Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 979  —  397. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rósu Guðbjartsdóttur um sykurneyslu og forvarnir.

     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum forvörnum og fræðslu í ljósi þess að sykurneysla íslenskra ungmenna er sú mesta á Norðurlöndum og offita að verða eitt stærsta heilbrigðisvandamál Vesturlanda?
    Ráðherra kynnti í upphafi starfa sinna að hann hygðist leggja mikla áherslu á að móta og hrinda í framkvæmd heilsustefnu og aðgerðaáætlun, sem m.a. er ætlað að taka til þeirra lýðheilsuvandamála sem nú eru brýnust hér á landi. Það gefur auga leið að neysluvenjur og hluti af afleiðingum þeirra, þ.e. offita barna, er eitt þessara mála. Drög að heilsustefnunni og hluti að aðgerðaáætlun verða kynnt í júní, og fullunnin í framhaldi af því.
    Lýðheilsustöð leggur vaxandi áherslu á þennan þátt, en á vegum hennar er brugðist við þessum vanda með ýmsu móti. Þá hafa heilsugæslustöðvar og aðrar stofnanir heilbrigðisþjónustunnar lagt vaxandi áherslu á þennan þátt.
    Þessar áherslur eru í samræmi við ýmsar mælingar sem fram hafa komið á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að samkvæmt tölum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (2004–2006) eru tæplega 21% barna á grunnskólaaldri yfir kjörþyngd. Tíðni ofþyngdar og offitu meðal barna og unglinga hefur aukist á undanförnum árum auk þess sem glerungseyðing tanna er vaxandi vandi samkvæmt niðurstöðum Munnís-rannsóknarinnar.

     2.      Hyggst ráðherra bregðast við þeim staðreyndum að óhófleg sykurneysla barna og unglinga tengist aðallega gosdrykkjum og sælgæti, og að viðbættur sykur er í umtalsverðu magni í ýmsum öðrum matvælum sem oft eru gefin ungum börnum, t.d. svaladrykkjum, mjólkurvörum og morgunkorni?
    Rannsóknir á næringu barna og unglinga sem gerðar hafa verið á undanförnum árum á Rannsóknarstofu í næringarfræði hjá Landsspítalanum og Háskóla Íslands hafa sýnt að sykurneysla eykst með aldrinum og að viðbættur sykur í fæðu grunnskólabarna kemur að stórum hluta úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti, ís, kexi og kökum. Börn og ungmenni á Íslandi drekka of mikið af sykruðum gos- og svaladrykkjum. Níu ára börn drekka að meðaltali 2,5 lítra af gos- og svaladrykkjum á viku og 15 ára börn tæplega 4 lítra á viku. Öll met slá svo drengir á aldrinum 15–19 ára en þeir drukku að meðaltali tæpan lítra á dag samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði frá 2002.
    Ráðherra telur að það skipti miklu máli hversu heilsusamlegt það umhverfi er sem við búum börnum okkar bæði heima og í skóla, hvað varðar mataræði og hreyfingu. Skóladagurinn hefur lengst og því er mikilvægt að börnum standi til boða hollur matur í skóla á öllum skólastigum, þ.e. allt frá leikskóla að háskóla. Hollur matur í skóla er mikilvæg forvarna- og heilsueflingaraðgerð gegn offitu barna og unglinga, auk þess sem góð máltíð bætir skólastarf og starfsgetu nemenda. Þegar ætlunin er að stuðla að bættu mataræði og hollustu fæðunnar er mikilvægt er að taka mið af helstu áhrifaþáttum og tryggja þátttöku sem flestra, svo sem ríkisins og stofnana á vegum þess, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, ,,grasrótarinnar“, einstaklinga og fjölskyldna.
    Grunnskólar og leikskólar heyra undir sveitarfélögin og er stefna þeirra misjöfn hvað þetta varðar. Ráðherra telur mikilvægt að sveitarfélögin marki sér skýra stefnu í þessum málum og er til þess tekið í heilsustefnu og aðgerðaráætluninni sem henni mun fylgja. Því mun ráðuneytið hvetja til samvinnu menntamálayfirvalda, þeirra sem fara með málefni sveitarfélaga og Lýðheilsustöðvar til að finna leiðir til að tryggja að mötuneyti/eldhús í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og framhaldsskólum landsins bjóði upp á hollan mat, og að þau séu hvött að fara eftir handbókum Lýðheilsustöðvar fyrir leik- og grunnskólamötuneyti.
    Á vegum Lýðheilsustöðvar hefur verið starfrækt verkefnið Allt hefur áhrif – einkum við sjálf en það er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og 25 sveitarfélaga á Íslandi. Markmið verkefnisins er að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og góða næringu. Leitast er við að auka þekkingu fólks á þeim þáttum sem þarna hafa áhrif, auk þess að stuðla að bættri aðstöðu til almennrar heilsueflingar. Sveitarfélög, sem taka þátt í verkefninu, móta eigin stefnu og aðgerðaáætlun um aukna hreyfingu og bætta næringu barna í sinni heimabyggð í samræmi við eigin þarfir og aðstæður. Lýðheilsustöð kemur að verkefninu með ráðgjöf og fræðslu og metur árangur verkefnisins á hverjum stað.
