Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 788  —  446. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2008.

1. Inngangur.
    Fimm veigamestu málin í starfi Norðurlandaráðs 2008 voru hnattvæðing, samstarf Norðurlandaráðs við Norrænu ráðherranefndina, tengsl Norðurlandaráðs við Hvíta-Rússland og Norðvestur-Rússland, öryggismál og fjármálakreppa.
    Norrænt samstarf í tengslum við hnattvæðingu, eða hnattvæðingarvinnan sem svo er nefnd, snýst um að samhæfa og gera skilvirkari aðgerðir Norðurlandanna til að mæta áskorunum hnattvæðingar, þ.m.t. að auka samkeppnishæfni Norðurlanda. Samstarfið byggist á ákvörðun forsætisráðherra Norðurlandanna frá 2007 og eru helstu áherslur þess loftslagsmál, umhverfismál, orkumál, þekking og nýsköpun, vinna gegn landamærahindrunum, þ.e. stjórnsýslu- eða kerfishindrunum sem hefta för einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda, og kynning á Norðurlöndunum. Norðurlandaráð lagði á árinu 2008 áherslu á fjögur atriði í umfjöllun sinni um hnattvæðingarvinnuna, þ.e. hnattvæðingarverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, hnattvæðingarráðstefnu hennar, landamærahindranir og fjárlög norræns samstarfs.
    Síðastnefnda atriðið var samtvinnað umfjöllun Norðurlandaráðs um samstarf ráðsins við Norrænu ráðherranefndina. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fjárlagahópur hennar fjallaði töluvert á árinu um vinnu ráðherranefndarinnar við norrænu fjárlögin, sem Norðurlandaráð hefur umsagnar- og tillögurétt um. Í upphafi ársins var fjárlagahópurinn gagnrýninn á atriði fjárlaga áranna 2008 og 2009 varðandi hnattvæðingarvinnunna. Ráðherranefndin gerði í kjölfar þess betur grein fyrir þeim og á haustdögum náðist samkomulag milli ráðherranefndarinnar og ráðsins um fjárlögin 2009. Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin voru einnig ósammála um það á árinu hvort koma ætti á fót nýjum norrænum verðlaunum fyrir nýsköpun. Tillaga ráðherranefndarinnar þess efnis var til umfjöllunar hjá ráðinu í september og október en svo fór að hún var felld á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í lok október.
    Norðurlandaráð jók á árinu tengsl sín við stjórnmálaöfl í Hvíta-Rússlandi og Norðvestur- Rússlandi. Upphaf þess má rekja til málþings í Vilnius haustið 2007, sem skipulagt var af Norðurlandaráði í samstarfi við Eystrasaltsþingið, um loftslagsmál og hlutverk þingmanna á breytingatímum og haldið var með þátttöku stjórnmálamanna frá Hvíta-Rússlandi. Í mars 2008 skipulagði Norðurlandaráð aftur málþing í Vilnius um orku, umhverfi, loftslagsbreytingar, rannsóknir og menntun, einnig með þátttöku stjórnmálamanna frá Hvíta-Rússlandi. Forsætisnefnd tók fyrir á árinu tillögu um að koma á fót norrænni upplýsingaskrifstofu í Minsk í Hvíta-Rússlandi, á svipaðan hátt og gert hefur verið í Eystrasaltsríkjunum, og ákvað leita umsagnar í norrænu löndunum um hana. Þá fóru fulltrúar Norðurlandaráðs í heimsókn til héraðsþinga Arkhangelsk og Murmansk í Norðvestur-Rússlandi í september til að styrkja tengsl ráðsins við héraðsþing svæðanna.
    Umfjöllun Norðurlandaráðs um öryggismál árið 2008 var að nokkru leyti í framhaldi af umfjöllun þess 2007. Norræna ráðherranefndin gerði grein fyrir öryggismálum við umræður um utanríkismál á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í október. Lögð var fram tillaga í ráðinu um aukið samstarf norrænu ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Thorvald Stoltenberg var gestur á fundi forsætisnefndar í desember og gerði grein fyrir vinnu starfshóps undir hans forustu um öryggis- og varnarmál.
    Hin alþjóðlega fjármálakreppa var mjög til umræðu meðal þingmanna á Norðurlandaráðsþinginu í október, svo og staða efnahagsmála á Íslandi. Norrænu forsætisráðherrarnir héldu sérstakan fund á þinginu um fjármálakreppuna. Í yfirlýsingu þeirra eftir fundinn lýstu þeir áhyggjum yfir neikvæðum áhrifum sem fjármálakreppan hefði á efnahagsmál í heiminum öllum og lögðu áherslu á þörf á alþjóðlegum reglum til að bæta starfsemi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Varðandi alvarleika ástandsins á Íslandi lýstu forsætisráðherrarnir yfir stuðningi við Ísland og létu í ljós ánægju yfir að Ísland hefði gert bráðabirgðasamkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðaráætlun.
    Finnar fóru með formennsku í Norðurlandaráði 2008. Forseti ráðsins var Erkki Tuomioja og varaforseti Christina Gestrin.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna landanna fjögurra (ásamt sjálfstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert land skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Árið 2008 skipuðu Íslandsdeildina Árni Páll Árnason, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Kjartan Ólafsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Jón Magnússon, þingflokki Frjálslynda flokksins.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2008 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2008 á 59. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Ósló 30. október til 1. nóvember 2007. Eftir kosningar í nefndir og ráð var nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2007 sem hér segir: Árni Páll Árnason sat áfram í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir var áfram formaður velferðarnefndar, Kjartan Ólafsson var formaður eftirlitsnefndar og sat áfram í borgara- og neytendanefnd, Kolbrún Halldórsdóttir tók sæti í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Kristján Þór Júlíusson sat áfram í efnahags- og viðskiptanefnd, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir var áfram í menningar- og menntamálanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs og voru fulltrúar þess út á við. Árni Páll Árnason átti sæti í fjárlagahóp forsætisnefndar. Hann var einnig fulltrúi Norðurlandaráðs í heimsókn ráðsins til héraðsþinga í Arkhangelsk og Murmansk í Norðvestur-Rússlandi 7.–13. september. Siv Friðleifsdóttir var fulltrúi Norðurlandaráðs á málþingi um orku, umhverfi, loftslagsbreytingar, rannsóknir og menntun í Vilnius 10. mars með þátttöku þingmanns og stjórnarandstæðinga frá Hvíta-Rússlandi, og fulltrúi Norðurlandaráðs á hnattvæðingarráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar á ráðstefnu- og skíðastaðnum Riksgränsen í Norður-Svíþjóð 8.–9. apríl. Siv var einnig fulltrúi ráðsins í heimsókn þess til héraðsþinga í Arkhangelsk og Murmansk í Norðvestur-Rússlandi 7.–13. september og fulltrúi ráðsins á Eystrasaltsþingi í Tallinn 4.–6. desember. Helgi Hjörvar var fulltrúi umhverfis- og náttúruauðlindanefndar á Eystrasaltsdags ráðstefnunni 11.–15. mars í Pétursborg og á fundi umhverfisnefnda Eystrasaltsráðsins og Norðurlandaráðs 22.–23. maí í Tallinn.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sjö sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingi Norðurlandaráðs og fjallað um mál á verksviði nefndarinnar, ásamt gagnkvæmum upplýsingaskiptum meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og starfshópum Norðurlandaráðs.
    Í apríl fundaði Íslandsdeild með fulltrúum Norræna félagsins og Norræna hússins. Gestir nefndarinnar voru Þorvaldur S. Þorvaldsson, varaformaður Norræna félagsins, Úlfur Sigurmundsson, gjaldkeri Norræna félagsins, Óðinn Albertsson, framkvæmdastjóri Norræna félagsins, Alma Sigurðardóttir, verkefnisstjóri Halló Norðurlönd, Stefán Vilbergsson, verkefnisstjóri Nordjobb, og Max Dager, framkvæmdastjóri Norræna hússins. Þá fundaði Íslandsdeild í júní með Snjólaugu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Í júní úthlutaði Íslandsdeild fréttamannastyrkjum Norðurlandaráðs 2008. Styrk hlutu Auðunn Arnórsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Halla Gunnarsdóttir, Pálmi Jónasson, Pétur Halldórsson og Sveinn Helgason. Í ágúst voru Ole Norrback og Guðríður Sigurðardóttir gestir á fundi Íslandsdeildar. Norrback er formaður samstarfsvettvangs Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnu gegn stjórnsýsluhindrunum og Guðríður fulltrúi Íslands í samstarfsvettvanginum. Á fundinum var helst rætt um myndun nýrra hindrana við lagasetningar og innleiðingu ESB-tilskipana. Í september fundaði Íslandsdeild með Sigrúnu Grendal, formanni félags tónlistarkennara, og Árna Sigurbjarnarsyni, skólastjóra tónlistarskóla Húsavíkur. Þau kynntu verkefnið „The Cultural Greenhouse“, sem að standa Norræn samtök tónlistaruppalenda (Nordisk Union for Musikutbildare – NUMU) og Samráðsvettvangur fulltrúa norræna samtaka sem eru aðilar að EMU, Evrópusamtökum tónlistarskóla, (Nordisk Musik og Kulturskole Union – NMKU). Meginmarkmið verkefnisins er að leggja grunn að og vera tæki til frekari þróunar á gæði listakennslu, þróunar á starfsemi tónlistar- og listaskóla, og þróunar á menntakerfinu í heild.
    Í október fundaði Íslandsdeild um fjármálakreppuna í aðdraganda Norðurlandaráðsþings. Karl M. Matthíasson, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, sat einnig fundinn. Gestir fundarins voru Gréta Gunnarsdóttir, Auðunn Atlason og Högni Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti, og Jón Sigurgeirsson frá Seðlabanka. Á fundinum kynnti einnig Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009. Hún ræddi meðal annars áherslu Íslands á orkumál, hnattvæðingarráðstefnu ráðherranefndarinnar í febrúar og vinnslu vákorts um Norður- Atlantshafið. Í nóvember hélt Íslandsdeild fund þar sem lagt var mat á framkvæmd Norðurlandaráðsþings í Helsinki, og fjallaði um eftirfylgni þeirra tilmæla sem Norðurlandaráð samþykkti þar og fyrr á árinu. Íslandsdeild fjallaði einnig í nóvember um stöðu þýðinga hjá Norðurlandaráði í tilefni af bréfi Finnlandsdeildar ráðsins til framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs um þörfina fyrir þýðingar á skjölum á finnsku.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sat í forsætisnefnd á starfsárinu 2008.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í henni. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við Norðurlandaráðsþingið. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá vinnu sérstaklega að sér árið 2008, líkt og áður hafði verið gert. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri. Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd fundaði sex sinnum árið 2008. Í janúar var sænski samstarfsráðherrann, Cristina Husmark Pehrsson, gestur nefndarinnar og kynnti formennskuáætlun Svía og samráð um fjárlagavinnu um norrænt samstarf 2009.
    Forsætisnefnd átti einnig í janúar árlegan fund með fulltrúum Sambands norrænu félaganna sem undirstrikuðu mikilvægi norrænu félaganna við tengsl opinbers norræns samstarfs við almenning og lýstu yfir áhyggjum af boðuðum niðurskurði til norrænna upplýsingaskrifstofa á Norðurlöndum, m.a. á Akureyri.
