Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.

Þskj. 28  —  28. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki skulu greiða 0,00603% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,408% af bókfærðum iðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,215% af þeim iðgjöldum sem miðlað hefur verið á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 300.000 kr.
     4.      Verðbréfafyrirtæki skulu greiða 0,064% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     5.      Verðbréfamiðlanir skulu greiða 0,064% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     6.      Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,006% af eignum rekstrarfélags og viðkomandi sjóða samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,84% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     8.      Kauphallir, skipulegir verðbréfamarkaðir og markaðstorg fjármálagerninga skulu greiða 0,61% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     9.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00923% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 750.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 1.220.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 2.130.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum til tuttugu og fimm milljarða króna, 3.970.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum til eitt hundrað milljarða króna og 4.580.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við hreina eign til greiðslu lífeyris.
     10.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
     11.      Íbúðalánasjóður skal greiða 0,0028% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     12.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Eignarhaldsfélög á fjármálasviði, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög, blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi skulu greiða fastagjald sem nemur 1.500.000 kr.
    Útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, skulu greiða fastagjald tengt fjárhæð markaðsvirðis útgefinna hlutabréfa sinna. Greiða skal 350.000 kr. fastagjald vegna hlutabréfa að markaðsvirði undir fimm milljörðum króna, 1.000.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá fimm til tuttugu og fimm milljarða króna, 3.000.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá tuttugu og fimm til eitt hundrað milljarða króna, 5.900.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá eitt hundrað til fimm hundruð milljarða króna og 8.500.000 kr. vegna hlutabréfa með markaðsvirði yfir fimm hundruð milljarða króna.
    Útgefendur skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, skulu greiða fastagjald tengt fjárhæð markaðsvirðis útgefinna skuldabréfa sinna. Greiða skal 100.000 kr. fastagjald vegna skuldabréfa að markaðsvirði undir einum milljarði króna, 170.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá einum til fimm milljarða króna, 380.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá fimm til tíu milljarða króna, 660.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá tíu til fimmtíu milljarða króna, 1.050.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá fimmtíu til tvö hundruð milljarða króna og 1.200.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði yfir tvö hundruð milljarða króna.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, segir:
    „Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Áætlað álagt eftirlitsgjald á árinu 2008 er 915 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 1.116 millj. kr. árið 2009 og nemur áætluð hækkun á milli ára 201 millj. kr. eða um 22%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2008 er 904 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2009 nemur 1.192 millj. kr. sem er hækkun um 288 millj. kr. eða tæp 32%.
    Engum blandast hugur um nauðsyn öflugs eftirlits með starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaði. Til þess að svo megi vera verður eftirlitsaðilinn að vera vel búinn hvað búnað og aðstöðu varðar og hafa yfir að ráða nægu, vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem er bært til þess að leggja mat á stöðu eftirlitsskyldra aðila og framfylgni reglna á hverjum tíma. Hremmingar sem fjármálafyrirtæki um heim allan hafa lent í undanfarin missiri kalla enn fremur á öfluga eftirlitsaðila. Aukin eftirlitsverkefni erlendis, fjölþættari starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja, aukin þátttaka í samstarfi við erlenda eftirlitsaðila og ný verkefni sem löggjafinn hefur falið Fjármálaeftirlitinu gera það enn fremur nauðsynlegt að efla enn starfsemi þess. Að auki er stefnt að því að Fjármálaeftirlitið flytji í nýtt og hentugra húsnæði á árinu 2009.
    Í fylgiskjali I, skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2009, er að finna sundurliðun einstakra kostnaðarliða. Til frekari glöggvunar er hér gerð grein fyrir helstu kostnaðarliðum í rekstri Fjármálaeftirlitsins, samkvæmt áætlun fyrir árið 2009:
     Launakostnaður.
    Laun og launatengd gjöld eru áætluð 882,7 millj. kr. árið 2009 samanborið við 675,7 millj. kr. samkvæmt áætlun 2008. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 207 millj. kr. eða 30,6%. Viðskiptaráðherra ákvarðar laun stjórnarmanna og verða þau 10,8 millj. kr. á árinu 2009 samanborið við 10,4 millj. kr. árið 2008. Nánari sundurliðun á hækkun launakostnaðar er að finna í skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2009 og rök fyrir þörf á viðbótarstarfsmönnum er að finna í fylgiskjali skýrslunnar (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).
     Húsaleiga og rekstur á húsnæði.
    Stefnt er að flutningi Fjármálaeftirlitsins í hentugra húsnæði í byrjun júní 2009. Leiguverð hækkar þá töluvert frá endurskoðaðri áætlun 2008 þar sem nýtt húsnæði verður stærra enda rúmar núverandi húsnæði Fjármálaeftirlitsins ekki starfsemi þess. Samtals er kostnaður vegna húsaleigu og reksturs húsnæðis áætlaður 57,5 millj. kr. á árinu 2009 samanborið við 34,5 millj. kr. á árinu 2008 sem er hækkun um 66,7%.
     Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir að rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála hækki um 12,5 millj. kr., eða um 17,9%, úr 70 millj. kr. áætlun fyrir árið 2008 í 82,5 millj. kr. á árinu 2009. Hækkunin stafar fyrst og fremst af verðhækkunum á vélbúnaði, notendahugbúnaði og rekstrarvörum vegna gengisbreytinga og fjölgunar starfsmanna.
     Ferðakostnaður erlendis.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður erlendis hækki um 17,9% milli ára og verði 33,0 millj. kr. Gert er ráð fyrir 200 ferðum á næsta ári á móti rúmum 180 árið 2008. Fjölgunin skýrist af auknum umsvifum viðskiptabanka og vátryggingafélaga erlendis og auknu samstarfi eftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Rekstrarkostnaður samtals.
    Samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda er áætluð 1.192,2 millj. kr. á árinu 2009 samanborið við 904,3 millj. kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2008 eða 31,8% hækkun milli ára.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að álagt eftirlitsgjald verði 1.116 millj. kr. árið 2009 og er skipting þess milli flokka eftirlitsskyldra aðila byggð á mati sem grundvallast á tímaskráningu Fjármálaeftirlitsins.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir óbreyttum lágmarksgjöldum á fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög, kauphallir og aðra skipulega verðbréfamarkaði, verðbréfamiðstöðvar vátryggingafélög, vátryggingamiðlara, og Íbúðalánasjóð. Sama á við um fastagjöld á innlánsdeildir samvinnufélaga, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóði samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Breytingar eru hins vegar gerðar á þrepaskiptum fastagjöldum lífeyrissjóða samkvæmt frumvarpinu en miðað er við að hlutur þessara gjalda verði hverju sinni um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða. Þá er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir breytingu á þrepaskiptum fastagjöldum á útgefendur hluta- og skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar beri um 9% af álögðu eftirlitsgjaldi á árinu 2009 og er öll álagningin samkvæmt þrepaskiptu gjaldi.
    Með innheimtulögum, nr. 95/2008, sem taka gildi í ársbyrjun 2009, og samþykkt voru á Alþingi þann 29. maí 2008, er Fjármálaeftirlitinu falið að fara með leyfisveitingar og eftirlit vegna innheimtustarfsemi. Skulu þeir aðilar sem eftirlitið nær til taka þátt í greiðslu rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins með greiðslu eftirlitsgjalds. Eftirlit þetta tekur til tilgreindrar starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Þessir aðilar þurfa þó ekki sérstakt starfsleyfi vegna innheimtustarfseminnar. Umsóknir um innheimtuleyfi liggja ekki enn fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu og ekki er enn ljóst hve margir aðilar eða hverjir munu sækjast eftir slíku leyfi. Forsendur til álagningar eftirlitsgjalds með tilvísun til innheimtulaganna eru því óljósar og er slík álagning því ekki lögð til í frumvarpinu. Nefna ber hins vegar að samkvæmt rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir tveimur nýjum stöðugildum vegna eftirlits samkvæmt innheimtulögum á árinu 2009.
    Með frumvarpi þessu eru birt sem fylgiskjöl gögn sem tilheyra rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009. Þau eru eftirfarandi:
     I.      Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2009, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     II.      Sérstök skýrsla, „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.“ Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2009.
     III.      Umsögn samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila „Um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009.“
    Í þessum gögnum er að finna nánari sundurgreiningu á einstökum kostnaðarliðum, umfram það sem að framan greinir, auk margvíslegra upplýsinga er varða verkefni og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins og varpa nánara ljósi á rekstrartölurnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breytingar skv. 1. mgr. á álagningarhlutföllum frá gildandi lögum skýrast af lögbundnu endurmati á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna eftirlitsskyldra aðila og mati á kostnaðardreifingu, sbr. fylgiskjal I með frumvarpinu. Þannig er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja og rekstrarfélaga lækki, álagningarhlutföll vátryggingamiðlara, kauphalla og verðbréfamiðstöðva haldist óbreytt en álagningarhlutföll annarra aðila, þ.e. vátryggingafélaga, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs hækki. Til einföldunar gerir frumvarpið ráð fyrir að 4. tölul. verði skipt upp til þess að samkynja aðilar falli undir sjálfstæða töluliði. Breyting þessi leiðir af sér breytt númer þeirra töluliða sem á eftir koma. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. er gert ráð fyrir að felld verði brott tvískipting álagningarhlutfalls samkvæmt töluliðnum og sama álagningarhlutfall verði á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki. Með breytingu á lögum nr. 99/1999 sem tóku gildi í ársbyrjun 2008 var gerð sú breyting að greint var á milli viðskiptabanka og annarra lánastofnana í álagningu eftirlitsgjalds með mismunandi álagningarhlutföllum. Forsendur, studdar niðurstöðum úr tímaskráningu Fjármálaeftirlitsins, gefa ekki tilefni til áframhalds slíkrar skiptingar. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að allar lánastofnanir beri sama álagningarhlutfall.
    Samkvæmt 9. tölul. 1. mgr. (6. tölul. 1. mgr. í gildandi lögum) er gert ráð fyrir hækkunum á fastagjöldum lífeyrissjóða sem eru eins og fyrr í fimm þrepum og er lægsta þrepið samkvæmt frumvarpinu nú 750.000 kr. en það hæsta 4.580.000 kr. Breytingar eru miðaðar við að hlutur fastagjaldanna verði um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða.
    Ákvæði 2. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum.
    Frumvarpið leggur til að felld verði brott 3. mgr. laganna sem kveður á um lægra eftirlitsgjald á dótturfélag eftirlitsskylds aðila í sömu starfsemi. Reynsla Fjármálaeftirlitsins sýnir að eignarhald starfsleyfisskyldra aðila er hverfandi þáttur varðandi eftirlitsframkvæmd og sanngjarna skiptingu eftirlitskostnaðar. Samlegðaráhrif eða sparnaður í eftirliti sem tengist eignarhaldi er því takmarkaður. Einnig er rétt að nefna að „afsláttur“ af eftirlitsgjaldi samkvæmt gildandi ákvæði deilist í raun alltaf á önnur fjármálafyrirtæki við hverja álagningu eftirlitsgjalds. Við álagningu eftirlitsgjalds á árinu 2008 snerti ákvæðið aðeins eitt lánafyrirtæki.
    Ákvæði 3. mgr. (4. mgr. samkvæmt gildandi lögum) er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 4. mgr. (5. mgr. samkvæmt gildandi lögum) er kveðið á um fastagjald í fimm þrepum á útgefendur hlutabréfa þar sem lægsta þrepið er 350.000 kr. og það hæsta 8.500.000 kr. Í öllum tilvikum er um að ræða nokkra hækkun frá gildandi ákvæði, sem skýrist bæði af hækkun á eftirlitskostnaði og því að eftirlitskostnaður tengdur útgefendum hlutabréfa deilist á færri aðila en áður.
    Í 5. mgr. (6. mgr. samkvæmt gildandi lögum) er kveðið á um fastagjald á útgefendur skuldabréfa í sex þrepum þar sem lægsta þrepið er 100.000 kr. en það hæsta 1.200.000 kr. Í öllum tilvikum, nema hvað varðar lægst þrepið, er um að ræða nokkra hækkun frá gildandi ákvæði, sem skýrist fyrst og fremst af hækkun á eftirlitskostnaði.
    Ákvæði 6. mgr. (7. mgr. í gildandi lögum) er óbreytt frá gildandi lögum.
    Að öðru leyti en greint er frá hér á undan eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á 5. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins
árið 2009, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar
við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

(3. júlí 2008.)

    Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, er viðskiptaráðherra hér með send rekstraráætlun fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2009. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júlí ár hvert gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Umrót og erfiðleikar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum frá hausti 2007 hafa haft töluverð áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins og má búast við að svo verði áfram, en í kjölfar þessa má ætla að eftirlitsreglur og -framkvæmd á alþjóðlegum fjármálamörkuðum verði endurskoðaðar. Erfiðleikarnir og sú athygli sem beinst hefur að íslensku fjármálafyrirtækjunum staðfesta mikilvægi öflugs fjármálaeftirlits og nauðsyn þess að eftirlitið haldi áfram að eflast til að sinna sífellt vaxandi og alþjóðlegum verkefnum.
    Fjármálaeftirlitið hefur, í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2009. Átti Fjármálaeftirlitið fundi með nefndinni þann 2. júní s.l. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2009. Samráðsnefndin skilaði drögum að skriflegu áliti til Fjármálaeftirlitsins um drögin að rekstraráætluninni þann 21. júní sl. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um álit nefndarinnar á stjórnarfundi þann 25. júní sl. og staðfesti meðfylgjandi rekstraráætlun. Samráðsnefndin skilaði síðan endanlegu áliti sínu á rekstraráætluninni þann 3. júlí sem fylgir hjálagt með skýrslunni.
    Auk forsendna fyrir rekstraráætlun ársins 2009 og tillögum um álagningu eftirlitsgjalds á því ári er í skýrslu þessari að finna stutta greinargerð um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2007 og umfjöllun um rekstraráætlun vegna ársins 2008. Áætlunin sýnir nokkra aukningu frá fyrra ári sem skýrist af áætluðum flutningi í nýtt og stærra húsnæði, sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlun ársins 2008, en síðan breytt við endurskoðun nú þar sem ljóst er að ekki verður af flutningi stofnunarinnar á árinu. Ennfremur hækkar kostnaður vegna fjölgunar starfsmanna og kostnaðar sem leiðir af því. Athygli er vakin á að í áætlun fyrir árið 2009 er verið að horfa allt að 18 mánuði fram í tímann varðandi umsvif í rekstri Fjármálaeftirlitsins.
    Skýrslunni fylgja einnig þrjár töflur þar sem gerð er grein fyrir rekstri Fjármálaeftirlitsins á árinu 2007 og samanburði við rekstraráætlun fyrir það ár (tafla 1), áætluðu rekstrarumfangi næsta árs og rekstri Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári (tafla 2) og áætlaðri álagningu eftirlitsgjalds miðað við áætlað rekstrarumfang 2009 (tafla 3). Ársreikningur Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007 er einnig meðfylgjandi.

1.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2007
    Tekjur af eftirlitsgjaldi á árinu 2007 námu 602,6 m.kr. Ýmsar tekjur námu 14,5 m.kr. og fjármunatekjur nettó námu 19,7 m.kr. Rekstrargjöld, að meðtöldum eignakaupum, námu 598,1 m.kr. Tekjuafgangur samkvæmt rekstrarreikningi nam 38,8 m.kr. Eignir í árslok 2007 námu samtals 97,6 m.kr. og skuldir 9,8 m.kr. þannig að eigið fé í árslok nam 87,7 m.kr.
    Í rekstraráætlun fyrir árið 2007 frá árinu 2006 var gert ráð fyrir 17,7 m.kr. tekjuhalla af rekstri stofnunarinnar sem jafnaði út eigin fé í árslok. Eigið fé í árslok 2006 varð hins vegar 49,0 m.kr. og er sú breyting skýrð í skýrslu til viðskiptaráðherra með rekstraráætlun ársins 2008. Rekstraráætlunin ársins 2007 var endurskoðuð á miðju ári 2007 við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2008 og var þá gert ráð fyrir 1,7 m.kr. tekjuafgangi á árinu og 50,7 m.kr. eigin fé í árslok. Endanlegur tekjuafgangur ársins 2007 varð 38,8 m.kr. og eigið fé í árslok 87,7 m.kr. Í yfirlitinu hér á eftir er greint hvernig frávik rekstraráætlunar frá rauntölum skiptast á helstu liði rekstraráætlunar. Þar sést að tekjur á árinu 2007 urðu 21,6 m.kr. hærri en áætlað var þar og munar þar mestu um vaxtatekjur og aðrar tekjur sem fjármálaeftirlitið hafði vegna vinnu samkvæmt gjaldskrá. Þá var launakostnaður á árinu 34,9 m.kr. lægri en áætlað var sem skýrist fyrst og fremst af tímatöf við ráðningu starfsmanna, starfsmannaveltu og lægri tímabundnum launakostnaði vegna nýráðninga. Lækkun á öðrum gjöldum, alls 15,5 m.kr., skýrist að stórum hluta af því að húsaleiga og útgjöld vegna húsbúnaðar urðu lægri en áætlað var þar sem ekki tókst að finna stofnuninni viðunandi húsnæði á árinu eins og áætlað hafði verið.

Yfirlit 1.
Rekstraráætlun Upphafleg Endursk. Frávik frá Frávik frá
vegna 2007 áætlun áætlun Rauntölur upphafl. endurskoð.
m.kr. (ágúst 2006) (maí 2007) 2007 áætlun áætlun
Tekjur
    Eftirlitsgjald 599 ,9 601,9 602,6 2,7 0,7
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 5,9 -0,1 -0,1
    Aðrar tekjur 0 ,4 4,4 8,7 8,3 4,3
    Vaxtatekjur nettó 3 ,0 3,0 19,7 16,7 16,7
609,3 615,3 636,9 27,6 21,6
Gjöld
    Launakostnaður 454 ,8 457,8 422,9 -31,9 -34,9
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 5,9 -0,1 -0,1
    Önnur gjöld samtals 166 ,3 149,8 169,3 3,0 19,5
627,1 613,6 598,1 -29,0 -15,5
Tekjuafgangur -17,8 1,7 38,8 56,6 37,1
Yfirfært frá fyrra ári 0,0 49,0 49,0 49,0 0,0
Eigið fé í árslok 0,0 50,7 87,7 87,7 37,0

    Með lögum nr. 168/2006 var Fjármálaeftirlitinu heimilað að mynda varasjóð samsvarandi rekstrarafgangi umfram áætlun sem skerðist ekki þótt síðar verði rekstrartap af starfseminni. Hámark slíks varasjóðs er 5% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs 1 og er heimilt að nýta viðkomandi sjóð til að fjármagna útgjöld umfram áætlanir vegna ófyrirséðra atvika. Varasjóðurinn stóð í 30 m.kr. eftir uppgjör ársins 2006. Rekstrarafgangur á árinu 2007 umfram upphaflega áætlun telst vera 56,6 m.kr. samanber framangreint yfirlit. Á árinu 2008 hækkar því umræddur varasjóður úr 30 m.kr. í 45,7 m.kr. Afgangur sem ekki verður lagður í varasjóð dregst frá álagningu eftirlitsgjalds næsta árs á eftir.
    Um rekstur og efnahag Fjármálaeftirlitsins á árinu 2007 er að öðru leyti vísað til ársreiknings Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007.

2.     Rekstraráætlun vegna ársins 2008
    Í tengslum við gerð rekstraráætlunar næsta árs hefur Fjármálaeftirlitið á hverju ári skoðað hvort ástæða sé til að endurskoða upphaflega rekstraráætlun yfirstandandi árs í því skyni að áætla eins og kostur er stöðu í lok árs sem yfirfærist til næsta árs og hefur áhrif á ákvörðun um álagningarhlutföll þess árs. Með hliðsjón af bráðabirgða rekstraruppgjöri fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins telur Fjármálaeftirlitið ástæðu til að endurskoða upphaflega áætlun um rekstrarkostnað fyrir árið 2008 vegna: a) húsaleigu og húsfélags, sem lækkar um 24 m.kr. frá upphaflegri áætlun vegna dráttar á flutningi í nýtt húsnæði. Ríkiskaup auglýstu á árinu 2007 í tvígang eftir nýju leiguhúsnæði fyrir Fjármálaeftirlitið til afhendingar á árinu 2008 en þær auglýsingar skiluðu ekki árangri. Gert hafði verið ráð fyrir að flytja í nýtt og stærra húsnæði með dýrari leigu í byrjun mars en ljóst er nú að sú áætlun gengur ekki eftir á árinu 2008. Hins vegar er nú gert ráð fyrir tímabundinni leigu viðbótarhúsnæðis í sömu byggingu frá miðju ári 2008. Enn er leitað að hentugu húsnæði fyrir stofnunina í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins, b) rafmagn lækkar um 1.9 m.kr. frá áætlun þar sem ekki varð af stækkun húsnæðisins og c) eignakaup lækka um 17 m.kr. þar sem ekki verða keypt þau húsgögn og búnaður á árinu 2008 sem áætlað hafði verið vegna áðurnefnds flutnings. Alls lækka því rekstrargjöld ársins um 42.9 m.kr. við þessa endurskoðun áætlunarinnar.
    Samtals breytist tekjuafgangur frá upphaflegu áætluninni úr -20,7 m.kr. í 21,2 m.kr. eða 41,9 m.kr. hærri tekjuafgangur. Þá reyndist eigið fé í ársbyrjun 2008 vera 87,7 m.kr. í stað 50,7 m.kr. eða 37 m.kr. hærra. Eigið fé í árslok 2008 verður því samtals 108,9 m.kr. (87,7+21,2) í stað 30 m.kr. eins og upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Í eftirfarandi yfirliti er gerð grein fyrir helstu rekstrarstærðum vegna rekstraráætlunar 2008.

Yfirlit 2.
Rekstraráætlun
vegna 2008
m.kr.
Rekstrar-
áætlun
(maí 2007)
Endursk.
áætlun
(maí 2008)
Frávik frá upphafl. áætlun (des´07)
Tekjur
    Eftirlitsgjald 915 ,0 915,0 0,0
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 0,0
    Aðrar tekjur 0 ,5 0,5 0,0
    Vaxtatekjur nettó 10 ,0 10,0 0,0
931,5 931,5 0,0
Gjöld
    Launakostnaður 691 ,1 692,1 0,0
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 0,0
    Önnur gjöld samt. 255 ,1 212,1 -43,0
952,2 910,2 -42,0
Tekjuafgangur -20,7 21,2 41,9
Yfirfært frá fyrra ári 50,7 87,7 37,0
Eigið fé í árslok 30,0 108,9 78,9

3.     Rekstraráætlun fyrir árið 2009
    Til að efla starfsemi Fjármálaeftirlitsins og gera því betur kleift að sinna auknum verkefnum og eftirliti með alþjóðlegri starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja er nauðsynlegt að kostnaður við rekstur þess aukist nokkuð. Stafar slíkt einkum af fjölgun starfsmanna vegna nýrra verkefna sem löggjafinn hefur falið Fjármálaeftirlitinu, frekari eftirlitsverkefnum erlendis vegna fjölþættrar starfsemi íslensku fyrirtækjanna og vaxandi nauðsyn á skyldubundinni þátttöku og auknu frumkvæði í samstarfi við erlenda eftirlitsaðila. Að auki er stefnt að því að Fjármálaeftirlitið flytji í nýtt húsnæði á árinu 2009.

Launakostnaður
    Fjöldi starfsmanna ræður mestu um helstu rekstrarstærðir Fjármálaeftirlitsins, þ.e. laun og launatengd gjöld, húsnæðisþörf og umfang tölvubúnaðar. Gert er ráð fyrir 7,8 nýjum stöðugildum á árinu 2009. Áætlað er að fjöldi stöðugilda í árslok 2008 verði 56,4 og 64,2 í lok árs 2009. Gert er ráð fyrir að aukning á árinu 2009 reiknist frá byrjun ársins. Í framangreindum tölum eru ekki meðtaldir lausráðnir starfsmenn, að jafnaði 5 á árinu 2009. Nánar er fjallað um rökin fyrir þörf á aukningu nýrra starfsmanna í fylgiskjali ( Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).
    Í töflu 2 kemur fram að laun og launatengd gjöld eru áætluð 882,7 m.kr. árið 2009 samanborið við 675,7 m.kr. samkvæmt áætlun 2008. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 207 m.kr. eða 30,6%. Nánari sundurgreining á hækkuninni er eftirfarandi: 1) fyrirséðar samningsbundnar launahækkanir m.v. 1. janúar 2009 (u.þ.b. 4,5%) og áhrif launahækkana í samræmi við heimildir rekstraráætlunar 2008 reiknast vera 116 m.kr. Rétt er að benda á að kjarasamningar eru lausir á árinu 2008 og því erfitt að áætla þessa fjárhæð, 2) 74 m.kr. vegna fjölgunar starfsmanna á árinu 2009 eins og gerð er grein fyrir hér að ofan, 3) 17,0 m.kr., sem áætlað svigrúm til að bregðast við óvæntum útgjöldum og minnka líkur á hreyfingum góðra starfskrafta.
    Gert er ráð fyrir að íþrótta- og gististyrkur hækki um 1,4 m.kr. eða um 23,3% og er þar haft til hliðsjónar kostnaður vegna árskorts í líkamsræktarstöð og vikudvalar í sumarhúsi og ennfremur fjölgun starfsmanna og áætluð nýting á styrknum.
    Viðskiptaráherra ákvarðar laun stjórnarmanna og verða þau 10,8 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 10,4 m.kr. árið 2008.