    Jafnframt er mikilvægt að auka fræðslu til barna, unglinga og foreldra þeirra um næringu, þ.m.t. um áhrif mikillar gos- og sælgætisneyslu á heilsu. Þetta er að hluta til unnt að gera í tengslum við verkefnið „6 H heilsunnar“ (hvíld – hreyfing – hollur matur – hreinlæti – hamingja – hugrekki og kynheilbrigði) en það er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Útbúið er fræðsluefni fyrir grunnskólabörn (6–16 ára) um málaflokkana og er áherslan mismunandi eftir aldri barnanna. Einnig er sent fréttabréf til foreldra þar sem fram koma áherslur fræðslunnar. Skólahjúkrunarfræðingar annast fræðsluna, sem er samræmd á landsvísu. Dæmi um fræðsluefni sem unnið hefur verið fyrir börnin um næringu eru myndir sem sýna dæmi um magn af viðbættum sykri í ýmsum vöruflokkum, en þessar myndir voru gerðar til að efla færni barna í fæðuvali.
    Auk þessa er skynsamlegt að efla það starf sem unnið hefur verið í skólum á þessu sviði t.d. í heimilisfræði og lífsleikni, auk heilsueflingar almennt.
    Þá gaf Lýðheilsustöð árið 2007 út bókina „Holdafar heilsuhagfræðileg greining“ eftir Tinnu Ásgeirsdóttur, en þar er lögð fram greining á stöðunni hér og margvíslegar tillögur til úrbóta. Bókinni er ætlað að leggja grunn að áframhaldandi vinnu á þessu sviði.
    Starfandi hefur verið vinnuhópur á vegum landlæknisembættisins sem hefur það að markmiði að koma með tillögur um hvernig samræma megi stefnu og aðgerðir sem nýta sem best krafta og þekkingu heilbrigðiskerfisins til að sporna við þróun ofþyngdar og offitu barna og unglinga.
    Mikilvægt er að yfirvöld séu í góðri samvinnu við matvælaiðnaðinn sem og frjáls félagasamtök í landinu. Haldið var málþing í mars 2007 þar sem Lýðheilsustöð, heilbrigðisráðuneytið og Samtök iðnaðarins komu saman undir yfirskriftinni: Samstarf um aukið framboð á hollum matvörum – Markaðssetning, vöruþróun og skammtastærðir. Ráðherra mun hvetja til frekara samstarfs yfirvalda og iðnaðar um þessi mál en fyrirtæki á matvælasviði gegna mikilvægu hlutverki allt frá framleiðslustigi til smásölu.
    Á fundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var þann 13. september sl. undirrituðu forsvarsmenn stærstu smásöluverslana landsins yfirlýsingu um að leggja áherslu á hollustuvörur í verslunum sínum og áskorun til stjórnvalda um að stuðla að úrbótum á sviði hollustu. Í yfirlýsingunni kom einnig fram að verslunin ætlaði einnig að stuðla að aukinni hreyfingu bæði viðskiptamanna og starfsmanna. Ráðherra fagnar þessu framtaki alveg sérstaklega og væntir mikils af því.
    Bæta má umbúðarmerkingar matvæla og uppfræða neytendur betur um þær þannig að þeir eigi auðveldara með að velja hollari valkostinn við innkaup. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur hvetja slíkar merkingar matvælafyrirtæki til að þróa hollari vörur. Nýstofnuð Matvælastofnun hefur umsjón með reglum um merkingar matvæla.
    Næringargildismerking matvara, þ.m.t. magn viðbætts sykurs, er forsenda þess að auðvelda neytendum að velja hollari vörur almennt. Ísland getur þó ekki sett einhliða reglur um að næringargildismerking verði skyldumerking á umbúðum þar sem okkur er skylt að fylgja reglugerðum og tilskipunum frá Evrópusambandinu tengt merkingum á matvælum. Slík tilskipun er í endurskoðun hjá Evrópusambandinu eins og stendur. Þess má geta að norræna ráðherranefndin hefur hvatt Norðurlöndin til þess að stuðla að því að næringargildismerkingar verði skylda í löndum Evrópusambandsins og EES.
    Komið hefur fram frumvarp á Alþingi um að takmarka auglýsingar á óhollum matvörum sem beint er að börnum en rannsóknir hafa sýnt að matarauglýsingar hafa áhrif á val barna og foreldra þeirra á matvælum, innkaupavenjur og neyslu. Íslensk rannsókn sýndi að í kringum barnatíma í sjónvarpi voru eingöngu auglýstar óhollar matvörur á borð við sykraða svaladrykki, sykrað morgunkorn, skyndibita, sælgæti og pylsur. Ráðherra telur að auglýsendur og fjölmiðlar eigi að gera sér betri grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að beina auglýsingum að börnum og í það minnsta ætti ríkisfjölmiðillinn að sýna gott fordæmi í þeim efnum.
    Af framansögðu má ljóst vera að mikil áhersla er nú þegar lögð á að bregðast við vaxandi vanda vegna ofþyngdar og óholls mataræðis á vegum heilbrigðisþjónustunnar. Það er þó einnig jafnljóst að betur má ef duga skal.
    Ráðherra leggur því áherslu á að í heilsustefnunni og aðgerðaráætlun sem um getur hér að framan verði tekið mið af þeim vanda sem offita og ofþyngd hefur í för með sér og að aukin sykurneysla þjóðarinnar verði sett undir smásjána.