    Á fundi í apríl upplýsti forseti Norðurlandaráðs æskunnar, Lisbeth Sejer Gøtzsche, forsætisnefnd um þá samþykkt ráðsins að heimila notkun ensku á fundum þess, ásamt Norðurlandatungumálum, vegna skorts á fjárveitingum til túlkunar. Samþykkt Norðurlandaráðs æskunnar olli nokkurri umræðu á vettvangi norræns samstarfs á árinu 2008 og um tungumálanotkun innan þess.
    Tungumál í norrænu samstarfi voru frekar til umfjöllunar hjá forsætisnefnd í júní, en lagt hafði verið til bréflega af hálfu flokkahóps vinstrisósíalista og grænna við framkvæmdastjóra ráðsins að þýdd yrðu yfir á grænlensku og færeysku skjöl sem snertu beint þeirra hagsmuni. Í umræðu um málið var Árni Páll Árnason sammála framkvæmdastjóra og ritarafundi ráðsins, sem áður höfðu fjallað um erindið, um að ekki skyldi taka upp slíkar þýðingar, en benti á að málið vekti upp ýmsar spurningar, t.d. hvaða skjöl í norrænu samstarfi skyldu þýdd og þá á hvaða tungumál? Niðurstaðan var sú að styðja ekki hugmyndir um þýðingar á grænlensku og færeysku en að hægt væri að taka afstöðu til þýðinga í einstökum tilvikum.
    Forsætisnefnd fjallaði einnig í júní um tillögu A 1435/presidiet um að koma á fót norrænni upplýsingaskrifstofu í Minsk í Hvíta-Rússlandi á svipaðan hátt og gert var í Eystrasaltsríkjunum. Í umræðunum kom fram að slíkt mundi styðja við lýðræðisþróun en þörf væri fyrir meiri undirbúning og umfjöllun málsins. Árni Páll Árnason og aðrir kölluðu meðal annars eftir dýpri umfjöllun um stöðu norrænu upplýsingaskrifstofanna í nærsvæðasamstarfinu til austurs, sér í lagi við þær breyttu aðstæður að Eystrasaltsríkin væru nú meðlimir í ESB. Nefndin ákvað að senda tillöguna til umsagnar í norrænu löndunum áður en lengra yrði haldið.
    Í september fjallaði forsætisnefnd um tillögur og nefndarumsögn sem snerta öryggis- og varnarmál. Tekin var til umræðu tillaga A 1450/præsidiet um aukið norrænt samstarf í varnar- og öryggismálum, t.d. af efnahagslegum ástæðum. Þar sem efni tillögunnar skaraðist að nokkru leyti við verksvið Stoltenberg-hópsins, sem vann undir forustu Thorvalds Stoltenbergs á seinni helmingi 2008 að skýrslu fyrir norrænu utanríkisráðherrana um hvernig þróa mætti samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum á næstu 10–15 árum, var ákveðið að setja tillöguna aftur á dagskrá á desemberfundi nefndarinnar þegar skýrslan yrði að öllum líkindum tilbúin og bjóða Thorvald Stoltenberg til fundarins til að ræða efni hennar. Forsætisnefnd samþykkti síðan í desember breytta útgáfu tillögunnar, nr. A 1455/presidiet, þar sem Norðurlandaráð beindi tilmælum til ríkisstjórna norrænu landanna að beita sér fyrir auknu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála. Rolf Reikvam, frá flokkahópi vinstrisósíalista og grænna, upplýsti að flokkahópur hans legði fram sérálit (reservation) um að aðhafast ekki frekar varðandi tillöguna.
    Einnig var til umræðu í september beiðni Vestnorræna ráðsins nr. 1/2008 til Norðurlandaráðs, samkvæmt samstarfssamningi Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins, um að Norðurlandaráð beindi þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að setja á fót tvo starfshópa til að vinna skýrslu um siglingaöryggi í Norður-Atlantshafi. Annars vegar til að greina siglingaöryggi og hins vegar til að leggja drög að sameiginlegri norrænni samstarfs- og aðgerðaáætlun um björgunarmál til sjós. Forsætisnefnd ákvað að taka beiðni Vestnorræna ráðsins til umfjöllunar í desember þegar fyrir lægi skýrsla Stoltenberg-hópsins um skyld efni, til að færa sér í nyt samlegðaráhrif í alþjóðastarfi og minnka líkur á tvíverknaði. Beiðnin var tekin fyrir á ný í desember og ákvað forsætisnefnd að bíða með umfjöllun beiðninnar þar til eftir birtingu Stoltenberg-skýrslunnar og eftir að Norðurskautsráðið hefði kynnt skýrsluna „Arctic Marine Shipping Assessment“ (AMSA) og ákveðið aðgerðir á grunni niðurstaðna hennar. Áætlað var að síðastnefnda skýrslan yrði kynnt í apríl 2009.
    Þá var í september tekin fyrir umsögn forsætisnefndar um greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um samfélagsöryggi, í framhaldi af tilmælum Norðurlandaráðs 5/2006 til Norrænu ráðherranefndarinnar, um starf ráðherranefndarinnar á sviði samfélagsöryggis, og skriflegri málaleitan ráðsins til ráðherranefndarinnar í kjölfar ákvörðunar forsætisnefndar í Reykjavík 2007 varðandi skýrslugerð og greiningu, auk ráðstefnu um borgaralegt öryggi í Norðurhöfum. Forsætisnefnd samþykkti umsögnina, en í henni kom fram að Norðurlandaráð teldi ófullnægjandi þau rök ráðherranefndarinnar, sem fram komu í greinargerðinni, að örðugt væri að reka starf á vegum ráðherranefndarinnar um samfélagsöryggi, meðal annars vegna þess að sum mál á verksviði samfélagsöryggis, á borð við varnar- og utanríkismál, væru ekki hluti af formlegu norrænu samstarfi. Norðurlandaráð áleit að Norrænu ráðherranefndinni væri mögulegt að vinna að samfélagsöryggi þrátt fyrir að svið þess samræmist illa hefðbundinni aðgreiningu milli utanríkismála, öryggismála og varnarmála. Sérstaklega þar sem greining á ytri og innri ógnum við samfélög hefði breyst á síðustu 10–20 árum og tæki nú aðeins að takmörkuðu leyti til hernaðarlegra eða landfræðilegra þátta. Ráðið lýsti í umsögninni yfir ánægju með ráðstefnu norska rannsóknarráðsins um samfélagsöryggi í september 2008 og gerði ráð fyrir að fá skýrslu um borgaralegt öryggi í Norðurhöfum frá sænska utanríkisráðherranum, fyrir hönd ráðherranefndarinnar, á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki. Því afskrifaði ráðið tilmælin og málaleitanina varðandi skýrslugerð og ráðstefnu. Þar sem Norðurlandaráð taldi hins vegar viðbrögð ráðherranefndarinnar við tilmælum þess um að nefndin tæki afgerandi afstöðu um starf á hennar vegum á sviði samfélagsöryggis ófullnægjandi bjóst ráðið við nýrri greinargerð frá ráðherranefndinni um málið árið 2009.
    Thorvald Stoltenberg var gestur forsætisnefndar í desember en honum hafði verið falið af norrænu utanríkisráðherrunum í júní 2008 að leiða greiningarvinnu um þarfir og möguleika á nánari samvinnu Norðurlanda á sviði öryggis- og varnarmála. Sú vinna fólst m.a. í samskiptum við ríkisstjórnir og stjórnarandstöðu í norrænu löndunum. Gert var ráð fyrir að niðurstöðurnar yrðu settar fram í skýrslu til utanríkisráðherranna í desember 2008 en úr varð að skýrslan kom út í febrúar 2009. Stoltenberg ræddi á fundi forsætisnefndar helstu umfjöllunarefni skýrslunnar og svaraði spurningum, en óskaði eftir því að farið yrði með upplýsingarnar sem trúnaðarmál. Meðal þess sem Stoltenberg fjallaði um var eftirlit í Norðurhöfum og Eystrasalti, norrænt friðargæslulið, útgjöld til varnarmála, norrænar rannsóknir á stríðsglæpum, samvinnu Norðurlanda um sendiráð, framlag Norðurlanda til Sameinuðu þjóðanna, og samstarf utanríkisráðherra Norðurlandanna.
    Forsætisnefnd lagði í desember mat á Norðurlandaráðsþingið í Helsinki. Helstu sjónarmið sem fram komu voru að endurskoða ætti reglur um framkvæmd leiðtogafundar fulltrúa norrænna ríkisstjórna og stjórnarandstöðu ásamt reglum um framkvæmd þingsins í heild, þar á meðal reglur um ræðutíma. Enn fremur ætti að endurskoða fundi forsætisnefndar sem haldnir eru í tengslum við þingið með gestum og norrænum ráðherrum. Árni Páll Árnason og Marion Pedersen gagnrýndu þann árekstur sem varð í skipulagi þingsins í Helsinki þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra þurfti að yfirgefa umræðu um formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009 til að sitja hádegisverðarboð forseta Finnlands Törju Halonen.
    Í júní og desember var til umfjöllunar hjá forsætisnefnd tillaga A 1439/presidiet um aukna tengingu og eftirfylgni (förankring) norræns samstarfs við norrænu þjóðþingin. Tillagan fól í sér að málefnanefndir og forsætisnefnd Norðurlandaráðs gætu tekið ákvörðun um að senda fastanefndum þjóðþinganna þær greinagerðir Norrænu ráðherranefndarinnar og norrænu ríkisstjórnanna sem þær hafa til umfjöllunar, til umsagnar með milligöngu landsdeildanna. Tillagan var samþykkt á fundi forsætisnefndar í desember.
    Á fundi sínum í lok árs hafði forsætisnefnd samráð við Norrænu ráðherranefndina. Christina Husmark Pehrsson, samstarfsráðherra Norðurlanda í Svíþjóð, og Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, voru gestir fundarins sem fulltrúar þeirra landa sem fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2008 og 2009. Á fundinum sagði Pehrsson að mikilvægt væri að ráðherranefndin og ráðið ættu greinargóðar samræður um vinnuna við norrænu fjárlögin sem fyrst á árinu 2009. Snjólaug tilkynnti að norræn frumkvöðlaverðlaun yrðu ekki afhent á hnattvæðingarráðstefnu ráðherranefndarinnar í Bláa lóninu í febrúar 2009 samkvæmt ákvörðun ráðsins á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki. Hún upplýsti einnig að umfjöllunarefni ráðstefnunnar yrði fjármálakreppan og að fimm fulltrúum Norðurlandaráðs yrði boðið að taka þátt í ráðstefnunni. Jan-Erik Enestam, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, kom því á framfæri varðandi hnattvæðingarráðstefnuna að Norðurlandaráð hefði óskað eftir að taka þátt í undirbúningi ráðstefnunnar en ekki hefði verið komið til móts við þær óskir. Einnig kom fram að gagnrýnt hefði verið að Norræna ráðherranefndin hefði ekki haft nægjanlegt samráð við Norðurlandaráð við undirbúning og þátttöku ráðsins á hnattvæðingarráðstefnu ráðherranefndarinnar í apríl 2008. Í kjölfarið ákvað forsætisnefnd að rita bréf til ráðherranefndarinnar um hvernig ráðið gæti komið að undirbúningi næstu hnattvæðingarráðstefnu.
    Forsætisnefnd samþykkti sjö tilmæli af hálfu Norðurlandaráðs á tímabilinu janúar til október 2008. Tvö þeirra höfðu verið til umfjöllunar í nefndinni sem tillögur, þ.e. aðgerðir til að efla verkefnisþróun innan ramma framkvæmdaáætlunar um málefni Eystrasaltsins (tilmæli 3/2008), og samnorræn eftirlitskerfi á norðurskautssvæðum (tilmæli 6/2008). Þá voru fimm tillögur samþykktar sem tilmæli á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki fyrir tilstilli forsætisnefndar. Þær voru ráðherranefndartillaga um norræna áætlun um samstarf á norðurskautssvæðum 2009–2011 (tilmæli 8/2008), ráðherranefndartillaga um áætlun um samstarf við Eistland, Lettland og Litháen 2009–2013 (tilmæli 9/2008), ráðherranefndartillaga um norræna-baltneska ferðastyrkjaáætlun 2009–2013 (tilmæli 10/2008), ráðherranefndartillaga um áætlun um samstarf við Norðvestur-Rússland 2009–2013 (tilmæli 11/2008) og ráðherranefndartillaga um verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 (tilmæli 33/2008).
    