Húsaleiga og rekstur á húsnæði
    Húsaleiga í núverandi húsnæði byggir á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlunin gerir ráð fyrir að flutt verði í nýtt húsnæði í byrjun júní 2009. Leiguverð hækkar þá töluvert frá endurskoðari áætlun 2008 þar sem nýtt húsnæði verður stærra og leiguverð hærra. Gerð var ítarleg grein fyrir húsnæðismálum stofnunarinnar í fylgiskjali með rekstraráætlun fyrir árið 2008 „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.“
    Áætluð stærð nýs húsnæðis byggir á fyrirliggjandi húsrýmisáætlun með hliðsjón af tilboði í leiguhúsnæði. Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélagskostnað er byggð á reynslu og er tengd áætlaðri stærð nýs húsnæðis eftir flutning. Samtals er kostnaður vegna þessara liða áætlaður 57,5 m.kr. samanborið við 34,5 m.kr. á árinu 2008 sem er hækkun um 60%.

Rekstur tölvubúnaðar
    Gert er ráð fyrir að rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála hækki um 12,5 m.kr., eða um 17,9% úr 70 m.kr. áætlun fyrir árið 2008 í 82,5 m.kr. á árinu 2009. Hækkunin stafar fyrst og fremst af hækkunum á vélbúnaði, notendahugbúnaði og rekstrarvörum vegna fjölgunar starfsmanna og gengisbreytinga. Haldið er áfram uppbyggingu á upplýsingakerfum og rafvæðingu ferla. Sjá nánar kafla um nýtingu upplýsingatækni í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).

Sérfræðikostnaður
    Áætlað er að sérfræðikostnaður hækki úr 8 m.kr. árið 2008 í 10 m.kr. árið 2009 eða um 25%. Ástæður aukningarinnar eru fyrst og fremst aukning í útvistun verkefna.

Ferðakostnaður erlendis
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður erlendis hækki um 17,9% milli ára og verði 33,0 m.kr. Gert er ráð fyrir 200 ferðum á næsta ári á móti rúmum 185 árið 2008. Aukningin skýrist af auknum umsvifum íslenskra viðskiptabanka erlendis og auknu samstarfi eftirlita á evrópska efnahagssvæðinu. Ítarlega umfjöllun um þetta efni er að finna í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).

Þátttökugjöld vegna erlends samstarfs
    Fjármálaeftirlitinu ber í nokkrum tilvikum að greiða þátttökugjöld í erlendu samstarfi. Hæstu þátttökugjöldin eru vegna þriggja samevrópskra nefnda þ.e. reksturs Samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita ( e. Committee of European Securities Regulators – CESR), Samstarfsnefndar Evrópskra vátryggingaeftirlita og lífeyrissjóðaeftirlita ( e. Committee of European Insurance and Occupational Pension Supervisors – CEIOPS) og Samstarfsnefndar evrópskra bankaeftirlita ( e. Committee of European Banking Supervisiors – CEBS). Starfsemi þessara nefnda er kostuð af þátttakendum í tilteknum stærðarhlutföllum. Þátttökugjöld vegna þessara þriggja nefnda eru áætluð 5,0 m.kr. Þá má nefna þátttökugjald í Alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita ( e. International Association of Insurance Supervisors – IAIS) 1,2 m.kr. og þátttökugjald í Alþjóðasamtökum verðbréfaeftirlita ( e. International Oraganization of Securities Commissions – IOSCO) 1,2 m.kr. Samtals þátttökugjöld samkvæmt framangreindu eru 7,4 m.kr. Á árinu 2008 var sambærilegur kostnaður samtals 5,0 m.kr. Ástæður fyrir hækkuninni eru óhagstæð gengisþróun og að Fjármálaeftirlitið hefur til þessa ekki verið aðili að IOSCO.

Kostnaður vegna flutninga/eignakaupa
    Húsbúnaður stofnunarinnar er að stærstum hluta orðinn 10 ára gamall og þarfnast endurnýjunar samkvæmt mati verkfræðistofu. Er áætlaður kostnaður vegna þessa 27,5 m.kr. á árinu 2009, en búnaðurinn yrði endurnýjaður í tengslum við flutninga í nýtt húsnæði. Einnig er þar innifalinn 2 m.kr. kostnaður vegna endurnýjunar símabúnaðar. Þá áætlar Fjármálaeftirlitið 2,5 m.kr. í kostnað vegna húsnæðisöflunar og flutninga á árinu 2009.

Annar kostnaður
    Samtala kostnaðarliða sem ekki hefur verið gerð grein fyrir hér á undan er áætluð 70,9 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 60,7 m.kr. fyrir árið 2008 og nemur hækkunin 10,2 m.kr. eða 16,9%. Að hluta til stafar hækkunin milli ára á þessum kostnaðarliðum af áhrifum af fjölgun starfsmanna og fyrirhugaðri stækkun á húsnæði Fjármálaeftirlitsins. Í þessu sambandi má nefna að samkvæmt símenntunarstefnu Fjármálaeftirlitsins er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar nemi 3,5% af launum og launatengdum gjöldum. Innifalið í áætluðum endurmenntunarkostnaði er kostnaður vegna starfaskipta. Ekki er gert ráð fyrir sérgreindum lið vegna þessa heldur fellur þessi kostnaður undir liði 6, 7, 12, 18, 19 og 21.

Rekstrarkostnaður samtals
    Samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda er áætluð 1.192,2 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 904,3 m.kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2008 eða 31,8% hækkun milli ára.

Aðrar tekjur, vaxtatekjur
    Fjármálaeftirlitið fær vexti af innstæðum á reikningum sínum í Seðlabanka Íslands. Vaxtatekjurnar eru byggðar á áætlaðri meðalstöðu innstæðu m.v. álagningu sem miðast við drög að rekstraráætlun. Aðrar tekjur eru óverulegar eða um 1 m.kr. vegna yfirlestrar á útboðslýsingum félaga sem ekki eru skráð á Kauphöll Íslands hf. en um er að ræða tilfallandi tekjur sem óvarlegt er að reikna með í áætlun fyrir næsta ár. Fjármálaeftirlitið áskilur sér jafnframt rétt til að nýta heimildir í 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, og 3. m.gr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, til að innheimta sérstaklega útlagðan kostnað vegna umframeftirlits eða aðkeyptrar sérfræðiþjónustu vegna ákveðinna aðila.

4.     Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2009
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, skal Fjármálaeftirlitið í skýrslu þessari leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila. Þannig skal hliðsjón höfð af tímaskiptingunni á tilgreindu tímabili samhliða mati á þróun þessarar skiptingar fyrir líðandi ár og næsta fjárhagsár.
    Í töflu 3 sem er fylgiskjal með skýrslunni er sýnd tillaga (áætlun) Fjármálaeftirlitsins um skipting eftirlitsgjalds á árinu 2009 milli flokka eftirlitsskyldra aðila, sem gerð er með hliðsjón af framagreindu lagaákvæði. Í töflunni er einnig sýnd sambærileg skipting álagðs eftirlitsgjalds á árinu 2008, álagningarstofnar vegna áætlaðs eftirlitsgjalds á árinu 2009, áætluð álagningarhlutföll á árinu 2009 og upplýsingar um lágmarks- og fastagjöld.
    Tímaskráning Fjármálaeftirlitsins er tengd málaskráningarkerfi stofnunarinnar. Þessi skráning verður þó ekki nema að hluta tengd ákveðnum eftirlitsskyldum aðilum eða flokkum þeirra. Fjölmörg mál og eftirlitsverkefni eru almenns eðlis (e. cross-sectoral) og varða fleiri en einn flokk eftirlitsskyldra aðila eða markaði í heild. Sama á við um verkefni í innri starfsemi eftirlitsins.
    Með breytingu á lögum nr. 99/1999 sem tóku gildi í ársbyrjun 2008 var gerð sú breyting að greint var á milli viðskiptabanka og annarra lánastofnana í álagningu eftirlitsgjalds með mismunandi álagningarhlutföllum. Fjármálaeftirlitið hafði í rekstraráætlun sinni fyrir árið 2008 lagt fram tillögu um sama álagningarhlutfall fyrir allar lánastofnanir byggða á tímaskráningu, samanber einnig gildandi lög á þeim tíma. Þessu var hins vegar breytt við afgreiðslu viðkomandi frumvarps frá viðskiptanefnd, skv. tilmælum frá samtökum fjármálafyrirtækja. Breytingin fólst í því að ákveðin fjárhæð, 13,5 m.kr., var lögð á viðskiptabankana í stað vátryggingarfélaganna og breyttust álagningarhlutföll þeirra í samræmi við það.
    Forsendur til slíkrar skiptingar álagningarhlutfalls á lánastofnanir liggja ekki fyrir. Þá gefur tímaskráning Fjármálaeftirlitsins ekki tilefni til slíkrar skiptingar. Í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins nú er því gert ráð fyrir að allar lánastofnanir beri samkvæmt lögum sama álagningarhlutfall.
    Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/10 hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 1/5 hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr. enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
    Reynslan hefur sýnt að þetta lagaákvæði hefur óveruleg áhrif á heildarfyrirkomulag álagningar eftirlitsgjaldsins. Þannig snertir ákvæðið aðeins eitt lánafyrirtæki í álagningu eftirlitsgjaldsins á árinu 2008, þar sem áhrif ákvæðisins nema tæplega 3 m.kr. Þá sýnir reynsla Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma sem liðin er frá því að ákvæði tók gildi að eignarhald starfsleyfisskyldra aðila er hverfandi þáttur varðandi eftirlitsframkvæmd og sanngjarna skiptingu eftirlitskostnaðar. Samlegðaráhrif eða sparnaður í eftirliti sem tengist eignarhaldi er því mjög takmarkaður. Einnig er rétt að nefna að „afsláttur“ skv. ákvæðinu, deilist í raun alltaf á önnur fjármálafyrirtæki við hverja álagningu eftirlitsgjalds. Með tilvísun til þessa leggur Fjármálaeftirlitið því til við viðskiptaráðuneytið að þetta ákvæði verði fellt úr gildi og hefur áætlun eftirlitsgjalds á árinu 2009 verið miðuð við það.
    Fjármálaeftirlitið vinnur stöðugt að því að bæta tímaskráningu sína og eftir því sem kostur er að ná betri tengingu hennar við einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila eða markaði. Vegna þeirrar vinnu var við gerð rekstraráætlunar ársins 2008 í fyrsta skipti mögulegt að leggja sérstakt eftirlitsgjald á útgefendur hluta- og skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, á grundvelli aðgreiningar á kostnaðarþætti þessara aðila í starfsemi eftirlitsins. Eftirlitsverkefni sem snerta þessa aðila höfðu farið vaxandi en ýmsum þeirra var þó ekki skylt að taka þátt í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Í ársbyrjun 2008 tóku svo gildi ný ákvæði í lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, um sérstök eftirlitsgjöld í formi stighækkandi fastagjalda, tengd markaðsvirði skráðra hluta- eða skuldabréfa, þessara aðila.
    Í áætlaðri álagninu eftirlitsgjalds á árinu 2009, sem nú er lögð fram, er gert er ráð fyrir óbreyttri skiptingu heildarálagningar eftirlitsgjaldsins á þessa aðila þannig að útgefendur hlutabréfa beri 70% heildarálagningarinnar og útgefendur skuldabréfa beri 30%. Tekið er mið af þessari skiptinu í tillögu um þrepaskiptingu fastagjalda, sbr. eftirfarandi töflu:

Útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi Útgefendur skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi
Markaðsvirði m.kr. Fastagjald í þús.kr. Markaðsvirði m.kr. Fastagjald í þús.kr.
0 – 4.999 350 0 – 999 100
5.000 – 24.999 1.000 1.000 – 4.499 170
25.000 – 99.999 3.000 5.000 – 9.999 380
100.000 – 499.999 5.900 10.000 – 49.999 660
500.000 og yfir 8.500 50.000 – 199.999 1.050
200.000 og yfir 1.200

    Þá leggur Fjármálaeftirlitið nú til breytingar á fastagjöldum lífeyrissjóða en miðað er við að hlutur þessara gjalda verði hverju sinni um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða. Gjöld þessi verði því:
    Fastagjald 750.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 1.220.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 2.130.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum króna til tuttugu og fimm milljarða króna, 3.970.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum króna til eitthundrað milljarða króna og 4.580.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir.
    Eins og fram kemur í rekstraráætluninni fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald á því ári verði 1.115,9 m.kr. samanborið við 915,0 m.kr. álagt eftirlitsgjald á árinu 2008 sem er 22,0% hækkun milli ára.

