Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 928  —  340. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um aðgerðir fyrir þá sem hafa orðið sérstaklega illa úti í hruni fjármálakerfisins.

     1.      Hafa verið skipulagðar aðgerðir til að ná til þeirra sem hafa misst atvinnu og eru á viðkvæmu fjárfestingarskeiði í lífi sínu?
    Það hafa ekki verið skipulagðar sértækar aðgerðir til að ná til þessa hóps umfram aðra en öllum þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í því skyni að koma til móts við greiðsluerfiðleika fólks hefur meðal annars verið ætlað að bæta hag þessa hóps. Sem dæmi má nefna að í nóvember voru 2008 samþykkt frá Alþingi lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, en greiðslujöfnun er leið fyrir lántakendur til þess að létta tímabundið greiðslubyrði lána sinna meðan niðursveiflan gengur yfir. Viðskiptavinir allra viðurkenndra lánastofnana sem eru með verðtryggð fasteignalán geta óskað eftir greiðslujöfnun lána sinna telji þeir það henta aðstæðum sínum. Enn fremur voru heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda rýmkaðar og innheimtuaðgerðir stofnunarinnar mildaðar. Stjórnvöld hafa undirritað samkomulag við fjármálastofnanir og lífeyrissjóði um samræmda beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða gagnvart einstaklingum og heimilum sem eru í greiðsluerfiðleikum vegna fasteignaveðlána. Alþingi samþykkti jafnframt nýlega lög um breytingu á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem einstaklingar geta leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar sýni þeir fram á að þeir séu og verði um fyrirséða framtíð ófærir um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Þá hefur Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna verið efld með auknu fjárframlagi til stofnunarinnar, fjölgun starfsfólks og lengri opnunartíma.

     2.      Hafa verið skipulagðar aðgerðir til að ná annars vegar til þeirra sem vinna í byggingariðnaði og hins vegar þeirra sem starfa sjálfstætt í öðrum greinum og hafa ekki leitað sér aðstoðar eða eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum af ýmsum ástæðum?

    Ráðherra skipaði stýrihóp um velferðarvakt sem og starfshóp sem ætlað var að móta tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir. Á grundvelli tillagna frá þessum hópum hefur ríkisstjórnin samþykkt aðgerðaáætlun um velferð sem felur í sér helstu áherslur stjórnvalda í velferðarmálum. Þar á meðal er gert ráð fyrir að aðstæður þeirra verði skoðaðar sérstaklega sem staðið hafa utan vinnumarkaðar og eiga því ekki rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins en eru engu síður í atvinnuleit . Er þess að vænta að þessi vinna geti hafist innan skamms enda mjög brýnt að koma til móts við aðstæður þessa hóps.
    Að því er varðar þá sem vinna í byggingariðnaði er sem dæmi gert ráð fyrir í aðgerðaáætluninni að félags- og tryggingamálaráðuneytið hvetji sérstaklega stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga sem hafa fjárveitingu til viðhalds húsnæðis á árinu 2009 til að ráðast í viðhald sem stuðli að sem mestri atvinnu, hvort sem um er að ræða fjölda starfa eða tímalengd verksins.
    Í mars 2009 voru jafnframt samþykkt lög frá Alþingi þar sem kveðið er tímabundið á um fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað. Sama gildir um virðisaukaskatt vegna vinnu við endurbætur og viðhalds íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis sem og þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila.
    Þá samþykkti Alþingi í nóvember 2008 sérstakt bráðabirgðaákvæði við lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, þar sem sjálfstætt starfandi einstaklingum var gert kleift að taka að sér tilfallandi verkefni enda þótt þeir fái greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Gildistími þessa ákvæðis hefur verið framlengdur til 31. desember 2009 með nýsamþykktum lögum frá Alþingi.

     3.      Hafa verið skipulagðar aðgerðir til að ná til þeirra sem hafa orðið fyrir áfalli og hafa ekki af þeim eða öðrum aðstæðum leitað sér aðstoðar?

