Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 881  —  429. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um innleiðingu stefnu um vistvæn innkaup ríkisins.

     1.      Hvernig hefur stefna um vistvæn innkaup ríkisins verið innleidd í innkaupastefnu ríkisins og starfsemi Ríkiskaupa frá því að hún var samþykkt í mars 2009? Óskað er eftir dæmum um innleiðingu.
    Í samræmi við stefnuna var skipaður stýrihópur og vinnuhópur sem hafa það hlutverk að vinna að sameiginlegum verkefnum og ráðgjöf sem styðja vistvæn opinber innkaup. Starfsmenn frá Ríkiskaupum eiga sæti í báðum hópum. Stýri- og vinnuhópur vinna nú að aðgerðaáætlun þar sem verkþættir eru tímasettir og forgangsraðað eftir mikilvægi.
    Þær aðgerðir sem Ríkiskaup sinna með þátttöku í hópavinnunni eru m.a. að nota þau umhverfisskilyrði eða umhverfisviðmið sem til eru í útboðum á rammasamningum. Umhverfisviðmið sem notuð hafa verið hjá ríki og sveitarfélögum í innkaupum á vörum og þjónustu eru vegna innkaupa á efnavörum, húsgögnum og dekkjum. Unnið hefur verið að íslenskri þýðingu á átta samnorrænum skilyrðum til viðbótar og verða þau umhverfisskilyrði notuð í nýjum rammasamningsútboðum. Í skoðun er að þýða enn fleiri skilyrði sem samþykkt hafa verið hjá löndum ESB.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sem dæmi um innleiðingu má nefna að undirritaður var rammasamningur Ríkiskaupa um ljósritunarpappír 1. mars 2010 við fjóra söluaðila. Við mat og samanburð tilboða í því útboði var valinn pappír af stærðinni A-4 og 80 g að þyngd, sem er algengasta stærðin í notkun. Ýmsar gæða- og umhverfiskröfur voru settar fram og allir söluaðilar sem samið var við bjóða nú pappír sem uppfyllir þessi skilyrði.
    Opinberir aðilar sem hafa heimild til að nýta sér fyrr greindan rammasamning eru um 950 kennitölur og því fleiri sem kaupa samkvæmt þessum rammasamningi því meiri verða áhrifin af setningu umhverfisskilyrða við kaup á ljósritunarpappír.
    Ríkiskaup eru að leggja lokahönd á nýja vefsíðu þar sem ný leitarvél mun gera kaupendum auðvelt að finna vörur í rammasamningum og þá rammasamningsflokka þar sem vistvænar áherslur eru.
    Ríkiskaup senda reglulega út fréttabréf til rúmlega 2000 aðila (kaupenda og seljenda) með efni um opinber innkaup þar með talið fréttir af vistvænum málefnum. Ríkiskaup eiga mikinn þátt í uppbyggingu vefsins um vistvæn innkaup (VINN), en vísað er á vefinn www.vinn.is á heimasíðu Ríkiskaupa: www.rikiskaup.is.
    Vinn-vefurinn inniheldur mikið fræðslu- og leiðbeiningarefni fyrir bæði kaupendur seljendur og útboðsaðila, t.d. er lýst hvernig stofnanir geta gert greiningu á eigin innkaupum og leiðbeiningar um hvernig stofnanir og fyrirtæki geta lagt grunn að árangursríkum vistvænum innkaupum. Á vefnum má einnig finna framvinduramma um þá þætti sem stjórnendur stofnana og fyrirtækja þurfa að huga að til að ná að samþætta vistvæna hugsun öllum innkaupum.
    Að lokum má nefna að Ríkiskaup héldu ráðstefnu og vinnustofu dagana 4.–5. mars 2010. Á ráðstefnunni kynntu fjármálaráðherra og umhverfisráðherra vistvæna innkaupastefnu ríkisins og tilgang hennar. Einnig sagði Rikke Dreyer, sem unnið hefur hjá SKI, systurstofnun Ríkiskaupa í Danmörku sl. 10 ár, frá því hvernig hefur verið staðið að innleiðingu vistvænna innkaupa hjá opinberum aðilum í Danmörku.

     2.      Hvernig hefur stefna um vistvæn innkaup ríkisins verið innleidd hjá Framkvæmdasýslu ríkisins frá því að hún var samþykkt í mars 2009? Óskað er eftir dæmum um innleiðingu.
    Framkvæmdasýsla ríkisins leggur metnað sinn í að framfylgja eins og kostur er þeirri stefnu sem fram kemur í ritinu: Menningarstefna í mannvirkjagerð – Stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist, sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu í apríl 2007. Eitt af áhersluatriðum þessarar stefnu er vistvæn þróun í mannvirkjagerð. Stefna stjórnvalda um vistvæn innkaup, sem samþykkt var í mars 2009, leggur síðan aukna áherslu á þetta atriði. Sjá má menningarstefnu í mannvirkjagerð á vefslóðinni: www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx? itemid=4647.