Tafla 1
Rekstrarkostnaður ársins 2007
Rauntölur í
Í þúsundum króna Áætlun Rauntölur hlutfalli
GJÖLD 2007 jan. – des. Mismunur af áætlun
1 Laun og launatengd gjöld 412.025 376.296 35.729 91%
2 Samkomulag v. lífeyriss. bankamanna 33.400 33.400 0 100%
3 Íþrótta- og gististyrkur 3.000 3.297 -297 110%
4 Stjórnarlaun 6.400 9.880 -3.480 154%
Laun og launagjöld samtals 454.825 422.873 31.952 93%
5 Starfsmannaþj., kaffi, fundir 3.800 3.922 -122 103%
6 Endurm.kostnaður og skólakostnaður 3.700 5.396 -1.696 146%
7 Húsaleiga 22.700 19.432 3.268 86%
8 Rafmagn, hiti, húsfélag 2.200 2.156 44 98%
9 Símakostnaður 2.500 2.702 -202 108%
10 Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 4.000 4.773 -773 119%
11 Bækur og ritföng 3.500 3.092 408 88%
12 Póstkostnaður 600 700 -100 117%
13 Rekstur tölvub. og sérfr. v. tölvumála, eignakaup 68.100 71.713 -3.613 105%
14 Sérfræðikostnaður 4.000 6.687 -2.687 167%
15 Ferðakostnaður erlendis 17.500 20.548 -3.048 117%
16 Ferðakostnaður innanlands 2.000 2.962 -962 148%
17 Þátttökugjöld funda erlendis 6.000 5.107 893 85%
18 Kostnaður vegna funda hér á landi 1.000 576 424 58%
19 Eignakaup 4.000 3.346 654 84%
20 Öryggisgæsla 1.000 449 551 45%
21 Ræsting, ræstingarvörur 3.500 3.853 -353 110%
22 Styrkur til starfsmannafélags 750 923 -173 123%
23 Kostnaður vegna flutnings 10.000 1.116 8.884 11%
24 Ýmis gjöld og þjónusta 5.400 9.914 -4.514 184%
25 Gjöld alls 621.075 592.240 28.835 95%
TEKJUR
26 Ál. eftirl.gj. m.v. breytingar á lögum nr. 99/1999 599.948 602.636
27 Vaxtatekjur (netto) 3.000 19.691
28 Aðrar tekjur 400 8.665
29 Tekjur alls 603.348 630.992
Úrskurðarnefndir
30 Launakostnaður vegna úrskurðarnefnda 6.000 5.860
31 Aðrar tekjur úrskurðarnefnda 6.000 5.860
32 Tekjuafgangur -17.727 38.752
33 Yfirfært frá fyrra ári, áætlað 17.727 48.953
34 Eigið fé í árslok 0 87.705
-þar af sérstakur varasjóður 0 30.000
-þar af annað eigið fé 0 57.705

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.
Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan
rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2009.
(3. júlí 2008).

1.     Inngangur
    Samhliða rekstraráætlun sinni og greinargerð með henni leggur Fjármálaeftirlitið fram skýrslu um rekstur og starfsumhverfi sitt næstu ár, en efnahags- og viðskiptanefnd (nú viðskiptanefnd) beindi þeim tilmælum til eftirlitsins á árinu 2001.

2.     Þróun íslensks fjármálamarkaðar
    Á síðustu árum hefur íslenskur fjármálamarkaður stækkað verulega og orðið sífellt alþjóðlegri. Þannig nema eignir fjármálafyrirtækjanna (samstæður) um 13.000 milljörðum króna eða rúmlega tífaldri landsframleiðslu, en eignir þeirra eru um 85% af eignum fjármálakerfisins. 1 Að mati Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) nam hlutdeild fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu um 10% á árinu 2006 og stuðlar þessi atvinnugrein að verulegum útflutningi þekkingar og þjónustu.

MYND 1: Hlutdeild fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á árinu 2007 jukust eignir þriggja stærstu bankanna (samstæður) um 24% en frá árslokum 2004 hafa eignir á föstu verðlagi rúmlega þrefaldast. Hrein eign lífeyrissjóða var í árslok 2007 um 1.670 milljarðar króna og jókst um 11% á árinu 2007 og hafði aukist um rúmlega 40% á föstu verðlagi frá árslokum 2004. Eignir vátryggingafélaga rýrnuðu um 4% á árinu 2007 en hafa aukist um 32% frá árslokum 2004 á föstu verðlagi. Eignir í vörslum verðbréfasjóða námu 693 milljörðum króna í árslok 2007 og jukust um 53% á því ári og rúmlega tvöfölduðust á föstu verðlagi frá árslokum 2004. Viðskipti með hlutabréf í Kauphöll jukust um 40% á árinu 2007 frá fyrra ári og hafa 3,5 faldast á föstu verðlagi síðastliðnum þremur árum. Viðskipti með skuldabréf hafa 1,36 faldast á föstu verðlagi á síðastliðnum þremur árum.

MYND 2: Vöxtur fjármálastarfsemi á Íslandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vegnar eignir fjármálamarkaðarins, á móðurfélagsgrunni, á hvert stöðugildi hjá Fjármálaeftirlitinu hafa þrefaldast á föstu verðlagi á síðastliðnum þremur árum. Í þessari tölu er ekki gert ráð fyrir auknum umsvifum vegna dótturfélaga, sem þó hefur einnig áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitins.

MYND 3: Vegnar eignir fjármálamarkaðar á hvern starfsmann Fjármálaeftirlitsins

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Starfsemi fjármálamarkaðarins er í vaxandi mæli alþjóðleg, en á árinu 2007 komu um 58% af tekjum þriggja stærstu bankanna erlendis frá og um 60% útlána voru veitt erlendum viðskiptamönnum. Íslensku fjármálafyrirtækin starfa í maílok 2008 í 21 landi í 56 starfseiningum. Starfseiningum hefur fjölgað um 30 frá árslokum 2005 og þar af 16 í formi útibúa sem gerir ríkari kröfur til Fjármálaeftirlitsins. Á næstu misserum má búast við áframhaldandi vinnu íslensku viðskiptabankanna við öflun innlána erlendis.
    Frá hausti 2007 hefur ríkt alþjóðleg lausafjárkreppa sem dregið hefur úr vexti fjármálafyrirtækja. Erfitt er að spá fyrir um þróunina framundan, en aðstæður á alþjóðlegum mörkuðum og sú athygli sem beinst hefur að Íslandi hefur haft töluverð áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins og staðfest mikilvægi öflugs eftirlits fyrir fjármálamarkaðinn.
    Á undanförnum mánuðum hafa Fjármálaeftirlitinu verið falin ný og aukin verkefni, en þau eru eftirfarandi:
     *      Með lögum nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf, var Fjármálaeftirlitinu falið að veita leyfi til útgáfu slíkra bréfa, samþykkja umsjónarmann útgáfunnar og hafa viðvarandi eftirlit.
     *      Með lögum nr. 64/2008, um breytingu á lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa, var Fjármálaeftirlitinu falin aukin ábyrgð með eftirliti á kerfum Verðbréfaskráningar, en því er m.a. ætlað að samþykkja uppgjörskerfi þeirrar erlendu verðbréfamiðstöðvar sem Verðbréfaskráning myndi semja við um uppgjör í erlendri mynt auk þess að samþykkja reglur Verðbréfaskráningar um uppgjör verðbréfa.
     *      Með lögum nr. 77/2008, um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, var Fjármálaeftirlitinu falin ábyrgð á eftirliti með gjaldeyrisskiptastöðvum og peninga- og verðmætasendingarþjónustu.
     *      Með innheimtulögum, nr. 95/2008, var Fjármálaeftirlitinu falið að hafa eftirlit með innheimtustarfsemi, að undanskilinni starfsemi lögmanna.

3.     Áherslur í starfi Fjármálaeftirlitsins
    Fjármálaeftirlitið lítur á það sem meginhlutverk sitt að stuðla að traustri fjármálastarfsemi, en í því felst að undirstöður fjármálamarkaðar séu tryggar og starfsemi heilbrigð og í samræmi við lög. Unnið er að þessum markmiðum á margvíslegan hátt, en einkum má nefna:
     *      Viðhalda trúverðugleika markaðarins, s.s. tvíhliða/marghliða samskipti við erlend stjórnvöld, lánshæfismatsfyrirtæki, greiningaraðila og fjölmiðla.
     *      Þátttaka í útrás, s.s. beint eftirlit með starfsemi útibúa, samstarf um eftirlit við erlend stjórnvöld og gerð samstarfssamninga.
     *      Leiðeiningar til markaðar, s.s. leiðbeinandi tilmæli og túlkanir.
     *      Fyrirbyggjandi athafnir, s.s. hæfismat stjórnenda og mat á virkum eignarhlutum.
     *      Fjárhagslegt eftirlit, s.s. regluleg greining og söfnun upplýsinga.
     *      Eftirfylgni reglna, s.s. vettvangsathuganir, upplýsingasöfnun og rannsókn ábendinga.
    Hér á eftir verður vikið að helstu áherslum í starfi Fjármálaeftirlitins að undanförnu og í náinni framtíð.

3.1 Lánamarkaður
    
Frá síðast liðnu hausti hafa verkefni tengd lánamarkaði einkennst af þeim samdrætti í framboði á lausu fé sem einkennt hefur fjármálamarkaði heimsins. Jafnframt hefur íslenski fjármálamarkaðurinn fundið fyrir gagnrýni á horfur í íslensku efnahagslífi og áhrifum þess á bankana.
    Megináhersla í eftirliti hefur beinst að því að takmarka áhættu á áföllum með úttektum á innra eftirliti, áhættustýringu, eiginfjárstöðu og stórum áhættuskuldbindingum. Þetta hefur verið gert með söfnun og greiningu upplýsinga og vettvangsheimsóknum. Haustið 2007 var framkvæmd vettvangsúttekt á útlánaáhættu, stýringu hennar og innra eftirliti hjá sex stærstu fjármálafyrirtækjunum sem saman ná yfir um 95% útlána í fjármálakerfinu.
    Áhersla hefur einnig verið lögð á eftirlit með stöðu á lausu fé bæði til skemmri og lengri tíma og áhrifum af lækkunum á hlutabréfamörkuðum.
    Verkefni vegna starfsemi íslensku bankanna erlendis og samskipti við erlendar systurstofnanir taka sífellt meiri tíma. Vettvangsathugun var framkvæmd í útibúum bankanna í London vorið 2007 og með vaxandi útibúavæðingu munu verkefni tengd erlendri starfsemi krefjast frekari mannafla. Nánar er vikið að þessu í kafla 6.
    Mikil vinna hefur farið í að innleiða nýjar reglur í samræmi við Basel II staðal um eiginfjárhlutfall og nýjar tilskipanir Evrópusambandsins, en innleiðingin af hálfu Fjármálaeftirlitsins hefur átt sér stað með setningu reglna og leiðbeinandi tilmæla. Meðal breytinga er að öll fjármálafyrirtæki munu skila greinargerð til Fjármálaeftirlitsins um mat á áhættu og hvort útreiknuð krafa eigin fjár sé nægileg til að mæta þeirri áhættu sem fyrirtækið metur sjálft í starfsemi sinni. Það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fara yfir þessa greinargerð og leggja mat á það hvort lánafyrirtækið taki tillit til allra áhættuþátta sem áhrif geta haft á framtíðarstarfssemi þess. Skýrslum þessum verður safnað í fyrsta skiptið á árinu 2008 og felur í sér breytta nálgun í eftirliti, en reynslan verður að skera úr um hvort að þessu fylgir viðbótarálag á starfsemina.
    Til meðferðar eru umsóknir frá tveimur íslenskum bönkum um að beita eigin aðferðum við mat á áhættum (innramatsaðferðum, e. Internal Ratings Based Approach – IRB) við útreikning á eiginfjárþörf, en slíkt kallar á vottun Fjármálaeftirlitsins á matsferlum viðkomandi fyrirtækja innanlands og utan. Verði leyfi veitt fyrir notkun á IRB tekur við viðvarandi eftirlit með matsferlum, viðkomandi fyrirtækis, þ.m.t. vegna annarra IRB líkana en upphaflega vottunin náði til.
    Verkefni tengd virkum eignarhlutum og veiting nýrra/aukinna starfsleyfa kallar reglulega á töluverða vinnu af hálfu Fjármálaeftirlitsins, en á árinu 2007 og voru veitt 17 ný/aukin starfsleyfi og 16 mál tengd virkum eignarhlutum voru til meðferðar.
    Á vormánuðum 2008 voru samþykkt lög um sértryggð skuldabréf sem kalla á aukin verkefni hjá Fjármálaeftirlitinu, en því er falið að veita leyfi til útgáfu slíkra bréfa, samþykkja umsjónarmann útgáfunnar og hafa viðvarandi eftirlit. Jafnframt hafa verið samþykktar breytingar á lögum um peningaþvætti sem fela Fjármálaeftirlitinu ábyrgð á eftirliti með gjaldeyrisskiptastöðvum og peninga- og verðmætasendingarþjónustu.
    Í fyrirsjáanlegri framtíð má búast við að framangreind verkefni muni áfram vega þungt í starfsemi Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem sinna þarf nýjum verkefnum varðandi lög um sértryggð skuldabréf og gjaldeyrisskiptastöðvar. Jafnframt er áformað að auka áherslu á upplýsingasöfnun, greiningu og veitingu upplýsinga. Eftirlit verður í auknum mæli framkvæmt á grundvelli áhættumats, í formi þemaskoðana á ákveðnum áhættum eða með viðbragðsskoðunum í framhaldi af tilteknum atburðum eða niðurstöðum upplýsingaúrvinnslu.
    Að þessu sinni er talin þörf á fjórum viðbótarstöðugildum. Einu stöðugildi til að sinna verkefnum tengdum sérvörðum skuldabréfum og gjaldeyrisskiptastöðvum og þremur stöðugildum vegna aukinna umsvifa íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis og samskipta við erlend eftirlit.