    Áhersla er lögð á að aðgengi að velferðarþjónustunni verði áfram gott en í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð er gert ráð fyrir að mótaðar verði tillögur á vegum heilbrigðisráðuneytisins um hvernig haganlegast er fyrir heilsugæsluna að eiga frumkvæði að því að ná til þjónustuþega í áhættuhópum. Jafnframt er undirstrikað mikilvægi þess að tryggja áfram gott aðgengi barna og barnafjölskyldna að fagfólki og unnið verði að því að efla samvinnu heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem áhersla er lögð á fjölskylduvinnu.

     4.      Hafa aðgerðir verið samhæfðar með sveitarfélögum til þess að finna og aðstoða framangreinda aðila?

    Stýrihópur um velferðarvakt sem og vinnuhópar sem starfa á vegum hans hafa fylgst með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum efnahagsástandsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu með markvissum hætti. Í áfangaskýrslu velferðarvaktarinnar kemur fram að mörgum aðgerðum og einstökum verkefnum hafi verið ýtt úr vör af hálfu sveitarfélaga, ríkis og frjálsra félagasamtaka til að bregðast við afleiðingum efnahagsástandsins. Ein af aðgerðum í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð er að frjáls félagasamtök í samvinnu við stjórnvöld og sveitarfélög stuðli að því sameiginlega að störf þriðja geirans og opinberra aðila verði samræmd og skipulagðar markvissar aðgerðir svo félagsauðurinn verði nýttur sem best. Áætlað er að samstarf þessara aðila hefjist innan skamms og þá einnig á vettvangi velferðarvaktarinnar.
    Stýrihópurinn hefur meðal annars kallað eftir upplýsingum frá öllum félagsmálastjórum sveitarfélaganna um hvort og með hvaða hætti félagsþjónustan hafi fundið fyrir afleiðingum efnahagsástandsins og til hvaða aðgerða hún hafi gripið. Markmið könnunarinnar er að fá yfirlit yfir það sem brennur helst á fjölskyldum og einstaklingum. Hafa svör borist frá meiri hluta félagsmálastjóranna, þar á meðal frá öllum fjölmennustu sveitarfélögunum. Verið er að vinna úr svörunum og verður niðurstöðum aftur miðlað til sveitarfélaganna svo þau geti meðal annars gripið til samhæfðra aðgerða. Einnig mun stýrihópurinn fara yfir niðurstöðurnar með það að markmiði að finna leiðir til að ná til þeirra sem veikast standa.

     5.      Hefur verið gerð áætlun til að styrkja og aðlaga starfsemi og lagaramma Vinnumálastofnunar enn frekar en nú hefur verið gert?

    Heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingakerfinu fór fram á árunum 2004–2005 í samstarfi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Í kjölfar þeirrar endurskoðunar lagði félagsmálaráðherra fram frumvarp til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar sem Alþingi samþykkti sem lög í júní 2006. Lítið reyndi á atvinnuleysistryggingakerfið frá þeim tíma fram til haustsins 2008 þar sem skráð atvinnuleysi var mjög lítið hér á landi á þessum tíma. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins hafa fylgst mjög náið með framkvæmd laganna frá því í október 2008. Hefur það leitt til þess að félags- og tryggingamálaráðherra hefur í tvígang lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, annars vegar í nóvember 2008 og hins vegar í mars 2009, þar sem lagðar voru til breytingar á kerfinu í ljósi reynslu síðustu mánaða. Munu sömu aðilar halda áfram að fylgjast með framkvæmd laganna.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun hafa á undanförnum mánuðum lagt kapp á að virkja og efla helstu vinnumarkaðsúrræði sem þau hafa yfir að ráða. Í janúar 2009 var sett reglugerð um fjölbreytt vinnumarkaðsúrræði sem ætlað er að auðvelda fólki án atvinnu að halda virkni sinni, stuðla að tengslum þess við atvinnulífið og skapa fólki leiðir til að bæta möguleika sína til atvinnuþátttöku á nýjan leik.
    Þá er ljóst að umsvif Vinnumálastofnunar hafa aukist til muna samhliða vaxandi atvinnuleysi og þarf að taka tillit til þess við gerð fjáraukalaga fyrir árið 2009 sem og fjárlaga fyrir árið 2010.