Menningar- og menntamálanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í menningar- og menntamálanefnd árið 2008 var Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Meðal þess sem höfuðáhersla var lögð á í menningar- og menntamálanefnd árið 2008 var menning og heilsa, menning og þróun, menning í skólum og menning og atvinnulífið. Í apríl sagði formaður nefndarinnar, Lars Wegendal, af sér í mótmælaskyni við fyrirhugaðan niðurskurð til menningarmála í fjárlögum norræns samstarfs árið 2009.
    Fimm tillögur sem menningar- og menntamálanefnd hafði til umfjöllunar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu 2008. Þær voru þingmannatillaga um menningarsamstarf innan norðlægu víddarinnar (tilmæli 12/2008), þingmannatillaga um menningu og heilsu (tilmæli 23/2008), þingmannatillaga um sameiginlegar norrænar rannsóknir á brottfalli úr námi og jaðarhópum í menntakerfum á Norðurlöndum (tilmæli 31/2008) og þingmannatillaga að breyttum reglum bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (tilmæli 32/2008).

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Kristján Þór Júlíusson var fulltrúi Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd á árinu.
    Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Helstu mál á borði efnahags- og viðskiptanefndar árið 2008 voru samgöngumál, landamærahindranir, skapandi iðnaður, loftslagsbreytingar frá efnahagslegu sjónarhorni og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja.
    Sjö tillögur sem efnahags- og viðskiptanefnd hafði til umfjöllunar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs árið 2008. Það voru sameiginleg stjórnun rándýrastofna á Norðurlöndum (tilmæli 4/2008), sameinað norrænt átak til að bjarga fiskstofnum og sjávarútvegi (tilmæli 5/2008), þingmannatillaga um norræna framkvæmdaáætlun um loftslagsvæna stefnu í samgöngumálum (tilmæli 17/2008), ráðherranefndartillaga um stofnun norrænna nýsköpunarverðlauna (tilmæli 25/2008), þingmannatillaga um norræna nýsköpunarstefnu (tilmæli 26/2008), ráðherranefndartillaga um áætlun í vinnumálum 2009–2012 (tilmæli 27/2008), ráðherranefndartillaga um samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar í byggðamálum (tilmæli 28/2008) og þingmannatillaga um norræna nýsköpunarstefnu (tilmæli 36/2008).

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Á árinu 2008 voru Helgi Hjörvar og Kolbrún Halldórsdóttir fulltrúar Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og nátturuauðlindanefnd annast málefni er varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Megináhersla umhverfis- og náttúruauðlindanefndar árið 2008 var á sjálfbæra og skilvirka orkunotkun, aðgerðaáætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar 2009–2012 varðandi umhverfi, sjálfbæra þróun, landbúnað, skógrækt og fiskveiðar og sorphirðu. Nefndin fundaði m.a. með umhverfisnefnd Eystrasaltsþingsins um meðferð heimilissorps og skoðaði í því sambandi sorpvinnslustöð í Stavanger undir leiðsögn Kjell Øvind Pedersen framkvæmdastjóra.
    Á árinu 2008 samþykkti Norðurlandaráð sex tillögur sem tilmæli fyrir tilstuðlan umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Þær voru sameiginleg stjórnun rándýrastofna á Norðurlöndum (tilmæli 4/2008), Sameinað norrænt átak til að bjarga fiskstofnum og sjávarútvegi (tilmæli 5/2008), ráðherranefndartillaga um framkvæmdaáætlun í umhverfismálum 2009– 2012 (tilmæli 13/2008), ráðherranefndartillaga um stefnu um sjálfbæra þróun 2009–2012 (tilmæli 14/2008), ráðherranefndartillaga um rammaáætlun um samstarf á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, skógræktar og matvæla 2009–2012 (tilmæli 15/2008) og þingmannatillaga um norræna framkvæmdaáætlun um loftslagsvæna stefnu í samgöngumálum (tilmæli 17/2008).

Velferðarnefnd.
    Siv Friðleifsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar og formaður í velferðarnefnd á starfsárinu 2008.
    Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu- og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, byggingar- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, málefnum barna og unglinga og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Aðaláhersla árið 2008 hjá velferðarnefnd var lögð á afleiðingar vanrækslu barna, transfitusýrur í matvælum og menningu og heilsu. Nefndin hélt í janúar ásamt menningar- og menntamálanefnd málþing um menningu og heilsu. Anna Luise Kirkengen, doktor í læknisfræði, var gestur á fundi velferðarnefndar í apríl í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um hvernig vanræktum börnum vegnar á fullorðinsárum. Þá fór nefndin í heimsókn í apríl í K46 í Stavanger, miðstöð fyrir ungt fólk sem er að stíga fyrstu skref í átt til meðferðar, þar sem Lisbeth Skibenes verkefnastjóri og Terje Lie sérfræðingur kynntu starfsemi miðstöðvarinnar. Velferðarnefnd heimsótti einnig í Stavanger UNGBO, heimili fyrir ungt fólk sem hefur verið í umsjón barnaverndaryfirvalda, og kynnti Torgeir Fiskum verkefnastjóri starfsemi heimilisins. Í september var Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, gestur á fundi velferðarnefndar í Reykjavík.
    Norðurlandaráð samþykkti sjö tillögur sem tilmæli á árinu 2008 sem voru til umfjöllunar í velferðarnefnd. Það voru norrænt heilbrigðissvið (tilmæli 7/2008), ráðherranefndartillaga um breytingar á stofnunum á heilbrigðis- og félagsmálasviði (MR-S) (tilmæli 18/2008), nefndartillaga um áhrif ofbeldis í æsku á fullorðinsárin (tilmæli 19/2008), þingmannatillaga um bann við transfitusýrum (tilmæli 20/2008), þingmannatillaga um menningu og heilsu (tilmæli 23/2008), þingmannatillaga um aðgerðir til að koma í veg fyrir kynfæralimlestingar á konum (tilmæli 24/2008), og þingmannatillaga um aðgerðir til að koma í veg fyrir kynfæralimlestingar á konum (tilmæli 35/2008).
    
Borgara- og neytendanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2008 var Kjartan Ólafsson.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Á starfsárinu 2008 voru þemu borgara- og neytendanefndar mannréttindi á Norðurlöndum, hryðjuverkalög og réttaröryggi, innflytjendastefna á Norðurlöndum og norrænt samstarf á sviði löggjafar.
    Í janúar hóf borgara- og neytendanefnd umfjöllun um mögulegar leiðir til að draga úr landamærahindrunum með aukinni samhæfingu í innleiðingu laga og reglugerða sem eiga uppruna sinn hjá Evrópusambandinu. Í apríl var Hanne Kavli stjórnmálafræðingur gestur nefndarinnar og kynnti nýútkomna skýrslu, sem hún var annar aðalhöfundur að, um aðlögun innflytjenda og gagnkvæma aðlögun vinnumarkaða að þeim. Í apríl í Stavanger kynnti borgara- og neytendanefnd sér einnig, ásamt menningar- og menntamálanefnd, alþjóðleg samtök sveitarfélaga (ICORN) sem skjóta skjólshúsi yfir rithöfunda sem hafa verið ofsóttir í heimalandi sínu vegna skrifa sinna. Helge Lunde verkefnastjóri kynnti samtökin.
    Af þeim tilmælum sem voru samþykkt hjá Norðurlandaráði á árinu 2008 höfðu tíu verið til umfjöllunar hjá borgara- og neytendanefnd. Þær voru aðgerðir gegn ránum og árásum á vöruflutningamenn á Norðurlöndum (tilmæli 1/2008), löggæsla vegna öryggis vöruflutningamanna á Norðurlöndum (tilmæli 2/2008), þingmannatillaga um notkun og merkingar á erfðabreyttum vörum og um Norðurlönd sem svæði án erfðabreyttra lífvera (tilmæli 16/2008), þingmannatillaga um bann við transfitusýrum (tilmæli 20/2008), nefndartillaga um vegalaus börn (tilmæli 21/2008), þingmannatillaga um mansal til nauðungarvinnu (tilmæli 22/2008), nefndartillaga um að efla norrænt samstarf á löggjafarsviði (tilmæli 29/2008), þingmannatillaga um norrænt átak varðandi óöryggi yfir landamæri (tilmæli 30/2008), þingmannatillaga um notkun og merkingar á erfðabreyttum vörum og um Norðurlönd sem svæði án erfðabreyttra lífvera (tilmæli 34/2008) og nefndartillaga um að efla norrænt samstarf á löggjafarsviði (tilmæli 37/2008).

Eftirlitsnefnd.
    Kjartan Ólafsson var fulltrúi Íslandsdeildar og formaður í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2008.
    Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Umfjöllunarefni eftirlitsnefndar árið 2008 var skoðun verkefna hjá Norrænu ráðherranefndinni. Með tilliti til fjölda verkefna og áhuga nefndarinnar á að kynna sér upphaf, líftíma, lok og mat á verkefnum ákvað eftirlitsnefndin að líta nánar á verkefnameðferð ráðherranefndarinnar með því að skoða nánar fjögur verkefni. Það voru Nordplus, kortlaging lestrar- og skriftarkunnáttu, jákvæðir þættir í atvinnulífinu og tengslanet um orkumál á Eystrasaltsvæðinu. Eftir að hafa skoðað þessi verkefni komst eftirlitsnefnd að þeirri niðurstöðu að mörg verkefnanna væru góð, en bæta mætti verkefnastjórnina. Nefndin lagði því fram nefndartillögu þar sem ráðherranefndin var hvött til að einbeita sér að færri verkefnum, um að upphaf verkefna og meðferð stjórnist af raunverulegum markmiðum, að fram fari gagnrýnni yfirferð og mat á verkefnum og að skilgreining verkefna verði skýrari.
    Tillaga eftirlitsnefndar varð að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu 2008, Nefndartillaga um verkefnaumsjón hjá Norrænu ráðherranefndinni (tilmæli 38/2008).