3.2 Lífeyrismarkaður
    Lífeyrismarkaður hefur undanfarið einkennst af sameiningum lífeyrissjóða, yfirfærslu réttindakerfa, vaxandi lífs- og örorkulíkum og áhættusæknari fjárfestingastefnum.
    Áherslur í eftirliti með lífeyrissjóðum hafa snúið að athugunum á fjárfestingum, fjárfestingarstefnum og skuldbindingum auk þess sem gerðar hafa verið heildarúttektir á starfsemi einstakra sjóða.
    Á hverju ári fer töluverður tími í að veita umsagnir um tillögur til breytinga á samþykktum lífeyrissjóðanna, svo sem vegna sameininga eða breytinga á réttindakerfum, auk umsagna um breytingar á reglum og samningum vegna viðbótarlífeyrissparnaðar.
    Unnið er að mótun úrvinnslukerfis, auk þess sem áfram er unnið að þróun gæða- og áhættuflokkunarkerfis fyrir lífeyrissjóðina. Hvoru tveggja mun bæta yfirsýn og eftirlit með áhættum í rekstri sjóðanna og nýtast við forgangsröðun á eftirliti með einstökum sjóðum.
    Fyrri hluta árs 2008 var framkvæmd sérstök athugun á innra eftirliti allra lífeyrissjóða sem hefur ekki verið gert með sambærilegum hætti áður. Niðurstöður þessarar athugunar verða nýttar við forgangsröðun í eftirliti (ásamt öðrum upplýsingum úr gæða- og áhættuflokkunarkerfi fyrir lífeyrissjóði) ásamt almennu mati á því hvort innra eftirlit sé almennt fullnægjandi og hvort þörf er á reglulegum skýrsluskilum um framkvæmd þess.
    Stækkun lífeyrissjóða vegna vaxtar og sameininga, rýmkaðar fjárfestingaheimildir, áhættusæknari fjárfestingastefnur, yfirfærsla á réttindakerfum en jafnframt óvissa vegna hækkandi lífs- og örorkulíka, leiðir til þess að ákvarðanataka í starfsemi sjóðanna verður flóknari og kallar á aukna ábyrgð stjórnenda, aukið innra eftirlit og áhættustýringu, aukna faglega þekkingu og almennt traustari umgjörð um rekstur sjóðanna. Framangreint kallar á aukið umfang eftirlits en fækkun lífeyrissjóða vegur einungis að litlu leyti á móti auknu verkefnaálagi samkvæmt ofangreindu.
    Verkefni á næstu árum munu ráðast af stækkun lífeyrissjóða, fjárfestingarheimildum þeirra og áherslum í fjárfestingum. Líklegt er að á næstu árum verði lög um lífeyrissjóði endurskoðuð og jafnframt afleiddar reglur. Þessu til viðbótar er enn óljóst hvort umfang eftirlits kunni að aukast vegna laga um starfstengda eftirlaunasjóði nr. 78/2007, sem innleiða tilskipun nr. 2003/41/EB og tóku gildi 1. júlí 2007.
    Að svo stöddu er ekki talin þörf á fjölgun stöðugilda vegna eftirlits með lífeyrissjóðum. Slíkt kynni að breytast í framhaldi af lagabreytingum eða ef stofnað yrði til starfstengdra eftirlaunasjóða hér á landi.

3.3 Verðbréfasjóðir
    Eftirlit með sjóðum rekstrarfélaga, þ.e. verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum, hefur að miklu leyti snúið að staðfestingu nýrra sjóða og breytingum á reglum eldri sjóða í samræmi við lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, auk könnunar á veittum upplýsingum um fjárfestingar og eignastöðu. Lögð hefur verið áhersla á fjölgun vettvangsathugana en æskilegt er að fjölga slíkum úttektum.
    Rekstrarfélög verðbréfasjóða eru 7 og umsókn um 8 starfsleyfið er til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu, en samþykki þess mun auka umfang eftirlits með rekstrarfélögum. Fjármagn í vörslum rekstrarfélaganna hefur aukist mjög á undanförnum árum vegna fjölgunar þeirra og stærri sjóða, en einnig vegna þess að rekstrarfélögin bjóða upp á eignastýringu í auknum mæli. Þá hafa fjárfestingarafurðir orðið flóknari og vænta má aukinnar markaðsetningar íslenskra verðbréfasjóða erlendis.
    Unnið er áfram að rafvæðingu allra gagna sem rekstrarfélögin skila til eftirlitsins og þróun úrvinnslukerfis á þeim upplýsingum. Slíkt mun bæta yfirsýn og efla eftirlit með þessari starfsemi.
    Fyrirsjáanlegar eru breytingar á löggjöf, m.a. vegna tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2007/16/EB, um skýringar á fjárfestingarheimildum verðbréfasjóða. Búið er að innleiða MiFID-tilskipunina (e. Market in Finacial Instruments Directive), nr. 2004/39/EB, og mun eftirlit aukast tímabundið með rekstrarfélögum vegna hennar. Fylgjast þarf með að rekstrarfélögin séu að uppfylla öll skilyrði tilskipunarinnar.
    Að svo stöddu er ekki talin þörf á að fjölga stöðugildum vegna eftirlits með starfsemi verðbréfasjóða og rekstrarfélaga þeirra. Slíkt gæti breyst í kjölfar lagabreytinga eða í kjölfar aukins vinnuálags vegna fjölgunar rekstrarfélaga eða sjóða eða vegna aukningar á erlendri starfsemi þeirra.

3.4 Vátryggingamarkaður
    Eftirlit á vátryggingamarkaði er sinnt með athugun á ýmsum reglubundnum gögnum sem Fjármálaeftirlitið fær send auk vettvangsheimsókna og sérstökum athugunum. Unnið er að úrvinnslukerfi varðandi þau gögn sem berast vegna vátryggingafélaga.
    Við reglubundið eftirlit er lögð áhersla á athugun á fjárhagslegri stöðu aðila þ.á m. eignastöðu að teknu tilliti til starfsleyfisskilyrða þ.á m. fjárhagslegra skuldbindinga, gjaldþols og vátryggingaskuldar. Fjármálaeftirlitið hefur þróað sérstakt álagspróf og áhættumat sem nýtt er í þessum tilgangi. Í heimsóknum er m.a. áhersla lögð á athugun á áhættustýringu, innra eftirliti og verkferlum. Á þessu sviði er einnig fylgst með framkvæmd reglna um virka eignarhluti.
    Solvency II verkefnið hefur verið tímafrekt en líklegt er að seinni hluta 2009 muni draga úr starfi alþjóðlegra vinnuhópa vegna þróunar Solvency II en vinnan beinist að samræmingu eftirlits. Fjármálaeftirlitið hefur tekið virkan þátt í þremur vinnuhópum á vegum Samstarfsnefndar Evrópskra vátryggingaeftirlita og lífeyrissjóðaeftirlita (e. Committee of European Insurance and Occupational Pension Supervisors - CEIOPS) vegna þessa. Í kjölfar þessa mun áherslan beinast að undirbúningi nýrrar íslenskrar löggjafar sem á að taka gildi 31. október 2012. Æskilegt væri að lagabreytingar væru tilbúnar á árinu 2011 til þess að nægur aðlögunartími gæfist.
    Í tengslum við undirbúning Solvency II tilskipunarinnar hafa verið gerðar áhrifskannanir (e. quantitative impact study - QIS) og hefur Fjármálaeftirlitið hvatt vátryggingafélög til þess að taka þátt í þeim. Unnið er að QIS4 á árinu 2008 og gerir Fjármálaeftirlitið ráð fyrir því að QIS5 verði framkvæmd á árinu 2009, þó slíkt sé ekki endanlega ákveðið.
    Fjármálaeftirlitið tekur þátt í nýstofnuðum vinnuhóp CEIOPS um neytendamál, en til athugunar er réttarstaða neytenda á vátryggingamarkaði og mögulegt hlutverk eftirlitsstjórnvalda í því sambandi. Gera má ráð fyrir nokkurri vinnu vegna þessa.
    Unnið hefur verið að undirbúningi frumvarps til breytinga á lögum um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, vegna lögleiðingar tilskipunar um endurtryggingar. Samhliða þeirri vinnu var unnið að heildarendurskoðun á lögunum. Verði frumvarpið samþykkt mun þurfa að huga að endurskoðun ýmissa reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna, auk leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins.
    Starfsemi vátryggingafélaganna verður sífellt alþjóðlegri. Þannig á TM dótturfélag erlendis, Sjóvá er hluti af erlendri fjármálasamsteypu og Exista, sem er eigandi VÍS, er jafnframt virkur eigandi í finnska tryggingafélaginu Sampo. Til viðbótar þessu hefur þjónusta íslenskra vátryggingafélaga yfir landamæri (og erlendar tekjur) aukist töluvert á síðustu árum. Þessi þróun hefur kallað á aukið samstarf við erlendar systurstofnanir og er gert ráð fyrir auknu samstarfi vegna eftirlits með samstæðum og fjármálasamsteypum. Fjármálaeftirlitið hyggst taka meiri þátt í alþjóðlegu samstarfi vegna þessa og sækja fundi Interim Working Committee on Financial Conglomerates (IWCFC) vegna vátryggingasviðs og lánasviðs. Þátttaka í IWCFC er einnig mikilvæg með hliðsjón af væntanlegri endurskoðun tilskipunar um fjármálasamsteypur.
    Ekki er talin þörf á frekari stöðugildum við eftirlit með vátryggingastarfsemi. Þetta kann þó að breytast í framhaldi af fyrirséðum lagabreytingum og aukningar erlends samstarfs vegna starfsemi íslenskra vátryggingafélaga erlendis.

3.5 Verðbréfamarkaður
    Með innleiðingu Evróputilskipunar um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID) í íslensk lög þann 1. nóvember 2007 hafa verkefni Fjármálaeftirlitsins við eftirlit á verðbréfamarkaði aukist. Nýju lögin gera ráð fyrir auknu eftirliti Fjármálaeftirlitsins með starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis, auk þess sem gerðar eru kröfur til aukins samstarfs milli evrópskra eftirlitsaðila. Einnig greiða lögin fyrir starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi, en ef erlend fyrirtæki nýta sér slíkt í auknum mæli mun starfsemi þeirra að nokkru leyti falla undir íslenskt eftirlit.
    Nýju verðbréfaviðskiptalögin gera einnig ráð fyrir ákveðnum tölvukerfum varðandi upplýsingasamskipti á milli eftirlita, (e. Transaction Reporting System – TRS) og miðlægum rafrænum gagnagrunni á upplýsingum sem skylt er að birta (e. Central Storage Facility System - OAM). Frekari þróun á greiningarkerfi upplýsinga úr TRS grunninum mun verða unnin í samstarfi við önnur norðurlönd og Litháen. Vonir standa til að slíkt muni auka yfirsýn og efla eftirlit með íslenskum verðbréfamarkaði.
    Með MiFID-tilskipuninni var stigið stærsta skrefið í áætlun ESB um samræmdar reglur á verðbréfamörkuðum. Áður höfðu verið innleiddar tilskipanir um markaðsmisnotkun, yfirtökutilboð og lýsingar. Ekki er gert ráð fyrir stórum breytingum á þessu sviði í náinni framtíð en mikil áhersla verður nú lögð á það á Evrópuvettvangi að eftirlit með framkvæmd tilskipana sé samræmd á EES-svæðinu. Einnig er mikil vinna lögð í það á vettvangi Evrópunefndar um Verðbréfaeftirlit (e. Committee of European Securities Regulators – CESR) að samræma nýlegar tilskipanir m.t.t. skörunar og endurtekninga og hefur Fjármálaeftirlitið fundið fyrir auknum þunga fyrirspurna frá CESR vegna þessa. Ætla má að það leiði til breytinga sem skýra og einfalda gildandi reglur á evrópskum verðbréfamörkuðum.
    Mikil vinna hefur farið í innleiðingu áðurnefndra reglna auk þess sem nýjar reglur kalla á vinnu við að skýra og túlka reglurnar, svara fyrirspurnum, skera úr álitaefnum og veita eftirlitsskyldum aðilum og öðrum leiðbeiningar.
    Fyrri hluta árs 2008 hóf Fjármálaeftirlitið „off-site“ úttekt á framkvæmd við innleiðingu á skuldbindingum samkvæmt MiFID hjá öllum fjármálafyrirtækjum sem eiga viðskipti og veita þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Ljóst er að umtalsverð vinna mun fara í það á næstu mánuðum að kanna hvort fjármálafyrirtæki uppfylli kröfur nýrra laga um verðbréfaviðskipti.
    Helstu áherslur í eftirliti munu áfram snúa að eftirliti með háttsemi útgefenda verðbréfa skráðra í Kauphöll og viðskiptum fjárfesta á markaði. Fjármálaeftirlitið sinnir einnig verkefnum er snúa að lýsingum og yfirtökumálum. Auk þessa hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með starfsemi Kauphallar og Verðbréfaskráningar. Vegna breytinga á lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa mun Fjármálaeftirlitið fá aukið hlutverk varðandi starfsemi Verðbréfaskráningar eins og vikið verður að síðar.
    Á þessu sviði eru erlend samskipti veigamikill þáttur og fer vaxandi. Bæði er um að ræða samstarf innan CESR auk samstarfs við einstaka eftirlitsaðila. Til viðbótar þessu hefur Fjármálaeftirlitið fengið aðild að samstarfi norrænna eftirlitsaðila vegna eftirlits með OMX og stefnir að aðild að alþjóðasamtökum verðbréfaeftirlita (e. International Organization of Securities Commissions – IOSCO), eins og nánar verður vikið að.
    Að svo stöddu er ekki talin þörf á viðbótar stöðugildi vegna eftirlits með verðbréfamarkaði. Rétt er þó að taka fram að á þessu stigi er ekki er hægt að meta að fullu áhrif nýrra verðbréfaviðskiptalaga á starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

