Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 241. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 355  —  241. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun vinnubragða við gerð fjárlaga.

Flm.: Ármann Kr. Ólafsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða vinnubrögð við gerð fjárlaga þar sem kannaðir verða kostir þess að taka upp núllgrunnsfjárlög.

Greinargerð.


    Í kjölfar bankahrunsins hefur ríkissjóður orðið fyrir miklu áfalli. Í stað þess að fjárlögum sé lokað með rekstrarafgangi eins og undanfarin ár er ljóst að mikill halli verður á þeim á næstu árum. Þessi staðreynd kallar á alveg ný vinnubrögð. Það getur ekki gengið lengur að horfa eingöngu til þess hversu miklu hefur verið eytt í einstaka liði á undanförnum árum og bæta við þá eða lækka þá lítillega á milli ára eftir því hvernig árferðið er hverju sinni. Þá er nýjum liðum bætt við reglulega án þess að mikill eða öflugur rökstuðningur sé þar að baki.
    Núllgrunnsfjárlagagerð (e. zero-base budgeting) er þekkt vinnuaðferð sem ýmsir horfa til í þeim tilgangi að draga úr sjálfvirku hækkunarferli sem núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér. Núllgrunnsfjárlög eru ekki lausn allra vandamála fjárlagagerðarinnar. Gildi þeirra felst fyrst og fremst í því að vald er fært til. Ríkisstofnanir og ráðuneyti sem eru stærstu notendur fjár úr opinberum sjóðum verða að endurmeta og rökstyðja öll sín útgjöld frá grunni. Alla liði útgjalda þarf að skýra út frá þörf og nauðsyn stöðunnar á hverjum tíma.
    Rík þörf er á róttækum aðgerðum til að bæta vinnslu og framkvæmd fjárlaga. Ríkisútgjöld hafa vaxið úr hófi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Á góðæristímum var þetta mögulegt en raunveruleikinn sem nú blasir við er annar.
    Alþingi, og þar með fjárlaganefnd, verður að fá virkari tæki í hendur til þess að hafa möguleika á bættu eftirliti með framkvæmd fjárlaga ríkisins. Af þessum sökum er augljóst að löggjafarvaldið þarf ný úrræði á þeim erfiðu tímum sem framundan eru.