Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 989  —  376. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um fjölgun hjúkrunarrýma í Norðvesturkjördæmi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða áform eru um fjölgun hjúkrunarrýma í Norðvesturkjördæmi?

    Í Norðvesturkjördæmi eru hjúkrunarrými á eftirtöldum stöðum:

Heilbrigðisstofnunin á Akranesi 26
Höfði, Akranesi 48
Dvalarheimilið Borgarnesi 32
Jaðar, Ólafsvík 10
Fellaskjól, Grundarfirði 9
Dvalarheimilið Stykkishólmi 9
St. Fransiskuspítali, Stykkishólmi 9
Silfurtún, Búðardal 8
Fellsendi, Búðardal 26
Barmahlíð, Reykhólum 14
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 16
Heilbrigðisstofnunin Ísafirði 31
Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík 13
Heilbrigðisstofnunin Hólmavík 12
Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga 24
Heilbrigðisstofnunin Blönduósi 27
Sæborg, Skagaströnd 5
Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki 41

    Heildarfjöldi hjúkrunarrýma á öllu landinu er 2.518 rými og af þeim eru 360 rými í Norðvesturkjördæmi, þ.m.t. Fellsendi sem hefur 26 hjúkrunarrými en þau rými eru mjög sérhæfð og ætluð geðsjúkum einstaklingum. Sé sú tala dregin frá standa eftir 334 hjúkrunarrými.
    Á árinu 2008 þegar undirbúin var framkvæmdaáætlun um fjölgun hjúkrunarrýma og fækkun fjölbýla var gerð þarfagreining fyrir landið í heild og var gengið út frá fjölda aldraðra í hverju sveitarfélagi og aldursskiptingu þeirra. Miðað við þá þarfagreiningu ætti heildarfjöldi hjúkrunarrýma í Norðvesturkjördæmi að vera 282 hjúkrunarrými fyrir aldraða og um 5–7% til viðbótar ef yngri hjúkrunarsjúklingar eru taldir með eða um 300 rými.
    Í fjárlögum 2009 og 2010 er ekki gert ráð fyrir nýjum rekstrarheimildum fyrir hjúkrunarrými. Ekki verður heldur séð að svo verði í fjárlögum fyrir árið 2011 og því ekki um neina raunfjölgun hjúkrunarrýma að ræða á næstunni. Hins vegar vinnur félags- og tryggingamálaráðuneytið nú að því að flytja rekstrarheimildir milli svæða og stofnana miðað við það hvar þörfin er mest á landinu.
    Þótt hjúkrunarrýmum á landinu muni hvorki fjölga á þessu ári né trúlega því næsta er samt unnið að því að bæta aðstöðu á hjúkrunarheimilum. Má meðal annars nefna að nú er hönnun á nýju hjúkrunarheimili í Borgarnesi á lokastigi. Þegar það heimili verður risið mun aðstaða hjúkrunarsjúklinga á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi verða allt önnur en nú er.