    Til að fá fram mismunandi sjónarhorn á mögulegar útfærslur á vistvænni þróun í mannvirkjageiranum bauð Framkvæmdasýslan, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið, til umræðufundar í apríl 2009 um hvaða möguleikar væru fyrir hendi til þess að aðlaga BREEAM-vottunarstaðalinn að íslenskum aðstæðum. Á fundinum voru aðilar frá British Research Institute, íslenskir hönnuðir, fulltrúar stjórnvalda, háskólasamfélagsins og Þróunarvettvangs á sviði mannvirkjagerðar. Mikil og fróðleg umræða fór fram á fundinum um stefnur og strauma í vottunarmálum fyrir vistvænar byggingar.
    Í maí 2009 boðaði Framkvæmdasýslan til opins fundar til að ræða samtök um vistvænar byggingar (Green Building Council), reynslu Hollendinga og möguleika á að koma slíku samstarfi á fót á Íslandi. Á fundinn mætti fulltrúi frá Dutch Green Building Council og sagði hún annars vegar frá stofnun þeirra samtaka í Hollandi og hins vegar lýsti hún því hvernig Hollendingar aðlöguðu BREEAM-vottunarkerfið að aðstæðum í Hollandi.
    Framkvæmdasýsla ríkisins, FSR, tók virkan þátt í stofnun samtakanna Vistvæn byggð, vettvangs um sjálfbæra þróun í mannvirkjagerð. Undirbúningshópur hefur hist reglulega frá sumrinu 2009 til að móta ramma og framtíðarsýn fyrir samtökin, en þau voru stofnuð í febrúar 2010 og er Framkvæmdasýslan einn af stofnaðilum.
    Í október 2009 gaf Framkvæmdasýslan út kynningarritið Vistvænar byggingar. Markmiðið með útgáfu ritsins var að gera aðgengilegt almennt kynningarefni um vistvænar áherslur í byggingariðnaði. Ritinu hefur m.a. verið dreift til sveitarfélaga, skóla og þingmanna, en það er einnig aðgengilegt á vef FSR, www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5201.
    Faghópur FSR um vistvæna þróun vann umhverfisstefnu fyrir innri starfsemi FSR sem tók gildi í nóvember 2009. Hópurinn er núna að útbúa leiðbeiningar, meðal annars varðandi innkaup, til að gera umhverfisvinnunna framkvæmanlega og mælanlega. Önnur verkefni er lúta að vistvænum verkefnum eru eftirfarandi:
          Í nóvember 2009 rýndi faghópur Framkvæmdasýslunnar um vistvæna þróun drög umhverfisráðuneytisins að stefnunni Velferð til framtíðar. Megináherslur 2010–2013 út frá sjónarmiði mannvirkjageirans. Athugasemdir voru sendar til umhverfisráðuneytisins.
          Í nóvember 2009 var bætt við flipa með upplýsingum um vistvæna þróun á vefsíðu FSR. Þar er fjallað um umhverfisvinnu Framkvæmdasýslunnar, en einnig er þar að finna viðeigandi tengla, kynningar og rit.
          Í janúar 2010 var faghópur FSR um vistvæna þróun með kynningu um vistvænar byggingar fyrir hóp Stjórnvísis um umhverfis- og öryggisstjórnun.
          Í febrúar 2010 var komið á fót samstarfi á milli Framkvæmdasýslunnar og Statsbygg (systurstofnun FSR í Noregi), varðandi innleiðingu útreikninga á vistferilskostnaði (Life Cycle Cost, LCC). Í marsmánuði 2010 hófst síðan samstarf á þessu sviði við Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar.
          Í febrúar 2010 átti Framkvæmdasýslan frumkvæði að þátttöku í samnorrænu verkefni um vistvæn opinber innkaup og staðla í byggingargeiranum hjá Nordic Innovation Center (NICe). Verkefnið stendur til júní 2010 og í febrúar var sendur fulltrúa fyrir Íslands hönd á vinnufund í Kaupmannahöfn.
          Í febrúar 2010 var komið á fót samstarfi á milli FSR og hóps á vegum Arkitektafélags Íslands sem hefur sótt um styrk til búa til íslenskt kennsluefni um sjálfbærni í byggingarlist.
          Í mars 2010 er framvinduskýrsla um umhverfisvinnu og umhverfisvottunarferli í Húsi íslenskra fræða í vinnslu hjá Framkvæmdasýslunni.
          Starfsmenn Framkvæmdasýslunnar hafa skrifað grein um vistvænar byggingar fyrir næsta tölublað tímarits arkitekta, en þemað í því blaði verður sjálfbær arkitektúr.
    Frá því í febrúar hefur Framkvæmdasýslan verið í sambandi við Umhverfisstofnun með það að markmiði að verða leiðsöguverkefni fyrir Svansklúbbinn. Annars staðar á Norðurlöndum hefur umhverfismerkið Svanurinn lengi starfrækt félag fyrir fyrirtæki sem hafa samþykkt umhverfisstefnu og leggja áherslu á umhverfismerktar vörur við innkaup. Á hverju ári þurfa félagar meðal annars að skila yfirliti yfir kaup á umhverfismerktum vörum. Á Íslandi verður Svansklúbburinn væntanlega stofnaður í maí 2010 á 20 ára afmælisráðstefnu Svansins.