5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur. Verðlaunin fyrir árið 2008 voru afhent við hátíðlega athöfn í Kulturhuset í Helsinki 28. október í tengslum við 60. þing Norðurlandaráðs.
    
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda. Soffía Auður Birgisdóttir afhenti verðlaunin fyrir hönd dómnefndar.
    Danski rithöfundurinn Naja Marie Aidt hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2008 fyrir smásagnasafnið Bavian (2006). Það hefur að geyma 15 smásögur sem fjalla um veröld sem svipar til hversdagsleikans. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram: „Naja Marie Aidt skrifar þokkafullan og ískyggilegan raunsæistexta, sem dregur fram undirtóna raunveruleikans, svo lesandinn finnur að hversdagsleikinn hvílir á neti mögulegra hamfara. Það sem tengir smásögur Naja Marie Aidt er lífssýn sagnanna. En kannski einnig eitthvað sem kalla má hnattrænt lífsmyrkur. Því í gegnum bókina rennur straumur, púls, sem bæði er þokkafullur og ískyggilega þungbúinn. Eins konar tónlist sem getur fyrirfundist í ljóðasafni eða ljóðabálki. Og það er þrátt fyrir að það sem einkennir sögurnar er einnig hversu mismunandi þær eru – greinileg þekkjanleg og dramatísk rödd og skáldlegur fjölbreytileiki, ríkidæmi í sjálfri tjáningunni. Sorg og lífsgleði, sársauki, angist og huggun lýsa í gegnum smásögur Naja Marie Aidts á sígildan hátt, en jafnramt með nýskapandi röddun. Og svo fela þær í sér nokkuð svo sjaldgæft sem ekta visku.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Að þessu sinni voru söngleikir og tónlistarleikrit tilnefnd til verðlaunanna.
    Danska tónskáldið Peter Bruun hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2008 fyrir dramatíska söngleikinn Miki Alone, nýtt óperuverk sem fjallar um líf nútímakonu. Verkið, sem ber undirtitilinn Seven songs for a mad woman, er tónlistarleikrit fyrir kammersveit og sópransöngkonu. Dómnefndin rökstuddi ákvörðun sína á eftirfarandi hátt: „Það verk eftir norrænt samtímatónskáld sem hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs að þessu sinni má skilgreina sem söngleik eða tónlistarleikhús. Margvísleg verk voru tilnefnd til verðlaunanna; söngleikir, rokkóperur, tónlistarleikrit og barna- og kammeróperur. Dómnefnd lagði áherslu á verkið uppfyllti ströngustu kröfur um listræn gæði og að það væri nýskapandi. Í glæsilegu samspili texta og tónlistar upplifir áhorfandinn kímni og töfra samhliða tilfinningaflæði og spennandi framvindu. Verkið einkennist af takföstum púlsi og tónmáli sem stundum er nútímalegt og tilraunakennt, stundum í anda „Tom Waits“, stundum norrænt með þjóðlagaívafi en ávallt jafn hrífandi. Við viljum einnig leggja áherslu á fallegar laglínur Peters Bruun sem henta vel til söngs og sterka söngtexta Ursulu Andkjær Olsen. Allt fléttast þetta vel saman og engu er ofaukið. Litla kammersveitin með klarínett, lágfiðlu, kontrabassa og ásláttarhljóðfærum er notuð á mjög nýstárlegan hátt í verkinu. Að tónlistarverðlaunin skuli koma í hlut Miki Alone er til merkis um að mesta nýsköpun í tónlistarleikhúsi er oft í kammerforminu, flutt af litlum sérhæfðum sveitum.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Þema verðlaunanna í ár var „Minni orkunotkun með bættum aðferðum“. Verðlaunin voru veitt fyrir norræna vöru, fyrir uppfinningu eða þjónustu sem stuðlað hafa að því að minnka orkunotkun almennings.
    Íslenska fyrirtækið Marorka hlaut náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2008 og veitti Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, verðlaununum viðtöku. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Marorka hlýtur verðlaunin fyrir þróun upplýsingatækni sem minnkar orkunýtingu við siglingar verulega. Marorku hefur á einstakan hátt tekist að sameina rannsóknir og framleiðsluþróun sem mun til lengri tíma litið hafa jákvæð áhrif á loftslag jafnframt því að framleiðslan mun skila hagnaði. Bent hefur verið á það að undanförnu að losun frá siglingaiðnaðinum sé verulegur og valdi áhyggjum. Uppfinning Marorku mun nýtast til að minnka þetta alþjóðlega vandamál.“
    Marorka þróar og framleiðir kerfi til orkustjórnunar og -framleiðslu fyrir skip. Fyrirtækið stundar einnig orkurannsóknir tengdar siglingum. Kerfin eru bæði orkusparandi og minnka losun. Marorka vinnur í samstarfi við helstu skipafélög á Norðurlöndunum og í heiminum öllum. Verkefnið er árangur fjölda árangursríkra rannsóknarverkefna sem hafa verið fjármögnuð með íslensku og norrænu fjármagni. Framleiðsla Marorku er gott dæmi um hagnýtar rannsóknir sem nýst hafa bæði iðnaðinum og umhverfinu. Nýsköpunin getur haft í för með sér verulegan sparnað meðal annars á losun koltvísýrings, CO 2, út í andrúmsloftið. Það skiptir verulegu máli, sérstaklega á norðurhveli jarðar, þar sem reiknað er með að siglingar muni aukast töluvert í framtíðinni.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu, hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki. Sjón afhenti verðlaunin fyrir hönd dómnefndar.
    Sænski kvikmyndaleikstjórinn Roy Andersson og Pernilla Sandström framleiðandi hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2008 fyrir meinfyndnu kvikmyndina Þið, sem lifið. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali á verðlaunahafa ársins sagði: „Í þessari stórkostlegri kvikmynd Þið, sem lifið veltir Roy Andersson fyrir sér lífinu, dauðanum og veikleikum mannskepnunnar. Með einstökum stílþrifum í myndatöku og frásagnartakti vekur þessi sinfónía daglegs lífs okkur til umhugsunar um gildi kvikmynda, en kennir okkur líka að skynja kvikmyndarfrásögn á nýjan veg. Í stað hefðbundinnar línulegrar frásagnar er Þið, sem lifið gerð úr röð samsettra atriða, sögubrotum úr heimi sem er í senn dapur og afkáralega fyndinn. Þessar meinfyndnu og tragísku svipmyndir sýna okkur manninn í sinni fegurstu og ljótustu mynd, þær koma okkur til að hlæja og vekja okkur til umhugsunar. Í stuttu máli minnir Þið, sem lifið okkur á kosti kvikmyndarinnar til að miðla afar persónulegri sýn á heiminn.“

6. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndarfunda þrisvar sinnum árið 2008, í janúar, apríl og september, eins og það gerir að jafnaði. Markmiðið með fundunum er að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing á haustin. Í tengslum við nefndarfundina fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem tekin eru fyrir efni sem tengjast verksviðum nefndanna, auk þess sem ein eða fleiri nefndir í samstarfi standa fyrir málstofum um málefni sem eru inni á borði nefndanna.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stokkhólmi dagana 29.–30. janúar. Fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Árni Páll Árnason, formaður, Björk Guðjónsdóttir, Helgi Hjörvar, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Á fundunum voru kynningar á áætlunum í norrænu samstarfi á árinu 2008, annars vegar starfsáætlun Norðurlandaráðs undir forustu Finnlands og hins vegar formennskuáætlun Svíþjóðar hjá Norrænu ráðherranefndinni. Önnur helstu mál til umræðu voru norrænt samstarf varðandi hnattvæðingu, landamærahindranir og fjárlagavinna um norrænt samstarf 2009.
    Haldinn var sameiginlegur fundur um áætlanir í norrænu samstarfi 2008. Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs, kynnti starfsáætlun ráðsins. Meginstef áætlunarinnar var vinna vegna hnattvæðingar, en undir hana falla áhersluþættir á borð við loftslags- og umhverfismál og uppræting landamærahindrana. Tuomioja dró í máli sínu fram þrjú atriði. Í fyrsta lagi nefndi hann áframhaldandi starf til undirbúnings loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Hann sagði að enn ríkti að einhverju leyti óvissa um forgangsatriði og innihald hnattvæðingarvinnu ráðherranefndarinnar á árinu. Í öðru lagi yrði lögð áhersla á nærsvæðasamstarf Norðurlandaráðs. Í þriðja lagi vék Tuomioja sérstaklega að vinnu Norðurlandaráðs í tengslum við fjárlög um norrænt samstarf. Tuomioja sagði að ráðið mundi veita fjárlagavinnunni sérstaka athygli á árinu, en í tengslum við hnattvæðingarvinnuna yrði þörf á skýrari forgangsröðun í fjárlögunum. Forsetinn lýsti yfir að forgangsröðun í fjárlögunum mætti þó ekki grafa undan samstarfi í menningarmálum.
    Á sameiginlega fundinum kynntu einnig fjórir sænskir fagráðherrar áherslur í formennskuáætlun Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni árið 2008, undir forustu hins sænska samstarfsráðherra Norðurlanda, Cristina Husmark Pehrsson. Áætlun Svía 2008 tók mið af fjórum aðaláherslum; samkeppnishæfni (konkurrenskraft), loftslagsmálum (klimat), sköpunargáfu (kreativitet) og samhæfingu (koordinering).
    Andreas Carlgren umhverfisráðherra kynnti fyrstur áherslur í umhverfismálum. Í máli hans undirstrikaði hann þrjú málefni; loftslag, haf og efnagerðir. Carlgren sagði að undirbúningi loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn 2009 yrði haldið áfram, meðal annars varðandi samvinnu samningamanna landanna um nýja alþjóðlega samþykkt sem tæki gildi eftir árið 2012, eftir Kyoto-bókunina. Varðandi hafið væri vilji til að bæta ástand þess, þ.e. Eystrasaltsins, Skagerak og Kattegat. Stuðlað yrði að auknum upplýsingum um efnagerðir í framleiðsluvörum og unnið gegn útbreiðslu kvikasilfurs, en það getur borist langar leiðir með vindi, meðal annars til norðurslóða.
    Menningarmálaráðherra, Lena Adelsohn Liljeroth, kynnti áætlun menningarmálageirans. Helsta einkunnarorð þess var sköpunargáfa. Liljeroth ræddi í því sambandi sköpun barna og ungmenna í skólum, sköpun yfir landamæri með samvinnu Norðurlanda við Eystrasaltslönd og Rússland í menningarmálum, og aukinni þátttöku fólks í sköpun og fjölbreytilegri menningu.
    Eskil Erlandsson landbúnaðarráðherra kynnti áætlun varðandi landbúnað, matvæli og skógrækt. Hann lagði út af áherslu á samkeppnishæfni og talaði sérstaklega um áætlunina um ný norræn matvæli og um fiskveiðar í smáum stíl meðfram ströndum, en samkeppnishæfni þeirra mætti bæta með betri nýtingu orku og góðs innra skipulags varðandi sölu á afurðum.
    Háskóla- og rannsóknarráðherra, og formaður sænska hnattvæðingarráðsins, Lars Leijonborg, lagði í ræðu sinni áherslu á hnattvæðingu. Að mati Leijonborg gæti hún verið öllum til góðs (win-win situation), en það krefðist þess að fólk mundi aðlagast nýjum kröfum. Hann sagði ástæðuna fyrir því að veðja í stórum stíl á vísindarannsóknir væri sú að ný þekking og nýjar hugmyndir ættu stóran þátt í framleiðsluskilyrðum og hagvexti. Þá þyrftu Norðurlönd að verða betri í að laða að sér alþjóðlegt vísindafólk í fremstu röð og auka mætti nemendaskipti innan norrænna háskóla.
    Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, var gestur á sameiginlega fundinum og á fundi forsætisnefndar. Hann kynnti áherslur og áætlanir hnattvæðingarvinnu ráðherranefndarinnar í átta liðum; vísindarannsóknir í fremstu röð, athugun á grundvelli fyrir norrænar nýsköpunarmiðstöðvar í Asíu, norræn nýsköpunarverðlaun, norræn orkusýning í tengslum við loftslagsráðstefnu SÞ í Kaupmannahöfn 2009, samstarf norrænu básanna á heimsýningunni í Sjanghæ 2010 árleg norræn hnattvæðingarráðstefna, norrænt samstarf til að stuðla að nýrri alþjóðlegri samþykkt um loftslagsmál eftir 2012, og vinna gegn landamærahindrunum. Af hálfu Norðurlandaráðs sættu áætlanir ráðherranefndarinnar nokkurri gagnrýni fyrir að vera ekki nógu ítarlegar og skorta tímaáætlanir og upplýsingar um forgangsröðun í þeim niðurskurði sem yrði beitt til að mæta kostnaði við vinnuna.
    Ole Norrback, sendiherra og forustumaður í vinnunni gegn landamærahindrunum, var einnig gestur á sameiginlega fundinum og á fundi forsætisnefndar. Norrback sagði ljóst að ekki væri hægt að ryðja öllum landamærahindrunum úr vegi því Norðurlöndin væru sjálfstæð ríki með sjálfstæða löggjöf. Hins vegar ætti að vera hægt að eyða óþörfum hindrunum og koma í veg fyrir að þær verði til. Í þeim tilgangi taldi hann þörf á auknum samanburði við lög annarra Norðurlanda við lagasetningu norrænu þinganna til að koma í veg fyrir ósamræmi. Þá væri einnig þörf á betri samræmingu þeirra aðila sem sinntu landamærahindrunum, þ.e. samnorrænu upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd, landamæraupplýsingaskrifstofum á borð við ØresundDirekt í Danmörku og Svíþjóð og Grensetjänsten í Svíþjóð og Noregi, sem og Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (Nordisk InnovationCenter – NICe). Norrback leiddi á árinu 2008 sérstakan verkefnishóp, landamærahindranahópinn (Grænsehinderforumet), til að efla vinnuna gegn landamærahindrunum, sem Norræna ráðherranefndin skipaði og tók til starfa í upphafi ársins. Í hópnum voru fulltrúar Norðurlandanna, auk Norrback og Halldórs Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Fyrir Íslands hönd átti Guðríður Sigurðardóttir sæti í hópnum. Hópurinn setti þrjú verkefni í forgang, hindranir tengdar háskólamenntun, vísindarannsóknum og fjármögnun þeirra, hindranir í tengslum við almannatryggingar og hindranir í tengslum við byggingariðnaðinn.
    
