Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 320  —  276. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning að stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Árni Þór Sigurðsson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmála- og mannréttindaráðherra í samvinnu við utanríkisráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna. Starfshópurinn skili tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. desember 2010.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að dómsmála- og mannréttindaráðherra í samvinnu við utanríkisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem vinni að undirbúningi stofnunar björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að starfshópurinn skili ráðherra tillögum sínum eigi síðar en 1. desember 2010.
    Á Íslandi er fyrir mikil þekking á björgunarmálum, bæði hjá opinberum aðilum og félagasamtökum. Hér er náttúra og allar aðstæður þannig að óvíða í heiminum er slíkt að finna. Íslenskir björgunarmenn hafa reynslu af björgun úr sjávarháska, eru vanir að takast á við foráttuveður á landi, snjóflóð, jarðskjálfta, björgun af jökli, umfangsmiklar leitir á erfiðum landsvæðum o.s.frv. Af þeim sökum virðast hér vera kjöraðstæður fyrir ríki með veikar stoðir á þessu sviði að læra af reynslu Íslendinga og öðlast þar með meiri færni við björgunarstörf.
    Þá hafa björgunarsveitir tekið þátt í verkefnum erlendis og farið í útköll til hamfarasvæða erlendis þar sem sérþekking þeirra hefur verið nýtt, m.a. við rústabjörgun eftir jarðskjálfta og flóð. Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur frá árinu 1999 tekið þátt í samræmingarstarfi Sameinuðu þjóðanna og rekið alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem var stofnuð með samkomulagi milli Landsbjargar, utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Hægt yrði að byggja á þeirri dýrmætu og viðamiklu þekkingu sem til er og á grundvelli þeirra sambanda sem nú þegar hefur verið stofnað til.
    Hér á landi hafa nokkrar námsstofnanir innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna verið starfræktar sem bjóða nemendum frá þróunarríkjum upp á nám á sviðum sem Íslendingar hafi náð miklum árangri í á undangengnum áratugum.
    Háskóli Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1975 og hefur höfuðstöðvar sínar í Tókíó, enda þótt háskólastarfsemin sé dreifð á fjölda stofnana um heim allan. Markmið hennar er einkum að aðstoða svokölluð þróunarlönd á ólíkum sviðum.
    Hér á landi hefur Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna starfað síðan 1979 innan Orkustofnunar. Á vefsíðu hans segir: „Markmið Jarðhitaskólans er að aðstoða þróunarlönd, þar sem nýtanlegur jarðhiti finnst, við að byggja upp og efla hóp sérfræðinga í jarðhitafræðum, sem geta unnið á hinum ýmsu sérsviðum í rannsóknum á jarðhita og nýtingu hans. Þetta er gert með því að bjóða upp á sérhæfða sex mánaða þjálfun. Þessi þjálfun er opin háskólamenntuðum einstaklingum sem hafa minnst ársreynslu í starfi við jarðhitarannsóknir í heimalandinu.“ Nýlega hefur námið verið útvíkkað með því að bjóða bestu nemendunum upp á framhaldsnám til meistaragráðu í jarðhitavísindum eða jarðhitaverkfræði. Allmargir nemendur eru þó þegar komnir með meistaragráðu og sumir doktorsgráðu áður en þeir koma til náms í Jarðhitaskólanum. Umrædd útvíkkun var gerð í samvinnu við Háskóla Íslands árið 2000. Á árinu 2009 komust 22 nemendur að við Jarðhitaskólann en undanfarin 30 ár hafa 402 lokið sex mánaða þjálfun en 26 lokið meistaragráðu. Nemendur hafa að miklu leyti komið frá Asíu og Afríku en einnig Suður-Ameríku og Mið- og Austur-Evrópu, hlutfall kvenna er til þessa 17%. Íslenska ríkið hefur kostað rekstur skólans að mestu leyti.
    Þegar Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hóf hér göngu sína árið 1998 sóttu hann sex nemendur frá Afríku einni. Ellefu árum síðar voru þar 19 manns við nám, konur og karlar, frá öllum heimshornum. Á vefsíðu skólans segir: „Í náminu er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu, og nemendur vinna náið með íslenskum leiðbeinendum í verkefnavinnu og starfskynningum sem taka rúman helming þeirra sex mánaða sem námið varir. Á hverju ári er boðið upp á sérnám á 3–4 brautum, en sérnámið tekur á bilinu 4–5 mánuði. Skólinn er að mestu leyti fjármagnaður með hluta af framlagi Íslands til þróunarmála og með framlögum frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Að auki hafa nokkrir nemendur stundað nám með styrk frá öðrum aðilum. Skólinn hefur sérstaka stjórn og er samstarfsverkefni fjögurra stofnana undir forystu Hafrannsóknastofnunarinnar en forstjóri hennar er formaður stjórnar.“
    Haustið 2009 hóf göngu sína Jafnréttisskólinn (Gender Equality Training Programme), sem er starfræktur á vegum Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið og í tengslum við Öndvegisklasa í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum. Skólinn er hugsaður sem liður í þróunarsamvinnu Íslands og er meginmarkmið hans að skipuleggja og bjóða upp á nám og þjálfun sem miðast við að auka getu stofnana og einstaklinga sem koma að uppbyggingu og framkvæmd jafnréttisstarfs í þróunarlöndum og á fyrrum átakasvæðum, auk þess að vera vettvangur fyrir yfirfærslu þekkingar og reynslu af jafnréttisstarfi á Íslandi. Jafnréttisskólinn mun í senn bjóða upp á námskeið og þjálfun hérlendis og erlendis. Takist verkefnið vel er ætlunin sú að þremur árum liðnum að sækja um að hann öðlist stöðu námsstofnunar innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna, rétt eins og Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn.
    Við nám í björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna mætti leggja áherslu á verklega og bóklega þætti, hvort heldur væri sem vettvangsvinnu, þátttöku í raunverulegum aðgerðum á vettvangi, fyrirlestrum og verkefnaskilum og áætlanagerð. Þá væri einnig hægt að gera ráð fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu á sviði björgunarmála.
    Fyrir um sex árum birti fyrsti flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu blaðagrein undir nafninu „Björgunarskóli Sameinuðu Þjóðanna“ (sjá fylgiskjal). Þar var reifuð hugmyndin um slíkan skóla sem mætti t.d. reka í Keflavík og nýta þau mannvirki sem eru á Keflavíkurflugvelli eftir brottför Bandaríkjahers. Við undirbúning og skipulagningu slíks skóla væri rétt að sækjast eftir samvinnu við stofnanir eins og Landhelgisgæsluna, almannavarnahluta ríkislögreglustjóra, Veðurstofuna, sjúkrahúsin og háskólastofnanir auk Landsbjargar og sjómannasamtakanna. Síðast en ekki síst væri með stofnun björgunarskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi um að ræða uppbyggilegt framtak til þess að bæta ímynd lands og þjóðar á alþjóðavettvangi, og þarft framlag til alþjóðasamstarfs.