3.6 Almennt
    Að síðustu er rétt að geta þess að ýmis verkefni ganga þvert á hina ýmsu markaði þar sem samlegðaráhrif starfseminnar koma fram. Má þar sem dæmi nefna:
     *      Beiting stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um fjármálastarfsemi.
     *      Viðbúnaðarvinna og innlent og erlent samstarf er tengist viðbúnaði gegn hættu á áfalli í fjármálakerfinu.
     *      Framkvæmd á hæfismati stjórnenda eftirlitsskyldra aðila.
     *      Eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     *      Eftirlit með upplýsingatækni.
     *      Eftirlit með fjármálasamsteypum, en unnið hefur verið að reglum þessa efnis.

4.     Stefnumótun og mælikvarðar
    Árið 2006 setti Fjármálaeftirlitið sér stefnu í formi stefnumiðaðs árangursmats (Balanced Scorecard). Stefnan nýtist við mótun almennra áherslna, forgangsröðun verkefna og mælingu árangurs.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins er að stuðla að traustri fjármálastarfsemi. Til að vinna þessu framgang hafa verið skilgreind 15 markmið og þróaðir hafa verið 21 mælikvarðar til að meta og fylgjast með árangri starfseminnar. Árið 2007 var svokallað grunnár (baseline) en þá var í fyrsta skiptið gerð mæling á öllum mælikvörðum stefnukortsins. Þessar mælingar nýtast sem grunnur að frekari markmiðssetningu, til samanburðar við mælingar í framtíðinni og við frekari þróun. Alls náðust 14 af 21 (66,7%) markmiði sem Fjármálaeftirlitið setti sér fyrir árið 2007 (sjá grænar skyggingar á mynd 5)

Mynd 5: Niðurstaða úr 21 lykilmælikvörðum sem Fjármálaeftirlitið setti sér fyrir árið 2007.
Lykilmælikvarðar Niðurstaða
2007
Markmið
2007
Prufa
2006
V 1. Öruggur fjármálamarkaður
    V 1.1.     Meðaleinkunn úr áhættumati FME 7,4 7,5 7,8
V 2. Áhrifavaldur í þróun fjármálamarkaðar
    V 2.1.     Viðhorf markaðar til FME sem áhrifavaldur 3,28 3,2 .
    V 2.2.     Fjöldi opinbera tilmæla (túlkanir ofl.) 22 12 22
V 3. Heilbrigðir viðskiptahættir á markaði
    V 3.1.     Fjöldi atvika og frávik frá normi 9% 10% 13%
V 4. Traust og trúverðugt fjármálaeftirlit
    V 4.1.     Viðhorf markaðar til FME, traust og trúverðugleiki 3,66 3,2 .
I 1. Markvisst verkefnaval og verkábyrgð
    I 1.1.     Frávik frá áætlunum 3,8% 10% 9,80%
    I 1.2.     Hlutfall sérstakra verkefna af heildarfjölda (A-C af heild) 38,5% 25% 27%
I 2. Starfsemi í hæsta gæðaflokki
    I 2.1.     Fjöldi verkefna rýnd varðandi gæði og málsmeðferð 3 4 .
    I 2.2.     Fjöldi samþykktra / endurskoðaðra lykilverkferla 6 8 .
I 3. Skilvirkni í meðferð mála
    I 3.1.     Meðallíftími verkefna 453 400 555
    I 3.2.     Hlutfall mála eldri en eins árs 22% 25% 31%
I 4. Efla rafræna málsmeðferð
    I 4.1.     Hlutfall rafrænnar úrvinnslu 11,4% 35% * .
I 5. Skilvirk upplýsingamiðlun
    I 5.1.     Upplýsingaatburðir 2.981 2.000 1.857
S 1. Öflug þekking starfsmanna
    S 1.1.     Hlutfall starfsmanna með meira en 3ja ára starfsreynslu (frá 1.1.2001) 28% 45% 45%
    S 1.2.     Fjöldi starfsmanna sem nýtir sér starfstengda símenntun (eigin frumkv.) 88% 65% 63%
S 2. Fyrirmyndar upplýsingarkerfi
    S 2.1.     Staða upplýsingakerfa (úttekt skv. leiðbeiningum FME) 8 7 5
S 3. Eftirsóttur vinnustaður
    S 3.1.     Viðhorf starfsmanna (Vinnustaðagreining) 4,18 3,2 .
    S 3.2.     Fjöldi starfsumsókna 48 20 22
F 1. Standast fjárhagsáætlun
    F 1.1.     Frávik frá áætlunum 5% 5% 5%
F 2. Hagkvæmni í rekstri
    F 2.1.     Umsvif fjármálamarkaðar á hvert stöðugildi FME 104,8 80 89,8
F 3. Verkefnum fylgi tekjur
    F 3.1.     Hlutfall nýrra verkefna sem FME kostnaðarmetur 100% 75% 100%
*Hlutfall skýrslna sem eru lesnar sjálfvirkt í gagnagrunn og eru með sjálfvirka grunnrýni

5.     Nýting upplýsingatækni
    Fjármálaeftirlitið fylgir sérstakri upplýsingatæknistefnu sem sett var til þriggja ára. Helstu atriði þeirrar stefnu eru eftirfarandi:
     *      Öll samskipti við eftirlitsskylda aðila verði rafræn.
     *      Úrvinnslukerfi verði fyrir hendi sem vinni frumgreiningu á upplýsingum og geri viðvart um frávik (early warning).
     *      Gagnagrunnar og málaskráningarkerfi séu samhæfð og tryggi auðvelda geymslu, úrvinnslu og notkun upplýsinga.
     *      Öryggi upplýsinga sé tryggt og eftirlitið fái vottun skv. ISO 27001.
     *      Vefumsjónarbúnaður og heimasíða styðji við öfluga og markvissa upplýsingamiðlun, þess vegna í mismunandi víddum, þ.e. á innra-neti (innan stofnunar), á ytra neti (skilgreind vefsvæði fyrir einstaka eftirlitsskylda aðila eða systurstofnanir) og interneti (almenningur).
     *      Hugbúnaður og vélbúnaður uppfylli þarfir hvers tíma.
     *      Eftirlitið geti uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingasamskipti.
    Á hverju ári safnar Fjármálaeftirlitið rúmlega 3500 skýrslueintökum frá eftirlitsskyldum aðilum um ýmsa þætti í rekstri þeirra. Markmiðið er almennt eftirlit með ýmsum reglum og greining á hugsanlegum veikleikum í starfsemi þeirra. Í ársbyrjun 2007 var tekið í notkun rafrænt skýrsluskilakerfi sem tekur við skýrslum frá eftirlitsskyldum aðilum og les gögnin beint inn í gagnagrunn þar sem þau eru aðgengileg sérfræðingum Fjármálaeftirlitsins til greininga og annarrar vinnslu. Gögnin eru villuleituð sjálfvirkt svo sem kostur er um leið og þau eru sett í gagnagrunn.
    Unnið er að úrvinnslukerfi á öllum sviðum sem notar undirliggjandi gögn til að leggja mat á ástand eftirlitsskyldra aðila í samræmi við ákveðnar kennitölur og reglur um frávik. Nokkrar sjálfvirkar úrvinnslur hafa verið teknar í notkun og er megináhersla Fjármálaeftirlitsins um þessar mundir að fjölga slíkum úrvinnslum. Slíkt gerir allt eftirlit skjótvirkara og markvissara.
    Verkefnið um rafræn skil er einnig mikilvægt í ljósi alþjóðavæðingar íslenskra fjármálafyrirtækja, en ýmsir aðilar, s.s. erlendar systurstofnanir Fjármálaeftirlitsins, Evrópusamtök eftirlitsstofnana, alþjóðlegar stofnanir (s.s. IMF) og matsfyrirtæki fara í auknum mæli fram á ýmsar tölfræðilegar upplýsingar og greiningar.
    Fjármálaeftirlitið hefur tekið þátt í samstarfi fjármálaeftirlita á Norðurlöndum og í Litháen um smíði kerfi sem allir þessir aðilar nota til söfnunar og sendingar á upplýsingum um fjármálagerninga í samræmi við kröfur MiFID-tilskipunarinnar. Kerfið var tekið í notkun í nóvember 2008. Unnið er að áframhaldandi þróun á kerfinu, bæði til að auðvelda skipti á upplýsingum á milli eftirlita (e. Instrument Reference Database) og til að geta tekið við upplýsingum um fjármálagerninga sem hafa ekki svokallaða ISIN (e. International Securities Identifying Number) auðkenningu. Ávinningur af samstarfinu er bæði sparnaður og samræmi, en markaðsaðilar fá sömu viðmótsskil hvar sem er á Norðurlöndunum og í Litháen en mörg íslensk og norræn fjármálafyrirtæki starfa á þessum mörkuðum.
    Með kerfinu mun Fjármálaeftirlitinu gefast kostur á að útbúa öflugt rafrænt eftirlitskerfi með verðbréfamarkaðnum og er unnið að slíku. Fyrir liggja grunnskilgreiningar á vísbendingum um frávik frá eðlilegum viðskiptum og er vonast til þess að fyrsta útgáfa af slíku greiningarkerfi verði tilbúið á árinu 2008.
    Gegnsæistilskipun (e. Transparency) tilskipun Evrópusambandsins fjallar um opinbera birtingu tilgreindra upplýsinga útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði með Ísland sem heimaríki og flöggunarskyldu. Í samræmi við tilskipunina hefur verið sett á fót kerfi sem safnar þeim upplýsingum sem skylt er að birta opinberlega, svokallað OAM (e. Officially Appointed Mechanism), en það skal vera opið almenningi. Þennan grunn er að finna á vefsíðunni www.oam.is.
    Stefnt er að innleiðingu nýs málaskráningarkerfis á árinu 2008 til að auðvelda aðgengi að upplýsingum en með samtengingu upplýsinga í málaskrá og öðrum gagnagrunnum Fjármálaeftirlitsins má bæta yfirsýn og auka skilvirkni í vinnu sérfræðinga. Kerfið mun verða á vefformi og tengjast jafnframt innra neti eftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið vinnur að innleiðingu stjórnkerfis upplýsingaöryggis og er stefnt að vottun skv. ISO 27001 fyrir árslok 2008.
    Fjármálaeftirlitið hefur á stefnuskrá sinni að rafvæða ferli innan Fjármálaeftirlitsins og mun vinna að slíku í tengslum við verkefnið Upplýsingasamfélagið 2008–2011 á vegum Forsætisráðuneytisins. Stefnt er að því að rafvæða ferli starfleyfisumsókna og umsókna um leyfi til að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega verkefnið verður unnið, en ljóst er að það mun spara tíma hjá bæði Fjármálaeftirlitinu og aðilum sem þurfa að sækja um viðkomandi leyfi, auk þess sem yfirsýn yfir stöðu hvers máls verður ávallt fyrirliggjandi.
    Fjármálaeftirlitið hefur byrjað þróun á rafrænu sjálfsmati eftirlitsskyldra aðila á tilteknum þáttum í starfsemi sinni. Sjálfsmat hjálpar eftirlitsskyldum aðilum og Fjármálaeftirlitinu að fá mynd af stöðu einstakra þátta í starfsemi þeirra. Fyrsta sjálfsmatið snéri að því hversu vel eftirlitsskyldir aðilar fylgja leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2005 um rekstur upplýsingakerfa. Úrvinnsla úr sjálfsmatinu er að mestu sjálfvirk og því liggur mat á viðkomandi eftirlitsþætti fyrir fljótlega eftir að svör berast. Gerðar verða samræmis- og úrtaksprófanir á svörum við sjálfsmati og þeim svörum fylgt eftir sem gefa tilefni til.
    Auk innri upplýsingatæknimála ber Fjármálaeftirlitnu að fylgjast með því að greiðslu- og uppgjörskerfi eftirlitsskyldra aðila séu fullnægjandi. Slíkt þarf að gera með reglulegum könnunum á öryggi upplýsinga- og greiðslukerfa, annað hvort með vettvangsathugun eða söfnun upplýsinga svo sem með sjálfsmati. Með aukinni útrás eykst ábyrgð á þessu sviði, bæði gagnvart útibúum erlendis og kerfum fjármálafyrirtækjanna á samstæðugrunni. Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitinu verið falin aukin ábyrgð með eftirliti á kerfum Verðbréfaskráningar með nýsamþykktum breytingum á lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa, en eftirlitinu er ætlað að samþykkja uppgjörskerfi þeirrar erlendu verðbréfamiðstöðvar sem Verðbréfaskráning myndi semja við um uppgjör í erlendri mynt auk þess að samþykkja reglur Verðbréfaskráningar um uppgjör verðbréfa.
    Þrír sérfræðingar sinna upplýsingatæknimálum hjá Fjármálaeftirlitinu auk þess sem tímabundnir starfsmenn eða ráðgjafar sinna verkefnum vegna innleiðingar upplýsingatæknistefnunnar. Talin er þörf á einu stöðugildi til viðbótar til að geta betur sinnt eftirliti með upplýsinga- og greiðslukerfum, innanlands og utan, og nýjum verkefnum vegna breytinga á lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa.