    Sem dæmi um verkefni á vegum Framkvæmdasýslunnar eru í mars 2010 tvær byggingar í sérstöku hönnunarferli vistvænna bygginga, þ.e. Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi og Hús íslenskra fræða í Reykjavík. Hús íslenskra fræða fylgir jafnframt aðferðafræði BIM. Auk þess er ein bygging komin á framkvæmdastig eftir að hafa farið í gegnum slíkt ferli en það er Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri sem verður fyrsta umhverfisvottaða byggingin á Íslandi. Allar þessar byggingar munu fá vottun samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM.

     3.      Hvernig hefur stefna um vistvæn innkaup ríkisins verið innleidd hjá Fasteignum ríkissjóðs frá því að hún var samþykkt í mars 2009? Óskað er eftir dæmum um innleiðingu.
    Verkefni Fasteigna ríkissjóðs eru viðhald, breytingar og endurbætur á húsnæði ríkisins sem stofnunin hefur umsjón með. Nýbyggingar liggja hins vegar ekki á hennar verksviði. Notendur sjá sjálfir um allan almennan rekstur, svo sem ræstingu og orkukaup. Þessu fylgir að aðkoma stofnunarinnar að vistvænum innkaupum er nokkuð önnur en ef hún sæi um allan daglegan rekstur og stýrði verkferlinu allt frá hönnun til úreldingar húsnæðis.
    Fasteignir ríkissjóðs eru aðili að og fjárhagslegur bakhjarl að verkefninu BIM-Ísland (Building Information Model) ásamt átta öðrum stofnunum hjá ríki og borg. BIM er aðferðafræði sem hefur rutt sér til rúms víða um heim og á að stuðla að betri hönnun með skilvirkara upplýsingastreymi og nánara samstarfi allra hagsmunaaðila, allt frá frumstigi hönnunar. Tilgangurinn er að lækka líftímakostnað bygginga með því að sjá fyrir, ekki bara byggingarkostnað, heldur einnig rekstrarkostnað út líftíma byggingarinnar miðað við mismunandi forsendur í hönnun og efnisvali. Þar má t.d. bera kostnað við val á vistvænum byggingarefnum saman við aðra kosti og reikna orkukostnað áratugi fram í tímann. Lægri líftímakostnaður er til marks um minni stofnkostnað, lægri rekstrarkostnað og þar með minni sóun verðmæta. Árangur sem næst á þessu sviði minnkar álagið á vistkerfið.
    Fasteignir ríkissjóðs eru einnig einn af stofnaðilum sjálfseignarstofnunar um vistvæna mannvirkjagerð á Íslandi sem var stofnuð í febrúar sl. Tilgangur félagsins er að vera mótandi afl um sjálfbæra þróun manngerðs umhverfis á Íslandi. Liður í því er til að mynda umhverfisvottun bygginga samkvæmt breska staðlinum BREEAM eða þeim bandaríska LEED.
    Umræðan um umhverfisvernd hefur staðið lengi og leitt til margvíslegra laga- eða reglusetninga í helstu viðskiptalöndum Íslands. Framboð á byggingarefnum hér á landi tekur t.d. mið af tilskipunum ESB um hvaða efni sé heimilt að nota við framleiðslu byggingarefna. Sem dæmi um slíka þróun í átt að vistvænni byggingarefnum er acrýlmálning í stað olíumálningar, flúrperur í stað glópera og glýcol í stað freóns. Fasteignir ríkissjóðs telja sér skylt að fylgja þessari þróun svo sem kostur er. Slíkt getur þó verið annmörkum háð í eldra húsnæði þar sem togast á verndunarsjónarmið og virðing fyrir gömlu handbragði og umhverfis- eða hagræn sjónarmið.
    Fasteignir ríkissjóðs hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum til að draga úr orkukostnaði hjá stofnunum. Þótt víðast sé um svokallaða græna orku að ræða draga slíkar aðgerðir úr sóun fjármuna. Nýleg dæmi um slíkt eru nýjar útveggjaeiningar með aukinni einangrun í rannsóknahúsi RALA á Keldnaholti. Verkinu er ekki lokið en ársnotkun á heitu vatni hefur þegar verið reiknuð niður sem nemur 1,2 millj. kr. á ári. Í Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er verið að endurnýja allt lagnakerfi, ásamt stýringum. Reiknaður sparnaður í orkukostnaði er um 1,7 millj. kr. á ári.
    Þá hafa Fasteignir ríkissjóðs keypt ráðgjöf af Verkfræðistofunni Vista og fleirum varðandi samtímamælingar á orkunotkun og betri orkunýtingu. Sú vinna hefur skilað verulegum sparnaði og þær stofnanir sem hafa notið átaksins eru MK, MÍ og Borgarholtsskóli. Niðurstöður um árangur liggja fyrir í greinargóðum skýrslum.