Aprílfundir Norðurlandaráðs í Stavanger.
    Aprílfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stavanger dagana 14.–15. apríl 2008. Fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Árni Páll Árnason, formaður, Helgi Hjörvar, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Helsta mál til umræðu á fundunum var norrænt samstarf í tengslum við hnattvæðingu. Á fundi forsætisnefndar og málefnanefnda var farið yfir stöðu mála varðandi hnattvæðingarvinnuna sem snýst um að samhæfa og gera skilvirkari aðgerðir Norðurlandanna til að mæta áskorunum hnattvæðingar. Umfjöllunin skiptist í fjórar hliðar samstarfsins, verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, hnattvæðingarráðstefnu, landamærahindranir og fjárlög norræns samstarfs.
    Forsætisráðherrar Norðurlandanna ákváðu á fundi sínum í Punkaharju í Finnlandi í júní 2007 að helstu áherslur hnattvæðingarsamstarfsins skyldu vera loftslagsmál, umhverfismál, orkumál, þekking og nýsköpun, vinna gegn landamærahindrunum, þ.e. kerfishindrunum sem hefta för einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda, og kynning á Norðurlöndunum. Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í janúar sættu þær áætlanir sem Norræna ráðherranefndin hafði kynnt um hnattvæðingarvinnuna gagnrýni fyrir að vera óskýrar og áætlanir um niðurskurð til að mæta kostnaði við hana fyrir að vera óljósar. Í millitíðinni, fram að fundi forsætisnefndar í Stavanger, kynnti ráðherranefndin áætlanir sínar frekar. Þær byggðust á átta verkefnum sem Norræna ráðherranefndin gerði grein fyrir í október 2007 og janúar 2008 sem lið í að gera Norðurlöndin sem svæði samkeppnishæfari á alþjóðlegum vettvangi. Í febrúar 2008 kynnti ráðherranefndin sex verkefni til viðbótar, áætlanir um þróun norræna rannsókna- og nýsköpunarsvæðisins (NORIA), eflingu háskólamenntunar og aðdráttarafls hennar, aukna menntun ungmenna og fullorðinna eftir grunnskóla, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruauðlindir og frumatvinnugreinar, styrkingu ímyndar Norðurlanda sem miðstöðvar skapandi iðnaðar (kreativa industrier) og samhæfingu norræna rafmagnsmarkaðarins.
    Árleg hnattvæðingarráðstefna, sem var eitt af samtals fjórtán hnattvæðingarverkefnum ráðherranefndarinnar, var haldin í fyrsta skipti í Riksgränsen í Norður-Svíþjóð 8.–9. apríl 2008. Ráðstefnuna sóttu norrænir forsætisráðherrar, samstarfsráðherrar Norðurlandanna, þingmenn frá Norðurlandaráði og framkvæmdastjórar Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, auk fulltrúa atvinnulífsins, iðnaðarins, mennta- og vísindageirans, frjálsra félagasamtaka og embættismanna. Af hálfu Norðurlandaráðs sóttu hnattvæðingarráðstefnuna Erkki Tuomioja, forseti ráðsins, Lisbeth Grönfeldt Bergman, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar, og Jan-Erik Enestam framkvæmdastjóri. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Samkeppnishæf Norðurlönd í hnattvæddum heimi“.
    Eitt af því sem var til umræðu á hnattvæðingarráðstefnunni voru metnaðarfullar tillögur um öndvegisrannsóknir sem starfshópur sérfræðinga frá Norræna rannsóknarráðinu (Nordforsk), Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (Nordisk InnovationsCenter) og Norrænum orkurannsóknum (Nordisk Energiforskning) lagði fram. Markmið tillagnanna var að Norðurlönd yrðu leiðandi afl á alþjóðavísu á ákveðnum sviðum orku-, loftslags- og umhverfismála þar sem þau gætu sem heild verið í fararbroddi með pólitískar lausnir og tæknilegar nýjungar. Leiðirnar að markmiðinu væru að setja þrjú málasvið í forgang og skipuleggja innan þeirra tólf verkefni. Málasviðin voru loftslagsrannsóknir á norðurslóðum, loftslags- og umhverfispólitík með norrænni og hnattrænni sýn, nýsköpun í orkumálum og kerfisbundnar lausnir og hrein orkubrennsla framtíðarinnar. Í yfirlýsingu sem forsætisráðherrarnir gáfu út eftir ráðstefnuna í Riksgränsen um áherslur hnattvæðingarsamstarfsins var sérstaklega vikið að mikilvægi öndvegisrannsókna og nýsköpunar, vinnunni gegn landamærahindrunum, forgöngu Norðurlandanna varðandi áskoranir loftslagsbreytinga og frumkvæði að nýrri samþykkt um loftslagsmál og vinnu við norrænar aðgerðaáætlanir um umhverfismál 2009–2012 og orkumál 2010–2013.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs gaf út yfirlýsingu um hnattvæðingarráðstefnuna eftir fund sinn í Stavanger. Meginatriði hennar voru þrjú. Í fyrsta lagi að hnattvæðingarráðstefnan hefði verið skref fram á við í leitinni að sameiginlegum norrænnun lausnum við áskorunum hnattvædds heims. Í öðru lagi að mikilvægt væri í framhaldinu að norrænum þjóðþingum og Norðurlandaráði gæfist færi á ríkari þátttöku en raunin varð í Riksgränsen, hnattvæðingaráherslan sem mótuð var í Punkaharju hefði komið til eftir viljayfirlýsingar norrænna þingmanna. Í ráðstefnunni í Riksgränsen tóku þátt þrír þingmenn frá Norðurlandaráði af tæplega hundrað þátttakendum. Í þriðja lagi fór Norðurlandaráð þess á leit við Norrænu ráðherranefndina að settur yrði á laggirnar starfshópur fulltrúa ríkisstjórna og þingmanna til að kanna hvernig hnattvæðingaráherslur gætu á sem bestan hátt orðið hluti af opinberu norrænu samstarfi til lengri tíma litið.
    Á aprílfundunum var staða vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar við fjárlög norræns samstarfs til umfjöllunar hjá forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fjárlagahópi hennar. Í upphafi ársins var fjárlagahópur forsætisnefndar gagnrýninn á óljós atriði fjárlagavinnunnar, annars vegar hvernig fjárveitingu að upphæð u.þ.b. 60 milljónir danskra króna til hnattvæðingarvinnunnar yrði ráðstafað árið 2008 og hins vegar hvaða niðurskurði yrði beitt árið 2009 til að mæta kostnaði við fjárveitingu að sömu upphæð til sama verkefnis. Ráðherranefndin gerði betur grein fyrir báðum þáttum, í fyrsta lagi áðurnefndu hnattvæðingarverkefni og öðru lagi tveggja þrepa niðurskurði, 2% eða 5%, eftir málaflokkum. Í tilefni af niðurskurðaráformunum til menningarmála vakti Árni Páll Árnason, sem sat í fjárlagahópnum, athygli á því að Norræna húsið í Reykjavík væri þá þegar varla starfhæft vegna fjárskorts. Norrænu húsin væru mikilvægir tenglar sem styrktu tengsl þeirra sem stæðu utan við málheild skandinavískra tungumála við hið norræna samstarf, þ.m.t. hnattvæðingarvinnuna. Vegna gagnrýni Norðurlandaráðs í upphafi árs á áætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar um að skera niður fjárveitingu ársins 2009 til norrænu upplýsingaskrifstofanna á Norðurlöndum, þ.m.t. á Akureyri, innan sameiginlegrar upplýsingadeildar Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, gerði ráðherranefndin nýja áætlun um að auknu fé verði veitt til norrænu félaganna sem síðan taki ákvarðanir um fjármögnun til upplýsingaskrifstofanna.
    Einnig var haldinn í apríl sameiginlegur fundur allra nefnda þar sem kynnt var staða Stavanger sem olíuhöfuðborgar Noregs og evrópskrar menningarborgar 2008. Kynningin var í höndum borgarstjóra Stavanger, Leif Johan Sevland, framkvæmdastjóra norsku olíustofnunarinnar, Bente Nyland, og Mary Miller, verkefnastjóra Stavangerborgar sem evrópskrar menningarborgar 2008.
              