6.     Erlend starfsemi Fjármálaeftirlitsins
    Vaxandi alþjóðleg starfsemi íslenskrar fjármálaþjónustu hefur haft töluverð áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins og ekki er að fullu séð fyrir áhrif þeirrar þróunar. Jafnframt er ljóst að hin alþjóðlega lausafjárkreppa og sú athygli sem íslenskur fjármálamarkaður hefur fengið hefur haft áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins og staðfest mikilvægi öflugs fjármálaeftirlits. Búast má við að afleiðingar erfiðleikanna verði aukin alþjóðleg samvinna eftirlitsaðila og úrbætur á þeim göllum sem taldir eru hafa komið upp varðandi eftirlitsreglur og framkvæmd með alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum og mörkuðum.
    Á árinu 2007 komu um 58% tekna bankanna erlendis frá og um 60% útlána þeirra voru til erlendra aðila. Íslenskir fjárfestar hafa keypt hluti í norrænum fjármálaþjónustufyrirtækjum auk þess sem Kauphöll og Verðbréfaskráning eru hluti af OMX samstæðunni.
    Í árslok 2008 má búast við að starfsstöðvar íslensku bankanna verði í a.m.k. 28 löndum í 73 starfsstöðvum og hefur þróunin verið hröð á undanförnum árum. Rétt er að minna á að vegna útibúa er eftirlitsábyrgð að meginstefnu til hjá Fjármálaeftirlitinu. Á árinu 2007 setti Fjármálaeftirlitið fram sérstaka stefnu um eftirlit með erlendri starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja og framkvæmdi greiningu á viðvarandi vinnuálagi vegna þessa. Niðurstaða þeirrar greiningar gerir ráð fyrir að hvert útibú kalli á 0,1 starfsmann en dótturfélag á 0,07 eða 0,11 starfsmann, eftir því hvort það er innan eða utan EES.

Lok árs 2005 2008 (20/5) Í vinnslu
Dótturfélög 21 33
Útibú 4 20 10
Umboðsskrifstofur 1 3 7
Erlend ríki þar sem starfsemi er stunduð 12 21 7

    Aukin alþjóðavæðing íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja og aukið Evrópusamstarf eftirlitsaðila kallar á stöðug verkefni af hálfu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Þau eru í meginatriðum þríþætt.
    Í fyrsta lagi á Fjármálaeftirlitið í samskiptum við eftirlitsstofnanir í þeim löndum sem íslensku fyrirtækin eru með starfsemi. Ef starfsemin er í formi útibús ber Fjármálaeftirlitið beina eftirlitsábyrgð á flestum starfsþáttum samkvæmt reglum EES um heimaríkiseftirlit. Sé um dótturfélag að ræða er Fjármálaeftirlitið eftirlitsaðili á samstæðugrunni en gistiríkið hefur eftirlit með starfsemi dótturfélagsins sem slíkri.
    Erlend eftirlitsstjórnvöld óska í vaxandi mæli eftir upplýsingum og samstarfi við Fjármálaeftirlitið um starfsemi íslensku fyrirtækjanna yfir landamæri og hefur það verið sérstaklega verið áréttað í tengslum við hina alþjóðlegu erfiðleika. Verður á næstu mánuðum skoðað hvort ástæða er til þess að formfesta regluleg samskipti við erlenda eftirlitsaðila vegna þriggja stærstu bankanna (eins konar „supervisory college“). Dæmi um slíkt tvíhliða samstarf er nú þegar fyrir hendi varðandi ákveðin dótturfélög bankanna.
    Fjármálaeftirlitið mun einnig á næstu mánuðum framkvæma könnun á því hvort stofnun erlendrar starfsstöðvar þess væri hagkvæm. Slíkt myndi auðvelda og auka gæði eftirlits með erlendri starfsemi íslensku fyrirtækjanna, auka reglulegt samstarf við erlend fjármálaeftirlit og draga úr ferðakostnaði.
    Gerð samstarfssamninga við erlend eftirlit er sérstakur þáttur í erlendum samskiptum Fjármálaeftirlitsins, en slíkt er nauðsynlegt þegar um ríki utan EES er að ræða. Á árinu 2007 voru gerðir samningar við Kína og Dubai og unnið er að samningum við 7 erlend fjármálaeftirlit. Gerð slíkra samninga getur verið tímafrek og að eftir gerð þeirra þarf að sinna ákveðnum samskiptum.
    Í öðru lagi tekur Fjármálaeftirlitið þátt í norrænu- og Evrópu samstarfi eftirlitsaðila með fjármálaþjónustu. Á þessum vettvangi er m.a. unnið að leiðbeinandi reglusetningu fyrir fjármálaþjónustufyrirtæki og samræmingu eftirlitsframkvæmdar. Með aukinni alþjóðavæðingu íslenska markaðarins er mikilvægt að sinna vel slíku samstarfi.
    Fjármálaeftirlitið er í samstarfi við systurstofnanir á öðrum norðurlöndum um viðlagaáætlanir og viðbúnað vegna mögulegra erfiðleika á fjármálamörkuðum og tók þátt í samnorrænni viðlagaæfingu haustið 2007. Ennfremur hefur Fjármálaeftirlitið fylgst með umræðu á Evrópuvettvangi um viðbrögð við fjármálakreppum.
    Fjármálaeftirlitið stefnir að aðild að alþjóðlegum samtökum verðbréfaeftirlita (e. International Organization of Securities Commissions - IOSCO) en samtökin eru vettvangur samstarfs aðildarríkja við rannsóknir á málum og upplýsingaskipta milli ríkja og grundvallast á fjölhliða samkomulagi aðildarríkja. Aðild að samtökunum er nauðsynleg þar sem verðbréfamarkaðir verða sífellt alþjóðlegri, t.d. með tilkomu NASDAQ OMX Group, og samstarf verðbréfaeftirlita við rannsókn mála fer vaxandi. Hefur Fjármálaeftirlitið verið hvatt af Evrópudeild IOSCO til að sækja um aðild.
    Búast má við að aukin verkefni vegna aðildar að IOSCO muni einkum felast í beiðnum um samstarf við rannsóknir frá aðildarríkjum samtakanna auk funda erlendis. Auk ferðakostnaðar er aðildargjald að IOSCO um 10 þúsund Evrur.
    Í þriðja lagi er sífellt aukin eftirspurn eftir upplýsingagjöf um íslenska fjármálamarkaðinn frá ýmsum erlendum aðilum, s.s. alþjóðastofnunum, lánshæfismatsfyrirtækjum, greiningardeildum og fjölmiðlum, en þessi þáttur jókst verulega í framhaldi af erfiðleikum hins alþjóðlega fjármálakerfis. Markmið Fjármálaeftirlitsins er að sinna þessu eftir bestu getu, bæði með fundum og aukinni upplýsingamiðlun á ensku.
    Eins og kom fram í kafla um lánamarkaðinn er talin þörf á þremur stöðugildum til að sinna eftirliti með starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis og samstarfi við erlenda eftirlitsaðila.

7.     Mannauður
    Forsenda þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt því hlutverki sínu að stuðla að traustum fjármálamarkaði er að það búi yfir mannauði með næga þekkingu og reynslu til að takast á við þau flóknu og margbreytilegu verkefni sem upp koma á fjármálamarkaði. Þær leiðir sem Fjármálaeftirlitið fer að þessu marki er að ráða til sín hæft fólk og viðhafa öfluga símenntun. Alls sóttu 88% starfsmanna Fjármálaeftirlitsins einhverja símenntun árið 2007 sem sýnir mikla virkni símenntunarstefnu eftirlitsins. Auk náms, námskeiða og ráðstefna innanlands og erlendis mun starfsmönnum í framtíðinni gefast tækifæri á starfaskiptum við önnur eftirlit í Evrópu.
    Fjármálaeftirlitið finnur verulega fyrir því að starfsfólk þess er eftirsóknarvert af ýmsum þeim aðilum sem tengjast fjármálamarkaðnum og til viðbótar er hörð samkeppni um hæft fólk við nýráðningar. Nokkuð hefur þó hægt á þessari hörðu samkeppni með samdrætti á markaði. Árið 2007 var um 16% starfsmannavelta hjá Fjármálaeftirlitinu sem er nokkuð meira en árið á undan. Þrátt fyrir ströng hæfnisskilyrði við nýráðningar hafa þær gengið vel það sem af er árinu 2008. Frammistaða starfsmanna er rædd í árlegum starfsmannsamtölum og unnið er að þróun sérstaks frammistöðumats og umbunar tengdri árangri samanber áform sem kynnt voru í síðustu rekstraráætlun.
    Eitt af markmiðum Fjármálaeftirlitsins er að vera eftirsóknarverður vinnustaður og að starfsfólk þess búi yfir fullnægjandi reynslu og þekkingu til að geta tekist á við verkefni sín. Þó svo að hlutfall þeirra sem nýta sér símenntun sé hátt þá sýnir reynslan að meðalstarfstími starfsmanna er rúmlega tvö og hálft ár (2,7 ár hjá þeim sem ráðnir hafa verið eftir 1. janúar 1999 og látið hafa af störfum). Þessar niðurstöður benda til þess að öflug símenntun og spennandi verkefni dugi ekki ein og sér til að halda í fólk. Mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið geti boðið samkeppnishæf laun og góðar starfsaðstæður.
    Í því skyni að bregðast við óvæntum útgjöldum og minnka líkur á hreyfingum góðra starfskrafta er óskað eftir svigrúmi sem nemur 2% hækkun launaliðar ársins 2009 til viðbótar við áætlaðar hækkanir vegna kjarasamninga.

8.     Verkefni, stöðugildi og hagræðing
    Með auknu umfangi og alþjóðavæðingu fjármálamarkaðarins hafa verkefni Fjármálaeftirlitsins aukist verulega á skömmum tíma. Bein eftirlitsábyrgð nær til starfsemi í mörgum ríkjum og kröfur um aukið samstarf við erlenda eftirlitsaðila hafa aukist. Verkefnin eru ekki einungis fleiri heldur flóknari. Jafnframt aukast sífellt kröfur um hraða, en jafnframt vandaða, afgreiðslu mála.
    Þessu til viðbótar hefur löggjafinn falið Fjármálaeftirlitinu ný verkefni, en á vorþingi 2008 hafa bæst við verkefni í lögum um sértryggð skuldabréf nr. 11/2008, lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, sbr. lög nr. 77/2008 og lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa nr. 131/1997, sbr. lög nr. 64/2008, sem áður hefur verið vikið að. Þessu til viðbótar hefur Fjármálaeftirlitinu verið falið eftirlit með innheimtustarfsemi, skv. innheimtulögum nr. 95/2008.
    Í umsögn um frumvarp til laga um innheimtustarfsemi benti Fjármálaeftirlitið á að umfang eftirlits og álag vegna ábendinga og samskipta við neytendur væri óljóst.
    Um er að ræða starfsemi sem er ólík núverandi verkefnum Fjármálaeftirlitsins. Eftirlit með innheimtustarfsemi kallar á breyttar áherslur í starfsemi Fjármálaeftirlitsins og nauðsynlegt er að setja á fót sérstaka einingu innan þess til að sinna þessu sértæka eftirliti og samskiptum við neytendur vegna þessa málaflokks.
    Ætla má að a.m.k. 3 stöðugildi þyrfti til að sinna verkefninu vel. Fjármálaeftirlitið vill gæta hófs við útgjöld og meta þörfina að fenginni reynslu og óskar því eftir 2 stöðugildum að svo stöddu til að sinna eftirliti samkvæmt þessum nýsamþykktu lögum.
    Til viðbótar áðurnefndu er óskað eftir 0,8 viðbótarstöðugildi við almenn skrifstofustörf, en með vaxandi fjölda starfsmanna og auknu umfangi fjármálastarfsemi eykst þörf fyrir stoðþjónustu við sérfræðinga eftirlitsins.
    Á síðustu árum hefur starfsmönnum Fjármálaeftirlitins fjölgað nokkuð, einkum á árinu 2008. Þrátt fyrir það hefur vart tekist að halda í við vöxt verkefna og verkefnaálag á starfsmenn Fjármálaeftirlitsins er verulegt. Hefur verið reynt að mæta því með lausráðningu starfsmanna og kaupum á sérfræðiaðstoð eftir því sem við á.
    Eftirfarandi mynd sýnir þróun í fjölda starfsmanna/stöðugilda frá árinu 2005 í lok hvers árs að frádregnum lausráðnum starfsmönnum.