Fylgiskjal.


Ólafur Þór Gunnarsson:

Björgunarskóli Sameinuðu þjóðanna.
(Morgunblaðið, 28. október 2003.)

    Undanfarnar vikur og mánuði hafa Íslendingar verið að átta sig á því hversu varhugavert það getur verið að reiða sig í miklum mæli á erlenda þjóð, hversu vinveitt sem hún kann að vera, í björgunarmálum. Í sumar þurftu þyrlur Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli að hverfa til annarra starfa tímabundið, og á meðan máttum við Íslendingar sætta okkur við „skert“ öryggi hvað þennan þátt björgunarmála varðar. Í sumar komu einnig upp háværar raddir vestan hafs sem vildu afleggja allan flugflota BNA í Keflavík. Miklar líkur eru á að þær raddir séu ekki meira en í dvala um stund, og munu vafalítið koma upp aftur fyrr en síðar.
    En hvernig geta þá stjórnvöld brugðist við þessum vanda? Skoðum það mál nánar. Ísland er um margt sérstætt land, bæði hvað varðar landið sjálft og þjóðina sem byggir það. Hér verða náttúruhamfarir í einhverjum mæli með óþægilega reglubundnum hætti, og því hefur orðið til á löngum tíma víðtæk þekking í landinu í margskonar björgunarmálum. Þetta á við um björgun úr sjávarháska, af hamfarasvæðum, viðbrögð við eldgosum, snjóflóðum, jarðskjálftum, ofsaveðrum og svo mætti lengi telja. Við Íslendingar erum kannski ekki með mestu þekkinguna á mörgum þessara sviða, en reynsla af flestum þáttum björgunarmála er víðtæk. Þetta á bæði við um opinbera aðila og frjáls félagasamtök. Þegar eru til stofnanir innanlands eins og Björgunarskóli Landsbjargar og Slysavarnaskóli sjómanna auk þjálfunarbúða Landsbjargar á Gufuskálum að ótöldum þeim opinberu stofnunum sem að björgunarmálum koma.
    Íslendingar ættu að leggja það til við Sameinuðu þjóðirnar að hér verði settur á stofn Björgunarskóli Sameinuðu þjóðanna. Þegar er komin ágæt reynsla af deildum tengdum háskóla Sþ í jarðhitafræðum og fiskiðnaði, og full ástæða til að ætla að við gætum staðið myndarlega á bak við stofnun af þessu tagi. Með vaxandi rannsóknarstarfsemi á sviði björgunarmála mætti jafnvel hugsa sér beina tengingu við Háskóla Sþ á svipaðan hátt og hinar deildirnar. Náttúrulegar aðstæður allar hér á landi gætu nýst afar vel, og þegar er mikill mannauður til staðar í landinu sem myndi þarna fá tækifæri til að vaxa. Vissulega væri kostnaður þessu samfara, en nú um stundir er einmitt rætt um að Íslendingar þurfi að taka sig á og leggja meira af mörkum til alþjóðasamfélagsins, og því ekki vanþörf á að finna nýjar og jákvæðar leiðir til þess. Ávinningur okkar gæti falist í því að búnaður sem fylgdi slíkum skóla gæti nýst okkur við björgun innanlands þegar á þyrfti að halda.
    Stofnanir eins og Landhelgisgæslan, almannavarnaþáttur Ríkislögreglustjóra, Veðurstofan, sjúkrahúsin og háskólastofnanir auk Landsbjargar og sjómannasamtakanna gætu komið að undirbúningi og skipulagningu slíks skóla. Með stofnun og rekstri Björgunarskóla Sþ gætu Íslendingar stigið spor fram á við sem eftir yrði tekið á alþjóðavettvangi.