Septemberfundir Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir á Grand Hótel í Reykjavík dagana 23.–24. september 2008 og var Íslandsdeild gestgjafi þeirra. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Árni Páll Árnason, formaður, Helgi Hjörvar, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Á sameiginlegum fundi allra nefnda í september var fjallað um þátttöku innflytjenda í norrænum samfélögum og þær áskoranir sem hún hefur í för með sér fyrir menntakerfi þeirra. Aðalfyrirlesarar voru Gestur Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Ingibjörg Hafstað, kennslustjóri Alþjóðahúss.
    Gestur Guðmundsson fjallaði almennt um hvaða áhrif þátttaka barna innflytjenda hefði á menntakerfið. Hann sagði, fyrst og fremst með tilvísun til danskra aðstæðna, að áherslur menntakerfisins á bóklegt nám hefðu verri áhrif á börn innflytjenda en annarra samfélagshópa. Þar stæðu börn innflytjenda frá bóklega hneigðum heimilum betur að vígi en börn innflytjenda frá heimilum sem væru það ekki. Gestur benti á að til þess að tilheyra hópi nemenda í fremstu röð í menntakerfinu væri nauðsynlegt að hafa skilning á ýmsum menningarlegum þáttum, en sá skilningur væri hins vegar álitinn sjálfgefinn. Hann taldi meðal annars að það mundi bæta stöðu barna innflytjenda í menntakerfinu og minnka brottfall þeirra úr námi ef betur væri gerð grein fyrir menningarlegum þáttum í menntakerfinu og þeir settir í alþjóðlegt samhengi. Einnig gæti það bætt stöðu þeirra ef þeim væri frekar gert mögulegt að hefja fyrst starfsþjálfun í verknámi og taka bókleg fög að henni lokinni.
    Ingibjörg Hafstað fjallaði um máltöku barna innflytjenda á öðru tungumáli, þ.e. öðru máli en eigin móðurmáli, á leikskólum. Hún fjallaði meðal annars um hvort ganga barna innflytjenda í leikskóla og nám þeirra þar í meirihlutatungumáli samfélagsins stuðlaði að bættum námsárangri þeirra síðar í menntakerfinu. Ingibjörg sagði að flestum fræðimönnum bæri saman um að börn næðu tökum á öðru tungumáli ef þau væru virk mjög ung í málumhverfi þess tungumáls, en fræðimönnum bæri hins vegar ekki saman um hvort góð kunnátta barna í móðurmáli væri forsenda þess að þau tileinkuðu sér annað tungumál það vel að þau gætu stundað nám á því máli. Ingibjörg fjallaði nánar um mikilvægi málörvunar og umgengni barna við þá sem eru færari í móðurmálinu og öðru tungumáli en þau við máltöku þeirra á öðru tungumálinu. Virkur orðaforði barna á leikskólaaldri í báðum tungumálum væri undirstaða óvirks, þ.e. ólærðs, orðaforða síðar. Því litu margir fræðimenn svo á að mikilvægt væri að viðhalda og þroska orðaforða og menningartengda málhegðun í báðum tungumálum samtímis. Ef börn glötuðu hæfileikanum til að tileinka sér óvirkan hluta móðurmálsins við máltöku á öðru tungumáli gæti það haft þær sorglegu afleiðingar að foreldrar, sem ættu erfitt með að tileinka sér tungumál og menningu meiri hlutans í samfélaginu, misstu tungumálalega brú við börn sín þegar þau töluðu einungis saman barnamál á móðurmálinu.

7. 60. þing Norðurlandaráðs í Helsinki.
    Norðurlandaráðsþing var haldið í Helsinki dagana 27.–29. október. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Helgi Hjörvar, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Ísland var nokkuð í sviðsljósinu á þinginu vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009. Helstu mál á dagskrá Norðurlandaráðsþingsins voru þemaumræður norrænu forsætisráðherranna og leiðtoga stjórnarandstöðuflokka um hnattvæðinguna, fjármálakreppuna og norræna velferðarlíkanið, sjálfbær Norðurlönd, heilnæm Norðurlönd, hnattvædd Norðurlönd og Norðurlönd menntunar og þekkingar. Alls sóttu þingið um þúsund manns, þar á meðal norrænir þingmenn, norrænir ráðherrar og alþjóðlegir gestir.
    Norðurlandaráðsþingið í Helsinki vakti töluverða athygli fjölmiðla vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar og stöðu efnahagsmála á Íslandi. Á fyrsta degi þingsins héldu norrænu forsætisráðherrarnir sérstakan fund um fjármálakreppuna, en hefðbundinn fund um önnur málefni daginn eftir. Í yfirlýsingu sem forsætisráðherrarnir gáfu út eftir fundinn um fjármálakreppuna lýstu þeir áhyggjum yfir neikvæðum áhrifum sem fjármálakreppan hefði á efnahagsmál í heiminum öllum og lögðu áherslu á þörfina á alþjóðlegum reglum til að bæta starfsemi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Varðandi hið alvarlega ástand á Íslandi lýstu forsætisráðherrarnir yfir stuðningi við Ísland og létu í ljós ánægju yfir að Ísland hefði gert bráðabirgðasamkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðaráætlun. Norðurlöndin mundu styðja tillögu um áætlunina þegar hún yrði tekin fyrir í stjórn sjóðsins og samningurinn og áframhaldandi náið samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri mikilvæg undirstaða fyrir það starf sem fyrir höndum væri við að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Ráðherrarnir ákváðu að setja á laggirnar norræna embættismannanefnd til að fylgjast með neyðaraðgerðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og til að ræða og samræma aðgerðir til að koma Íslandi út úr þeirri alvarlegu stöðu sem landið væri í.
    Umræður á Norðurlandaráðsþinginu báru nokkurn keim af fjármálakreppunni. Í almennum umræðum á fyrsta degi þingsins var til að mynda hvatt til samstöðu og stuðnings við Ísland af hálfu færeyska lögmannsins, Kaj Leo Johannesens og norsku og færeysku þingmannanna Rolfs Reikvams og Høgna Hoydals, sem og gesta þingsins, formanns Vestnorræna ráðsins, Kára Páls Højgaard, og forseta Norðurlandaráðs æskunnar, Lisbeth Sejer Götzsche. Siv Friðleifsdóttir þakkaði norrænu samstöðuna og skilninginn á stöðu Íslands og sagði að Íslendingar mundu yfirstíga erfiðleikana en það tæki sinn tíma.
    Í umræðu um utanríkismál á fyrsta degi þingsins var Árni Páll Árnason talsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs varðandi öryggismál í Norður-Atlantshafi, í kjölfar framsögu Carls Bildts, utanríkisráðherra Svíþjóðar, fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna. Árni Páll minntist þess að Norðurlandaráð hefði fjallað um öryggismál í Norður-Atlantshafi frá því á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Reykjavík í desember 2007. Hann lýsti yfir ánægju með þann áhuga sem utanríkisráðherrar Norðurlanda sýndu öryggismálum og þróun norræns samstarfs á því sviði og það að forsætisnefnd hefði tækifæri til að ræða komandi samstarf í öryggismálum við Thorvald Stoltenberg á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í desember. Árni Páll tók einnig upp efnahagsleg öryggismál í tengslum við fjármálakreppuna. Hann sagði að ljóst væri að eftir kreppuna yrði þörf fyrir samnorrænar tillögur um hvernig hægt væri að verja íbúa Norðurlanda í þessu sambandi og hvaða aðgerða væri hægt að grípa til í þeim tilgangi að koma á betra evrópsku regluverki svo að ekki myndaðist togstreita milli alþjóðlegra banka og yfirstjórna bankamála í þjóðlöndum. Árni Páll sagði enn fremur að Ísland hefði orðið fyrir áhlaupi erlendra gjaldeyrisspákaupmanna sem landið hefði ekki haft bolmagn til að verjast. Því væri nauðsynlegt að velta fyrir sér hvort það væri vænlegt, í þeirri uppbyggingu sem fram undan væri á Íslandi, að hafa frjálsan fjármagnsmarkað án takmarkana og mjög lítinn gjaldmiðil sem auðvelt væri að hafa áhrif á. Afleiðingar slíkra aðstæðna væru greinilegar fyrir íslensku þjóðina um þær mundir.
    Kolbrún Halldórsdóttir tók einnig þátt í umræðunni og benti á að umfjöllun Bildts um mansal hefði verið áfátt. Orsakir mansals væru fátækt og eftirspurn, og mikilvægt væri að taka betur á í baráttunni gegn því. Til viðbótar við það samstarf sem færi fram með samráði norrænu landanna og fyrirbyggjandi aðgerðum í þeim löndum sem fórnarlömbin kæmu frá þyrfti að huga sérstaklega að úrræðum fyrir fórnarlömb mansals með áætlun um fórnarlambavernd.
    Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009 var kynnt á öðrum degi þingsins af Geir H. Haarde forsætisráðherra. Forsætisráðherra lagði áherslu á fjögur atriði, öndvegisrannsóknir, nýsköpun og samstarf norrænna háskóla og norrænna rannsóknastofnana, loftslagsbreytingar og alþjóðlegt samstarf í baráttunni gegn þeim, ástand hafsins og gerð vákorts fyrir viðkvæm svæði í Norður-Atlantshafi, og mikilvægi norrænu tungumálanna í norrænum samskiptum, norrænum skólakerfum og miðlun norrænnar menningar. Í andsvörum Rolf Reikvam og Kolbrúnar Halldórsdóttur við ræðu forsætisráðherra kom fram gagnrýni á að í formennskuáætluninni fælust áform um að opna fyrir einkavæðingu í heilbrigðismálum. Forsætisráðherra kvað svo ekki vera. Þá bentu Rolf Reikvam og Helgi Hjörvar á í andsvörum við ræðu forsætisráðherra að hugsanlega þyrfti að endurskoða formennskuáætlunina með hliðsjón af alþjóðlegu fjármálakreppunni, meðal annars ef fjármálakreppan þróaðist yfir í alþjóðlega efnahagskreppu árið 2009. Forsætisráðherra sagði að það gæti vel komið til umræðu, auk þess sem kreppan yrði á dagskrá á hinni árlegu norrænu hnattvæðingarráðstefnu sem haldin yrði á Íslandi í febrúar 2009. Ráðherra notaði einnig tækifærið til að lýsa þakklæti sínu fyrir þá samstöðu sem komið hefði fram í umræðum á þinginu og meðal norrænu ráðherranna, sérstaklega forsætisráðherranna. Line Barfoed og Marion Pedersen frá Danmörku gerðu í sínum andsvörum athugasemdir við fjarveru forsætisráðherra undir lok umræðunnar, sem þá hafði þurft að yfirgefa þingsalinn til að sækja hádegisverðarboð forseta Finnlands, Törju Halonen. Ráðherra svaraði því til í umræðum síðar um daginn að árekstrar í dagskrá þingsins gætu ekki skrifast á hans reikning og að umræðan hefði hafist á eftir áætlun.
    Öðrum degi Norðurlandaráðsþingsins lauk með norrænum leiðtogafundi þar sem norrænu forsætisráðherrarnir og leiðtogar stjórnarandstöðuflokka ræddu hnattvæðinguna, fjármálakreppuna og norræna velferðarlíkanið. Geir H. Haarde forsætisráðherra fjallaði í sinni ræðu um velferðarkerfið frá ýmsum hliðum. Hann benti á að Norðurlöndin kæmu jafnan vel út í alþjóðlegum samanburði um efnahagslega samkeppnishæfni. Í augnablikinu væru efnahagslegar horfur ekki góðar, en því mætti ekki gleyma að Norðurlöndin hefðu búið við hagvöxt og velsæld á síðustu árum og skiljanlegt væri að spurt væri hvernig Norðurlöndin færu að því að stuðla að hagvexti og samtímis viðhalda velferðarkerfinu. Forsætisráðherra benti á að tengsl væru milli félagslegs öryggis og jákvæðrar afstöðu til hnattvæðingar, að félagslegt öryggisnet drægi úr slæmum afleiðingum áfalla og að kjarkur væri lykilatriði í nýsköpun sem hefði mest að segja varðandi samkeppnishæfni í hnattvæddum heimi. Um þær mundir væri mikil þörf á sterkum velferðarkerfum á Norðurlöndum og norrænni samstöðu, á tímum þegar hætta á alþjóðlegu efnahagslegu hruni væri fyrir hendi.
    Steingrímur J. Sigfússon, oddviti stjórnarandstöðu á Íslandi, fjallaði á leiðtogafundinum um ýmis atriði fjármálakreppunnar og afleiðingar hennar fyrir velferðarkerfið. Hann sagði að nú væri svo komið að tímabil nýfrjálshyggju, einkavæðingar og markaðshyggju væri á enda runnið. Það væri sorglegt að ekki hefði reynst unnt að standa vörð um velferðarsamfélög Norðurlanda og græðgi hefði orðið ráðandi. Vandi Íslands væri fyrst og fremst heimatilbúinn þó að alþjóðlega fjármálakreppan, fall Lehman Brothers bankans og aðgerðir Bretlands hefðu gert aukið enn á vandann. Steingrímur varpaði út skilaboðum úr ræðustól er hann sagði: „Shame on you Mr. Brown, this is not how a real statesman behaves.“ Hann hvatti stjórnmálaleiðtoga á Norðurlöndum til þess að auka norrænt samstarf í kjölfar fjármálakreppunnar, einnig efnahagslegt samstarf og samstarf í gjaldeyrismálum. Eftir fall nýfrjálshyggjunnar væri víðtækt endurmat tímabært. Norðurlöndin ættu að standa vörð um norrænu velferðarsamfélögin og umhverfið því svarið væri fólgið í lýðræðissamfélögum með samábyrgð, sjálfbærni og blönduðum hagkerfum þar sem markaðurinn væri þjónn en ekki herra.
    Á þriðja degi þingsins voru sjálfbær Norðurlönd og heilnæm Norðurlönd á dagskrá. Helgi Hjörvar var talsmaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs um tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um framkvæmdaáætlun fyrir samstarf á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, skógræktar og matvæla fyrir árin 2009–2012. Helgi sagðist eiga von á því að þessar atvinnugreinar fengju meira vægi á næstunni, eftir fjármálakreppuna, þar sem áhersla á sjávarútveg ætti að vega þungt. Í því sambandi væri endurskoðun Evrópusambandsins á sjávarútvegsstefnu sinni mikilvæg, þar sem stefna sambandsins til 25 ára hefði beðið skipbrot. Norðurlöndin hefðu ólíka reynslu á sviði fiskveiðistjórnunar en ef þau gætu haft áhrif á fiskveiðipólitík ESB gæti það orðið hluti af umræðu um inngöngu Íslands og hugsanlega annarra landa í sambandið.
    Kolbrún Halldórsdóttir tók þátt í umræðu um fulltrúatillögu um norrænt samstarf varðandi notkun og merkingu á erfðabreyttum vörum og fulltrúatillögu um Norðurlönd sem svæði án erfðabreyttra efna. Kolbrún fagnaði málinu og sagði að varðveita ætti líffræðilegan fjölbreytileika í kornrækt til þess að ekki væru einungis til fáar erfðabreyttar tegundir sem alþjóðasamsteypur hefðu einkaleyfi á, í krafti þekkingar í erfðavísindum. Reglur ESB á þessu sviði settu strik í reikninginn fyrir Norðurlönd þar sem reglur um markaðsaðgengi kæmu í veg fyrir að lönd gætu lýst yfir banni við ræktun erfðabreyttra tegunda. Kolbrún taldi mikilvægt að fara varlega og reyna að tryggja að þær matvörur sem neytendur legðu sér til munns hefðu ekki skaðleg áhrif á heilsuna. Upplýsingar til neytenda um innihald vara væru grundvöllur þess að neytendur gætu tekið sjálfstæðar ákvarðanir um neyslu sína. Það væri einnig óskandi að Norðurlöndin yrðu í framtíðinni talsmenn þess að lönd hafi það á eigin forræði vilji þau vera laus undan ræktun erfðabreyttra tegunda.
    Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, var talsmaður nefndarinnar um tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um nýtt skipulag stofnana ráðherranefndarinnar á sviði félags- og heilbrigðismála. Samkvæmt tillögunni tæki ný norræn velferðarstofnun til starfa 1. janúar 2009 í Stokkhólmi sem þar sem sameinaðar væru fjórar starfandi stofnanir; Norræni samstarfsvettvangurinn um málefni fatlaðra (NSH), Norræna menntunarmiðstöðin fyrir þá sem starfa með daufblindum (NUD), Norræna menntaáætlunin um þróun félagslegrar þjónustu (NOPUS) og Norræna samstarfsnefndin um rannsóknir á áfengis- og vímuefnaneyslu (NAD). Siv sagði að velferðarnefnd Norðurlandaráðs styddi skipulagsbreytingarnar þar sem þær mundu skerpa sýn í velferðarmálum.
    Siv Friðleifsdóttir var einnig talsmaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs um fulltrúatillögu um menningu og heilsu. Tillagan fjallaði um hin góðu áhrif sem menning hefur á heilsu fólks og hvernig megi styrkja þau áhrif meðal annars með auknum rannsóknum, ráðstefnuhaldi og norrænu tilraunaverkefni um hagnýt tengsl milli menningar og heilbrigðis. Siv lýsti yfir einróma stuðningi velferðarnefndar við tillöguna.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir lýsti einnig yfir stuðningi við tillöguna um tengsl menningar og heilsu. Hún taldi það skipta mjög miklu máli að þessir tveir ólíku þættir væru skoðaðir í heild og að líta þyrfti á þá báða frá barnæsku til fullorðinsára. Heilsa og menntun væru samtvinnaðir þættir og þeir skiptu máli í uppeldi barns vegna þess að þeir fylgdu barninu á fullorðinsárum. Ragnheiður sagði að menningin sem þáttur innan heilsugeirans hefði forvarnargildi sem mundi stuðla að heilsuvæðingu Norðurlandaþjóða. Þá skipti líka máli í þessu sambandi hin fjölfaglega samvinna innan menntunargeirans þannig að þeir sem menntuðu sig á heilbrigðissviði þyrftu að taka hluta af menningunni inn í sitt nám og að þeir sem menntuðu sig á menningarsviði tækju heilsusviðið inn í sitt nám. Hún sagði að tillagan væri áskorun til Norðurlandaþjóða um að skoða þessa tvo þætti sameiginlega, hvernig þeir gætu unnið saman, og hvatti þingheim til að veita tillögunni brautargengi.
    Á þriðja degi voru einnig á dagskrá Norðurlandaráðsþingsins hnattvædd Norðurlönd og Norðurlönd samstöðu og þekkingar. Björgvin G. Sigurðsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti ræðu um hnattvæðingu Norðurlanda þar sem hann fjallaði um norrænt frumkvæði í hnattvæddum heimi, meðal annars varðandi framlag Norrænu ráðherranefndarinnar til vinnu við nýjan samning um loftslagsmál á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember 2009 og hnattvæðingarráðstefnu ráðherranefndarinnar á Íslandi í febrúar 2009.
    Undir dagskrárliðnum hnattvædd Norðurlönd var einnig tekin fyrir tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um norræn nýsköpunarverðlaun. Frumkvæðið að slíkum verðlaunum kom frá forsætisráðherrum Norðurlandanna á fundi þeirra í Punkaharju í júní 2007 og var hluti af áherslum og áætlunum Norrænu ráðherranefndarinnar um hnattvæðingarvinnuna. Tillagan var tekin fyrir hjá efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs í september og október og var hún samþykkt þar með naumum meiri hluta. Á Norðurlandaráðsþinginu var tillagan hins vegar felld.
    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra gerði fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar grein fyrir áætlunum norrænu menntamálaráðherranna um menntun og rannsóknir 2008–2010 við umfjöllun þingsins um Norðurlönd samstöðu og þekkingar. Menntamálaráðherra tiltók nokkur atriði í áætluninni, sem báru rík merki áherslunnar á hnattvæðingarmál, þar á meðal öndvegisrannsóknir um loftslags-, orku- og umhverfismál, samanburðarrannsókn á kennaramenntun á Norðurlöndum, þróun norrænna meistarprófsgráðna og mat á framtíðarskipulagi tungumálasamstarfs.
    Undir lok þriðja dags þingsins var Kjartan Ólafsson, formaður eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs, talsmaður nefndarinnar um skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins. Hann lagði til að ársreikningarnir yrðu samþykktir. Kjartan gerði einnig grein fyrir störfum eftirlitsnefndarinnar á árinu, en hún stóð á árinu fyrir skoðun á verkefnastarfi hjá Norrænu ráðherranefndinni. Með tilliti til fjölda verkefna og áherslu nefndarinnar á að kynna sér upphaf, líftíma, lok og mat á verkefnum skoðaði eftirlitsnefndin nánar fjögur verkefni. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að mörg verkefni væru góð en að verkefnaumsjón ráðherranefndarinnar mætti bæta. Eftirlitsnefndin lagði í því sambandi fram tillögu þar sem Norræna ráðherranefndin var hvött til að einbeita sér að færri verkefnum og sjá til þess að upphaf verkefna og meðferð stjórnaðist af skýrum markmiðum, að fram færi gagnrýnni yfirferð og mat á verkefnunum og að skilgreining verkefna yrði skýrari.
    Eftir kosningar í nefndir og ráð er nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2009 sem hér segir: Árni Páll Árnason situr áfram í forsætisnefnd, Kjartan Ólafsson fer úr borgara- og neytendanefnd og eftirlitsnefnd og tekur sæti í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir er áfram formaður velferðarnefndar og tekur sæti í kjörnefnd, Kolbrún Halldórsdóttir flytur sig um set úr umhverfis- og náttúruauðlindanefnd í menningar- og menntamálanefnd, Helgi Hjörvar situr áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Ragnheiður Ríkharðsdóttir er áfram í menningar- og menntamálanefnd og Kristján Þór Júlíusson situr áfram í efnahags- og viðskiptanefnd en tekur jafnframt sæti í eftirlitsnefnd.
    Svíar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2009. Í lok þingsins var Sinikka Bohlin kosin forseti Norðurlandaráðs fyrir næsta ár og Kent Olsson varaforseti. Næsta þing Norðurlandaráðs verður í Stokkhólmi 26.–28. október 2009.

8. Starfsáætlun og áherslur árið 2009.
Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð hefur nú breytt áætlanagerð sinni þannig að ráðið myndar rammaáætlun til nokkurra ára í senn. Að auki gerir formennskuland ráðsins áætlun fyrir ár í einu, auk þess sem málefnanefndir gera sína starfsáætlun fyrir hvert ár. Samkvæmt rammaáætluninni eru markmið ráðsins að styrkja norrænu velferðina, að hafa áhrif á hnattvæðinguna, að auka hreyfanleika á Norðurlöndum, að bæta hafsumhverfi, að móta viðfangsefni Norðlægu víddarinnar og að stuðla að skilvirkara norrænu tungumálasamstarfi.
    Til að styrkja velferðina vill Norðurlandaráð byggja upp stöðugan og sveigjanlegan vinnumarkað, vinna að góðri menntun á öllum stigum, draga úr félagslegri og efnahagslegri mismunun, þróa samfélögin þannig að konur og karlar eigi jafna möguleika á að gegna stjórnunarstöðum í kynskiptum atvinnugreinum og fögum og auka innflutning á vinnuafli.
    Til að hafa áhrif á hnattvæðinguna vill Norðurlandaráð að norrænu ríkin nýti alþjóðlega samkeppni til að styrkja enn frekar norræna velferðarstefnu, að norrænu ríkin stuðli að því að ávinningar hnattvæðingarinnar dreifist hnattrænt á sem réttlátastan hátt, að norrænu ríkin vinni sem fyrr markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að hnattvæðingarverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar verði að veruleika.
    Til að auka hreyfanleika á Norðurlöndum vill Norðurlandaráð ryðja úr vegi þeim landamærahindrunum sem eru til staðar og koma í veg fyrir að nýjar verði til. Forsenda þess er betri samhæfing og samræmi á milli löggjafar í norrænu ríkjunum.
    Til að bæta hafsumhverfi vill Norðurlandaráð vinna að því að framkvæmdaáætlun HELCOM fyrir Eystrasalt verði framfylgt, hafa áhrif á Eystrasaltsstefnu Evrópusambandsins þannig að kastljósinu verði beint að sjálfbærri þróun á svæðinu, innleiða sjávar- og siglingamálastefnu ESB þannig að hún falli sem best að aðstæðum í Eystrasalti, Norðursjó og víðar, strangar reglur um siglingar og starfsemi á hafi úti á viðkvæmum hafsvæðum á norðurslóð, að Norðurlönd vinni að því að bæta umhverfi hafsins og grípi til verndaraðgerða, hvert fyrir sig, saman og í svæðisbundnu og alþjóðlegu samstarfi, að rannsakað skuli hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífríki hafsins og að haldið verði áfram að rannsaka ástand hafsvæða og líffræðilegan margbreytileika svo framfylgja megi verndarmarkmiðum og tryggja hreint haf með auðugu plöntu- og dýralífi.
    Til að móta viðfangsefni Norðlægu víddarinnar vill Norðurlandaráð styrkja framþróun, framkvæmd og pólitískar tengingar í Norðlægu víddinni, byggja upp hagnýtt samstarf þingstofnana og annarra stjórnmálaafla í Rússlandi, sérstaklega Norðvestur-Rússlandi, að samstarfið innan Norðlægu víddarinnar stuðli að aukinni samhæfingu í Norður-Evrópu og komi í veg fyrir skörun á verkþáttum milli aðila í Norður-Evrópu og að unnið verði að nánari og nákvæmari samhæfingu milli Norðlægu víddarinnar og stefnu ESB fyrir Eystrasaltssvæðið.
    Til að stuðla að skilvirkara norrænu tungumálasamstarfi vill Norðurlandaráð að yfirlýsing um norræna málstefnu frá 2006 verði innleidd og henni fylgt eftir, að ný Nordplus tungumála- og menningaráætlun verði mótuð þannig að hún stuðli að betri skilningi nemenda og kennara á tungumálum grannþjóða, að verkefnið „Norrænir tungumálafrumkvöðlar í skólanum/kennaramenntun á Norðurlöndum“ haldi áfram og aukið verði við það, að kennsla í tungumálum grannþjóða verði efld hefjist fyrr en áður, að norrænu tungumálin heyrist sem víðast á opinberum vettvangi og að unnið verði að útgáfu norrænna orðabóka, einnig á rafrænu formi.
    Svíar, sem eru í forsæti í Norðurlandaráði 2009, og forseti þess, Sinikka Bohlin, leggja á árinu áherslu á þrjú atriði, í fyrsta lagi á samkennd Norðurlandabúa sem á rætur að rekja langt aftur í tímann, í öðru lagi á samstarf við Norðvestur-Rússland, ríki við Eystrasalt og norðurskautssvæðið og í þriðja lagi á loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.

Alþingi, 20. mars 2009.



Árni Páll Árnason,


form.


Kjartan Ólafsson,


varaform.


Helgi Hjörvar.



Kristján Þór Júlíusson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.



Fylgiskjal.
    
    

Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2008.



Tilmæli samþykkt af forsætisnefnd janúar til október 2008.
          Tilmæli 1/2008: Aðgerðir gegn ránum og árásum á vöruflutningamenn á Norðurlöndum (A 1424/medborger).
          Tilmæli 2/2008: Löggæsla vegna öryggis vöruflutningamanna á Norðurlöndum (A 1424/medborger).
          Tilmæli 3/2008: Aðgerðir til að efla verkefnisþróun innan ramma framkvæmdaáætlunar um málefni Eystrasaltsins (A 1444 /presidiet).
          Tilmæli 4/2008: Sameiginleg stjórnun rándýrastofna á Norðurlöndum (A 1403/miljø/ næring).
          Tilmæli 5/2008: Sameinað norrænt átak til að bjarga fiskstofnum og sjávarútvegi (A 1423/miljö/näring).
          Tilmæli 6/2008: Samnorræn eftirlitskerfi á norðurskautssvæðum (A 1437/presidiet).
          Tilmæli 7/2008: Norrænt heilbrigðissvið (A 1426/velferd).
         
Tilmæli samþykkt á 60. þingi Norðurlandaráðs.
          Tilmæli 8/2008: Ráðherranefndartillaga um norræna áætlun um samstarf á norðurskautssvæðum 2009–2011 (B 253/presidiet).
          Tilmæli 9/2008: Ráðherranefndartillaga um áætlun um samstarf við Eistland, Lettland og Litháen 2009–2013 (B 254/presidiet).
          Tilmæli 10/2008: Ráðherranefndartillaga um norræna-baltneska ferðastyrkjaáætlun 2009–2013 (B 258/presidiet).
          Tilmæli 11/2008: Ráðherranefndartillaga um áætlun um samstarf við Norðvestur- Rússland 2009–2013 (B 255/presidiet).
          Tilmæli 12/2008: Þingmannatillaga um menningarsamstarf innan Norðlægu víddarinnar (A 1440/kultur).
          Tilmæli 13/2008: Ráðherranefndartillaga um framkvæmdaáætlun í umhverfismálum 2009–2012 (B 257/miljø).
          Tilmæli 14/2008: Ráðherranefndartillaga um stefnu um sjálfbæra þróun 2009–2012 (B 256/miljø).
          Tilmæli 15/2008: Ráðherranefndartillaga: Rammaáætlun um samstarf á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, skógræktar og matvæla 2009–2012 (B 251/miljø).
          Tilmæli 16/2008: Þingmannatillaga um notkun og merkingar á erfðabreyttum vörum og um Norðurlönd sem svæði án erfðabreyttra lífvera (A 1428 og 1432/medborger).
          Tilmæli 17/2008: Þingmannatillaga um norræna framkvæmdaáætlun um loftslagsvæna stefnu í samgöngumálum (A 1447/näring/miljø).
          Tilmæli 18/2008: Ráðherranefndartillaga um breytingar á stofnunum á heilbrigðis- og félagsmálasviði (MR-S) (B 261/velferd).
          Tilmæli 19/2008: Nefndartillaga um áhrif ofbeldis í æsku á fullorðinsárin (A 1454/ välfärd).
          Tilmæli 20/2008: Þingmannatillaga um bann við transfitusýrum (A 1411/medborger/ velferd).
          Tilmæli 21/2008: Nefndartillaga um vegalaus börn (A 1452/medborger).
          Tilmæli 22/2008: Þingmannatillaga um mansal til nauðungarvinnu (A 1445/medborger).
          Tilmæli 23/2008: Þingmannatillaga um menningu og heilsu (A 1390/kultur/velferd).
          Tilmæli 24/2008: Þingmannatillaga um aðgerðir til að koma í veg fyrir kynfæralimlestingar á konum (A 1433/velferd).
          Tilmæli 25/2008: Ráðherranefndartillaga um stofnun norrænna nýsköpunarverðlauna (B 259/näring).
          Tilmæli 26/2008: Þingmannatillaga um norræna nýsköpunarstefnu (A 1441/näring).
          Tilmæli 27/2008: Ráðherranefndartillaga um áætlun í vinnumálum 2009–2012 (B 250/næring).
          Tilmæli 28/2008: Ráðherranefndartillaga: Samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar í byggðamálum (B 260/näring).
          Tilmæli 29/2008: Nefndartillaga um að efla norrænt samstarf á löggjafarsviði (A 1453/medborger).
          Tilmæli 30/2008: Þingmannatillaga um norrænt átak varðandi óöryggi yfir landamæri (A 1422/medborger).
          Tilmæli 31/2008: Þingmannatillaga um sameiginlegar norrænar rannsóknir á brottfalli úr námi og jaðarhópum í menntakerfum á Norðurlöndum (A 1436/kultur).
          Tilmæli 32/2008: Þingmannatillaga að breyttum reglum bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (A 1429/kultur).
          Tilmæli 33/2008: Ráðherranefndartillaga um verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 (B 252/presidiet).
          Tilmæli 34/2008: Þingmannatillaga um notkun og merkingar á erfðabreyttum vörum og um Norðurlönd sem svæði án erfðabreyttra lífvera (A 1428 og 1432/medborger).
          Tilmæli 35/2008: Þingmannatillaga um aðgerðir til að koma í veg fyrir kynfæralimlestingar á konum (A 1433/velferd).
          Tilmæli 36/2008: Þingmannatillaga um norræna nýsköpunarstefnu (A 1441/näring).
          Tilmæli 37/2008: Nefndartillaga um að efla norrænt samstarf á löggjafarsviði (A 1453/medborger).
          Tilmæli 38/2008: Nefndartillaga um verkefnaumsjón hjá Norrænu ráðherranefndinni (A 1451/kk).
Ákvarðanir um innri málefni.
          Ákvörðun 1/2008: Nefndartillaga um að efla norrænt samstarf á löggjafarsviði (A 1453/medborger).
          Ákvörðun 2/2008: Þingmannatillaga um breytingar á starfsreglum Norðurlandaráðs, 73. grein um flokkahópa (A 1430/presidiet).