MYND 6: Stöðugildi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á mynd 7 er að finna samanburð á vexti í álagningarstofnum helstu flokka eftirlitsskyldra aðila við þróun rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins. Það ber að athuga að álagningarstofnar miðast við tölur úr ársreikningum eftirlitsskyldra aðila 2 árum fyrir álagningarár.

MYND 7: Vöxtur í álagningarstofnun.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þróun álagningarstofna og rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins sem sýnd er í mynd 7, endurspeglast síðan í álagningarhlutföllum, sbr. mynd 8. Þar kemur fram að veruleg breyting hefur orðið á álagningarhlutföllum. Þannig hafa álagningarhlutföll lánastofnana lækkað í 30% af því sem var árið 1999 en álagningarhlutföll vátryggingafélaga hafa hækkað um 30%. Álagningarhlutföll lífeyrissjóða eru áætluð svipuð og þau voru árið 1999.

MYND 8: Álagningarhlutföll.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjármálaeftirlitið hefur leitast við að sýna hagkvæmni í rekstri og mæta verkefnaaukningu með breytingum á innra skipulagi og hagræðingu. Þannig hefur símaþjónustu verið útvistað, störf verið endurskilgreind og upplýsingatækni hefur bætt nýtingu á tíma sérfræðinga og stoðþjónustu. Fjármálaeftirlitið mun áfram vera vakandi fyrir hagræðingarmöguleikum bæði í almennum rekstri og með reglulegu endurmati á verkefnum starfsmanna og nýtingu tímabundinna starfsmanna og utanaðkomandi sérfræðinga.

10.     Lokaorð
    Skilningur á nauðsyn öflugs fjármálaeftirlits hefur farið vaxandi á síðustu árum en grunnstoðir þess eru fullnægjandi valdheimildir, sjálfstæði í starfi og fjárhagslegt bolmagn til þess að sinna verkefnum á viðunandi hátt.
    Sá órói sem ríkt hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og athygli sú sem beinst hefur að íslenskum fjármálafyrirtækjum er óræk sönnun þess að trúverðugt fjármálaeftirlit er styrkur fyrir markaðinn og fjármálafyrirtæki sem á honum starfa í slíkum veðrabrigðum.
    Aukið umfang og alþjóðavæðing íslenska fjármálamarkaðarins leggur auknar og flóknari skyldur á Fjármálaeftirlitið og teygir starfsemina til sífellt fleiri landa. Til þess að geta sinnt starfi sínu á fullnægjandi hátt þarf Fjármálaeftirlitið að hafa yfir að ráða nægum fjölda hæfs starfsfólks. Þessu til viðbótar þarf Fjármálaeftirlitið að hafa fullnægjandi vinnuaðstöðu og búnað fyrir starfsmenn sína.
    Á undanförnum árum hefur umfang í starfsemi Fjármálaeftirlitsins aukist nokkuð og starfsmönnum fjölgað, einkum á árinu 2008. Engu að síður er við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2009 talin þörf á að hækka rekstrarútgjöld til að mæta auknum kröfum til Fjármálaeftirlitsins. Skýrist það fyrst og fremst af eftirfarandi:
     1.      Fjölgun starfsmanna um 7,8.
              *      Lánamarkaður: 4 stöðugildi, þ.e. 1 stöðugildi vegna nýrra laga um sértryggð skuldabréf og eftirlit með gjaldeyrisskiptastöðvum (peningaþvætti) og 3 stöðugildi vegna starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis.
              *      Eftirlit með innheimtustarfsemi: 2 stöðugildi til að sinna eftirliti samkvæmt nýsamþykktum lögum.
              *      Upplýsingatækni: 1 stöðugildi til að sinna nýjum verkefnum samkvæmt breytingum á lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa og eftirliti með greiðslu- og uppgjörskerfum eftirlitsskyldra aðila innanlands og utan.
              *      Almenn skrifstofustörf: 0,8 stöðugildi til að sinna almennum skrifstofustörfum og stoðþjónustu við sérfræðinga.
     2.      Leigukostnaður mun hækka þar sem stefnt er að flutningi í nýtt húsnæði auk þess sem endurnýja verður skrifstofubúnað (einskiptiskostnaður), en hvoru tveggja hefur legið fyrir um nokkurt skeið.
     3.      Til að bregðast við óvæntum útgjöldum og minnka líkur á hreyfingum hæfra starfsmanna er gert ráð fyrir 2% hækkun á launalið umfram kjarasamningsbundnar hækkanir.
    Ef litið er fram til ársins 2010 er erfitt að segja hvort þörf verður á fleiri starfsmönnum enda þarf að meta stöðuna eftir töluverða fjölgun starfsmanna á árinu 2008 og viðbótar vegna nýrra verkefna á árinu 2009. Rétt er þó að geta nokkurra þátta sem myndu hafa áhrif í þessa veru:
     *      Þróun í umsvifum íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja almennt, einkum erlendis.
     *      Áhrif nýrrar löggjafar um innheimtustarfsemi, sértryggð skuldabréf og um uppgjör verðbréfa í erlendri mynt.
     *      Innleiðing á Solvency II tilskipuninni.
     *      Möguleg starfsemi alþjóðlegs eftirlaunasjóðs.
     *      Breytingar á lögum eða reglum sem fela Fjármálaeftirlitinu frekari verkefni.
    Til þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt alþjóðlegu hlutverki sínu þarf það að geta sinnt verkefnum sínum á fullnægjandi hátt. Í því skyni þarf það fjármuni til þess að búa yfir nægum fjölda hæfra starfskrafta, fullnægjandi vinnuaðstöðu og geta staðið straum af nauðsynlegum rekstrarútgjöldum vegna starfseminnar. Rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins er því mikilvæg grunnstoð öflugs eftirlits, sem eykur traust á íslenskum fjármálamarkaði og styrkir samkeppnishæfni hans.



Fylgiskjal III.


Samráðsnefnd
eftirlitsskyldra aðila:


UM REKSTRARÁÆTLUN FJÁRMÁLAEFTIRLITSINS
FYRIR ÁRIÐ 2009


    Meðfylgjandi eru athugasemdir samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila við greinargerð um áætlað rekstrarumfang FME árið 2009 og fylgiskjal um rekstur og starfsumhverfi næstu þrjú ár, sem kynnt voru nefndinni í júní.

Fjárhagsáætlun 2009

Tafla um þróun rekstrarkostnaðar FME

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1.    Launakostnaður nemur rúmum 75 prósentum af heildarrekstrarkostnaði FME. Í rekstraráætlun fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir 30,6% hækkun launakostnaðar eða um 207 millj. kr. Heildarrekstrarkostnaður hækkar um 288 millj. kr. eða sem nemur 31,8% milli ára.
2.    Í áætlun FME er gert ráð fyrir að launakostnaður hækki um 207 millj. kr. Samráðsnefnd telur rök stjórnenda FME ekki skýra nægilega svo miklar hækkanir milli ára. Að mati samráðnefndar er ekki ástæða til að gera ráð fyrir 17 millj. kr. vegna óvæntra útgjalda til að mæta samkeppni. Þau launakjör sem FME býður og núverandi staða aðila sem greiða rekstur FME, sem eru að draga saman en ekki ráða, á að tryggja að starfsmenn FME séu ekki að leita á önnur mið vegna launakjara.
3.    Í áætlun FME er heildarlaunakostnaður 2009 áætlaður kr. 882,7 millj. og stöðugildi alls 56,4 í upphafi árs og 64,2 í lok árs 2009 eða að meðaltali 60,3 á árinu. Samkvæmt því er meðallaunakostnaður á hvern starfsmann hár í öllum eðlilegum samanburði.
4.    Samantekt á athugasemdum. Varlega áætlað telur samráðsnefnd FME a.m.k. ofáætla um rúmar 17 millj. kr. vegna 2009. Sú niðurstaða gæfi að hækkun á milli ára ætti að vera nær 271 millj. kr., en ekki 288 millj. kr., eða 30% hækkun. Hafa má í huga að hækkun milli rekstraráranna 2007 og 2008 nam 61,2%, sem er gríðarleg aukning. Samráðsnefnd hafði vonast eftir hóflegri hækkun í framhaldinu og því kom á óvart að sjá áætlun um 31,8% hækkun sem er næst mesta hækkun rekstrarkostnaðar FME milli ára í sögu þess.

Nýting fjármuna FME
5.    Samráðsnefnd undirstrikar mikilvægi þess að hækkun til FME verði nýtt sem best til að auka enn frekar gæði í störfum eftirlitsins. Hlutverk og ábyrgð lykilstarfsmanna og skipulag starfsemi skiptir þar miklu. Gott samstarf markaðsaðila og eftirlits er lykillinn að því að þróa samkeppnishæfan fjármálamarkað. Miklu skiptir einnig að FME skynji þarfir fjármálamarkaðarins, svo sem mikilvægi þess að leiða mál fljótt og örugglega til lykta enda er mikilvægi skjótrar ákvarðanatöku meira í fjármálastarfsemi en víðast annars staðar.

Skipting eftirlitsgjalds
6.    Samráðsnefnd telur afar mikilvægt að kostnaði vegna vinnu FME við framkvæmd innheimtulaga verði skipt með eðlilegum hætti milli þeirra aðila sem þau lög snúa að, en ekki dreift á eftirlitsskylda aðila almennt.
7.    Samráðsnefnd ítrekar áherslur fyrri ára um að eðlilegt sé að ríkið greiði fyrir þá beinu þjónustu sem starfsfólk FME sinnir fyrir stjórnvöld, s.s. í tengslum við laga- og reglusetningu. Það er réttlætismál auk þess sem með því móti yrði kostnaðaraðhald ríkisins gagnvart eftirlitinu virkara.

Reykjavík 30. júní 2008,
f.h. samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila,

Guðjón Rúnarsson
formaður




Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999,
um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að kveða á um álagningarstofna eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Ár hvert skulu Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skila viðskiptaráðherra skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til breytinga á eftirlitsgjaldi skal viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja og rekstrarfélaga lækki, að álagningarhlutföll vátryggingamiðlara, kauphalla og verðbréfamiðstöðva haldist óbreytt en að álagningarhlutföll annarra aðila, þ.e. vátryggingafélaga, verðbéfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs hækki. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald á árinu 2008 verði samtals 915 m.kr. en 1.116 m.kr. árið 2009 og nemur áætluð hækkun á milli ára 201 m.kr. eða 22%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2008 er 904 m.kr. en 1.192 m.kr. árið 2009 og er áætluð hækkun á milli ára 287,9 m.kr. eða 31,8%. Hækkun á rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins felst fyrst og fremst í auknum launakostnaði sem áætlað er að hækki um 207 m.kr. eða 30,6% en gert er ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi um átta árið 2009. Áætluð hækkun annars rekstrarkostnaðar nemur 81 m.kr. eða 28,1%. Þar vegur húsnæðiskostnaðurinn þyngst eða um 23 m.kr. og rekstur tölvubúnaðar þar á eftir eða um 12,5 m.kr.
    Rekstur Fjármálaeftirlitsins er alfarið fjármagnaður með eftirlitsgjaldi sem lagt er á eftirlitsskylda aðila og færist á tekjuhlið ríkissjóðs. Mismunurinn á áætluðum tekjum og gjöldum árið 2009 greiðist af uppsöfnuðum tekjuafgangi stofnunarinnar ásamt sértekjum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu ríkisútgjöld aukast um 288 m.kr. en afkoma ríkissjóðs verður óbreytt eftir sem áður.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Samsvarar 30 m.kr. vegna eftirlitsgjalds ársins 2007 og 45,7 m.kr. vegna ársins 2008.
Neðanmálsgrein: 2
    1 Fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög.