíllinn sé 1.800 kg?

    Vegir eru í grófum dráttum gerðir úr burðarlagi annars vegar og slitlagi hins vegar. Slitlagið getur síðan verið annaðhvort bundið eða óbundið, þ.e. malarslitlag.
    Ætla má að stærðargráða niðurbrots vega (þ.e. burðarþolslega) sé hlutfallslega eftirfarandi:
    Ein ferð flutningabíls án tengivagns með 80% hleðslu gæti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 9.000 ferðir 1.800 kg fólksbifreiðar.
    Ein ferð flutningabíls með tengivagn og 80% hleðslu gæti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 12.000 ferðir 1.800 kg fólksbifreiðar.
    Aukið niðurbrot þungra bifreiða á vegum, umfram það niðurbrot sem léttari bifreiðar valda, byggist á því að við ákveðin þyngdarmörk margfaldast áhrif á burðarlag vegarins. Niðurbrotsáhrif þungra bifreiða á burðarþol vega geta verið breytileg, m.a. eftir styrkleika vegar og búnaði ökutækja. Þannig verður hlutfallslegt niðurbrot þungrar bifreiðar meira á vegi með veika uppbyggingu heldur en á vegum með sterka uppbyggingu. Fjöðrunarbúnaður, hjólbarðar og gerð ökutækis getur einnig haft mismunandi áhrif á niðurbrot. Það svar sem hér er gefið byggist á einföldu módeli af þeim aðstæðum sem taldar eru dæmigerðar hér á landi.
    Ef horft er til slits nagladekkja á bundnum slitlögum má ætla að það geti verið um fjórum sinnum meira, miðað við hvert dekk flutningabílsins, en getur verið háð ýmsum forsendum, svo sem þyngd nagla, gerð slitlags o.fl.